Ferill 210. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 210 . mál.


Nd.

342. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum.

Frá meiri hl. fjárhags- og viðskiptanefndar.



    Samhliða umfjöllun sinni um stjórnarfrumvarpið á þskj. 247 hefur nefndin fjallað um nokkur þingmannafrumvörp sem vísað hefur verið til hennar. Niðurstaðan af umfjöllun nefndarinnar er sú að hún flytur sem heild nokkrar breytingartillögur við stjórnarfrumvarpið þar sem m.a. er tekið mið af þingmannafrumvarpi á þskj. 208.
    Við vinnu sína hefur nefndin notið ágætrar aðstoðar Ævars Ísbergs, Steinþórs Haraldssonar og Friðleifs Jónssonar frá embætti ríkisskattstjóra og Snorra Olsens og Maríönnu Jónasdóttur frá fjármálaráðuneytinu. Þá komu eftirtaldir til viðræðna við nefndina um áðurgreind frumvörp: Þuríður Pálsdóttir, Ingileif Hallgrímsdóttir, Margrét Thorlacius og Kristjana Milla Thorsteinsson frá Húseigendafélaginu, Ari Skúlason og Ásmundur Stefánsson frá ASÍ, Þórarinn V. Þórarinsson og Hannes Sigurðsson frá VSÍ, Björn Arnórsson og Sigurður Jóhannesson frá BSRB, Þórður Friðjónsson, Jóhann Rúnar Björgvinsson og Stefán Þór Jansen frá Þjóðhagsstofnun, Eiríkur Guðnason frá Verðbréfaþingi Íslands, Sigurður B. Stefánsson frá verðbréfadeild Iðnaðarbankans, Vilhjálmur Egilsson frá Verslunarráði Íslands, Birgir Björn Sigurjónsson og Páll Halldórsson frá BHMR, Gunnar Jóhannsson, Ólafur H. Ólafsson, Gylfi Knudsen og Guðmundur E. Erlendsson frá ríkisskattanefnd, Grétar Guðmundsson, aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Jón Sigurðsson endurskoðandi og Valgarð Briem hrl.
    Breytingartillögur þær, sem nefndin flytur sem heild á sérstöku þingskjali, eru eftirfarandi:
    1. Með 1. brtt. eru heimildir til frádráttar frá tekjum vegna fjárfestingar einstaklinga í atvinnurekstri rýmkaðar frá því sem er í frumvarpinu.
    2. Með 2. og 3. brtt. er ætlað að koma í veg fyrir óeðlilega skattlagningu forráðamanns barns þegar barnið hefur erft eignir eftir látið foreldri eða foreldra eða aðra vandamenn. Samkvæmt gildandi lögum eru eignatekjur og aðrar tekjur barns en launatekjur nú skattlagðar að fullu hjá foreldri eða hjá þeim er nýtur barnabóta vegna barnsins, en hann getur verið því með öllu óskyldur. Um eignir gildir að þær eru skattlagðar hjá forráðamanni barns og bætast við skattstofn hans og geta valdið því að hann lendi í efsta skattþrepi með eignir sem hann á ekki. Í breytingartillögunni er lagt til að heimilt sé í slíkum tilvikum að skattlagning færist af forráðamanni yfir á barnið sjálft.
    3. Með 4. og 5. brtt. eru felld brott ákvæði frumvarpsins er varða ríkisskattanefnd þar sem ákveðið var að fresta um sinn breytingum á skipan og starfsháttum nefndarinnar.
    4. Með 6. brtt. er aðeins verið að gera nauðsynlegar leiðréttingar er leiða af öðrum breytingum nefndarinnar.

Alþingi, 15. des. 1989.



Páll Pétursson,


form., frsm.


Jón Sæmundur Sigurjónsson.


Guðmundur G. Þórarinsson.


Þórður Skúlason.