Ferill 1. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 1 . mál.


232. Nefndarálit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992.

Frá meiri hluta fjárlaganefndar.



    Ný þingskapalög gera ráð fyrir verulegum breytingum á starfssviði fjárlaganefndar sem áður var nefnd fjárveitinganefnd. Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. þingskapa skal m.a. vísa frumvarpi til fjárlaga, fjáraukalaga, lánsfjárlaga og laga um samþykkt á ríkisreikningi til nefndarinnar að lokinni 1. umr. um þau. Þá er kveðið á um að vísa skuli frumvarpi til fjárlaga að nýju til fjárlaganefndar að lokinni 2. umr.
    Samkvæmt ákvæðum eldri þingskapalaga bar fjárveitinganefnd aðeins að fjalla um fjárlög og fjáraukalög auk þingsályktunartillagna sem til hennar var vísað og vörðuðu útgjöld úr ríkissjóði. Hlutverk fjárlaganefndar samkvæmt hinum nýju þingsköpum er því mun víðtækara en það áður var.
    Í 2. mgr. 25. gr. er kveðið á um það nýmæli að fjárlaganefnd geti vísað til annarra fastanefnda þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem fjalla um málefnasvið þeirra. Með sama hætti geta aðrar fastanefndir ákveðið að fjalla um einstaka þætti fjárlagafrumvarpsins. Vísa ber frumvarpi til lánsfjárlaga og tekjugrein fjárlagafrumvarps til efnahags- og viðskiptanefndar. Fjárlaganefnd er falið að tilgreina fyrir hvaða tíma fagnefndirnar skulu skila áliti sínu svo að hún hafi nægilega rúman tíma til þess að taka afstöðu til tillagna fagnefndanna áður en hún gengur frá málinu fyrir 2. umr.
    Í samræmi við þetta fjallaði fjárlaganefnd um þessi nýmæli á fundi í sumar. Í framhaldi af því var formanni og varaformanni nefndarinnar ásamt Guðmundi Bjarnasyni falið það verkefni að gera tillögu um vinnubrögð á komandi vetri. Héldu þeir einnig fund með formönnum annarra fastanefnda. Á þeim fundi varð samkomulag um að nefndir tækju þá málaflokka, er undir þær féllu, til umræðu og umsagnar án þess að þeim væri sérstaklega vísað til þeirra. Einnig var rætt um að fara hægt í breytingar meðan reynsla væri að fást af hinni nýju skipan. Eftir afgreiðslu á fjárlagafrumvarpi í ár væri ástæða til að skoða frekari breytingar. Fjárlaganefnd ákvað síðan að skilafrestur nefndarálita yrði til 1. nóvember sl. en sá frestur var síðar lengdur til 10. nóvember.
    Flestar nefndir skiluðu áliti. Í nokkrum nefndum varð ágreiningur og skilaði þá minni hluti séráliti. Öll þessi álit eru prentuð sem fylgiskjal með þessu nefndaráliti eins og fyrir er mælt í þingskapalögum.
    Ekki er vafi á því að þessi nýbreytni er til bóta bæði fyrir störf fjárlaganefndar og annarra fastanefnda.
    Fjárlaganefnd hóf störf við undirbúning afgreiðslu fjárlaga 23. september sl. og átti viðtöl við fulltrúa sveitarfélaga. Síðan hefur nefndin haldið 45 bókaða fundi um frumvarpið og átt viðtöl við alls nálega 180 aðila sem komið hafa á fund nefndarinnar, en einnig hefur fjöldi aðila haft samband við einstaka nefndarmenn eða nefndarhluta. Auk þess hafa undirnefndir unnið að afgreiðslu einstakra málaflokka. Á þessum tíma hefur nefndin samhliða vinnu við fjárlagafrumvarpið fyrir árið 1992 fjallað um fjáraukalög fyrir árin 1991 og 1990 ásamt ríkisreikningi fyrir árið 1989. Í þessum störfum hefur nefndin notið aðstoðar fjármálaráðuneytisins og Ríkisendurskoðunar eins og á undanförnum árum. Þá hafa einstök ráðuneyti veitt nefndinni upplýsingar og aðstoð.
    Er nefndin hafði lokið afgreiðslu flestra þeirra erinda sem til hennar bárust, svo og skiptingu allra fjárfestingarliða, lágu fyrir breytingartillögur sem nefndin hafði sameiginlega unnið að og námu samtals til hækkunar á 4. gr. 220,2 millj. kr.
    Þá fékk nefndin til umfjöllunar tillögur sem ríkisstjórnin samþykkti á fundi sínum 9. desember sl. Eru þær tillögur, sem kunnugt er, flestar til sparnaðar á útgjöldum ríkisins en einnig nokkrar sem fela í sér aukin útgjöld. Enn aðrar varða tekjuhlið fjárlagafrumvarpsins. Meiri hluti nefndarinnar flytur verulegan hluta þessara tillagna við 2. umr. og nemur sparnaður samkvæmt þeim 957,6 millj. kr. Aðrar af þessum tillögum bíða 3. umr. Auk þessa leggur meiri hluti nefndarinnar fram við þessa umræðu tillögur um frekari lækkun útgjalda sem samtals nema 232 millj. kr.
    Í heild gera breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar við 2. umr. ráð fyrir 969,4 millj. kr. lækkun útgjalda.
    Nefndin hefur ekki lokið afgreiðslu nokkurra mála sem bíða 3. umr. Má þar nefna málefni sjúkrahúsa á höfuðborgarsvæðinu, þar með talið ríkisspítala, vegamál og nokkur önnur smærri mál. Enn fremur bíður samkvæmt venju tekjuhlið frumvarpsins, B-hluti og heimildir skv. 6. gr. afgreiðslu nefndarinnar við 3. umr.
    Minni hluti nefndarinnar hefur kosið að standa ekki að breytingartillögum meiri hlutans og mun hann skila séráliti.


SKÝRINGAR VIÐ BREYTINGARTILLÖGUR


00 Æðsta stjórn ríkisins


201    Alþingi: Viðfangsefni 1.01 Alþingiskostnaður lækkar um 7.000 þús. kr. og verður 237.800 þús. kr. Um er að ræða lækkun á launa- og rekstrarkostnaði.


01 Forsætisráðuneyti


171    Byggðastofnun: Framlag lækkar um 20.000 þús. kr. og verður 180.000 þús. kr., m.a. vegna lækkunar á rekstrarkostnaði stofnunarinnar.


02 Menntamálaráðuneyti


101    Menntamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 4.000 þús. kr. og verður 239.600 þús. kr. Um er að ræða ferðakostnað vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
318    Almennir framhaldsskólar, viðhald og stofnkostnaður: Viðfangsefni 6.90 Byggingarframkvæmdir lækkar um 5.500 þús. kr. og verður 299.500 þús. kr. vegna lækkunar á framlagi til framhaldsskóla í Reykjavík.
720    Grunnskólar, almennt: Viðfangsefni 1.41 Landakotsskóli, rekstrarstyrkur hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 5.400 þús. kr. vegna aukins rekstrarkostnaðar við skólann. Viðfangsefni 1.90 Grunnskólar, óskipt lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 36.500 þús. kr.
902    Þjóðminjasafn Íslands: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 58.000 þús. kr. Um er að ræða hækkun vegna sýninga á vegum safnsins. Viðfangsefni 5.90 Verndun gamalla húsa hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 10.300 þús. kr.
907    Listasafn Íslands: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 43.800 kr. Hækkunin er vegna leigu á húsnæði fyrir viðgerðir á verkum safnsins.
908    Kvikmyndasafn Íslands: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 8.900 þús. kr. Hækkunin er vegna varðveislu á gömlum filmum.
919    Söfn, ýmis framlög: Tilfærslur hækka um 6.100 þús. kr. og verða 48.000 þús. kr. Hækkunin skiptist þannig:
             a.    Liðurinn 1.10 Listasafn ASÍ hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 3.000 þús. kr. Hækkunin er vegna endurbóta á verkum safnsins.
             b.    Liðurinn 1.12 Listasafn Sigurjóns Ólafssonar hækkar um 2.500 þús. kr. og verður 4.500 þús. kr. vegna rekstrar.
             c.    Liðurinn 1.20 Byggða- og minjasöfn hækkar um 2.600 og verður 12.600.
973    Þjóðleikhús: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 27.500 þús. kr. og verður 254.000 þús. kr. vegna rekstrar.
982    Listir, framlög: Viðfangsefni 1.22 Starfsemi áhugaleikhópa hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 14.000 þús. kr. Viðfangsefni 1.76 Menningarsjóður félagsheimila hækkar um 1.400 þús. kr. og verður 7.500 þús. kr.
988    Æskulýðsmál: Viðfangsefni 1.17 Starfsemi KFUM og KFUK hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 4.200 vegna rekstrar á sumarbúðum.
989    Ýmis íþróttamál: Viðfangsefni 1.10 Íþróttasamband Íslands hækkar um 1.900 þús. kr. og verður 26.900 þús. kr. Viðfangsefni 1.11 Ólympíunefnd Íslands hækkar um 2.500 þús. kr. og verður 8.000 þús. kr. vegna Ólympíuleika á næsta ári. Viðfangsefni 1.12 Ólympíunefnd fatlaðra hækkar um 800 þús. kr. og verður 2.000 þús. kr. vegna Ólympíuleika á næsta ári. Viðfangsefni 1.16 Íþróttafélög, styrkir hækkar um 3.500 þús. kr. og verður 16.000 þús. kr. Viðfangsefni 1.21 Skáksamband Íslands hækkar um 2.200 þús. kr. og verður 4.400 þús. kr. Liðurinn 1.23 Skákmót, styrkir fellur brott. Liðurinn 1.24 Skólaskákmót fellur brott, en til þess er ætlast að þessum viðfangsefnum verði sinnt af lið Skáksambandsins.
999    Ýmislegt: Viðfangsefni 1.63 Menntastofnun Íslands og Bandaríkjanna hækkar um 1.200 þús. kr. og verður 2.700 þús. kr. vegna hækkunar á framlagi til USD-gildis.


03 Utanríkisráðuneyti


101    Utanríkisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.53 Þýðingar laga og reglugerða Evrópubandalagsins hækkar um 10.000 þús. kr. og verður 30.000 þús. kr. vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði.


