Tilkynningar

Formenn utanríkismálanefnda þinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja funda ásamt formanni utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings

31.8.2004

Formenn utanríkismálanefnda þinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja funda ásamt formanni utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í Reykjavík. 2. september 2004.

 

Formenn utanríkismálanefnda þinga Norðurlanda og Eystrasaltsríkja halda fund ásamt formanni utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings í Reykjavík fimmtudaginn 2. september 2004. Sólveig Pétursdóttur, formaður utanríkismálanefndar Alþingis boðar til fundarins. Fundir sem þessir eru haldnir reglulega.

Megin umræðuefni fundarins verða stækkun Evrópusambandsins og NATO, öryggis- og varnarmálastefna þjóðanna og ástandið í Mið-Austurlöndum. Þá verður rætt um stefnu Evrópusambandsins gagnvart nýjum nágrannaríkjum ESB, samskipti við Rússland og öryggismál tengd stækkuninni. Enn fremur verður sérstaklega rætt um ógnina sem stafar af gereyðingarvopnum.

Sólveig Pétursdóttir, formaður utanríkismálanefndar Alþingis stýrir fundi en fundinn sækja Richard Lugar, formaður utanríkismálanefndar öldungadeildar Bandaríkjaþings, Jens Hald Madsen formaður utanríkismálanefndar danska þingsins, Urban Ahlin, formaður utanríkismálanefndar sænska þingsins, Liisa Jaakonsaari formaður utanríkismálanefndar finnska þingsins, Thorbjörn Jagland formaður utanríkismálanefndar norska þingsins, Marko Mihkelson formaður utanríkismálanefndar eistneska þingsins, Arminas Lydeka nefndarmaður utanríkismálafndar litáíska þingsins og aðstoðarmenn þeirra.

Formenn utanríkismálanefndanna halda sameiginlegan blaðamannafund að fundinum loknum kl. 14.30 í húsi þingnefnda Alþingis við Austurvöll.

Nánari upplýsingar um fundinn fást hjá ritara utanríkismálanefndar Alþingis í síma 563 0426 og almannatengsladeild í síma 894 6519.