Ferill 524. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989–90. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 524 . mál.


Ed.

1093. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 60/1981, um raforkuver, o.fl.

Frá minni hl. iðnaðarnefndar.



    Deilur hafa lengi staðið hér á landi um það hvernig væri skynsamlegast og hagkvæmast að nýta þá orku sem beislanleg er og hvernig bæri að koma henni í verð. Menn hafa heldur ekki verið á eitt sáttir um það hvort eða í hvaða mæli veita ætti erlendum aðilum aðgang að náttúruauðlindum og efnahagslífi Íslendinga eða hvort Íslendingar hefðu sjálfir bolmagn til að reka orkufrekan iðnað eða stóriðju til að nýta sér raforku í stórum stíl.
    Stefna Kvennalistans í virkjunarmálum hefur verið hófleg nýting íslenskra fallvatna sem miði að eigin þörfum Íslendinga en við höfum hafnað erlendri stóriðju.
    Þetta frumvarp boðar stórvirkjunarframkvæmdir í þágu stóriðju, þess vegna getur Kvennalistinn ekki stutt það.
    Stóriðja boðar aukin fjárhagsleg ítök erlendra aðila hér á landi en við teljum að það geti haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Mengunarhætta fylgir stóriðju eins og reynslan af álverinu í Straumsvík sannar. Þar hafa mengunarvarnir lengst af verið ófullnægjandi. Dýrt er að setja upp mengunarvarnabúnað og hafa iðnrekendur tregðast við að taka hann í notkun, bæði hér á landi og ekki síður víða erlendis. Þar stafar mengun frá reykháfum iðjuvera og fellur með súru regni sem þegar hefur valdið miklum skemmdum á gróðri og lífríki víða í Evrópu.
    Stóriðjusjónarmið hafa ráðið því að virkjunarframkvæmdir hafa verið bæði miklar og hraðar. Þetta hefur leitt til skuldasöfnunar erlendis og nema nú erlendar skuldir okkar um helmingi af landsframleiðslu, en skuldir vegna virkjunarframkvæmda eru drjúgur hluti þeirra.
    Gert er ráð fyrir að 200 þúsund tonna álver muni kosta a.m.k. 50 milljarða króna en virkjanir því tengdar um 40 milljarða króna. Íslendingar þurfa að fjármagna virkjanirnar og einhvern hluta af uppbyggingu álvers. Þetta krefst mikil fjármagns sem að langmestu leyti yrði fengið með því að taka erlend lán.
    Auknar stóriðjuframkvæmdir munu þannig auka við skuldasöfnun okkar erlendis. Er talið að erlendar skuldir verði um 12% hærri þeirra vegna á næstu árum. Arðsemisútreikningar miðast þó allir við hagkvæmustu virkjanakostina.
    Stóriðja veitir fáum atvinnu og fjárfesting að baki hverju starfi er meiri en í flestum öðrum atvinnugreinum. Hún er því ekki vænlegur kostur og dugar skammt þrátt fyrir margfeldisáhrif þegar hugað er að því að mæta þörfum þeirra sem koma út á vinnumarkaðinn á næstu árum og áratugum. Mun fleiri störf yrðu að vísu bundin við uppbyggingu virkjana og álvers í nokkur ár. Þau eru þó fremur einhæf, og framkvæmdirnar allar ásamt því fjármagni erlendis frá sem þeim fylgir líklegar til að valda verulegri þenslu og verðbólgu. Til að minnka slíka röskun í efnahagslífinu er líklegt að stjórnvöld dragi úr fjárfestingum innan lands og önnur atvinnuuppbygging verði látin sitja á hakanum.
    Stóriðja svarar því einungis í mjög takmörkuðum mæli þörfinni fyrir fleiri störf og meiri fjölbreytni í atvinnulífi á landsbyggðinni. Hún leysir ekki vanda þeirra kvenna sem nú eru atvinnulausar víða úti um land og eru jafnan fyrstar látnar víkja þegar atvinnuleysi segir til sín.
    Virkjunarframkvæmdir og stóriðja eru viðbrögð ríkisstjórnarinnar við vaxandi atvinnuleysi og fyrirsjáanlegum samdrætti í hagvexti. Ráðherrar hennar vilja ná sambærilegum hagvexti við nágrannaþjóðirnar og staðhæfa að álver muni tosa honum upp um 1% á árunum 1991–1997. Þeir spá því að landsframleiðsla verði rúmlega 5% meiri árið 1997 ef 200 þúsund tonna álver verður að veruleika og kaupmáttur verði 4–5% hærri en ella í lok tímabilsins en atvinnuleysi 0,2% minna. Það er þó vert að huga betur að þessum útreikningum. Þessi samanburður, eins og hann kemur fram í greinargerð frumvarpsins, er fyrst og fremst miðaður við þróun „með álveri“ eða „án álvers“ en er ekki miðaður við álver annars vegar og einhverja aðra atvinnuuppbyggingu hins vegar.
    Fábreytni atvinnulífsins á landsbyggðinni er stöðugt áhyggjuefni og togstreita er þegar hafin milli landshluta um álver sem bjargræði til að leysa vandann.
    Kvennalistakonur telja að aukin stóriðja og virkjunarframkvæmdir í hennar þágu séu skammtímalausnir á þeim vanda sem við blasir í íslensku atvinnulífi. Ókostir slíkra lausna eru yfirgnæfandi. Fulltrúar Kvennalistans munu því greiða atkvæði gegn þessu frumvarpi.

Alþingi, 28. apríl 1990.



Guðrún Agnarsdóttir,


fundaskr.