04 Landbúnaðarráðuneyti


101    Landbúnaðarráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 72.500 þús. kr. Um er að ræða ferðakostnað vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
202    Hagþjónusta landbúnaðarins: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 500 þús. kr. og verður 12.600 þús. kr. Hækkunin er vegna þess að stofnuninni hefur verið falið viðfangsefni í tengslum við GATT-samninga.
290    Greiðslur vegna búvöruframleiðslu: Viðfangsefni 1.30 Beinar greiðslur til bænda lækkar um 295.000 þús. kr. og verða 1.475.000 þar sem gert er ráð fyrir að þær dreifist á 12 mánuði í stað 10 mánaða.
299    Búnaðarmál, ýmis verkefni: Tekinn er inn nýr liður 1.21 Landþurrkun 1.500 þús. kr. Viðfangsefni 1.22 Ýmis verkefni hækkar um 1.400 þús. kr. og verður 1.700 þús. kr.


05 Sjávarútvegsráðuneyti


101    Sjávarútvegsráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 85.000 þús. kr. Um er að ræða ferðakostnað vegna samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
299    Sjávarútvegsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefni 1.32 Gæðaátak, starfsmenntun, markaðsöflun og tilraunir í sjávarútvegi lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 42.500 þús. kr. vegna lækkunar á framlagi til starfsmenntunar í sjávarútvegi.


06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti


311    Lögreglustjórinn í Reykjavík: Viðfangsefni 1.20 Almenn löggæsla lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 703.700 þús. kr. vegna lækkunar á rekstrarkostnaði.
395    Landhelgisgæsla Íslands: Viðfangsefni 1.21 V/s Ægir lækkar um 10.200 þús. kr. og verður 112.200 þús. kr. Viðfangsefni 1.22 V/s Óðinn lækkar um 8.800 þús. kr. og verður 96.200 þús. kr. Viðfangsefni 1.23 V/s Týr lækkar um 12.000 þús. kr. og verður 114.600. Um er að ræða lækkun á ofangreindum viðfangsefnum vegna rekstrarkostnaðar skipa. Viðfangefni 1.30 Fluggæsla lækkar um 19.000 þús. kr. og verður 208.000 þús. kr. vegna lækkunar á rekstrarkostnaði flugvéla.
701    Biskup Íslands: Viðfangsefni 1.15 Ýmis verkefni hækkar um 500 þús. kr. og verður 5.700 þús. kr. Hækkunin er vegna safnaðaruppbyggingar.
711    Prestaköll og prófastsdæmi: Viðfangsefni 1.10 Prestar og prófastar hækkar um 1.800 þús. kr. og verður 311.000 þús. kr. Hækkunin er vegna stöðugildis aðstoðarprests í Keflavík.
790    Kirkjumál, ýmis kostnaður: Viðfangsefni 1.90 Ýmislegt hækkar um 2.400 þús. kr. og verður 5.400 þús. kr. Viðfangsefni 6.11 Hallgrímskirkja hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 7.000 þús. kr. Hækkunin er vegna viðgerðar á kirkjunni. Viðfangsefni 6.12 Hóladómkirkja hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 3.000 þús. kr.


07 Félagsmálaráðuneyti


101    Félagsmálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 1.000 þús. kr. og verður 75.100 þús. kr. vegna ferðakostnaðar við samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
700    Málefni fatlaðra: Tekið er inn nýtt viðfangsefni 1.20 Vistun geðfatlaðra 35.000 þús. kr.
722    Sólheimar Grímsnesi: Viðfangsefni 1.70 hækkar um 4.500 þús. kr. og verður 87.500 þús. kr. Hækkunin er vegna samþykkta fjárveitinganefndar frá 13. mars 1991 um að gert verði ráð fyrir 9 milljóna króna framlagi á árunum 1992 og 1993 sem lokauppgjöri vegna fjárhagsvanda heimilisins.
998    Ráðstöfunarfé: Viðfangsefni 1.01 Til ráðstöfunar samkvæmt ákvörðun ráðherra hækkar um 200 þús. kr. og verður 5.000 þús. kr.
999    Félagsmál, ýmis starfsemi: Viðfangsefni 1.27 Slysavarnafélag Íslands hækkar um 7.500 þús. kr. og verður 16.500 þús. kr. vegna viðhalds á Sæbjörgu. Viðfangsefni 1.32 Starfsmenntun í atvinnulífinu lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 48.000 þús. kr. vegna lækkunar á framlagi til starfsmenntunar.


08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti


101    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2.500 þús. kr. og verður 117.100 þús. kr. vegna ferðakostnaðar við samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
271    Tryggingastofnun ríkisins: Viðfangsefni 1.10 Lífeyristryggingar hækkar um 80.000 þús. kr. og verður 14.757.000 þús. kr. Viðfangsefni 1.20 Sjúkratryggingar hækkar um 600.000 þús. kr. og verður 9.409.000 þús. kr.
273    Atvinnuleysistryggingasjóður: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 150.000 þús. kr. og verður 1.280.000 þús. kr. Um er að ræða hækkun á framlagi til sjóðsins þar sem atvinnuleysi er talið verða meira á árinu 1992 en forsendur fjárlagafrumvarpsins gerðu ráð fyrir.
301    Landlæknir: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 9.000 þús. kr. og verður 42.900. Hækkunin er framlag til Krýsuvíkursamtakanna vegna reksturs á meðferðarheimili í Krýsuvík fyrir fíkniefnaneytendur.
325    Hollustuvernd ríkisins: Viðfangsefni 1.02 Heilbrigðiseftirlit lækkar um 5.000 þús. kr. og verður 9.700 þús. kr. Viðfangsefni 1.03 Rannsóknastofa lækkar um 5.000 þús. kr. og verður 23.300 þús. kr. Um er að ræða hækkun á sértekjum um 10.000 þús. kr. og verða þær 27.800 þús. kr. hjá stofnuninni.
350    Sjúkrahúsið Akranesi: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 2.200 þús. kr. og verður 459.000 þús. kr. vegna leiðréttingar á álagshlutfalli á launum.
358    Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 3.800 þús. kr. og verður 1.136.000 þús. kr. Lækkunin er vegna leiðréttingar á álagshlutfalli á launum.
367    Sjúkrahúsið Keflavík: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 1.600 þús. kr. og verður 223.500 þús. kr. vegna leiðréttingar á álagshlutfalli á launum.
381    Sjúkrahús og læknisbústaðir: Viðfangsefni 6.90 Bygging sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða hækkar um 4.200 þús. kr. og verður 294.200 þús. kr.
399    Heilbrigðismál, ýmis starfsemi: Viðfangsefni 1.31 Krabbameinsfélag Íslands, kostnaður við krabbameinsleit, lækkar um 19.000 þús. kr. og verður 103.100 þús. kr. Hér er um leiðréttingu að ræða vegna ofáætlunar í frumvarpi. Tekinn er inn nýr liður 1.72 Bláalónsnefnd 7.000 þús. kr. til rannsóknaverkefna. Viðfangsefni 1.90 Ýmis framlög hækkar um 4.100 þús. kr. og verður 14.100 þús. kr.
409    Hjúkrunarheimilið Skjól: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 17.000 þús. kr. og verður 275.000 þús. kr. Hækkunin er vegna sambýlis fyrir Alzheimer-sjúklinga.
500    Heilsugæslustöðvar, almennt: Viðfangsefni 1.10 lækkar um 64.600 þús. kr. og verður 81.700 þús. kr. Hér er um að ræða tilfærslu til heilsugæslustöðva vegna lækkunar á sértekjum þeirra.
510    – 586 Heilsugæslustöðvar. Um er að ræða lækkun á sértekjum að fjárhæð 149.000 þús. kr. og hækkun þeirra um 16.200 þús. kr. Á móti lækka tilfærslur að fjárhæð 64.600 þús. kr. á fjárlagalið Heilsugæslustöðvar, almennt. Viðfangsefni heilsugæslustöðva hækka þannig nettó um 68.200 þús. kr. og kemur skiptingin fram í breytingartillögum. Hér er um að ræða nýútkomna reglugerð um komugjald á heilsugæslustöðvar og ýmsa aðra sjúkraþjónustu sem leiddi til þess að lækka varð fyrri áætlun um sértekjur heilsugæslustöðva um 68.200 þús. kr.


09 Fjármálaráðuneyti


101    Fjármálaráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2.500 þús. kr. og verður 273.500 þús. kr. vegna ferðakostnaðar við samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
261    Ríkistollstjóri: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 5.000 þús. kr. og verður 94.300 þús. kr. vegna hækkunar á sértekjum hjá embættinu vegna sölu á tollskýrslueyðublöðum.
262    Tollstjórinn í Reykjavík: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 5.000 þús. kr. og verður 155.900 þús. kr. vegna lækkunar á rekstrarkostnaði embættisins.
481    Útgjöld samkvæmt heimildarákvæðum: Viðfangsefni 6.01 lækkar um 5.000 þús. kr. og verður 470.000 þús. kr.
995    Skýrsluvélakostnaður: Viðfangsefni 1.02 Tekjubókhaldskerfi lækkar um 2.000 þús. kr. og verður 168.000 þús. kr. Viðfangsefni 1.03 Skattavinnslukerfi lækkar um 2.000 þús. kr. og verður 138.000 þús. kr. Viðfangsefni 1.04 Bókhalds- og áætlanakerfi ríkisins lækkar um 1.000 þús. kr. og verður 46.000 þús. kr. Um er að ræða lækkun rekstrarkostnaðar við ofangreind kerfi.
999    Ýmislegt: Viðfangsefni 1.17 Ýmis sameiginlegur kostnaður lækkar um 8.500 þús. kr. og verður 14.000 þús. kr. Viðfangsefni 1.19 Ýmsar endurgreiðslur lækkar um 10.000 þús. kr. og verður 20.000 þús. kr. Viðfangsefni 6.20 Ríkisbifreiðar, framlag lækkar um 1.500 þús. kr. og verður 5.000 þús. kr.




10 Samgönguráðuneyti


333    Hafnamál: Tekinn er inn nýr liður 4 Sértekjur. Um er að ræða framkvæmdagjald til hafna að fjárhæð 125.000 þús. kr. vegna álags á vörugjald og aflagjald. Viðfangsefni 6.30 Hafnamannvirki hækkar um 75.300 þús. kr. og verður 762.300 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 6.39 Hafnamannvirki, Sandgerði 47.700 þús. kr.
485    Ýmis framlög: Tekinn er inn nýr liður 1.26 Ýmislegt 3.000 þús. kr. Tekinn er inn nýr liður 1.42 Ýmis ferðamál 2.000 þús kr.


11 Iðnaðarráðuneyti


201     Iðntæknistofnun Íslands: Tekinn er inn nýr liður 6.01 Tæki og búnaður 9.000 þús. kr. sem er leiðrétting.


12 Viðskiptaráðuneyti


101    Viðskiptaráðuneytið, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 6.000 þús. kr. og verður 70.600 þús. kr. Hækkunin skýrist þannig að 1.000 þús. kr. er framlag til Neytendasamtakanna og 5.000 þús. kr. er vegna ferðakostnaðar við samninga um Evrópskt efnahagssvæði.
201    Niðurgreiðslur á vöruverði: Viðfangsefni 1.01 lækkar um 100.000 þús. kr. og verður 4.475.000 þús. kr. Hér er um að ræða lækkun á niðurgreiðslum á mjólkurdufti.


