Ferill 228. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1990. – 1060 ár frá stofnun Alþingis.
113. löggjafarþing. – 228 . mál.


Nd.

324. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um almannatryggingar, nr. 67/1971, með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 113. löggjafarþingi 1990.)



1. gr.


    Næstsíðasta málsgrein 11. gr. hljóðar svo:
     Hver, sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár eða lengur, skal eiga rétt á töku ellilífeyris frá og með 60 ára aldri, enda sé að öðru leyti fullnægt skilyrðum þessarar greinar. Starfsár sjómanna skal í þessu sambandi miðast við að sjómaður hafi verið lögskráður á íslenskt skip eða skip gert út af íslenskum aðilum eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Nánari ákvæði um framkvæmd skulu sett með reglugerð.

2. gr.


     Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1991.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Samkvæmt gildandi ákvæðum á hver sá sem stundað hefur sjómennsku í 25 ár og náð hefur 60 ára aldri rétt á ellilífeyri enda hafi viðkomandi verið lögskráður á íslenskt skip eigi færri en 180 daga að meðaltali í 25 ár. Hér er gerð tillaga um rýmkun á skilyrðum fyrir sjómannaellilífeyri þannig að heimildin nái einnig til þeirra sjómanna sem sigla á skipum sem gerð eru út af íslenskum aðilum undir svokölluðum þægindafánum.
    Farmanna - og fiskimannasamband Íslands hefur lagt ríka áherslu á að breyting þessi nái fram að ganga miðað við 1. janúar 1991.