Tilkynningar

Sýning á myndskreytingum úr ritsafni Snorra Sturlusonar

4.10.2002

Sýning á myndskreytingum úr nýútgefnu ritsafni Snorra Sturlusonar stendur til 18. október í Skála við Alþingishúsið. Sýningin er opin frá klukkan tíu árdegis til tólf á hádegi og frá klukkan eitt til fjögur síðdegis mánudaga til föstudaga.

Verkin eru eftir fimm íslenska myndlistarmenn. Þeir eru Jóhann L. Torfason, Jón Axel Björnsson, Magdalena Margrét Kjartansdóttir, Pétur Halldórsson og Valgarður Gunnarsson.

Ritsafn Snorra Sturlusonar kom út fimmtudaginn 3. október og var fyrsta eintakið afhent Alþingi til eignar en þetta er í fyrsta sinn sem ritsafn Snorra er gefið út í heild á íslensku. Verkið er í þremur bindum og veglega myndskreytt. Alþingi hefur veitt myndarlegan styrk til útgáfunnar.

Snorri Sturluson er höfuðskáld Íslendinga að fornu og nýju. Verk hans eru kjölfestan í þjóðarvitund norrænna manna og enginn hefur með sama hætti mótað sjálfsmynd íslensku þjóðarinnar. Í ítarlegum inngangi segir Vésteinn Ólason prófessor m.a. að Snorri hafi reist "sjálfum sér og þeirri menningu sem ól hann óbrotgjarnan minnisvarða með ritverkum sínum.