Tilkynningar

Ávarp Sturlu Böðvarssonar, forseta Alþingis, í tilefni aldarafmælis lagasetningar um skógrækt og landgræðslu

25.11.2007

Forseti Íslands og aðrir góðir hátíðargestir
Við minnumst þess í dag að eitt hundrað ár eru síðan sett voru lög á Alþingi um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands. Lögin um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands lögðu grunn að því mikla starfi sem Skógrækt ríkisins og Landgræðsla ríkisins - sem áður hét Sandgræðsla ríkisins - hafa innt af hendi. Það er óhætt að segja að þessar tvær stofnanir hafi lyft Grettistaki í því að breyta ásýnd landsins. Þar sem áður voru eyðisandar og sandfok sem ógnaði byggð eru nú iðagrænir vellir, þar sem áður blésu naprir vindar á berangri geta börn leikið sér í skjólgóðum skógarlundum.
En hvað varð til þess að Alþingi samþykkti þessi lög og hvaða væntingar hafði Alþingi til skógræktar og landgræðslu á þeim tíma? Við framlagningu frumvarps til laga um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands, í júlí 1907, sagði Íslandsráðherrann Hannes Hafstein frumvarpið vera: „nokkurskonar mælikvarða fyrir trúnni á framtíð þessa lands“ og sagði markmið þess m.a. vera: „að gjöra landið betra, vistlegra og fegurra fyrir börn vor og þeirra börn“.
Lögin gengu þó ekki þrautalaust í gegn á Alþingi og frumvarp það sem Íslandsráðherrann lagði fram tók allnokkrum breytingum áður en það varð að lögum. Einkum var andstaða við ráðningarkjör þess sem veita skyldi þessum málaflokkum forstöðu, þ.e. að viðkomandi yrði embættismaður skipaður af konungi: „með launum, allháum eptir hjerlendum mælikvarða“, eins og sagt var í umræðum um frumvarpið. Einnig óttuðust andmælendur að undirliggjandi væri í frumvarpinu að danskir hefðu áfram: „í raun og veru yfirstjórn þessara mála framvegis eins og hingað til“.
Umfjöllun í blöðum frá þessum tíma varpar nokkru ljósi á þær deilur sem urðu um málið, en „stjórnmálablaðamennska“ heimastjórnartímans endurspeglaði vel pólitíska stöðu ritstjóranna. Í umfjöllun Fjallkonunnar var sérstaklega nefnt hve heitar umræður urðu á Alþingi um málið og sagði í blaðinu að slíkt væri: „all-sjaldgæft á þessu þingi þar sem kalla má, að alt fari fram með sátt og samlyndi, friði og spekt“. Öðruvísi mér áður brá, en það þætti fréttnæmt í dag er ég hræddur um, ef ávallt færi allt fram „með sátt og samlyndi, friði og spekt“ í sölum Alþingis.
Að lokum náðist samkomulag um að ráðningarkjör þess sem veita skyldi málaflokknum forræði yrðu rýrari en frumvarp gerði ráð fyrir. Þannig var ekki gert ráð fyrir konungsskipuðum embættismanni í starfið, sem hefði falið í sér ríkari eftirlaunarétt, og jafnframt var ákveðið að árslaun yrðu lækkuð úr 5.000 krónum í 3.000. Á móti voru kröfur til menntunar rýmkaðar til samræmis við lækkun launa. Til samanburðar voru árslaun verkfræðings landsins einnig 3.000 krónur, en forstjóri Landsímans hafði 7.000 króna árslaun.
Einnig var í meðförum þings ákveðið að taka út allan þann kafla lagafrumvarps, sem hafði kveðið á um varnir gegn sandfoki í Árness- og Rangárvallasýslum, þar með hugmyndum um embætti sandfoksvarða. Að lokum varð ágæt sátt og gekk frumvarpið greiðlega gegnum þriðju umræðu neðri deildar, án mótatkvæða, og fékk svo gott brautargengi í efri deild Alþingis. Lög um skógrækt og varnir gegn uppblæstri lands nr. 54/1907 voru samþykkt þann 22. nóvember 1907 og tóku gildi 1. janúar 1908.
Ágætu hátíðargestir. Við fögnum í dag aldarafmæli lagasetningar um skógrækt og landgræðslu, lagasetningar sem var grunnur þess mikla starfs sem Landgræðsla Íslands og Skógrækt ríkisins hafa innt af hendi. Óhætt er að segja að þau markmið sem Íslandsráðherrann, Hannes Hafstein, lagði upp með hafi gengið eftir, þ.e.: „að gjöra landið betra, vistlegra og fegurra fyrir börn vor og þeirra börn“. 
Hannes Hafsteinn komst svo að orði í Aldamótakvæði sínu:
Sú kemur tíð, er sárin foldar gróa,sveitirnar fyllast, akrar hylja móa,brauð veitir sonum móðurmoldin frjóa,menningin vex í lundi nýrra skóga.
Sannlega hafa „sárin foldar gróið“ í græðandi höndum Landgræðslunnar og „lundir nýrra skóga“ Skógræktar Ríkisins orðið skáldum innblástur og Íslendingum öllum til unaðsauka. Það má með sanni segja að hin 100 ára gamla löggjöf hafi skilað landi og lýð miklum afrakstri. Ég vil að lokum óska Skógrækt ríkisins og Landgræðslu ríkisins til hamingju með þennan merka áfanga, sem og Íslendingum öllum. Alþingi setti vissulega mark sitt á landið með þeirri löggjöf sem við nú fögnum.