Tilkynningar

Viðbragðsáætlun og breytingar á siðareglum boðaðar á rakarastofuráðstefnu

9.2.2018

 „Rakarastofuráðstefna“ var haldin á Alþingi í dag og öllum þingmönnum og ráðherrum boðið til þátttöku. Aðdraganda viðburðarins má rekja til áskorunar karlþingmanna til forsætisnefndar Alþingis með hvatningu um að haldin væri ráðstefna sem gæfi körlum og konum á þingi tækifæri til að eiga opinskáar samræður í ljósi umræðna um kynferðisofbeldi og áreitni innan stjórnmálanna. http://www.althingi.is/tilkynningar/vidbragdsaaetlun-og-breytingar-a-sidareglum-bodadar-a-rakarastofuradstefnu

 

Í lok ráðstefnunnar flutti Ásdís Ólafsdóttir stjórnmálafræðingur samantekt fundar og í kjölfarið fluttu fulltrúar þingflokka yfirlýsingar um áætlaðar aðgerðir til að fylgja eftir niðurstöðum fundarins til að vinna gegn kynbundnu misrétti, áreitni og ofbeldi sem konur sæta innan stjórnmála. Að síðustu ávarpaði forseti Alþingis, Steingrímur J. Sigfússon, fundinn og lýsti yfir vilja þingsins til að vinna áfram að aðgerðum til úrbóta á þessu sviði og greindi frá því að starfshópur hafi skilað forsætisnefnd skýrslu með tillögum að breytingum á siðareglum Alþingis svo þar komi fram að óviðeigandi hegðun og framferði verði ekki liðið. Jafnframt að til standi að útbúa viðbragðsáætlun til að Alþingi geti tekið á málum sem komið geta upp. 

Ræðumenn á rakarastofuráðstefna Alþingis 9. febrúar

Ráðstefnan var liður í viðbrögðum þingmanna og þingsins við vakningu um kynbundið misrétti, áreitni og ofbeldi sem konur sæta innan stjórnmála, jafnt sem annars staðar, og gengið hefur undir nöfnunum #ískuggavaldsins og #MeToo. Rakarastofuráðstefnan var haldin í góðu samstarfi við UN Women á Íslandi og utanríkisráðuneytið.

Rakarastofuráðstefna Alþingis er sú fyrsta sem haldin er í þjóðþingi, svo vitað sé, en fyrirhugað er að halda rakarastofuráðstefnu í Evrópuráðsþinginu með vorinu. 

Nánari upplýsingar um dagskrá rakarastofuráðstefnu Alþingis .

Fyrirlesarar og fundarstjórn á rakarastofuráðstefnu Alþingis.