Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 524 . mál.


Ed.

921. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 60/1981, um raforkuver o.fl.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989–90.)



1. gr.

    Niðurlag 1. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981 breytist þannig að við bætast tveir málsliðir sem orðist svo:
—     að stækka Búrfellsvirkjun í allt að 310 MW afl,
—     að stækka Kröfluvirkjun í allt að 60 MW afl.

2. gr.


    Á eftir 2. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981 komi ný málsgrein sem orðist svo:
    Iðnaðarráðherra er heimilt að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 38 MW afli (1. áfangi Nesjavallavirkjunar), enda liggi fyrir samningur um rekstur virkjunarinnar sem hluta af raforkukerfi landsins.

3. gr.

    2. gr. laga nr. 60/1981 orðist svo:
    Röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum skal ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar og skal þess gætt að orkuöflunin verði með sem hagkvæmustum hætti fyrir þjóðarbúið. Við val á virkjunarkostum skal einnig leitast við að auka öryggi í vinnslu og flutningi á raforku um landið. Áður en iðnaðarráðherra ákveður röð framkvæmda skulu liggja fyrir greinargerðir frá Landsvirkjun, Orkustofnun og öðrum aðilum sem hann kveður til.

4. gr.

    Á eftir 1. mgr. 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun, komi tvær nýjar málsgreinar sem orðist svo:
    Landsvirkjun reisir og rekur, samkvæmt lögum nr. 60/1981, eftirtalin raforkuver, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra skv. 7. gr. þessara laga: Stækkaða Búrfellsvirkjun með allt að 310 MW afli, Sultartangavirkjun með allt að 130 MW afli, stækkaða Hrauneyjafossvirkjun með allt að 280 MW afli, stækkaða Sigölduvirkjun með allt að 200 MW afli, stækkaða Kröfluvirkjun með allt að 60 MW afli.
    Landsvirkjun er heimilt, að fengnu samþykki iðnaðarráðherra, að gera ráðstafanir til að tryggja rekstur orkuvera á Þjórsársvæðinu, m.a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Takist samningar um að reisa nýtt álver á grundvelli yfirlýsingar, dags. 13. mars 1990, milli ríkisstjórnarinnar og ATLANTAL-aðilanna, um ásetning að ljúka samningum um nýtt álver með um 200 þús. tonna framleiðslugetu á ári skal mæta orkuþörf þess með því að ráðast auk Blönduvirkjunar í eftirtaldar framkvæmdir, sbr. 1. og 2. gr. þessara laga og 6. gr. laga nr. 42/1983, um Landsvirkjun:
1.     Fljótsdalsvirkjun.
2.     Stækkun Búrfellsvirkjunar, 5. áfanga Kvíslaveitu og stækkun miðlunar í Þórisvatni.
3.     Stækkun Kröfluvirkjunar og 1. áfanga Nesjavallavirkjunar, takist samningar við Hitaveitu Reykjavíkur um samrekstur virkjunarinnar við raforkukerfi landsins.

II.


    Landsvirkjun er heimilt að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar að verja allt að 300 milljónum króna á árinu 1990 til undirbúnings Fljótsdalsvirkjunar, stækkunar Búrfellsvirkjunar, 5. áfanga Kvíslaveitu og stofnlína eins og nauðsynlegt er til þess að unnt verði að sjá nýju álveri fyrir nægri raforku árið 1994 og taka að láni þá fjárhæð eða jafnvirði hennar í erlendri mynt.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt til þess að greiða fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar hér á landi í framhaldi af undirritun yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og ATLANTAL-aðilanna 13. mars 1990 um ásetning um að ljúka samningum um nýtt álver. Meginefni frumvarpsins er eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi er lagt til að í lög nr. 60/1981, um raforkuver, verði bætt heimildum fyrir tvær virkjanir, þ.e. stækkun Búrfellsvirkjunar í um 310 MW og stækkun Kröfluvirkjunar í allt að 60 MW afl. Í fylgiskjölum I og II hér á eftir er þessum virkjunum lýst nánar. Fyrir voru m.a. heimildir til Blönduvirkjunar, Fljótsdalsvirkjunar, Villinganesvirkjunar, Sultartangavirkjunar, stækkunar Hrauneyjafossvirkjunar, stækkunar Sigölduvirkjunar, auk ráðstafana til að tryggja rekstur orkuvera á Þjórsársvæðinu.
    Í öðru lagi er lagt til að sérstök heimild verði veitt til að reisa og reka jarðgufuvirkjun til raforkuframleiðslu að Nesjavöllum með allt að 38 MW afli, enda liggi fyrir samningur um rekstur virkjunarinnar sem hluta af raforkukerfi landsins. Þetta er 1. áfangi raforkuframleiðslu að Nesjavöllum. Virkjuninni er lýst í fylgiskjali III.
    Í þriðja lagi er lagt til að 2. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, verði umorðuð í heild. Í stað þess að Alþingi ákveði röð einstakra framkvæmda með þingsályktun er lagt til að framkvæmdarvaldinu verði settar almennar reglur um röðun framkvæmda sem ráðist af væntanlegri orkunýtingu. Jafnframt verði leitast við að styrkja raforkukerfið og auka öryggi orkuöflunar og orkudreifingar. Í sérstöku ákvæði til bráðabirgða er þó lagt til að lögfest verði tiltekin röð virkjanaframkvæmda takist samningar um nýtt álver á grundvelli yfirlýsingarinnar frá 13. mars 1990. Sú röð virkjanaframkvæmda er í öllum meginatriðum sú sama og Alþingi samþykkti með þingsályktun um virkjunarframkvæmdir og orkunýtingu 6. maí 1982.
    Í fjórða lagi er lögð til breyting á lögum nr. 42/1983 og skýrt kveðið á um að Landsvirkjun reisi og reki eftirtaldar virkjanir, til viðbótar þeim sem þegar eru heimildir fyrir í þeim lögum:
—     Stækkaða Hrauneyjafossvirkjun með allt að 280 MW afli.
—     Stækkaða Sigölduvirkjun með allt að 200 MW afli.
—     Stækkaða Búrfellsvirkjun með allt að 310 MW afli.
—     Sultartangavirkjun með allt að 130 MW afli.
—     Stækkaða Kröfluvirkjun með allt að 60 MW afli.
    Loks er í ákvæði til bráðabirgða lagt til að Landsvirkjun verði veitt heimild til að verja 300 milljónum króna til undirbúnings og framkvæmda á árinu 1990 við Fljótsdalsvirkjun, stækkun Búrfellsvirkjunar og stofnlínur eins og nauðsynlegt er til þess að hægt verði að sjá nýja álverinu fyrir nægri raforku 1994 og taka þá fjárhæð að láni.
    Hér á eftir verður gerð nánari grein fyrir efni yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og ATLANTAL-aðilanna 13. mars 1990 (1), raforkuþörfinni (2), framkvæmdum í raforkukerfinu (3), umhverfisáhrifum orkuvera (4), þróun viðræðna um nýtt álver (5), stöðu helstu samningsatriða (6), staðsetningu nýs álvers (7), umhverfisáhrifum nýs álvers (8), áhrifum nýs álvers á búsetu og vinnumarkað (9) og könnun á þjóðhagslegum áhrifum (10).