14 Umhverfisráðuneyti


101    Umhverfisráðuneyti, aðalskrifstofa: Viðfangsefni 1.01 Yfirstjórn hækkar um 2.000 þús. kr. og verður 50.900 þús. kr. Hækkunin er vegna framlags ráðuneytisins til byggingarstaðlagerðar á árinu 1992.
190    Ýmis verkefni: Tekið er inn nýtt viðfangsefni, 1.28 Átak í sorphirðumálum 5.000 þús. kr. Viðfangsefni 6.91 Náttúruhús í Reykjavík fellur niður vegna frestunar á framkvæmdum við byggingu hússins.
210    Veiðistjóri: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 12.300 þús. kr. og verður 35.900 þús. kr. vegna kostnaðar við eyðingu refa og minka.
301    Skipulagsstjóri ríkisins: Viðfangsefni 1.01 hækkar um 4.500 þús. kr. og verður 85.000 þús. kr.

    Meiri hluti nefndarinnar leggur til að frumvarpið verði samþykkt með þeim breytingum sem gerð er tillaga um á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 10. des. 1991.



Karl Steinar Guðnason,

Pálmi Jónsson.

Sturla Böðvarsson.


form., frsm.



Árni Johnsen.

Gunnlaugur Stefánsson.

Einar K. Guðfinnsson.





Fylgiskjal I.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (01 Forsætisráðuneyti, 06 Dóms- og kirkjumálaráðuneyti).

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarps 1992 sem eru á hennar málefnasviði. Til útskýringar á helstu atriðum frumvarpsins komu á fundi nefndarinnar þeir Þorleifur Pálsson, skrifstofustjóri í dóms- og kirkjumálaráðuneyti, Gísli Árnason, skrifstofustjóri í forsætisráðuneyti, og Jón Steingrímsson, deildarstjóri í fjármálaráðuneyti.     
    Nefndin telur yfirferð þessa hafa verið gagnlega nefndarmönnum og hyggst halda áfram á sömu braut á næsta þingi. Mun hún skipuleggja þá vinnu í ljósi fenginnar reynslu.
    Nefndin telur sér ekki fært, miðað við þá takmörkuðu vinnu sem fram hefur farið í nefndinni, að taka afstöðu til einstakra liða í þessum hluta fjárlagafrumvarpsins. Ekki vannst tími til að ræða við fulltrúa Byggðastofnunar í tengslum við frumvarpið og áskilur nefndin sér rétt til að koma með athugasemdir síðar. Enn fremur munu einstakir nefndarmenn, ef þeir svo kjósa, lýsa viðhorfum sínum við framhaldsumræðu málsins.
    Áliti þessu fylgdi bréf sem nefndin ritaði dóms- og kirkjumálaráðherra 7. nóvember 1991.

Alþingi, 7. nóv. 1991.



Sólveig Pétursdóttir, form.


Anna Ólafsdóttir Björnsson.


Björn Bjarnason.


Eyjólfur Konráð Jónsson.


Ingi Björn Albertsson.


Jón Helgason.


Kristinn H. Gunnarsson.


Ólafur Þ. Þórðarson.


Össur Skarphéðinsson.


Fylgiskjal II.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá meiri hluta félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á hennar málefnasviði, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. þingskapa. Við umfjöllun nefndarinnar hafa starfsmenn félagsmálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis setið fundi hennar og fékk nefndin hjá þeim skýringar á helstu atriðum er vörðuðu félagsmálakafla frumvarpsins.
    Frá félagsmálaráðuneytinu komu Húnbogi Þorsteinsson skrifstofustjóri og Sturlaugur Tómasson deildarstjóri og frá fjármálaráðuneytinu kom Einar Sverrisson, yfirviðskiptafræðingur fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins. Þá komu einnig í tengslum við fjárlagaumfjöllun nefndarinnar Þórður Skúlason, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, og frá Þroskahjálp Ásta Þorsteinsdóttir formaður, Svanfríður Larsen varaformaður og Lára Björnsdóttir framkvæmdastjóri.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að umfjöllun hennar um fjárlagafrumvarpið hafi verið gagnleg nefndarmönnum og jafnframt að þessi þáttur eigi eftir að verða æ mikilvægari hluti af starfi nefndarinnar á haustþingi. Meiri hlutinn álítur að reynslan af fjárlagavinnunni sýni að nauðsynlegt er að undirbúningur hennar hefjist mun fyrr en mögulegt var á þessu þingi. Þá telur meiri hlutinn einnig æskilegt að á næsta þingi einbeiti hún sér að tilteknum málaflokkum á málefnasviði ráðuneytisins þannig að fjárlagavinna nefndarinnar verði markvissari. Að mati meiri hlutans kæmi til greina að ákvörðun um slíkt væri tekin í samráði við fjárlaganefnd fyrir þinglok að vori.
    Í ljósi þess að þessi fyrsta yfirferð nefndarinnar á fjárlagafrumvarpinu var mjög almenns eðlis ákvað meiri hluti hennar að gera ekki athugasemdir við félagsmálakafla frumvarpsins.

Alþingi, 6. nóv. 1991.



Rannveig Guðmundsdóttir, form.


Guðjón Guðmundsson.


Eggert Haukdal.


Gunnlaugur Stefánsson.


Einar K. Guðfinnsson.





Fylgiskjal III.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (07 Félagsmálaráðuneyti).

Frá minni hluta félagsmálanefndar.



     Minni hluti félagsmálanefndar Alþingis er sammála því sem fram kemur í nefndaráliti meiri hlutans um að fjárlagavinna þurfi að hefjast fyrr til að ná markvissari vinnubrögðum.
     Eftirfarandi atriði varðandi fjárlagafrumvarpið vill minni hluti félagsmálanefndar gera sérstakar athugasemdir við:
     Of margir endar eru lausir hvað varðar samskiptin við sveitarfélögin í landinu og ýmsu er slegið fram án samráðs og samvinnu við þau.
     Boðuð er fækkun undanþágna í virðisaukaskatti en ekki er ljóst hvort þau áform ná til endurgreiðslu til sveitarfélaga, m.a. á sérfræðiþjónustu, ræstingu og snjómokstri.
     Í 6. gr. frumvarpsins er heimildarákvæði um að selja eignarhluta ríkissjóðs í húseignum sem sveitarfélögin eiga með ríkissjóði. Fullkomlega er óljóst hvað þetta hefur í för með sér fyrir sveitarfélögin.
     Fasteignamati ríkisins er ætlað að afla 21 milljónar króna í sértekjur sem að langmestu leyti þýðir aukin útgjöld sveitarfélaga vegna þess að þau eru stærsti viðskiptaaðili stofnunarinnar.
     Í húsnæðismálum er boðuð aukin þátttaka sveitarfélaga í félagslega íbúðakerfinu, auk almennrar vaxtahækkunar.
     Varðandi ríkisábyrgð á launum er minni hlutinn tilbúinn að ræða breytt fyrirkomulag sem kemur í veg fyrir misnotkun þessara réttinda, en telur upphæðina í frumvarpinu, sem ætluð er til að mæta þessum ábyrgðum, algjörlega óraunhæfa.
     Þetta eru aðeins fá dæmi af mörgum um óljósar og óútfærðar hugmyndir í frumvarpinu sem valda sveitarstjórnarmönnum áhyggjum.
     Hvað varðar málefni fatlaðra mótmælir minni hluti félagsmálanefndar harðlega að fötluð börn þurfi að taka þátt í hinum nýju þjónustugjöldum á heilsugæslustöðvum og hækkuðum göngudeildargjöldum sem bætast nú við óheyrilegan lyfjakostnað.
    

Alþingi, 6. nóv. 1991.



Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Ingibjörg Pálmadóttir.


Jón Kristjánsson.


Kristinn H. Gunnarsson.





Fylgiskjal IV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Nefndin hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga. nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarps 1992 sem eru á hennar málefnasviði.
    Til fundar við nefndina komu Páll Sigurðsson ráðuneytisstjóri, Edda Hermannsdóttir skrifstofustjóri og Svanhvít Jakobsdóttir deildarstjóri, frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti, og Björn Matthíasson frá fjármálaráðuneyti og útskýrðu þau helstu liði frumvarpsins. Enn fremur var tekið upp það nýmæli að heimsækja sjúkrahús. Heimsóttir voru Landakotsspítali, Borgarspítali og St. Jósefsspítali og rætt við forráðamenn um rekstur og starfsemi þessara stofnana. Meiri hluti nefndarinnar telur að þessi yfirferð fjárlagafrumvarpsins, sem og heimsóknirnar á sjúkrahúsin, hafi reynst nefndarmönnum afar fróðlegar.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki í þessu áliti athugasemdir við einstaka þætti í heilbrigðis- og tryggingakafla fjárlagafrumvarpsins. Þar ræður mestu að nefndin hafði ekki nægan tíma til að fjalla um þennan þátt frumvarpsins og varð því yfirferð nefndarinnar mjög almenns eðlis og ekki tækifæri til að fjalla um þennan mikla og flókna málaflokk sem skyldi. Meiri hluti nefndarinnar er sammála um að reynslan af fjárlagavinnunni sýni að forsenda þess að nefndin geti brotið svo víðfeðman og flókinn málaflokk til mergjar sé að undirbúningur hennar hefjist mun fyrr en mögulegt var á þessu þingi og jafnframt að henni, sem öðrum fagnefndum þingsins, verði almennt ætlaður meiri tími til yfirferðar frumvarpsins. Í þessu sambandi kæmi til greina að nefndir hæfu undirbúningsvinnu að sumri, t.d. með heimsóknum til stofnana á vegum ráðuneytisins, og jafnframt að nefndunum gæfist kostur á að fjalla um málið fram til síðari hluta nóvembermánaðar.
    Meiri hluti nefndarinnar vill leggja áherslu á að í þeim veigamiklu breytingum, sem fram undan eru í heilbrigðisþjónustu, verði fagleg vinnubrögð höfð í fyrirrúmi.
    Einstakir nefndarmenn munu, ef þeir svo kjósa, lýsa nánar viðhorfum sínum við framhaldsumræðu málsins og skoða málefni heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis í ljósi heildarniðurstöðu fjárlaga.

Alþingi, 8. nóv. 1991.



Lára Margrét Ragnarsdóttir, varaform.


Björn Bjarnason.


Guðmundur Hallvarðsson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Valgerður Gunnarsdóttir.





Fylgiskjal V.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (08 Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti).

Frá minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar.



    Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis getur tekið undir þá skoðun meiri hlutans að of skammur tími hafi gefist til að fara yfir þá umfangsmiklu málaflokka sem undir nefndina heyra og taka þarf afstöðu til við afgreiðslu fjárlaga. Engu að síður telur minni hlutinn brýnt að nefndin gefi fjárlaganefnd faglega umsögn um ýmsa þætti sem orka tvímælis í fyrirliggjandi fjárlagafrumvarpi. Vill minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar því koma eftirfarandi athugasemdum á framfæri við fjárlaganefnd:
    Daggjaldanefnd sjúkrahúsa á að leggja niður samkvæmt frumvarpinu. Hún hefur haft það hlutverk að gera tillögur um daggjöld fyrir sjúkrahúsin og hjúkrunarheimilin. Af fjárlagafrumvarpinu er ekki hægt að sjá hvernig daggjaldaákvörðun á að fara fram, en ef ákvörðun á að flytjast til heilbrigðisráðuneytis og ráðherra og þeir aðilar, sem komið hafa nálægt daggjaldaákvörðunum fram til þessa, eins og fjármálaráðuneytið og Tryggingastofnun ríkisins, eru ekki lengur hafðir með í ráðum er hér um aukna miðstýringu af hálfu ráðuneytis heilbrigðis- og tryggingamála að ræða.
    Fjárveitingar til yfirstjórnar Tryggingastofnunar ríkisins eru hækkaðar um tæp 19% á sama tíma og einstakir bótaflokkar lífeyristrygginga og sjúkratrygginga eru lækkaðir að raungildi.
    Framlag til lífeyristrygginga í heild er lækkað um 330 m.kr. Ekki verður séð af frumvarpinu hvar sá sparnaður á að koma niður. Er mikilvægt að slíkar tillögur liggi fyrir áður en frumvarpið er afgreitt frá Alþingi. Varar minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar við því að almennur bótaréttur sé skertur eða bótaupphæðir lækkaðar frá því sem nú er. Þá geta hugmyndir um einhliða tekjutengingu orkað mjög tvímælis ef ekki er tryggt að eignir og eignatekjur komi inn í þá mynd.               Sjúkratryggingar eru lækkaðar um 12% frá fjárlögum yfirstandandi árs. Þetta á einkum að gerast með eftirfarandi hætti:
         
    
    Flytja á fimm stofnanir af daggjöldum á föst fjárlög.
         
    
    Viðhaldskostnaður sjúkrastofnana lækkar þar sem reiknað er með að 137 m.kr. úr Framkvæmdasjóði aldraðra fari í viðhaldskostnað sjúkrastofnana. Jafnhá upphæð úr sjóðnum á að renna til verkefna skv. 3.–5. tölul. 12. gr. laga um málefni aldraðra. Þetta þýðir að aðeins 140 m.kr. standa eftir í sjóðnum til nýframkvæmda í þágu aldraðra. Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar vill vekja athygli á því að mjög brýn þörf er fyrir hjúkrunarrými fyrir aldraða í Reykjavík. Samkvæmt úttekt sem unnin var á þessu ári vantar um 260 hjúkrunarpláss þar.
         
    
    Kostnaður vegna hjálpartækja lækkar um 95 m.kr. og á að ná þeirri lækkun fram með útboðum og aukinni greiðsluþátttöku notenda. Hvergi kemur fram með hvaða hætti greiðsluþátttakan eigi að vera og hvort einhverjir hópar eigi að bera hana öðrum fremur.
         
    
    Útgjöld vegna 39. gr. almannatryggingalaga lækka um 30 m.kr. en undir þann lið falla ýmsar bætur sjúkratrygginga, svo sem styrkir til tannviðgerða, sjúkraþjálf-                   un, ferðakostnaður til útlanda o.fl. Ekkert kemur fram um það hvernig fyrirhugað sé að ná fram þessum sparnaði.
         
    
    Lækniskostnaður er lækkaður um 260 m.kr. með því að láta þá sem þurfa á þjónustunni að halda borga hærra gjald. Til að ná þessum sparnaði þarf að öllum líkindum að hækka komugjald til sérfræðings úr 900 kr. í 1.500 kr. eða um 66%. Vill nefndin benda á að hækkanir sem þessar geta komið mjög illa niður á ákveðnum hópum, svo sem foreldrum sjúkra og fatlaðra barna, en greiða þarf fullt gjald vegna þeirra þar sem þau flokkast ekki sem öryrkjar fyrr en við 16 ára aldur.
         
    
    Tannlæknakostnaður er lækkaður um 280 m.kr. með því að láta þá sem þurfa á þjónustunni að halda taka aukinn þátt í kostnaðinum. Ekki kemur fram í frumvarpinu hvernig það skuli gert.
         
    
    Áætlað er að lækka lyfjakostnað um 800 m.kr. vegna þeirra breytinga á lyfjareglugerð sem tóku gildi 1. júlí sl. Þetta þýðir með öðrum orðum að halda á óbreyttu fyrirkomulagi þrátt fyrir ýmsa ágalla sem fram hafa komið á reglugerðinni. Við meðferð málsins í heilbrigðis- og trygginganefnd hefur komið fram að útgáfa lyfjakorta hefur margfaldast. Útgefin lyfjakort voru um miðjan október sl. orðin um 13.500 talsins og þeim hefur enn fjölgað að undanförnu. Þá hefur komið fram í máli heilbrigðisráðherra að veruleg aukning hefur orðið á notkun heimildabóta almannatrygginga. Þetta þýðir annars vegar að útgjöld verða til annars staðar í stað þess sem skráð er sem sparnaður í heilbrigðiskerfinu og hins vegar að reglurnar eru ekki lengur almennar og gagnsæjar. Sú staðreynd býður heim lokuðum vinnubrögðum og því að þeir sem „kunna á kerfið“ fái afgreiðslu sinna mála en hinir ekki. Enn fremur skal bent á að ekkert liggur enn fyrir á Alþingi um það hvernig taka skal á einokunargróða apótekaranna né heldur að gert sé ráð fyrir breytingum á lyfjaverðlagningu í heild. Eina breytingin snýr því að sjúklingunum sjálfum.
    Í frumvarpinu er gengið út frá sameiningu Borgarspítala og Landakotsspítala og er fjárveiting til þessara tveggja sjúkrahúsa sameinuð í eina upphæð sem er 310 m.kr. lægri en sameiginleg fjárveiting til þeirra á fjárlögum ársins 1991. Verður ekki séð hvernig þetta fær staðist, sérstaklega í ljósi þess að sameiningin, ef af henni verður, mun án efa taka umtalsverðan tíma. Þeir fjármunir, sem ætlaðir eru til að greiða fyrir sameiningu spítalanna, nægja hvergi til allra þeirra breytinga sem þurfa að eiga sér stað, bæði á Landakotsspítala og Borgarspítala, til þess að hægt sé að ná fram þeim skipulagsbreytingum sem stefnt er að. Þá vill minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar benda á að það orkar tvímælis, bæði út frá faglegu og fjárhagslegu sjónarmiði, að sameining þessara sjúkrahúsa sé til hagsbóta. Þyrfti úttekt á þeim þáttum að liggja fyrir áður en ráðist er í svo viðamikið verkefni.
                  Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar vill sérstaklega vekja athygli á að ekki hefur farið fram könnun á því hvort hagkvæmt og æskilegt sé að gera Landakotsspítala að öldrunarspítala. Þá verður heldur ekki séð að þessi breyting hafi í för með sér fjölgun á hjúkrunarrúmum fyrir aldraða þar sem B-álmu Borgarspítalans var ætlað að rúma um 160 aldraða en á Landakoti geta rúmast um 130. Þá er jafnframt gert ráð fyrir að Hafnarbúðum verði lokað en þar eru nú 25 sjúkrarúm en auk þess njóta 28 aldraðir þjónustu dagdeildarinnar. Vill minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar sérstaklega vara við hugmyndum um að loka Hafnarbúðum en það hjúkrunarheimili hefur löngu sannað tilverurétt sinn.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að St. Jósefsspítalanum í Hafnarfirði verði breytt í öldrunarsjúkrahús og eru fjárveitingar samkvæmt frumvarpinu í samræmi við það. Engin fagleg úttekt liggur fyrir um að þessi breyting sé skynsamleg. Flest bendir til þess — og hafa stjórnendur sjúkrahússins lagt fram rökstudda greinargerð í þeim efnum — að óskynsamlegt sé að breyta sjúkrahúsinu í öldrunarsjúkrahús. Fyrir liggur bréf frá læknaráðum Borgarspítala og Ríkisspítala um að útilokað sé fyrir þessi sjúkrahús að taka að sér þær aðgerðir sem hingað til hafa verið gerðar á St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Þessi breyting mun því öðru fremur hafa í för með sér að álag á spítalana í Reykjavík mun aukast og biðlistar eftir aðgerðum lengjast og er tæplega á það bætandi.
    Hætta á rekstri Fæðingarheimilis Reykjavíkur í núverandi mynd samkvæmt frumvarpinu en verkefni þess eiga að færast til Landspítala. Fæðingardeild Landspítalans er nú þegar yfirfull og verður tæplega séð hvernig hún á að bæta á sig þeim fæðingum sem Fæðingarheimilið sinnir nú. Þá vill minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar benda á að ekki verður séð hvernig kvennadeild Landspítalans á að auki að anna þeim aðgerðum sem nú eru framkvæmdar á Landakotsspítala og St. Jósefsspítala í Hafnarfirði en flytjast yfir á Landspítalann við þær breytingar sem fyrirhugaðar eru á þessum sjúkrahúsum.
    Í fjárlögum ársins 1990 og 1991 var inni í 6. gr. heimild til fjármálaráðherra til að kaupa eða taka á leigu húsnæði fyrir heilsugæslustöðvar í Reykjavík og taka til þess nauðsynleg lán. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 fellur þetta ákvæði brott úr 6. gr. Uppbygging heilsugæslu í Reykjavík mun því stöðvast. Á liðnum 381 Sjúkrahús og læknisbústaðir eru 290 m.kr. til uppbyggingar sjúkrahúsa, heilsugæslustöðva og læknisbústaða um land allt. Sú fjárhæð er óskipt. Það er sama upphæð og var í fjárlögum ársins 1991 og mun því hvergi duga til uppbyggingar heilsugæslustöðvar í Reykjavík.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir 375 m.kr. auknum sértekjum heilsugæslustöðva og ætlast er til að þær verði innheimtar með því að láta einstaklingana, sem þurfa á þjónustu heilsugæslustöðvanna að halda, greiða fyrir þá þjónustu, en hún hefur verið gjaldlaus árið 1991. Vill minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar sérstaklega vara við hugmyndum um gjaldtöku vegna heilsuverndar og fyrirbyggjandi aðgerða og nefnir sérstaklega í því sambandi mæðraskoðun og ungbarnaeftirlit.
    Í frumvarpinu er gert ráð fyrir fimm nýjum stöðum í heilsugæslunni. Hér er um að ræða stöður hjúkrunarfræðinga og annars starfsfólks. Hér er um allt of fáar stöður að ræða því að bara í Reykjavík vantar a.m.k. fimm stöður hjúkrunarfræðinga til að hægt sé að halda skólahjúkrun gangandi á næsta ári þar sem heilsugæslustöðvarnar í höfuðborginni hafa sífellt verið að fá meiri og víðtækari verkefni á sviði heimahjúkrunar án þess að stöðugildum hafi fjölgað á heilsugæslustöðvunum. Minni hluti heilbrigðis- og trygginganefndar vekur athygli á því að sú stefna að aldraðir eigi að búa á eigin heimilum eins lengi og þeim er unnt kallar á mikla aukningu heimahjúkrunar. Að öðrum kosti er stefnan orðin tóm.
.
    Áætlað er að verja 1.050 m.kr. til Atvinnuleysistryggingasjóðs á næsta ári sem er 150 m.kr. lækkun frá því sem er á þessu ári. Þó hafa birst spár um að atvinnuleysi á næsta ári gæti orðið 2% að meðaltali miðað við 1,5% á þessu ári eða að atvinnuleysi aukist um þriðjung.
    Í greinargerð frumvarpsins kemur fram að fjárveitingar til rekstrar eru settar fram á áætluðu janúarverðlagi 1992 en fjárveitingar til annarra þátta á meðalverðlagi næsta árs. Það er því ekki allt sem sýnist í samanburði rekstrarfjárveitinga og annarra fjárveitinga. Rekstrarfjárveitingar hækka yfirleitt meira samkvæmt frumvarpinu en aðrar fjárveitingar. Þannig er gert ráð fyrir að rekstrarfjárveitingar til heilbrigðisráðuneytisins sjálfs, aðalskrifstofu, aukist um 23% og fjárveitingar til yfirstjórnar Tryggingastofnunar ríkisins um 19%. Það er langt umfram verðlagsforsendur í öðrum þáttum fjárlagafrumvarpsins.
    Varað skal sérstaklega við þeirri lækkun fjárveitinga sem fram kemur til Hollustuverndar ríkisins. Hollustuverndin þarf að sinna vaxandi verkefnum og það kemur illa heim og saman við aukna áherslu í umhverfismálum að skera niður framlög til þessarar mikilvægu stofnunar.
     Þeir flokkar, sem standa að minni hluta heilbrigðis- og trygginganefndar Alþingis, mótmæla almennt þeim vinnubrögðum og þeirri stefnu sem núverandi heilbrigðisráðherra hefur fylgt. Sparnaði í heilbrigðiskerfinu verður ekki náð nema með víðtækum skipulagsbreytingum en ekki með því að leggja gjöld á sjúklinga og þá sem njóta heilbrigðisþjónustunnar.

