Ferill 411. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 411 . mál.


Ed.

771. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 74 28. apríl 1962, um innflutning búfjár.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



1. gr.

    Við 19. gr. laganna bætist ný málsgrein, er verði 7. mgr., svohljóðandi:
    Landbúnaðarráðherra getur, að fengnu samþykki yfirdýralæknis, heimilað að flytja fósturvísa (frjóvguð egg eða fóstur á frumstigi) úr kúm í Sóttvarnastöð ríkisins í Hrísey í kýr í landi.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.


Greinargerð.


    Frumvarp þetta gerir ráð fyrir að bætt verði í lög nr. 74/1962, um innflutning búfjár, heimild fyrir landbúnaðarráðherra til að leyfa flutning fósturvísa úr kúm í Sóttvarnastöð ríkisins í Hrísey í kýr í landi. Í núgildandi lögum, 19. gr., er kveðið á um bann við flutningi búfjár frá Sóttvarnastöð ríkisins og heimildir til flutnings á sæði frá henni. Síðan þau lög voru sett hefur komið fram ný tækni við flutning erfðaefnis milli dýra, þ.e. flutningur á fósturvísum sem eru frjóvguð egg eða fóstur á frumstigi. Flutningur á fósturvísum frá Hrísey til lands býður upp á mun hraðari framræktun Galloway-nautgripakynsins en ef notaðar eru sæðingar. Það er því mikilvægt, með tilliti til framræktunar kynsins og einnig þess að stytta þann tíma sem Sóttvarnastöðin verður bundin við ræktun þessa eina búfjárkyns, að fá ótvíræða heimild til að nýta þennan möguleika. Sjúkdómshættu af völdum þessarar breytingar má telja hverfandi.
    Í framhaldi af ályktun Alþingis frá 1987 liggja nú fyrir í landbúnaðarráðuneyti drög að frumvarpi til laga um innflutning dýra og hafa
þessi frumvarpsdrög þegar hafa hlotið umsögn allmargra aðila. Þar sem um afar vandmeðfarið mál er að ræða vinnst ekki tími til að leggja það fyrir Alþingi nú í vor, en stefnt er að því að það geti orðið næsta haust. Ofangreind breyting er lögð til nú svo hægt verði að vinna eftir henni strax á þessu ári.