1.      UNDIRRITUN YFIRLÝSINGAR RÍKISSTJÓRNARINNAR OG ATLANTAL-AÐILANNA 13. MARS 1990
    Þann 13. mars 1990 undirrituðu iðnaðarráðherra, fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands, aðalforstjóri Alumax, forstjóri Granges og framkvæmdastjóri Hoogovens Aluminium, sameiginlega yfirlýsingu um ásetning að ljúka samningum um byggingu nýs álvers hér á landi. Meginatriði yfirlýsingarinnar eru eftirfarandi:
1.1     Iðnaðarráðherra staðfestir stefnu íslenskra stjórnvalda að auka nýtingu innlendra orkulinda með frekari álframleiðslu á Íslandi og að fram verði lagt frumvarp um nauðsynlegar virkjanaheimildir. Alumax, Granges og Hoogovens staðfesta áhuga sinn á því að efla álframleiðslu sína með því að byggja álver á Íslandi. Þá er staðfest að gera þurfi eftirfarandi samninga á grundvelli heimildarlaga um nýtt álver:
        —    Aðalsamning milli íslensku ríkisstjórnarinnar og ATLANTAL-aðilanna þar sem m.a. verður fjallað um skattamál og úrlausn ágreiningsefna.
        —    Orkusölusamning við Landsvirkjun.
        —    Lóðar- og hafnarsamning við hlutaðeigandi sveitarfélag.
        —    Samkomulag varðandi umhverfismál.
        —    Samkomulag milli ATLANTAL-aðilanna um eignarhald, rekstur og fjármögnun álversins.

1.2     Iðnaðarráðherra og ATLANTAL-aðilarnir staðfesta ásetning sinn að ljúka samningum um nýtt álver með um 200.000 tonna álframleiðslugetu á ári er hefji rekstur árið 1994. Í álbræðslunni verði notuð nýjasta tækni við framleiðslu og steypu á áli og mengunarvarnir. ATLANTAL-aðilarnir lýsa sig reiðubúna til að eignast hlutabréf í hinu nýja álveri sem hér segir:

        —    Alumax    30–40%
        —    Granges     25–35%
        —    Hoogovens Aluminium     25–35%

1.3     Iðnaðarráðherra og ATLANTAL-aðilarnir munu leitast við að ljúka samningum með eftirfarandi hætti:
        —    Stefnt er að því að taka ákvörðun um staðsetningu álversins fyrir lok maí 1990.
        —    Stefnt er að því að ljúka öllum samningum fyrir 20. september 1990.
        —    Iðnaðarráðherra mun leggja fyrir Alþingi frumvarp til heimildarlaga um álverið í október nk. með það að markmiði að afla samþykkis Alþingis fyrir árslok 1990.
        —    Fyrirtækin munu afla samþykkis viðeigandi stjórna fyrir árslok 1990 eða í síðasta lagi á fyrsta reglulegum stjórnarfundi á árinu 1991.
    Undirritun endanlegra samninga er háð samþykki Alþingis á frumvarpi til heimildarlaga um álverið og samþykki stjórna fyrirtækjanna eða móðurfélaga þeirra eftir því sem við á.
    Til þess að halda áfram nauðsynlegum undirbúningi og tryggja að nægjanleg raforka verði tiltæk fyrir nýtt álver er tæki til starfa árið 1994 er nauðsynlegt að ráðast í ákveðnar framkvæmdir á vegum Landsvirkjunar nú í sumar. Því er nauðsynlegt að Alþingi veiti þær virkjanaheimildir sem þetta frumvarp tekur til og greiði með því fyrir þeim samningum sem nú eru hafnir.

2. RAFORKUÞÖRF

2.1 Almenn raforkuþörf og núverandi stóriðja.
    Síðasta spá orkuspárnefndar um raforkunotkun var gerð árið 1985. Spáin hefur síðan verið endurreiknuð árlega á grundvelli nýrra rauntalna um fólksfjölda, húsnæði, raforkunotkun og fleira. Við endurreikning spárinnar hefur frá árinu 1988 einnig verið miðað við mannfjöldaspá sem gerð var á vegum framkvæmdanefndar um framtíðarkönnun og var gefin út árið 1987. Orkuspárnefnd hefur samþykkt að leggja til að við áætlanir um framkvæmdir í raforkukerfinu verði miðað við endurreiknaða spá nefndarinnar frá 1988. Við endurreikninginn voru notaðar rauntölur fram til ársins 1987 auk þess sem miðað var við spá framtíðarkönnunar um mannfjölda. Rétt er að geta þess í þessu sambandi að raforkuspáin frá 1985 hefur reynst mjög vel. Raforkunotkun hefur endurspeglað ástand efnahagsmála og ýmist verið lítið eitt minni eða lítið eitt meiri en spáð var. Notkunin hefur þó alltaf legið innan vikmarka.
    Í eftirfarandi töflu er endurreiknuð spá orkuspárnefndar um raforkumarkað fyrir forgangsorku án nýrrar stóriðju, þ.e. almenn raforkunotkun og núverandi
stóriðja, fram til ársins 2015:

    Ár     Markaður
    1990     4.055 gwst. á ári
    1995     4.390 gwst. á ári
    2000     4.660 gwst. á ári
    2005     4.916 gwst. á ári
    2010     5.172 gwst. á ári
    2015     5.419 gwst. á ári

    Til samanburðar má nefna að árið 1988 reyndist raforkuþörfin, eins og hún er skilgreind í raforkuspánni, 3.907 gwst. Auk þessa er nokkur markaður fyrir ótryggða raforku og vegur þar Íslenska járnblendifélagið þyngst. Í því sambandi má nefna að raforkuvinnslan var 4.476 gwst. árið 1989.

2.2 Orkuþörf ATLANTAL-álversins.
    Í yfirlýsingu um ásetning um að ljúka samningum um ATLANTAL-álverið er miðað við að reist verði álbræðsla með framleiðslugetu sem nemur 200.000 tonnum á ári. Jafnframt er stefnt að því að álverið geti hafið rekstur árið 1994. Áætlað er að raforkuþörf álversins, að meðtöldum orkutöpum við flutning orkunnar til iðjuversins, verði um 2.970 gwst. á ári og aflþörfin 355 MW.

2.3 Orkuþörf núverandi markaðar ásamt ATLANTAL-álverinu.
    Í eftirfarandi töflu er spá um raforkuþörf fram til ársins 2015 að raforkuþörf ATLANTAL-álversins meðtalinni, en ekki annarri stóriðju:

    Ár     Raforkuþörf
    1990     4.055 gwst. á ári
    1995     7.360 gwst. á ári
    2000     7.360 gwst. á ári
    2005     7.886 gwst. á ári
    2010     8.142 gwst. á ári
    2015     8.389 gwst. á ári

    ATLANTAL-álverið eykur raforkuþörfina þannig að hún verður um 64% meiri árið 1995 og um 60% meiri árið 2000 ef ekki kemur til frekari aukning nýrrar orkufrekrar starfsemi.
    Í þessu sambandi er ástæða til að rifja upp að í forsendum, sem lagðar voru til grundvallar virkjunaráformum í frumvarpi til laga um raforkuver sem lagt var fyrir á 103. löggjafarþinginu, var gert ráð fyrir að heildarorkuþörfin geti orðið um 7.500 gwst. árið 1995 og um 9.600 gwst. árið 2000. Forsendurnar voru þær að til ráðstöfunar vegna nýrrar orkufrekrar starfsemi yrðu um 2.400 gwst. árið 1995 og tæplega 3.700 gwst. árið 2000. Það má því segja að með samningum um ATLANTAL-álverið takist að fullnægja í meginatriðum fyrrgreindum forsendum fram til ársins 1995. Eftir þann tíma var gert ráð fyrir enn frekari uppbyggingu stóriðju.

