Tilkynningar

Skýrsla rannsóknarnefndar um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna afhent 10. apríl

9.4.2014

Afhending skýrslunnar
Rannsóknarnefnd Alþingis um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna, sem var skipuð í ágúst 2011 á grundvelli þingsályktunar frá 10. júní 2011, afhendir forseta Alþingis skýrslu sína fimmtudaginn 10. apríl kl. 13 í efrideildarsalnum í Alþingishúsinu. Fulltrúum fjölmiðla er boðið að vera viðstaddir.

Opnað verður fyrir aðgang að skýrslunni á vef Alþingis (althingi.is) 10. apríl kl. 14. Vefútgáfan er aðalútgáfa skýrslunnar.

Formaður nefndar um rannsókn á aðdraganda og orsökum erfiðleika og falls sparisjóðanna er Hrannar Hafberg lögfræðingur, sem tók við formennsku 26. september 2012 af Sigríði Ingvarsdóttur héraðsdómara. Með honum í nefndinni eru Tinna Finnbogadóttir fjármálahagfræðingur og Bjarni Frímann Karlsson, lektor við viðskiptafræðideild Háskóla Íslands.

Fréttamannafundur rannsóknarnefndar Alþingis
Rannsóknarnefnd Alþingis heldur fréttamannafund fimmtudaginn 10. apríl kl. 14 í Iðnó við Vonarstræti. Kynntar verða niðurstöður nefndarinnar um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna í samræmi við þingsályktun Alþingis frá 10. júní 2011. Farið verður yfir helstu niðurstöður rannsóknarinnar, þar á meðal starfs- og lagaumhverfi sparisjóðanna, útlán, fjárfestingar, stofnfjáraukningar, arðgreiðslur og fjárhagslega endurskipulagningu þeirra.

Almenn umræða á Alþingi um skýrsluna hefst á þingfundi föstudaginn 11. apríl.