Alþingi, 11. nóv. 1991.



Finnur Ingólfsson.


Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.


Ingibjörg Pálmadóttir.


Svavar Gestsson.





Fylgiskjal VI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (11 Iðnaðarráðuneyti).

Frá iðnaðarnefnd.



    Nefndin hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 25 1991 farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem tilheyra málefnasviði hennar. Til fundar við nefndina komu Björn Friðfinnsson ráðuneytisstjóri, Kristmundur Halldórsson deildarstjóri og Kjartan Gunnarsson frá iðnaðarráðuneyti, auk Margeirs Guðmundssonar viðskiptafræðings, frá fjármálaráðuneyti. Þeir gerðu grein fyrir helstu atriðum frumvarpsins. Jafnframt komu til fundar við nefndina þeir Kristján Jónsson og Eiríkur Briem frá Rafmagnsveitum ríkisins til viðræðna um þátt þeirrar stofnunar í frumvarpinu.
    Nefndin ræddi með ítarlegum hætti einstaka þætti frumvarpsins. Enda þótt skiptar skoðanir hafi verið með nefndarmönnum um ýmsa þætti frumvarpsins og þær tillögur, sem þar eru gerðar, lögðu nefndarmenn eigi að síður mikla áherslu á að koma á framfæri við fjárlaganefndina sameiginlegum ábendingum. Nefndin er sammála um að yfirferð og umræða í nefndinni hafi verið afar gagnleg. Hún telur rétt að í áliti hennar til fjárlaganefndar sé bent á eftirfarandi atriði:
    Iðnráðgjafar. Nefndin bendir á að gert er ráð fyrir því að flytja þessa starfsemi til Byggðastofnunar en ekki er ljóst hvort gert er ráð fyrir útgöldum vegna iðnráðgjafa í fjárlagatillögum Byggðastofnunar.
    Umræða spannst einnig um svonefnda „opna liði“ er samtals nema 74,6 millj. kr. Fram kom sú afstaða að nauðsynlegt væri að samræma uppsetningu slíkra liða milli ráðuneyta, en um það reyndust skiptar skoðanir í nefndinni.
    Fjallað var um málefni Orkusjóðs og fram komu ábendingar um að nauðsynlegt væri að efna í framtíðinni til sérstaks átaks til að styrkja dreifikerfið. Undir þetta sjónarmið var tekið af talsmönnum Rarik og iðnaðarráðuneytis. Auk þessara atriða var ítarlega rætt um niðurgreiðslur á raforku vegna húshitunar.
    Þá var jafnframt rætt um Iðntæknistofnun en samkvæmt greinargerð vantar að gera ráð fyrir stofnkostnaði vegna hennar í fjárlagafrumvarpinu sjálfu.
    Í þingsköpunum er gert ráð fyrir þeim möguleika að nefndir geri tillögur til fjárlaganefndar um einstakar breytingar á fjárlagafrumvarpinu. Nefndin ákvað að þessu sinni að láta einungis ábendingar nægja. Hins vegar áskilja einstakir nefndarmenn sér að sjálfsögðu allan rétt til að flytja eða fylgja breytingartillögum þegar frumvarp til fjárlaga fyrir árið 1992 verður rætt á Alþingi.

Alþingi, 8. nóv. 1991.



Össur Skarphéðinsson, form.


Guðjón Guðmundsson.


Finnur Ingólfsson.


Hjálmar Jónsson.


Kristín Einarsdóttir.


Páll Pétursson.


Sigríður A. Þórðardóttir.


Svavar Gestsson.


Tómas Ingi Olrich.





Fylgiskjal VII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (04 Landbúnaðarráðuneyti).

Frá landbúnaðarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á hennar málefnasviði, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. þingskapa. Til grundvallar því starfi var leitast við að meta hvort frumvarp til fjárlaga tæki í nægilega ríkum mæli mið af þeirri löggjöf sem í gildi er á þessum vettvangi og oft og tíðum byggist á samningum eða samkomulagi milli þeirra sem í hlut eiga og Alþingi hefur haft frumkvæði að, þ.e. að leikreglur þingræðisins séu virtar af framkvæmdarvaldinu með eðlilegum hætti. Þessi verkatilhögun leggur grundvöll að því samkomulagi sem er í landbúnaðarnefnd um afgreiðslu málsins en haggar í engu rétti einstakra nefndarmanna varðandi afstöðu þeirra til fjárlagafrumvarpsins að öðru leyti.
    Nefndin fór yfir alla þætti fjárlagafrumvarpsins sem varða landbúnðarráðuneytið, en þar sem augljóst var að tími mundi ekki endast til umfjöllunar um alla þættina ákvað nefndin að taka sérstaklega fyrir þá liði þar sem augljósir brestir voru í fjárlagagerðinni. Nefndin leitaði skriflegra skýringa og fyrir kom að frekari upplýsinga væri leitað ef svör reyndust ekki fullnægjandi. Eru því í vörslu nefndarinnar margháttaðar ítarlegar skriflegar upplýsingar sem nefndarálitið byggist á og eru handbærar til frekari skýringar á þessum málum.
    Á fundi nefndarinnar mættu fulltrúar þeirra stofnana sem um var fjallað og auk þess fulltrúar fjármála- og landbúnaðarráðuneytis til þess að nefndin fengi sem gleggstar skýringar á málefnum stofnananna. Fyrir hönd fjármálaráðuneytisins sat Jón Ragnar Blöndal alla fundi nefndarinnar um málið utan einn sem Ásdís Sigurjónsdóttir sat. Frá landbúnaðarráðuneytinu komu Sigurgeir Þorgeirsson, aðstoðarmaður ráðherra, Guðmundur Sigþórsson skrifstofustjóri, Jóhann Guðmundsson og Hreinn Pálmason á fund nefndarinnar, frá Búnaðarfélagi Íslands Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri, Gunnar Hólmsteinsson og Magnús Sigurðsson, frá Stéttarsambandi bænda Haukur Halldórsson formaður, Hákon Sigurgrímsson og Gunnlaugur A. Júlíusson og frá Framleiðnisjóði landbúnaðarins Jóhannes Torfason formaður og Jón G. Guðbjörnsson. Jón Loftsson skógræktarstjóri og Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri komu einnig á fundi nefndarinnar.
    Þá bárust nefndinni enn fremur afrit af fjárlagabeiðnum stofnana sem nefndin sá sér ekki fært að afgreiða þar sem það samrýmdist ekki þeim grundvelli sem nefndin valdi sér að vinna eftir og að framan var getið.
    Nefndin telur að með þessum breyttu háttum við fjárlagagerð sé stigið jákvætt skref sem tvímælalaust gerir umfjöllun Alþingis um gerð fjárlaga markvissari og tryggir að ákvarðanir Alþingis við löggjöf og samninga séu virtar af framkvæmdarvaldinu. Nefndinni munu nýtast fyrirliggjandi upplýsingar þegar þau málefni, sem um var fjallað að þessu sinni, kunna að koma til umfjöllunar á Alþingi.

