Tilkynningar

Íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn - umsóknarfrestur til 25. apríl

19.4.2005

Íbúð fræðimanns í Kaupmannahöfn samkvæmt reglum um hús Jóns Sigurðssonar er laus til afnota tímabilið 1. september 2005 til 31. ágúst 2006. Fræðimenn, sem hyggjast stunda rannsóknir eða vinna að verkefnum í Kaupmannahöfn, geta sótt um afnot af íbúðinni. Hún er í Skt. Paulsgade 70 (skammt frá Jónshúsi) en auk þess hefur fræðimaður vinnuherbergi í Jónshúsi. Íbúðin er þriggja herbergja (um 80 ferm.) og fylgir henni allur nauðsynlegasti heimilisbúnaður. Afnotin eru endurgjaldslaus. Dvalartími í íbúðinni er að jafnaði þrír mánuðir en til greina kemur skemmri tími eða lengri eftir umfangi verkefnis og öðrum atvikum.

Umsóknir um íbúðina skulu hafa borist skrifstofu Alþingis eigi síðar en mánudaginn 25. apríl n.k.
Umsækjendur skulu gera grein fyrir tilgangi ráðgerðrar dvalar sinnar í Kaupmannahöfn, svo og menntun og fyrri störfum. Þá skal taka fram hvenær á framangreindu tímabili og hve lengi óskað er eftir afnotum af íbúðinni, svo og stærð fjölskyldu umsækjanda ef gert er ráð fyrir að hún fylgi honum. Úthlutunarnefnd ætlast til að dvalargestir nýti úthlutaðan tíma sinn að fullu við störf í Kaupmannahöfn.

Eftirfarandi atriði hafa skipt mestu máli við úthlutun íbúðarinnar:
1. Að umsókn sé vandlega unnin.
2. Að verkefnið verði ekki unnið annars staðar en í Kaupmannahöfn eða nágrenni.
3. Að sem eðlilegust skipting sé milli kynja og fræðigreina.
4. Að verkefnið hafi fræðilegt eða hagnýtt gildi og þyki áhugavert.

Þeir sem vilja kynna sér tiltekin málefni í Danmörku, án frekari fræðistarfa, eiga að jafnaði litla möguleika á úthlutun, svo og þeir sem eru í námi, þar á meðal doktorsnámi. Tekið er tillit til fjárhags umsækjenda og sitja þeir fyrir sem njóta ekki launa eða styrks meðan á dvöl þeirra stendur.

Úthlutunarnefnd ráðgerir að ljúka störfum upp úr miðjum maímánuði.
Sérstök eyðublöð fást á skrifstofu Alþingis í Alþingishúsinu í Reykjavík og í sendiráði Íslands í Kaupmannahöfn. Sömuleiðis er að finna eyðublað á heimasíðu Jónshúss: http://www.jonshus.dk/fraedimannsibud/umsokn.PDF