3. FRAMKVÆMDIR Í RAFORKUKERFINU
    Í töflunni hér á eftir er yfirlit um afl, orkugetu og stofnkostnað virkjanakosta sem auk Blönduvirkjunar koma til greina til þess að fullnægja aukinni raforkuþörf á næstu fimm árum eða svo, en undirbúningur annarra virkjanakosta er skemmra á veg kominn. Í töflunni er ekki tekin með ósk sem fram hefur komið hjá Hitaveitu Suðurnesja um aukna raforkuvinnslu (8 MW) í Svartsengi með svokölluðum Ormat-vélum. En gera má ráð fyrir því að við þeirri ósk mætti verða þegar samningar um ATLANTAL-álverið hafa tekist.

        Orku-    Stofn-
    Afl    vinnsla    kostnaður
    MW    GWh/ári    M.kr
Villinganesvirkjun      30     190     3.251
Fljótsdalsvirkjun     240    1.460    18.673
Stækkun Búrfells, 5. áfangi Kvíslaveitu
og stækkun Þórisvatnsmiðlunar     100     530    6.266
Vatnsfellsvirkjun      70     430     5.288
Stækkun Kröfluvirkjunar      30     180     1.411
1. áfangi Nesjavallavirkjunar      30     180     906

*Ásamt vöxtum á byggingartíma. Verðlag í desember 1989.

    Gerðir hafa verið ítarlegir útreikningar á því hvernig hagkvæmast verður að afla orkunnar til ATLANTAL-álversins. Samkvæmt þeim verður hagkvæmast að
ráðast auk Blönduvirkjunar í eftirtaldar framkvæmdir:
1.     Fljótsdalsvirkjun.
2.     Stækkun Búrfellsvirkjunar, ásamt lokaáfanga Kvíslaveitu og stækkun miðlunar í Þórisvatni.
3.     Fyrsta áfanga Nesjavallavirkjunar.
4.     Stækkun Kröfluvirkjunar.
    Að Blönduvirkjun meðtalinni er afl ofangreindra virkjana 550 MW og orkugetan 2.960 til 3.070 gwst. á ári eftir því hvort samningar takast um að stækka miðlunarlón virkjunarinnar, sbr. ákvæði þingsályktunar um virkjanaframkvæmdir og orkunýtingu frá árinu 1982. Til þess að álverið geti hafið bræðslu árið 1994 þarf að ljúka framkvæmdum við stækkun Búrfellsvirkjunar og fyrsta áfanga Nesjavallavirkjunar, eða stækkun Kröfluvirkjunar, nokkurn veginn samtímis og álverið hefur rekstur og orkuvinnsla í Fljótsdalsvirkjun þarf að byrja fyrir árslok 1994. Framkvæmdum við stækkun Kröfluvirkjunar, eða fyrsta áfanga Nesjavallavirkjunar, þarf síðan að ljúka um ári síðar. Hér er í öllum meginatriðum um sömu röð framkvæmda að ræða og samþykkt var í þingsályktun um virkjanaframkvæmdir og orkunýtingu frá árinu 1982. Einungis er um að ræða að gert er ráð fyrir raforkuvinnslu á Nesjavöllum sem eðli máls samkvæmt var ekki í þeirri röð virkjana sem fólst í þingsályktuninni. Framkvæmdir við Fljótsdalsvirkjun þurfa að hefjast þegar á þessu ári til að orkuvinnsla geti hafist í árslok 1994.
    Auk framkvæmda við virkjanir þarf að ráðast í miklar framkvæmdir vegna flutnings orkunnar milli virkjana og álvers. Aðeins lítill hluti þeirra framkvæmda er háður staðsetningu álvers. Dýrastar verða flutningslínur milli Hrauneyjafossvirkjunar og Akureyrar annars vegar og Fljótsdals og Akureyrar hins vegar.
    Á mynd 1 er sýnd hagkvæmasta framkvæmdaröð til að mæta aukningu í orkuþörf fram yfir aldamót miðað við að ekki verði um annan nýjan orkufrekan iðnað að ræða á tímabilinu. Til samanburðar er á mynd 2 sýnd hagkvæmasta framkvæmdaröð ef einungis þarf að mæta aukningu almenns raforkumarkaðar.
    Í töflu 1 er yfirlit yfir nýjar fjárfestingar (verðlag í desember 1989) og mannaflaþörf við orkuframkvæmdir Landsvirkjunar til og með 1994. Til samanburðar er í töflu 2 sömu upplýsingar ef einungis þyrfti að mæta aukningu í almennum raforkumarkaði.


(Töflur eru ekki til tölvutækar.)




    Eins og sjá má af töflunum mun nýtt álver hafa í för með sér fjárfestingar (með vöxtum á byggingartíma) í raforkukerfinu sem nema tæplega 33 miljörðum króna á tímabilinu 1990 til 1995. Alls yrðu fjárfestingarnar rúmlega 38 milljarðar króna á tímabilinu. Allar fjárhæðirnar eru hér á verðlagi í desember 1989. Mannaflaþörf við framkvæmdir í orkukerfinu, sem ekki tengdust nýju álveri, yrði um 500 ársverk, en með nýju álveri um 2.900 ársverk.

4. UMHVERFISÁHRIF ORKUVERA

4.1 Fljótsdalsvirkjun.
    Í verkhönnunarskýrslu um virkjun Jökulsár í Fljótsdal, sem kom út í maí 1982, er gert ráð fyrir að frá Eyjabakkamiðlun verði vatni veitt um skurð og lón á Fljótsdalsheiði að inntaki virkjunarinnar á Teigsbjargi, en síðan um hallandi þrýstipípu að þremur vatnsvélum í stöðvarhúsi neðan jarðar. Þaðan færi vatnið um frárennslisgöng aftur út í farveg árinnar milli bæjanna Hóls og Valþjólfsstaðar. Umsögn Náttúruverndarráðs frá 31. mars 1981 miðaðist við þessa útfærslu.
    Árið 1989 var hönnun Fljótsdalsvirkjunar tekin til endurskoðunar og nú er áætlað að í stað skurðar og lóna á Fljótsdalsheiði komi jarðgöng (heilboruð) frá Eyjabakkamiðlun að fallpípu við stöðvarhús sem er á sama stað og í eldri áætlun. Umsögn Náttúruverndarráðs um þessa útfærslu liggur ekki fyrir, en augljóst er að nýja tilhögunin hefur mun minni áhrif á umhverfið. Minna land fer undir vatn og lítil röskun verður á Fljótsdalsheiði.
    Árið 1982 var gert samkomulag við Fljótsdalshrepp um virkjunina.

4.2 Stækkun Búrfellsvirkjunar.
    Stækkun Búrfellsvirkjunar er innan virkjanasvæðis Landsvirkjunar við Búrfell og nýtir hluta þeirra mannvirkja sem fyrir eru á svæðinu. Landsvirkjun hefur leitað umsagnar Náttúruverndarráðs varðandi stækkun Búrfellsvirkjunar. Náttúruverndarráð hefur með bréfi, dags. 17. október 1988, tilkynnt Landsvirkjun að af þess hálfu sé ekkert því til fyrirstöðu að framkvæmdir geti hafist.

