Ferill 499. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 499 . mál.


Ed.

1158. Frumvarp til laga



um ráðstafanir vegna kjarasamninga.

(Eftir 2. umr. í Ed., 11. maí.)



1. gr.

    Stjórn deildar fyrir frystar afurðir í Verðjöfnunarsjóði fiskiðnaðarins er heimilt, til viðbótar við lántöku skv. 1. gr. l. nr. 9 2. mars 1989, að taka lán hjá Seðlabanka Íslands eða fyrir milligöngu hans að fjárhæð allt að 400 milljónum króna eða jafnvirði þeirrar fjárhæðar í erlendri mynt. Fjármálaráðherra er heimilt, fyrir hönd ríkissjóðs, að takast á hendur sjálfskuldarábyrgð vegna endurgreiðslu láns þessa.
    Af andvirði láns skv. 1. mgr. skal allt að 350 milljónum króna varið til greiðslu verðbóta á freðfisk en allt að 50 milljónum króna af andvirði þess skal varið til greiðslu verðbóta á hörpudisk. Við ákvörðun verðbóta skal fylgt ákvæðum laga nr. 72 28. maí 1969, með síðari breytingum, en sérstakt tillit skal þó tekið til afkomu viðkomandi vinnslugreina.
    Lán skv. 1. mgr. þessarar greinar skal undanþegið stimpilgjaldi. Skal það endurgreitt af tekjum Verðjöfnunarsjóðs af viðkomandi afurðum á næstu þremur árum eftir að það er tekið. Það sem þá kann að vera ógreitt fellur á ríkissjóð.

2. gr.

    Í stað orðanna „31. desember 1989“ í 4. mgr. 22. gr. laga nr. 10/1988, um ráðstafanir í ríkisfjármálum og lánsfjármálum á árinu 1988, sbr. 2. gr. laga nr. 101/1988, komi: 1. júní 1989.

3. gr.

    Í stað „2,2%“ í 1. mgr. 6. gr. laga nr. 100/1988, um sérstakan skatt á verslunar- og skrifstofuhúsnæði, komi: 1,5%.

4. gr.

    Frá 1. september 1989 falli eftirtalin tollskrárnúmer brott úr A-lið 3. gr. laga nr. 97/1987, um vörugjald, sbr. 1. gr. l. nr. 95/1988:



TAFLA




5. gr.

    Í stað „3%“ í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 78/1980, um jöfnunargjald, komi: 5%.

6. gr.

    Við 22. gr. laga um atvinnuleysistryggingar, nr. 64/1981, bætist ný málsgrein er verði 3. mgr. og hljóði svo:
    Til að bregðast við langvarandi og verulegu almennu eða staðbundnu atvinnuleysi er stjórn sjóðsins heimilt að lengja bótatímabil skv. 2. mgr. í 260 daga áður en viðkomandi bótaþegi fellur af bótum næstu 16 vikur. Heimild þessari skal stjórnin beita almennt eða staðbundið miðað við aðstæður á hverjum stað fyrir sig.

7. gr.

    Ný 40. gr. komi í lög um atvinnuleysistryggingar, nr. 64/1981, og númer síðari greina breytist til samræmis. Greinin hljóði svo:
    Atvinnuleysistryggingasjóður skal tryggja launafólki fyrirtækja, sem verða gjaldþrota, rétt til greiðslu atvinnuleysisbóta þann tíma sem það er án atvinnu á uppsagnarfresti meðan það bíður eftir endanlegu uppgjöri á launakröfum sínum samkvæmt lögum nr. 23/1985, um ríkisábyrgð á launum.

8. gr.

    10. gr. laga nr. 23 28. maí 1985, um ríkisábyrgð á launum, orðist svo:
    Hafi krafa samkvæmt lögum þessum á hendur ríkissjóði verið framseld glatast réttur til greiðslu hennar úr ríkissjóði. Þetta á þó ekki við ef krafan hefur verið framseld stéttarfélagi launþegans eftir að skiptameðferð á
búi vinnuveitandans hófst né heldur ef krafan hefur verið að fullu eða að hluta til framseld Atvinnuleysistryggingasjóði.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Ákvæði 3. gr. skulu koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1989.