Reglur um greiðslu framlaga á fjárlögum til þingflokka

1. gr.

Skrifstofa Alþingis annast greiðslur til starfsemi þingflokka á Alþingi samkvæmt framlögum á fjárlögum hverju sinni.

Greiðslum til starfsemi þingflokka er ætlað að standa undir kostnaði við rekstur þingflokks, svo sem kostnaði við undirbúning þingmála, aðra sérfræðiaðstoð, fundahald og ferðakostnað.

Framlögin skiptast í jafna fjárhæð á einingar skv. 2. gr. þessara reglna.

Í þingflokki skulu vera a.m.k. tveir þingmenn, sbr. 2. mgr. 85. gr. þingskapa. 

2. gr.

Greiða skal hverjum þingflokki eina einingu og að auki eina einingu fyrir hvern þingmann hans.

Þingmaður, sem er utan flokka, fær greidda eina einingu.

Til viðbótar skal úthluta tólf einingum til þingflokka þeirra stjórnmálasamtaka sem eiga ekki aðild að ríkisstjórn. Skiptast þær einingar hlutfallslega milli þeirra eftir þingstyrk.

3. gr.

Greiðslur skulu inntar af hendi mánaðarlega, þ.e. 5. hvers mánaðar og skulu miðaðar við skipan þingflokka í næsta mánuði á undan.

Greiðslur skulu lagðar inn á bankareikning á nafni og kennitölu viðkomandi þingflokks. Greiðslur til þingmanns utan þingflokka skulu lagðar inn á sérstakan reikning á forræði hans.

Með fyrstu greiðslu hvers árs skal senda yfirlit fyrir árið um skiptingu greiðslna.

4. gr.

Reglur þessar eru settar með stoð í 4. gr. laga um starfsemi stjórnmálasamtaka, nr. 162/2006, og gilda frá og með 1. janúar 2007.

(Samþykkt á fundi forsætisnefndar 5. febrúar 2007, breytt 14. september 2020 og breytt 27. mars 2023. Ákvæði 2. mgr. 3. gr. kemur til framkvæmda 1. júní 2023 samkvæmt ákvörðun forsætisnefndar 27. mars 2023.)