4.3 Kröfluvirkjun.
    Með bréfi, dags. 26. mars 1975, heimilar Náttúruverndarráð fyrir sitt
leyti að reist verði og rekin jarðgufustöð við Kröflu er takmarkist við byggingu og rekstur 60 MW virkjunar. Heimildin er veitt á grundvelli laga nr. 36/1974 um verndun Mývatns og Laxár. Heimildin er háð nokkrum skilmálum.

4.4 Háspennulínur.

4.4.1 Fljótsdalur – Akureyri.
    Línuleiðin var afmörkuð sumarið 1989, en fyrirhugað er að ljúka mælingum á línunni sumarið 1990. Línuleiðin var valin í samráði við fulltrúa Náttúruverndarráðs og hún hefur verið kynnt á fundi í Náttúruverndarráði. Í bréfi Náttúruverndarráðs, dags. 10. janúar 1990, segir að ráðið muni ekki leggjast gegn legu línunnar að uppfylltum nokkrum skilyrðum.
    Áður en línuleiðin var afmörkuð var haft samband við alla landeigendur og oddvita í þeim sveitarfélögum sem línan liggur um. Reynt var að taka tillit til óska þessara aðila eftir því sem unnt var í hverju tilviki.
    Gert er ráð fyrir að línan Fljótsdalur – Akureyri og línan Akureyri – Hrauneyjafoss verði á sameiginlegum möstrum frá spennistöðinni á Rangárvöllum austur í mynni Garðsárdals.

4.4.2 Akureyri – Hrauneyjafoss (Sprengisandslína).
    Mælingum á þessari línu lauk að mestu sumarið 1984, en síðan hafa verið gerðar á henni minni háttar breytingar. Náttúruverndarráð féllst, með bréfi dags. 6. febrúar 1984, í megindráttum á legu línunnar með fyrirvara um frekari skoðun á ákveðnum köflum leiðarinnar.
    Línan fer um óbyggð svæði allt frá Hrauneyjafossi í Garðsárdal, en þaðan var lega hennar valin í samráði við landeigendur, svæðisskipulag Eyjafjarðar og skipulagsyfirvöld á Akureyri.

5. ÞRÓUN VIÐRÆÐNA UM NÝTT ÁLVER (ATLANTAL)
    Á fundi í Zurich 4. desember 1989 kom endanlega í ljós mismunandi afstaða þáverandi aðila að ATLANTAL-hópnum til nýs álvers á Íslandi. Tvö fyrirtækjanna, Granges AB og Hoogovens Aluminium, lýstu yfir vilja sínum til þess að vinna að því að af byggingu nýs sjálfstæðs álvers með 200.000 tonna ársafkastagetu gæti orðið. Alusuisse aftur á móti lýsti yfir því að það væri ekki tilbúið til þátttöku í byggingu nýs álvers. Á fundinum dró síðan Alusuisse sig út úr samstarfinu.
    Í framhaldi af þessari ákvörðun varð það að samkomulagi við fyrirtækin tvö, sem eftir voru í ATLANTAL-hópnum, að leita nýrra aðila, eins eða fleiri, til þátttöku í byggingu nýs álvers á Íslandi. Eitt þeirra fyrirtækja, sem ákveðið var að hafa samband við í upphafi, var bandaríska fyrirtækið Alumax, en það hefur á undanförnum áratugum oft sýnt áhuga á þeim möguleikum sem til staðar eru hér á landi til byggingar álvers.
    Fulltrúar Alumax komu til Reykjavíkur í janúar sl. til þess að kynna sér aðstæður og ræða við iðnaðarráðherra og ráðgjafarnefnd um áliðju. Í febrúar sl. var síðan haldinn sameiginlegur fundur allra aðilanna í Amsterdam. Í framhaldi af þeim fundi lýsti Alumax því yfir að þeir væru tilbúnir til þátttöku í ATLANTAL-hópnum og var það formlega staðfest með undirritun áðurnefndrar viljayfirlýsingar.
    Með þátttöku Alumax í ATLANTAL-hópnum er kominn til skjalanna aðili með mjög víðtæka reynslu af byggingu og rekstri álvera sem getur tekið að sér þá ábyrgð sem fylgir forustu í samstarfshópi af þessu tagi. Það liggur fyrir að báðir þeir aðilar, sem fyrir voru í ATLANTAL-hópnum, telja Alumax ákjósanlegan samstarfsaðila.
    Eins og nánar er gerð grein fyrir hér á eftir eru ýmis atriði samninga enn ófrágengin og með tilkomu nýs aðila þarf að fara að nýju yfir þau atriði sem þegar hafði tekist samkomulag um. Þegar niðurstaða hefur fengist í öllum meginatriðum samninganna og ákvörðun um staðsetningu verksmiðjunnar liggur fyrir verður hægt að leggja lokamat á hagkvæmni hennar, en það, ásamt því hvernig verksmiðjan fellur að langtímastefnumörkun fyrirtækjanna, mun verða grundvöllur að endanlegri ákvörðun stjórna fyrirtækjanna um þátttöku í byggingu hennar. Hafa ber í huga að víðar en á Íslandi er unnið að því að stofna ný álver og hefur þeim fyrirtækjum, sem hér eru í viðræðum, verið boðin þátttaka í nokkrum þeirra.
    Náist samkomulag í þeim samningaviðræðum sem nú eru hafnar og verði lokamat aðilanna jákvætt fer undirritun samninga væntanlega fram seint á þessu ári eða í byrjun þess næsta. Hið nýja álver gæti þá hafið rekstur árið 1994. Sérstök ráðgjafarnefnd um áliðju var skipuð 14. nóvember 1988 og hefur verið iðnaðarráðherra til ráðuneytis varðandi samninga um nýtt álver.
    Ráðgjafarnefndina skipa eftirtaldir menn: Jóhannes Nordal seðlabankastjóri, formaður, Baldur Óskarsson framkvæmdastjóri, Eggert Steinsen verkfræðingur, Geir A. Gunnlaugsson framkvæmdastjóri, Guðmundur G. Þórarinsson alþingismaður og Ólafur Davíðsson framkvæmdastjóri.
    Halldór J. Kristjánsson, skrifstofustjóri í iðnaðarráðuneytinu, starfar með nefndinni og markaðsskrifstofa iðnaðarráðuneytisins og Landsvirkjunar starfar fyrir hana.

6. STAÐA HELSTU SAMNINGSATRIÐA
    Nauðsynlegt er að fara á næstu vikum yfir öll helstu samningsatriðin í ljósi yfirlýsingarinnar um ásetning um að ljúka samningum. Hér á eftir er gerð stutt grein fyrir stöðu helstu samningsatriða.

6.1. Aðalsamningur.

6.1.2 Gildistími samningsins.
    Af Íslands hálfu hefur verið lagt til að gildistími aðalsamningsins verði 25 ár frá því að full framleiðsla hefst. Þá hefur verið lagt til að ekki verði í samningnum framlengingarákvæði og að ATLANTAL-álverið verði að loknum samningstíma að öllu leyti háð íslenskum lögum. Sérstakar undanþágur frá gildandi lögum, svo sem vegna meirihlutaeignar erlendra aðila o.þ.h., eru eðli sínu samkvæmt ótímabundnar. ATLANTAL-aðilarnir hafa óskað eftir nokkru lengri samningstíma og heimild til framlengingar samningsákvæða.