1. Búnaðarfélag Íslands, liður 04-201.
    Á undanförnum árum hefur farið fram endurskoðun á starfsemi Búnaðarfélags Íslands vegna breyttra aðstæðna í landbúnaði. Aukinn var hlutur bænda í greiðslum til félagsins með tilliti til þeirra verkefna sem sérstaklega tengjast hinum félagslega þætti landbúnaðarins. Hlutdeild ríkissjóðs í rekstri Búnaðarfélagsins voru sett skýrari mörk er miðuðust við 31 stöðugildi og nauðsynleg rekstrargjöld. Þessi kostnaður nemur samkvæmt tilvitnuðu samkomulagi 88.815. þús. kr. fært til verðlags fjárlagafrumvarpsins. Fjárlagatillögur Búnaðarfélagsins voru í samræmi við þetta samkomulag. Tillögur landbúnaðarráðuneytisins tóku meira mið af áherslum ríkisstjórnarinnar um lækkun ríkisútgjalda en þær nema 78.500 þús. kr. Er það svipað og var í fjárlögum þessa árs að krónutölu.
    Um leið og nefndin áréttar þetta samkomulag sem grundvöll að fjárveitingu til Búnaðarfélags Íslands bendir hún á tvö atriði sem ber að leiðrétta:

a. Framsetning fjárlagaliðar.
    Engin breyting hefur orðið á stöðu Búnaðarfélags Íslands innan stjórnsýslunnar eins og haldið er fram (bls. 307 í frumvarpi til fjárlaga). Starfsvettvangur Búnaðarfélagsins byggist nú sem fyrr á margháttaðri löggjöf er snertir málefni landbúnaðarins og ríkum hefðum á löngum ferli. Þessu geta skýringar með fjárlagafrumvarpi í engu breytt. Fjárlagalið sem fjallar um Búnaðarfélagið ber því að setja upp með sama hætti og verið hefur en það tryggir að liður 51 (laun) taki hækkun til samræmis við þær launabreytingar sem kunna að verða á fjárlagaárinu svo sem verið hefur.
    Með hliðsjón af framansögðu ber að haga uppsetningu liðar 04-201 þannig:

        04-201 Búnaðarfélag Íslands
Þús. kr.
Þús. kr.

         Almennur rekstur:
86.500
        101          Yfirstjórn     
24.000

        120          Ráðunautar     
45.000

        130          Sérfræðiaðstoð við landbúnaðinn     
17.500

........
                             Gjöld samtals     
86.500

         Tegundasundurliðun:
        51               Laun     
55.000

        52-58     Önnur gjöld     
31.500

........

                             Gjöld samtals     
86.500

                             Sértekjur     
8.000

                             Mismunur     
78.500

    Vakin er athygli á að liður 51 (laun) er í samræmi við þær launagreiðslur sem greiddar voru verðlagsbætur á af fjármálaráðuneytinu á síðasta ári og niðurstöðutala liðar 04-201 er óbreytt frá fjárlagafrumvarpinu.

b. Lífeyrismál.
    Eins og áður greinir er fjárveiting til Búnaðarfélags Íslands svipuð og var í fjárlögum síðasta árs. Í athugasemdum við fjárlagafrumvarpið (bls. 307) kemur hins vegar fram að af þeirri fjárveitingu sé Búnaðarfélaginu ætlað að bera kostnað vegna lífeyrisskuldbindinga starfsmanna sinna en þær nema tæpum 5 m.kr. Fyrir liggur að þessi kvöð er ekki í samræmi við fjárlagatillögur landbúnaðarráðuneytisins.
    Á árinu 1988 höfðaði Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins dómsmál á hendur Búnaðarfélagi Íslands. Krafist var greiðslu á hækkunum lífeyris fyrir tímabilið frá ágúst 1987 til ágúst 1988. Þessari kröfu neitaði Búnaðarfélagið og urðu lyktir þær að málið var fellt niður með samkomulagi beggja aðila 22. júní 1989 og greiddi ríkissjóður kröfuna.
    Þrátt fyrir ítrekaða eftirgrennslan nefndarinnar kom ekkert fram sem rökstuddi breytingar á þessum greiðslum frá því sem verið hefur frá upphafi. Þess vegna ber ríkissjóði að standa skil á lífeyrisgreiðslum starfsmanna Búnaðarfélag Íslands til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins.

2. Jarðræktarlög og búfjárræktarlög, liður 04-288.
    Að lokinni allvíðtækri umfjöllun um jarðræktarlög árið 1989 varð samkomulag við bændur um þá niðurstöðu sem leiddi til núgildandi jarðræktarlaga. Aðalatriði samkomulagsins er að framlög eru ekki háð ákvörðun fjárlaga hverju sinni og að framlög vegna ræktunar og skurðgraftar eru bundin við ákveðið hámark en aðrar framkvæmdir eru háðar samþykki landbúnaðarráðherra. Framlög til einstakra verkefna voru lækkuð og sum felld niður. Í framhaldi af þessu samkomulagi voru ógreidd framlög fyrri ára gerð upp. Þetta er ljóst af þeim málsskjölum sem fyrir liggja og ræðum þeirra alþingismanna sem að málinu unnu. Svo sem kunnugt er greinir Ríkisendurskoðun og ríkislögmann á um túlkun jarðræktarlaga.
    Búnaðarfélag Íslands hefur farið þess á leit að bændur stilli ræktunarframkvæmdum sem mest í hóf þar til greiðslum þeirra skuldabréfa, sem ríkisjóður gaf út vegna uppgjörs jarðræktarframlaga samkvæmt fyrrgreindu samkomulagi, lýkur árið 1993.
    Ógreidd jarðræktarframlög frá síðasta ári nema 49.702 þús. kr. og framkvæmt hefur verið á þessu ári fyrir 74.421 þús. kr. Áfallin greiðsluskuldbinding er þannig 124.123 þús. kr. Til greiðslu eru eftirstöðvar af fjárveitingu samkvæmt fjárlögum 1991 að upphæð 41.295 þús. kr. og fjárveiting samkvæmt frumvarpi til fjáraukalaga að upphæð 35.000 þús. kr. eða 76.295 þús. kr. alls. Eftir standa því 47.828 þús. kr. Með fjárveitingu samkvæmt fjárlagafrumvarpinu verður unnt að greiða áfallnar skuldbindingar þessa árs. Það má því segja að jarðræktarlögin búi við svipað ástand og var fyrir einu ári því ekkert fjármagn er fyrir hendi til greiðslu jarðræktarframkvæmda árið 1992.
    Hafa ber í huga að skuldbindingum ríkissjóðs vegna útgefinna skuldabréfa til uppgjörs jarðræktarframlaga lýkur árið 1993. Það auðveldar að koma þessum málum í það horf sem samkomulag varð um við bændur landsins árið 1989.
    Þá vill nefndin vekja athygli á að samkvæmt fjárlagafrumvarpinu er gerð breyting á uppsetningu fjárlagaliðar 04-288 frá því sem verið hefur, hliðstætt því sem var um launalið Búnaðarfélags Íslands og áður er getið. Í því felst að lögbundinn hlutur ríkissjóðs í launum héraðsráðunauta og sæðingarmanna taki ekki verðlagsbreytingum. Þessi áform eru andstæð því sem verið hefur um þessar greiðslur og samrýmast ekki gildandi lagaákvæðum. Þess vegna ber að færa þessi mál til fyrra horfs þannig:

        04-288 Jarðræktar- og búfjárræktarlög, framlög
Þús. kr.
Þús. kr.

         Viðfangsefni:
71.100
         101          Búfjárrækt     
26.100

         110          Ráðunautar     
45.000


         Stofnkostnaður:
149.000
         620          Jarðræktarframlög     
105.000

         620          Búfjárræktarframlög     
44.000

........
                             Gjöld samtals     
216.400

         Tegundasundurliðun:
        51               Laun     
71.100

        59               Tilfærslur:
                             5913 Til fyrirtækja og atvinnuvega     
149.000

         5                    Gjöld samtals     
216.400

    Framlag vegna búfjárræktarlaga er óbreytt frá fjárlögum yfirstandandi árs. En til að tryggja eðlilega starfsemi á þeim vettvangi er óhjákvæmilegt að þau breytist milli ára eins og verðlag gefur tilefni til. Áður hefur staða jarðræktarlaga verið skýrð.

3. Niðurgreiðslur, liðir 04-290 og 12-201.
    Þótt niðurgreiðslur á vöruverði, sem tengjast landbúnaðarframleiðslu, séu vistaðar undir viðskiptaráðuneyti féllu þær inn í umfjöllun nefndarinnar um búvörusamninga þar sem þær greiðslur eru þáttur í þeirri samningsgerð.
    Samkvæmt nýjum samningi er ákveðið að hefja beinar greiðslur til sauðfjárbænda á næsta ári og að niðurgreiðslum á kindakjöti verði hætt 1. september 1992. Markmið fjárlagafrumvarpsins virðist vera í samræmi við þetta samkomulag.
    Í búvörusamningnum er ákveðið að helmingur afurðaverðsins verði greiddur bændum beint og niðurgreiðslum verði hætt. Kindakjöt hefur verið niðurgreitt um 54% en svo virðist að þegar hin nýja skipan kemur til framkvæmda lækki niðurgreiðslur um 4% þar sem þær nema þá 50% afurðaverðs. Þetta er hins vegar í ósamræmi við markmið samningsins um lækkun vöruverðs nema verð til framleiðenda lækki meira en að var stefnt í nýjum búvörusamningi sem ólíklegt er að óbreyttum rekstrarskilyrðum í þessari grein.
    Samkvæmt fjárlagafrumvarpi á ekki að greiða niður ársfjórungslega hækkun á mjólkurvörum. Af því leiðir að mjólkurvörur hækka í verði til neytenda sem er í ósamræmi við markmið nýs búvörusamnings.
    Þá hefur enn fremur verið dregið úr niðurgreiðslum sem m.a. hefur örvað sölu á dilkakjöti. Fyrir liggur að hæpið er að treysta á stuðning Framleiðnisjóðs landbúnaðarins til þessara verkefna eins og fram kemur í fjárlagafrumvarpinu (bls. 354) og nánar verður vikið að á eftir.
    Niðurstaða umfjöllunar nefndarinnar um niðurgreiðslur á búvöruverði er því sú að hlutdeild þeirra í vöruverði samkvæmt fjárlagafrumvarpinu muni að óbreyttu minnka sem leiðir óhjákvæmilega til hækkana á verði þessara nauðsynjavara til neytenda.

4. Framleiðnisjóður landbúnaðarins, liður 04-291.
    Á fjárlögum fyrir árið 1991 er fjárveiting til Framleiðnisjóðs landbúnaðarins í samræmi við 37. gr. laga nr. 46/1985, sbr. lög nr. 29/1987, og hefur svo verið frá árinu 1985 þegar lög voru sett um þessi efni. Í frumvarpi til fjárlaga fyrir árið 1992 er gerð tillaga um að fjárveiting til Framleiðnisjóðs verði 340.000 þús. kr. en framlagið hefði samkvæmt lögum átt að nema um 640.000 þús. kr.
    Auk þeirra verkefna, er taka til eflingar nýgreina í landbúnaði, hafa ýmsar skuldbindingar verið lagðar á Framleiðnisjóð í tengslum við aðlögun búvöruframleiðslunnar að innanlandsmarkaði og einnig hefur sjóðnum verið gert að leggja fram fjármagn til framkvæmda sem heyra undir ríkissjóð þótt fyrir að slík ráðstöfun samrýmist ekki verkefnum Framleiðnisjóðs.
    Nefndin hefur leitað eftir sem gleggstum upplýsingum um áfallnar greiðsluskyldur Framleiðnisjóðs og þau áform sem uppi eru um fjárframlög úr sjóðnum. Niðurstaðan er þessi:

        Greiðsluafgangur 1991, u.þ.b. .     
155 m.kr.
        Framlag ríkisins samkvæmt fjárlagafrumvarpi 1992     
340 m.kr.
........
        Samtals til ráðstöfunar, u.þ.b.     
495 m.kr.