6.1.3 Ábyrgðir.
    Þýðingarmestu ábyrgðirnar, sem ATLANTAL-aðilarnir þurfa að gefa út gagnvart íslenskum aðilum, eru þessar:
a.      Verklokaábyrgð. Gert hefur verið ráð fyrir að ATLANTAL-aðilarnir gefi út sérstakar ábyrgðir um að þeir muni leggja fram nauðsynlegt hlutafé og tryggja að álverið hefji starfrækslu og kaup á orku á tilteknum tíma. Á sama hátt er gert ráð fyrir að ríkisstjórnin og Landsvirkjun ábyrgist gagnvart ATLANTAL-aðilunum að tilteknar virkjanir hafi verið reistar og að orkusala til ATLANTAL geti hafist á sama tíma.
b.      Greiðsla fyrir orku. Gert hefur verið ráð fyrir að ATLANTAL-aðilarnir fjármagni álverið á verkefnisgrundvelli (Project Financing) og að bankastofnanir, sem veiti lán til verkefnisins, muni gera kröfu til að ATLANTAL-aðilarnir geri bindandi samning við ATLANTAL-álverið um bræðslu á tilteknu lágmarksmagni af áli á ári. Ef Landsvirkjun fær hlutdeild í slíkri ábyrgð vegna bræðslu á málmi hjá ATLANTAL er talið að vel sé fyrir ábyrgðarþörf fyrirtækisins séð.

6.1.4 Lögsaga og lausn deilumála.
    Óumdeilt er að nýtt álfyrirtæki lúti íslenskum lögum með þeim sérákvæðum sem lögfest verða í heimildarlögum um nýtt álver, m.a. undanþágur frá skilyrðum íslenskra laga um ríkisfang og búsetu stjórnarmanna og stofnenda vegna erlendrar eignaraðildar. Þá er gert ráð fyrir að túlkun og framkvæmd aðalsamningsins fari að íslenskum lögum.
    Af Íslands hálfu hefur verið lögð áhersla á að úrlausn ágreiningsmála við ríkisstjórnina verði fyrir íslenskum dómstólum. ATLANTAL-aðilarnir hafa sett fram tillögu um að lausn meiri háttar deilumála verði fyrir alþjóðlegum gerðardómi og þá fyrir Alþjóðagerðardómsstofnuninni til lausnar fjárfestingardeilum er starfar í tengslum við Alþjóðabankann í Washington (ICSID) og Ísland og heimalönd álfyrirtækjanna þriggja eru aðilar að. Hins vegar hafa báðir aðilar talið eðlilegt að leita lausnar á viðskiptalegum deilumálum, svo sem um einstaka þætti í raforkusamningi, t.d. fyrir gerðardómi skv. íslenskum gerðardómslögum.

6.1.5 Aðild Íslendinga að stjórn ATLANTAL.
    Gert er ráð fyrir að iðnaðarráðherra tilnefni a.m.k. tvo menn í stjórn nýs álvers með áheyrnar- og tillögurétti. ATLANTAL-aðilarnir hafa lagt til að settar verði almennar reglur um löghæfi stjórnarmanna og tryggt sé að ekki verði um hagsmunaárekstur að ræða sem er eðlilegt sjónarmið.

6.1.6 Iðnþróun og tækniþekking.
    Í aðalsamningi hefur verið gert ráð fyrir ákvæðum er varða frekari úrvinnslu áls hér á landi og þátt ATLANTAL-aðilanna í uppbyggingu tækniþekkingar og iðnþróun hér á landi. Ákvæðin eru í samræmi við ákvæði yfirlýsingar OECD um alþjóðlegar fjárfestingar frá 21. júní 1976 og viðmiðunarreglur OECD fyrir alþjóðafyrirtæki, með áorðnum breytingum. Í viðræðunum hefur verið lögð áhersla á þessar viðmiðunarreglur. Þá hefur verið lögð áhersla á að tryggja íslenskum aðilum rétt til að taka þátt í framkvæmdum við nýtt álver.

6.2 Skattlagning ATLANTAL.
    Viðræður um skattlagningu nýrrar álbræðslu hafa fram til þessa aðallega beinst að tveimur skattlagningaraðferðum. Önnur aðferðin byggir á hugmyndum um
einn fastan skatt eða framleiðslugjald sem ATLANTAL-aðilarnir sóttust eftir í upphafi umræðna um skattamálin. Hin aðferðin er að miða skattlagninguna við íslensk skattalög með þeirri aðlögun sem eðlileg er með tilliti til sérstöðu og stærðar fyrirtækisins og þess að það sé rekið sem bræðslusamlag.
    Lögð hefur verið mikil áhersla á það af Íslands hálfu að skattlagning ATLANTAL verði í meginatriðum í samræmi við íslensk skattalög og miðast viðræður við ATLANTAL-aðilana við það. Helstu atriðin sem rædd hafa verið eru:
—    Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir að ATLANTAL greiði öll launatengd gjöld og önnur gjöld sem tengjast starfsmönnum og atvinnurekendur almennt greiða.
—     Í öðru lagi er gert ráð fyrir að ATLANTAL greiði aðstöðugjöld og önnur þau gjöld er leggjast á aðstöðugjaldsstofn í einu umsömdu gjaldi.
—     Í þriðja lagi er gert ráð fyrir sérsamningi um álagningu fasteignagjalda og nokkur minni háttar gjöld sem ekki eiga við með sama hætti um álver og byggingar sem eru í þéttbýli, m.a. gatnagerðargjald, byggingarleyfisgjald og skipulagsgjald til ríkissjóðs.
—     Í fjórða lagi er gert ráð fyrir sérstöku fyrirkomulagi varðandi útreikning og greiðslu tekjuskatts og eignarskatts til ríkissjóðs.
    Þær undantekningar, sem rætt er um, helgast af sérstöðu fyrirtækisins og þeirri miklu fjárfestingu sem í því liggur. Hins vegar er gert ráð fyrir að álagning skatta og eftirlit með skattgreiðslum verði í höndum íslenskra skattyfirvalda. Gengið hefur verið út frá því að álverið verði rekið sem bræðslusamlag (tolling smelter) þannig að það bræðir ál úr súráli gegn gjaldi fyrir bræðsluna án þess að fyrirtækið verði eigandi súrálsins eða hráálsins. Álverið yrði rekið á kostnaðargrundvelli og því verður að semja um viðmiðanir til tekjuskatts sérstaklega. Bókfærð velta bræðslusamlagsins er því minni en sambærilegs álvers — sem rekið er sjálfstætt — sem nemur innkaupsverði súráls, en það er um þriðjungur af rekstrarkostnaði. Skattar, sem leggjast á aðstöðugjaldsstofn, leggjast á veltu bræðslusamlagsins og er stofninn lægri sem því nemur.
    ATLANTAL-aðilarnir hafa óskað eftir því að skattar, sem nú eru í gildi og leggjast mundu á álverið, verði skráðir í aðalsamninginn og samið um að aðrir skattar verði ekki lagðir á. Af Íslands hálfu hefur verið lagt til að aðeins verði samið um tiltekin frávik frá íslenskum skattalögum en fyrirtækið verði almennt háð skattlagningarvaldi íslenskra yfirvalda. Á þessu er grundvallarmunur og er enn ekki samkomulag um þetta atriði. Hugsanleg lausn gæti verið að ákvæði verði í aðalsamningi sem verndi ATLANTAL-aðilana fyrir
því að lagðir verði á skattar sem beindust sérstaklega að fyrirtækinu, svokölluð „non discrimination clause“.

6.3 Rafmagnssamningur.
    Gert er ráð fyrir langtímasamningi um sölu á rúmlega 2800 gwst. af raforku sem í meginatriðum yrði þannig frá sjónarmiði Íslendinga:
Heildartekjur af orkusölu til álversins gerðu gott betur en standa undir flýtingarkostnaði vegna virkjana. b.    Orkuverð yrði tengt verði á áli.
c.     Eðlileg endurskoðunarákvæði yrðu.
d.    Veittur yrði afsláttur frá orkuverði fyrstu starfsárin.
    ATLANTAL-aðilunum hefur verið gerð grein fyrir því að til þess að Landsvirkjun geti staðið við afhendingu orku á árinu 1994 verði að leggja í ákveðnar framkvæmdir þegar á þessu ári. Fram hefur komið af hálfu Alumax að það fyrirtæki hefur aldrei fyrr gert samning um orkukaup fyrir álbræðslu án þess að orkuver hafi þegar verið byggð.

6.4 Lóðar- og hafnarsamningur.
    Gert hefur verið ráð fyrir að ATLANTAL-álverið geri samning við hlutaðeigandi sveitarfélög um hafnar- og lóðaraðstöðu fyrir nýtt álver. Í því sambandi hefur verið gengið út frá því að samið yrði sérstaklega um hafnargjöld er staðið gætu undir endurgreiðslu kostnaðar vegna hafnargerðar. Við það hefur verið miðað að ríkið eða hlutaðeigandi sveitarfélög ættu landið sem álverið yrði byggt á en leigðu álverinu afnot þess til langs tíma, svo sem venjulegast er hér á landi.

6.5 Samningar um umhverfismál.
    ATLANTAL-aðilarnir hafa lagt mikla áherslu á að samningur um meginskilmála varðandi útblástur frá álverinu og aðrar mengunarvarnir verði undirritaður samhliða undirritun aðalsamnings um nýtt álver. Þeir hafa tekið skýrt fram að félögin geti ekki hafið framkvæmdir við nýtt álver nema slíkt samkomulag liggi fyrir. Unnið er að rannsóknum á umhverfisáhrifum álvers á þeim stöðum sem helst þykja koma til greina og er gerð grein fyrir þeim í kafla 8 hér á eftir. Á grundvelli þeirra verður hægt að ákveða mengunarvarnir og skilmála.

6.6 Samkomulag milli ATLANTAL-aðilanna um eignarhald, rekstur og fjármögnun.
    Gert er ráð fyrir að ATLANTAL-aðilarnir geri ítarlega samninga sín á milli um eignarhald, rekstur og fjármögnun álversins. Í því sambandi hefur verið gert ráð fyrir að Alumax annist stjórnun nýs álvers. Þá verða ATLANTAL-aðilarnir að semja sín á milli og við lánastofnanir um fjármögnun þess, en stefnt er að því að álverið verði fjármagnað á verkefnisgrundvelli (Project Financed) með 20–25% eigin fé og að stofnlán verði tryggð með hlutdeild í bindandi málmbræðslusamningum milli ATLANTAL-aðilanna og ATLANTAL-álversins.

7. STAÐSETNING ATLANTAL-ÁLVERSINS
    Á árunum 1981 og 1982 gerði staðarvalsnefnd iðnaðarráðuneytisins athuganir á tíu stöðum þar sem til greina þótti koma að reisa og reka álver. Á grundvelli þessara frumathugana var síðan ákveðið að kanna nánar á vegum staðarvalsnefndar hugsanlega staðsetningu nýs álvers á eftirtöldum sex stöðum: Dysnesi í Arnarneshreppi, Geldinganesi við Reykjavík, Helguvík við Keflavík, Vatnsleysuvík á Vatnsleysuströnd, Vogastapa við Njarðvík og Þorlákshöfn.
    Frá niðurstöðum var skýrt í skýrslu staðarvalsnefndar sem birtist árið 1986.
    ATLANTAL-aðilunum hafa að undanförnu verið kynntir þeir staðir sem helst hafa þótt koma til greina fyrir nýtt álver, þ.e. auk ofangreindra staða Grundartangi við Hvalfjörð, Reyðarfjörður og Straumsvík. Á grundvelli þeirrar kynningar og viðræðna við ATLANTAL-aðilana hefur verið ákveðið að gera nánari samanburð á stofn- og rekstrarkostnaði álvers á eftirtöldum fjórum svæðum á landinu: við Eyjafjörð, við Hvalfjörð, við Reyðarfjörð og á Reykjanesi (frá Straumsvík að Þorlákshöfn).
    Kostnaðaráætlun Bechtel/Lavalin um 185.000 tonna álver miðaðist við staðsetningu í Kapelluhrauni við Straumsvík, skammt sunnan við ÍSAL. Margt bendir nú til þess að staðsetning 200.000 tonna álvers við Straumsvík gæti verið heppilegri í hrauninu vestan við víkina í landi Óttarsstaða nokkru fjær íbúðabyggð í Hafnarfirði. Loftmengun í Hafnarfirði af völdum ATLANTAL-álversins þar yrði því væntanlega minni. Lauslegur samanburður bendir til þess að kostnaður við lóð og gerð hafnarbakka við vestanverða víkina sé litlu hærri en í Kapelluhrauni.
    Í Eyjafirði hefur einkum þótt koma til greina að staðsetja álver við Dysnes í Arnarneshreppi. Almenna verkfræðistofan hf. hefur gert lauslega könnun á kostnaði við lóð fyrir 200.000 tonna álver og er sá kostnaður talinn vera svipaður og í Straumsvík vestanverðri. Hafnaraðstaða er þó kostnaðarsamari við Dysnes.
    Í Reyðarfirði hafa einkum þrír staðir þótt koma til greina fyrir stórt álver, við Sómastaðagerði, við Eyri og á Leirum í botni Reyðarfjarðar. Lauslegur kostnaðarsamanburður á lóðar- og hafnargerð fyrir 200.000 tonna álver bendir til lægri kostnaðar en við Dysnes og Straumsvík.
    Á næstunni munu verða gerðar sams konar athuganir við Hvalfjörð og á Reykjanesi, þar með talin Þorlákshöfn, eftir því sem ástæða er til.
    Samanburðarathuganir munu einnig ná til annarra þátta en að ofan greinir svo sem til efnisflutninga, launa og flutnings á verkafólki, reksturs vinnubúða, kostnaðar við birgðarými og uppskipunartæki og áhrifa veðurs á framkvæmdir. Auk þess hefur verið gerð lausleg athugun á kostnaði við hafnargerð og orkuöflun. Hugsanlegt er að krafist verði mismunandi mengunarvarna, en ekki verður tekin afstaða til þess fyrr en að lokinni dreifingarspá sem unnið er að hjá NILU (Norsk Institutt for luftforskning).
    Gert er ráð fyrir því að á næstu vikum leggi ATLANTAL-hópurinn í samvinnu við íslenska aðila sjálfstætt mat á stofnkostnað og reksturskostnað álversins miðað við mismunandi staðsetningar.
    Staðsetning verður ákveðin að loknum framangreindum samanburðar- og kostnaðarathugunum og er að því stefnt að taka ákvörðun í byrjun júní. Staðarvalið er hluti af heildarsamningnum um álverið og verður af Íslands hálfu lögð áhersla á að það stuðli að bættu jafnvægi í atvinnu- og byggðaþróun auk þess sem tekið verði tillit til arðsemis- og umhverfissjónarmiða. Ríkisstjórnin hefur gert sérstaka samþykkt um þetta mál og fer hún hér á eftir:
    „Í framhaldi af viðræðum við Atlantal-aðilana og undirritun yfirlýsingar um byggingu nýs álvers, dags. 13. mars síðastliðinn, og vegna umræðu sem fram hefur farið í landinu um staðarval fyrir nýtt álver, lýsir ríkisstjórnin því yfir að af hennar hálfu verður lögð rík áhersla á að staðarvalið stuðli að jafnvægi í atvinnu- og byggðaþróun auk þess sem tekið verði tillit til arðsemis- og umhverfissjónarmiða.“