        Skuldbindingar, u.þ.b.     
335 m.kr.
        Óskir stjórnvalda 1992, u.þ.b.     
105 m.kr.
........
        Fjármunir til annarra verkefna, u.þ.b.     
55 m.kr.

    Framleiðnisjóður landbúnaðarins hefur haft umtalsverð áhrif til eflingar nýrra verkefna og starfa. Þörf er á auknum stuðningi sjóðsins þar sem enn á að draga úr framleiðslu í hefðbundnum landbúnaði. Fyrir liggur að í nýjum búvörusamningi eru færðar nýjar kvaðir á sjóðinn svo að fullyrða má að hann verður ekki sá búhnykkur nýjum verkefnum sem vænst er.
    Ef ekki sýnist fært að hverfa frá áformuðum skerðingum sjóðsins hljóta óskir ráðherra og áform um framlag til samstarfshóps um sölu á lambakjöti að víkja því að ella er ljóst að stuðningur við ný verkefni í landbúnaði situr á hakanum.

5. Landgræðsla og skógrækt, liðir 04-231 og 04-235.
    Tvær mikilvægar áherslur komu fram á síðasta ári varðaði landgræðslustörf. Í tilefni af ályktun Alþingis um stöðvun hraðfara gróðureyðingar fyrir aldamót var gerð áætlun sem allir þingflokkar áttu hlut að en hún fól í sér að 270.000 þús. kr. yrði varið til landgræðsluverkefna á næsta ári. Samfara nýjum búvörusamningi var gerð bókun um að til verkefna á sviði landgræðslu og skógræktar yrði á næstu sex árum varið 2.000 m.kr.
    Í samráði við landgræðslu- og skógræktarstjóra telur nefndin eðlilegt að fjárlagafrumvarpsliðurinn 04-235 1 80, „Sérstök verkefni á uppblásturssvæðum“, að upphæð 84.000 þús. kr., og 35.000 þús. kr. af liðnum 04-231 1 70, „Skógræktarstörf bænda“, verði talin sem hluti af fjárveitingu til landgræðslu og skógræktar samkvæmt bókun VI með nýjum búvörusamningi.
    Verður nú vikið sérstaklega að málefnum stofnananna:

a. Skógrækt ríkisins.
    Eins og fjárlagafrumvarpið ber með sér hefur liðurinn „Nytjaskógar“ verið felldur niður en þess í stað kemur nýr liður, Skógræktarstörf bænda. Nytjaskógrækt byggist á skógrækt á völdum landsvæðum og hafa þegar verið gerðir samningar um slíka ræktun. Skógarstörf bænda eru fremur skilgreind sem þátttaka skógræktar í landgræðslustörfum. Þess vegna er lagt til að liðurinn „Nytjaskógar“ verði áfram á fjárlögum og að fjárveiting til þessara verkefna nemi 15.000 þús. kr. Liðurinn „Skógræktarstörf bænda“ lækki um sömu upphæð og verði 35.000 þús. kr.
    Með stóraukinni þátttöku bænda í skógræktarstarfi hefur hlutverk Skógræktar ríkisins breyst. Dregið hefur úr plöntuuppeldi en ráðgjafarstörf hafa að sama skapi aukist. Af þessu leiðir m.a. að sértekjur stofnunarinnar verða á þessu ári 8.000 þús. kr. minni en fjárlög 1991 greina. Fyrir liggur að eins mun verða um rekstur Skógræktar ríkisins á næsta ári. Eftir því sem næst verður komist má ætla að sértekjurnar verði um 56.000 þús. kr. Mikilvægt er að hér fáist leiðrétting á.

b. Landgræðsla ríkisins.
    Miklar breytingar eiga sér nú stað á búrekstri í Gunnarsholti þar sem nautgripabúskapur til kjötframleiðslu var lagður af á þessu ári. Sú búgrein hefur átt mestan þátt í sértekjum stofnunarinnar á undanförnum árum. Lækkun sértekna frá fjárlögum 1991, úr 11.900 þús. kr. í 10.100 þús. kr. í fjárlagafrumvarpinu, tekur ekki mið af þeirri miklu breytingu á búrekstri í Gunnarsholti sem orðin er. Hér þarf því að verða breyting á þar sem sértekjur munu falla niður að mestu leyti.
    Svo sem kunnugt er fer samstarf Landgræðslu ríkisins og bænda á sviði landgræðslumála stöðugt vaxandi. Einn merkasti þáttur þeirrar samvinnu er þátttaka bænda í frærækt sem er nýjung í búskaparháttum þeirra. Í þessu starfi er einkar hagkvæmt að tæki, sem þegar eru í eigu nokkurra bænda, eru notuð til þessara verkefna. Grundvöllur að þessu starfi byggist á rekstri fræverkunarstöðvarinnar í Gunnarsholti sem verið hefur í uppbyggingu hin síðari ár. Fjárveiting til fræverkunarstöðvarinnar er ekki fyrir hendi í fjárlagafrumvarpinu en eftir því hefur verðið leitað við Framleiðnisjóð landbúnaðarins að hann styðji þetta verkefni. Með því að hér er um að ræða þátttöku bænda er stuðningur Framleiðnisjóðs í samræmi við tilgang sjóðsins. En með hliðsjón af því sem áður er greint um fjárhag sjóðsins er óraunhæft að ætlast til að hann leggi fram það fjármagn sem nauðsynlegt er til þess að fræverkunarstöðin nýtist eins og til er ætlast á næsta ári. Það eru því eindregin tilmæli nefndarinnar að á þetta mál verði litið með velvild við afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins.

    Einar K. Guðfinnsson tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Alþingi, 8. nóv. 1991.



Egill Jónsson, form.


Árni M. Mathiesen.


Eggert Haukdal.


Guðni Ágústsson.


Jóhannes Geir Sigurgeirsson.


Kristín Ástgeirsdóttir.


Ragnar Arnalds.


Sigurður E. Arnórsson.


Fylgiskjal VIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá meiri hluta menntamálanefndar.



    Nefndin hefur farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á hennar málefnasviði skv. 2. mgr. 25. gr. þingskapa Alþingis. Við umfjöllun nefndarinnar hafa starfsmenn menntamálaráðuneytis og fjármálaráðuneytis setið fundi hennar. Fékk nefndin hjá þeim skýringar á helstu atriðum er vörðuðu menntamálakafla frumvarpsins.
    Frá menntamálaráðuneytinu kom Örlygur Geirsson, skrifstofustjóri fjármálaskrifstofu ráðuneytisins, auk Ólafs Darra Andrasonar og Friðriks H. Friðjónssonar frá fjármálaskrifstofu sama ráðuneytis. Frá fjármálaráðuneytinu sat fundina Ásdís Sigurjónsdóttir frá fjárlagaskrifstofu ráðuneytisins.
    Meiri hluti nefndarinnar telur yfirferð þessa hafa verið gagnlega nefndarmönnum og að það hafi verið rétt skref sem stigið var á síðasta þingi að breyta þingskapalögunum í þá átt að heimila fagnefndum þingsins að fjalla um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á þeirra málefnasviði. Í ljósi fenginnar reynslu telur nefndin nauðsynlegt að undirbúningur að fjárlagavinnu nefndarinnar hefjist fyrr en nú varð og þá komi til greina að nefndin einbeiti sér sérstaklega að tilteknum þáttum í frumvarpinu.
    Meiri hluti nefndarinnar ákvað að gera ekki athugasemdir við þennan hluta fjárlagafrumvarpsins. Einstakir nefndarmenn munu, ef þeir svo kjósa, lýsa viðhorfum sínum við framhaldsumræðu málsins.

Alþingi, 5. nóv. 1991.



Sigríður Anna Þórðardóttir, form.


Rannveig Guðmundsdóttir.


Árni Johnsen.


Björn Bjarnason.


Ingi Björn Albertsson.





Fylgiskjal IX.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (02 Menntamálaráðuneyti).

Frá minni hluta menntamálanefndar.