8. UMHVERFISÁHRIF ÁLVERS
    Í iðnaðarráðuneytinu hefur verið lögð áhersla á það að tryggja að fullnægjandi kröfur um mengunarvarnir og umhverfisvernd verði gerðar í nýju álveri sem hér kynni að verða byggt. Hér skal vikið að nokkrum atriðum í þessu sambandi.
    NILU er að gera dreifingarspár frá nýju álveri á loftmengun. Í fyrsta lagi er verið að gera dreifingarspá miðað við staðsetningu í Straumsvík miðað við útblástur frá ÍSAL og ATLANTAL-álveri sem staðsett yrði annaðhvort í Kapelluhrauni eða í landi Óttarsstaða við vestanverða Straumsvík. Í öðru lagi er miðað við að álverið verði reist við Dysnes við Eyjafjörð og loks í þriðja lagi miðað við að það verði reist við Sómastaðagerði við Reyðarfjörð. Sams konar athuganir verða gerðar við Hvalfjörð og á Reykjanesi, þar með talin Þorlákshöfn eftir því sem ástæða er til.
    Á árunum 1983–1985 voru gerðar ýmsar athuganir á náttúrufari og minjum við vestanverðan Eyjafjörð. Jafnframt voru framkvæmdar veðurfarsmælingar og gerð dreifispá fyrir flúor og brennisteinstvíildi frá 130.000 tonna álveri. Á grundvelli þeirrar spár voru metin áhrif flúor á gróður og búfé.
    Í tengslum við undirbúning vegna Kísilmálmverksmiðjunnar, sem átti að reisa við Reyðarfjörð, voru gerðar athuganir á loftgæðum og veðurfari í því sambandi. Jafnframt var á vegum staðarvalsnefndar iðnaðarráðuneytisins gerð athugun á náttúrufari og minjum í Reyðarfirði.
    ATLANTAL-hópurinn mun væntanlega ganga frá skýrslu um umhverfismál álversins í lok rannsóknatímabilsins þar sem gerð verður grein fyrir öllum rannsóknaniðurstöðum og fyrirhuguðum mengunarvörnum.
    Eitt helsta álitaefni varðandi mengun frá nýju álveri er hvort krefjast skuli vothreinsunar á SO 2. Forsendur þess að gera kröfu um vothreinsun geta verið nokkuð aðrar en t.d. í Noregi og Svíþjóð, sem einkum hefur verið horft til. Hins vegar er íslenska mengunarreglugerðin mjög ströng varðandi loftgæði. Útreikningar NILU á dreifingu loftmengunar mun væntanlega leiða í ljós hvaða kröfur er eðlilegt að gera varðandi þennan búnað.
    Iðnaðarráðherra hefur nýlega skipað nefnd sérfróðra aðila til að vera sér til ráðuneytis um umhverfisáhrif stóriðju og mun nefndin í upphafi sérstaklega meta umhverfisáhrif álvera. Nefndina skipa eftirtaldir: Skúli Johnsen borgarlæknir, formaður, Friðrik Pálmason lífeðlisfræðingur, Guðjón Jónsson efnaverkfræðingur, Hákon Aðalsteinsson líffræðingur, Jón Ingimarsson verkfræðingur, Jón Ólafsson haffræðingur og Magnús Jónsson veðurfræðingur.

9. ÁHRIF NÝS ÁLVERS Á BÚSETU OG VINNUMARKAÐ
    Byggðastofnun hefur metið áhrif þess að reist verði nýtt álver með 200 þúsund tonna framleiðslugetu á ári á búsetu og vinnumarkað. Drög að greinargerð stofnunarinnar er fylgiskjal IV með frumvarpinu.
    Í greinargerðinni er fjallað um áhrif nýs álvers á búsetu og vinnumarkað miðað við að það verði staðsett á höfuðborgarsvæðinu, við Dysnes í Eyjafirði eða við Reyðarfjörð. Hér verða rakin nokkur atriði úr greinargerðinni, en að öðru leyti er vísað til hennar.
    Í eftirfarandi töflu er yfirlit um mannaflaþörf vegna byggingar og reksturs álvers og framkvæmda í raforkukerfinu fyrir tímabilið 1990–1995.

Mannaflanotkun vegna byggingar og reksturs álvers (ársverk).



    1990    1991    1992    1993    1994    1995
Bygging álvers ...........     36    582    836    891    55
þar af erlent vinnuafl ...     7    116    167    178    11
Virkjanaframkvæmdir ......     286    627    810    718    447
Rekstur álvers ...........                 174    634    645
    —————————————————
Samtals     322    1.209    1646    1783    1.136    645

    Við framkvæmdirnar verða þannig um 1.600 ársverk í byggingariðnaði árin 1992 og 1993. Það samsvarar um 15% af fjölda ársverka í byggingariðnaði undanfarin ár. Í töflunni koma ekki fram ársverk við rekstur orkumannvirkja en áætlað er að starfsmenn við Blönduvirkjun verði 12, við Fljótsdalsvirkjun 20 og að fjölgað verði um 3 við Búrfell og 1 í Kröflu, eða alls um 36 manns.
    Byggðastofnun hefur metið margfeldisáhrif af byggingu og rekstri álversins. Að mati Byggðastofnunar kemur ávallt hluti af margfeldisáhrifum fram á höfuðborgarsvæðinu óháð því hvar á landinu álverið verði reist. Margfeldisáhrifin fyrir álver á höfuðborgarsvæðinu eru áætluð tvö, þ.e. fyrir hvert starf í álverinu skapast tvö önnur á höfuðborgarsvæðinu. Verði það reist í Eyjafirði verða margfeldisáhrifin á því svæði 1,3 en verði það reist við Reyðarfjörð verða margfeldisáhrifin á því svæði 1,0. Margfeldisáhrifin koma einkum fram í ýmsum þjónustugreinum.
    Varanleg margfeldisáhrif vegna nýs álvers á höfuðborgarsvæðinu verða samkvæmt þessu rúmlega 1.900 störf alls. Vöxtur mannafla á höfuðborgarsvæðinu frá 1990 til 1994 er framreiknaður um 3.100 ársverk hjá báðum kynjum án aðflutnings frá landsbyggðinni. Til samanburðar má nefna að ársverk á höfuðborgarsvæðinu voru rúmlega 71 þúsund 1987 og íbúafjöldinn er um 144 þúsund manns.
    Íbúafjöldi við vestanverðan Eyjafjörð er um 18 þúsund manns og var fjöldi ársverka 1987 8.740. Gera má ráð fyrir að heildaráhrif álvers við Dysnes á vinnumarkaðinn á Eyjafjarðarsvæðinu verði um 1.500 ársverk eða sem jafngildir um 17% fjölgun.
    Gert er ráð fyrir að vinnusókn álvers við Reyðarfjörð nái til Egilsstaða og Fellabæjar, Eskifjarðar og Fáskrúðsfjarðar auk Reyðarfjarðar. Á þessu svæði búa um 4.400 manns og hefur þeim fjölgað umfram landsmeðaltal undanfarin ár. Fjöldi ársverka í vinnusókninni var um 2.300 árið 1987. Áætlað er að heildaráhrif álvers, verði það reist í Reyðarfirði, verði um 1.300 ársverk á því svæði. Það jafngildir 56% fjölgun.

10. KÖNNUN Á ÞJÓÐHAGSLEGUM ÁHRIFUM NÝS ÁLVERS
    Þjóðhagsstofnun kannar nú þjóðhagsleg áhrif 200 þúsund árstonna álvers sem reist verði á árinu 1991–1994 og tilheyrandi virkjana en undirbúningur þeirra þarf að hefjast á þessu ári. Frumniðurstöður benda til þess að hagvöxtur á mælikvarða landsframleiðslu verði um 1% meiri að jafnaði á árunum 1990–1996 með nýju álveri en án þess. Það þýðir að landsframleiðslan verður orðin um 5,5% meiri 1996 með álveri en án þess. Í fylgiskjali nr. V með frumvarpi þessu er greinargerð Þjóðhagsstofnunar þar sem niðurstöður stofnunarinnar eru settar fram.
    Þjóðhagsstofnun og Byggðastofnun hafa starfað með sérfræðinganefnd iðnaðarráðuneytisins sem verið hefur að meta þjóðhagsleg áhrif aukinnar stóriðju. Nefndin vinnur nú að skýrslu um uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu til lengri tíma litið.
    Í sérfræðinganefnd um athugun á þjóðhagslegum áhrifum orkufrekrar stóriðju eru eftirtaldir: Birgir Árnason hagfræðingur, formaður (hefur nú hætt störfum), Guðmundur Magnússon prófessor, Guðni A. Jóhannesson verkfræðingur, Haraldur Ólafsson lektor, Jón Ingimarsson verkfræðingur (hefur tekið við formennsku), Sigurður Guðmundsson skipulagsfræðingur, Þorsteinn Ólafsson viðskiptafræðingur og Þórður Friðjónsson hagfræðingur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, er Landsvirkjun heimilað, að fengnu samþykki ríkisstjórnarinnar, að stækka Hrauneyjafossvirkjun í allt að 280 MW afl, Sigölduvirkjun í allt að 200 MW afl og gera ráðstafanir sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu og koma vinnslustigi þeirra í eðlilegt horf, m.a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga, svo og að virkja á ármótum Þjórsár og Tungnaár við Sultartanga (Sultartangavirkjun) með allt að 130 MW afli.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir því að hér til viðbótar komi sams konar heimild til að stækka Búrfellsvirkjun úr 210 MW í allt að 310 MW og Kröfluvirkjun úr 30 MW í allt að 60 MW.

Um 2. gr.


    Hér er gert ráð fyrir því að á eftir 2. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, komi ný málsgrein sem heimili iðnaðarráðherra að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 38 MW afli. Hér er um að ræða 1. áfanga fyrirhugaðs raforkuvers Nesjavallavirkjunar. Skal leyfið því aðeins veitt að fyrir liggi samningur um rekstur virkjunarinnar sem hluta af raforkukerfi landsins þannig að þjóðhagslega hagkvæmur samrekstur við raforkukerfið sé tryggður.

Um 3. gr.


    Hér er lögð áhersla á það sjónarmið að röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í raforkumálum skuli ráðast af væntanlegri nýtingu orkunnar þannig að tryggt verði hæfilegt jafnvægi orkuframboðs og eftirspurnar á sem hagkvæmastan hátt fyrir þjóðina í heild og orkunotendur. Er gert ráð fyrir því að iðnaðarráðherra meti fyrirhugaðar ráðstafanir í orkumálum hverju sinni með hliðsjón af þessu meginsjónarmiði og ákveði röð framkvæmda í samræmi við það.

Um 4. gr.


    Með 1. mgr. 6. gr. laga um Landsvirkjun, nr. 42/1983, komu staðfestar heimildir sem fyrirtækinu höfðu þá verið veittar til nýrra virkjana samkvæmt samkomulagi, dags. 11. ágúst 1982, milli ríkisstjórnar Íslands og Landsvirkjunar á grundvelli laga nr. 60/1981, um raforkuver.
    Í 4. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir því að í 1. mgr. 6. gr. laganna um Landsvirkjun, nr. 42/1983, verði jafnframt staðfest með sérstöku viðbótarákvæði heimild fyrir Landsvirkjun, að fengnu leyfi iðnaðarráðherra, skv. 7. gr. laganna, til að reisa og reka á grundvelli 1. mgr. 1. gr. laga um raforkuver, nr. 60/1981, stækkaða Hrauneyjafossvirkjun með allt að 280 MW afli, stækkaða Sigölduvirkjun með allt að 200 MW afli og Sultartangavirkjun með allt að 130 MW afli. Einnig er hér gert ráð fyrir sams konar staðfestingu á heimild fyrir Landsvirkjun til að reisa og reka stækkaða Búrfellsvirkjun með allt að 310 MW afli og stækkaða Kröfluvirkjun með allt að 60 MW afli, sbr. 1. gr. frumvarpsins.
    Í grein þessari er enn fremur gert ráð fyrir staðfestingu á heimildum Landsvirkjunar í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, til að gera ráðstafanir sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur orkuveranna á Þjórsársvæðinu og koma vinnslugetu þeirra í eðlilegt horf, m.a. með Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og stíflu við Sultartanga.

Um 5. gr.


    Þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


I.


    Í samræmi við þá meginstefnu frumvarpsins að röð framkvæmda ráðist af væntanlegri nýtingu orkunnar er hér lögð til ákveðin röð framkvæmda, verði af samningum um nýtt álver á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar og ATLANTAL-aðilanna frá 13. mars 1990. Gerðir hafa verið ítarlegir útreikningar á því hvernig hagkvæmast verður að afla orkunnar til ATLANTAL-álversins. Samkvæmt þeim verður hagkvæmast að ráðast auk Blönduvirkjunar í eftirtaldar framkvæmdir:
1.     Fljótsdalsvirkjun.
2.     Stækkun Búrfellsvirkjunar, ásamt lokaáfanga Kvíslaveitu og stækkun miðlunar í Þórisvatni.
3.     Fyrsta áfanga Nesjavallavirkjunar.
4.     Stækkun Kröfluvirkjunar.

II.


    Í yfirlýsingunni frá 13. mars 1990 er gert ráð fyrir að álbræðslan hefji framleiðslu á árinu 1994. Til þess að þessi dagsetning standist þarf verulegan undirbúning þegar á þessu ári af hálfu beggja aðilanna. Landsvirkjun þarf að hefja hönnun og undirbúningsframkvæmdir m.a. við Fljótsdalsvirkjun, stækkun Búrfells, 5. áfanga Kvíslaveitu, stækkun Þórisvatnsmiðlunar og háspennulínur. Eignaraðilar álbræðslunnar þurfa einnig að vinna verulega undirbúningsvinnu varðandi hönnun og verkfræðilegan undirbúning á þessu ári til þess að hægt verði að hefjast handa án frekari tafa þegar er félagið verður stofnað.
    Með hliðsjón af þessu er lagt til að Landsvirkjun verði veitt heimild til 300 m.kr. lántöku á þessu ári í þessu skyni. Ákvarðanir um þessar framkvæmdir og það að nýta þessar heimildir verða teknar í einstökum atriðum eftir því sem samningum um álverið vindur fram.



(Fylgiskjöl eru ekki til tölvutæk.)