    Menntamálanefnd Alþingis hefur á nokkrum fundum haft til athugunar þann kafla fjárlagafrumvarpsins fyrir árið 1992 sem snýr að menntamálaráðuneytinu. Undirritaðir nefndarmenn vilja koma á framfæri við fjárlaganefnd því áliti sem hér fer á eftir.
     Frá því að börnum var gert skylt að sækja skóla í upphafi þessarar aldar hefur ríkt sú stefna í íslenskum menntamálum að það sé skylda samfélagsins að sjá til þess að allir fái notið þeirrar menntunar sem nauðsynleg er talin hverjum manni. Kostnaður við skólakerfið hefur verið greiddur úr sameiginlegum sjóðum okkar á öllum skólastigum. Einu undantekningarnar eru sérskólar og skólar sem reknir eru af einkaaðilum en þeir taka nokkur gjöld af nemendum sínum.
     Nú bregður svo við að núverandi ríkisstjórn boðar afgerandi stefnubreytingu sem glöggt má sjá í því frumvarpi til fjárlaga sem menntamálanefnd hefur haft til athugunar að undanförnu. Fyrirhugað er að taka upp nemendaskatt á framhalds- og háskólastigi. Háskólanemar eiga að greiða allt að 17.000 kr. en nemendur í framhaldsskólum allt að 8.000 kr. Þar við bætist sú upphæð sem nemendur greiða til félagsstarfa sinna. Fjárveitingar til framhalds- og háskóla eru skornar niður og skólunum gert að mæta niðurskurðinum með nemendasköttum auk þess sem þeir eiga að hagræða og spara, m.a. með samdrætti í kennslu. Eins og kunnugt er streyma nemendur í framhaldsskóla og eru þeir flestir yfirfullir. Því mun skólunum reynast erfitt að skera niður kennslu og eiga því ekki annarra kosta völ en að innheimta skólagjöld til að standa undir rekstrinum sem þeir geta að vísu ekki að óbreyttum lögum.
     Þeir nefndarmenn menntamálanefndar, sem undir þetta álit rita, eru alfarið á móti því að skólagjöld verði innheimt í ríkisskólum. Skólakerfið á að vinna að jöfnuði þegnanna og það þjónar velferð samfélagsins alls. Enginn á að þurfa að hverfa frá námi af þeirri ástæðu að hann geti ekki greitt fyrir nám sitt. Það er ekki sæmandi jafn vel stæðu samfélagi og okkar að ganga á vit fortíðar með þeim hætti sem ríkisstjórnin nú boðar. Hér er ekki um háar upphæðir að ræða fyrir ríkissjóð, en einstaklingana og fjölskyldurnar í landinu getur munað um þá peninga sem á að innheimta. Aðalatriðið er þó að nú á að hverfa frá þeirri jafnréttisstefnu sem ríkt hefur um áraraðir í íslensku skólakerfi og því er minni hluti nefndarinnar andvígur.
     Á síðasta vetri voru samþykktar breytingar á grunnskólalögum, svo og lög um leikskóla sem bæta mjög aðstöðu yngstu barnanna og stefna í þá átt að aðlaga skólakerfið breyttu þjóðfélagi. Í fjárlögum ársins 1992 er gert ráð fyrir að nokkrum þeirra breytinga sem fyrirhugaðar voru, verði frestað í sparnaðarskyni og er það mjög miður. Þá vill minni hluti nefndarinnar benda á að Námsgagnastofnun, sem á að þjóna öllum grunnskólanemum landsins, fær enga aukningu á fjárveitingum og er allt of þröngur stakkur skorinn.
     Þá má ekki láta hjá líða að nefna stöðu héraðsskólanna en frumvarpið ber með sér algjört stefnuleysi í málefnum þeirra.
     Enn einu sinni er boðaður samdráttur í íslensku efnahagslífi vegna minnkandi afla. Enn einu sinni stöndum við frammi fyrir þeirri nöturlegu staðreynd hve íslenskt atvinnulíf er einhæft. Á slíkum tímum erum við rækilega minnt á hve nauðsynlegt er að efla rannsóknir og tilraunir sem gætu orðið til þess að auðga atvinnulíf og efla menningu. Ríkisstjórn sú, sem nú situr, er greinilega ekki þeirrar skoðunar að rannsóknir þurfi að auka því að hún sker niður framlög til rannsóknastofnana og gerir þeim að auki skylt að afla sér aukinna sértekna. Þetta er að okkar dómi röng stefna og hættuleg og verður að leiðréttast. Í ýmsum tilfellum er um óraunhæfar sértekjuáætlanir að ræða, svo sem á tilraunastöðinni á Keldum, og því hætt við að viðkomandi stofnanir lendi í fjárþröng á næsta ári.
     Menningarlífið fer ekki varhluta af þeim niðurskurði sem ríkisstjórnin beitir sér fyrir. Minni hluti nefndarinnar bendir sérstaklega á samdrátt í stuðningi ríkisins við listasöfn, en þar eru þess dæmi að fjárveitingar séu skornar niður um allt að 62%. Þar á í hlut Listasafn Sigurjóns Ólafssonar en aðstandendur þess safns hafa lýst því yfir að safninu verði að loka fáist ekki úr bætt. Fleiri söfn mætti nefna en minni hluti nefndarinnar vill vekja sérstaka athygli á vanda Þjóðminjasafnsins og Þjóðskjalasafnsins. Eins og kunnugt er hefur hús Þjóðminjasafnsins verið í niðurníðslu og safnið allt þarfnast algjörrar endurskipulagningar. Á fjárlögum næsta árs eru aðeins 10 millj. kr. til viðgerða á húsi Þjóðminjasafnsins og ljóst að þar er verið að slá á frest vanda sem aðeins vex fyrir vikið. Þjóðskjalasafnið fékk fyrir nokkrum árum nýtt húsnæði sem gefur safninu nýja möguleika til varðveislu og skipulagningar skjalavörslu en allt of hægt gengur sökum naumra fjárveitinga að taka húsnæðið til fyrirhugaðra nota og koma skjalageymslum í horf. Þar er úrbóta þörf.
     Af annarri menningarstarfsemi vill minni hluti nefndarinnar sérstaklega nefna hróplegan niðurskurð á fjárframlögum til frjálsrar leiklistarstarfsemi í landinu og óraunhæf framlög til Þjóðleikhússins. Alþýðuleikhúsið sem um árabil hefur fengið ákveðna fjárveitingu er þurrkað út. Þá kemur niðurskurðurinn harkalega niður á leikfélögum úti á landsbyggðinni en fátt er dreifðri byggð í landinu meira til stuðnings en öflug menningarstarfsemi.
     Af ofansögðu má ljóst vera að undirritaðir nefndarmenn í menntamálanefnd fella sig ekki við þá stefnu sem núverandi ríkisstjórn hefur tekið upp í mennta- og menningarmálum. Þarna eru á ferð rangar áherslur. Skylt er þó að geta þess sem horfir í rétta átt og lýsum við yfir sérstakri ánægju með að framkvæmdum við Þjóðarbókhlöðu verður fram haldið í samræmi við lög.
     Undirritaðir nefndarmenn menntamálanefndar vilja benda fjárlaganefnd sérstaklega á þau atriði sem að ofan eru tíunduð en áskilja sér jafnframt allan rétt til tillöguflutnings á síðari stigum málsins.

Alþingi, 8. nóv. 1991.



Hjörleifur Guttormsson.


Kristín Ástgeirsdóttir.


Valgerður Sverrisdóttir.





Fylgiskjal X.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá meiri hluta samgöngunefndar.



    Nefndin hefur fjallað um þann kafla fjárlagafrumvarpsins sem er á hennar málefnasviði, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. þingskapa. Vegna þessarar yfirferðar komu á fund nefndarinnar þeir Rúnar Guðjónsson frá samgönguráðuneytinu og Margeir Guðmundsson frá fjármálaráðuneytinu. Svöruðu þeir fyrirspurnum nefndarmanna og gáfu frekari skýringar á efni þessa kafla frumvarpsins. Einnig bárust nefndinni skrifleg svör við fyrirspurnum frá samgönguráðuneytinu.
    Meiri hluti nefndarinnar telur að yfirferðin hafi verið gagnleg og hyggst fyrir sitt leyti stuðla að því að nefndin haldi áfram á sömu braut á næsta þingi. Verður hægt að skipuleggja það starf í ljósi þeirrar reynslu sem nefndarmenn búa að eftir yfirferðina í haust sem var nýmæli.
    Nefndin ákvað að gera ekki athugasemdir við samgöngukafla frumvarpsins. Þó munu einstakir nefndarmenn, ef þeir svo kjósa, lýsa viðhorfum sínum við framhaldsumræðu málsins.

Alþingi, 7. nóv. 1991.



Árni M. Mathiesen, form.


Árni Johnsen.


Hjálmar Jónsson.


Sigurður E. Arnórsson.


Sturla Böðvarsson.





Fylgiskjal XI.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (10 Samgönguráðuneyti).

Frá minni hluta samgöngunefndar.



    Vegna tilmæla fjárlaganefndar Alþingis að samgöngunefnd gefi umsögn um þátt samgöngumála í frumvarpi til fjárlaga vill minni hluti nefndarinnar taka eftirfarandi fram:
    Að frumvarpið hefur ekki fengið þá umræðu og umfjöllun í samgöngunefnd sem æskilegt verður að teljast og ýmsu er enn ósvarað um þennan mikilsverða málaflokk.
    Að lækka framkvæmdafé til samgöngumála frá því sem áður var ákveðið er andstætt okkar vilja.
    Að í fjárlagafrumvarpinu eru kynntar hugmyndir að margvíslegri nýrri skattheimtu vegna þessa málaflokks þrátt fyrir að dregið er úr framkvæmdum til samgöngumála.
    Að á sama tíma og beðið er um álit samgöngunefndar á fjárlagafrumvarpinu berast af því fréttir að nýjar tillögur séu komnar fram að breyttri vegáætlun.
    Að fallið er frá þeirri samþykkt Alþingis að hraðari framkvæmdir við jarðgöng á Vestfjörðum komi ekki niður á framkvæmdum í almennri vegagerð, en nú eru áform uppi að taka á fjórða hundrað milljónir af fjármagni til almennrar vegagerðar til þessara framkvæmda.
    Að samgönguráðherra hafi ekki gefið samgöngunefnd Alþingis kost á að fylgjast með þeirri endurskoðun vegáætlunar sem nú virðist næstum fullmótuð.
    Minni hluti samgöngunefndar vill taka það sérstaklega fram að við umræðu og afgreiðslu fjárlaga munu einstakir nefndarmenn gera frekari grein fyrir afstöðu sinni í þeim þáttum frumvarpsins sem varða samgöngumál.

Alþingi, 12. nóv. 1991.



Stefán Guðmundsson.


Jóna Valgerður Kristjánsdóttir.


Jóhann Ársælsson.


Guðni Ágústsson.





Fylgiskjal XII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar.



    Nefndin hefur skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, farið yfir þá þætti fjárlagafrumvarps 1992 sem eru á hennar málefnasviði. Nefndin ákvað í byrjun að takmarka umfjöllun sína við tiltekna þætti frumvarpsins þar sem sýnt þótti að ekki gæfist tími til að fjalla um þá alla. Yfirferð nefndarinnar beindist einkum að nýmælum í frumvarpinu og þeim atriðum sem nefndarmenn töldu að hefðu helst stefnumarkandi áhrif.
    Til fundar við nefndina kom Þorsteinn Pálsson sjávarútvegsráðherra. Enn fremur komu þeir Jakob Jakobsson forstjóri, Ólafur K. Pálsson og Gunnar Stefánsson frá Hafrannsóknastofnun.
    Meiri hluti nefndarinnar gerir ekki athugasemdir að svo stöddu við þann hluta fjárlagafrumvarpsins sem að sjávarútvegsmálum lýtur. Einstakir nefndarmenn áskilja sér rétt til að lýsa viðhorfum sínum við framhaldsumræðu málsins og viðhorfum til einstakra mála sem snúa beint eða óbeint að fjárlagafrumvarpinu.
    Fulltrúi Kvennalistans hefur setið fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi.

Alþingi, 6. nóv. 1991.



Matthías Bjarnason, form.


Árni R. Árnason.


Guðmundur Hallvarðsson.


Vilhjálmur Egilsson.


Össur Skarphéðinsson.





Fylgiskjal XIII.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá 1. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Fulltrúar Alþýðubandalagsins í sjávarútvegsnefnd geta ekki mælt með samþykki þeirra ákvæða fjárlagafrumvarpsins sem lúta að fénýtingu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs. Með slíkri ráðstöfun veiðiheimilda sjóðsins væri í fyrsta lagi kippt burtu einni meginforsendu þeirrar málamiðlunar sem lá til grundvallar afgreiðslu gildandi laga um fiskveiðistjórnun. Með veiðiheimildum Hagræðingarsjóðs var skapað svigrúm til að taka á vandamálum einstakra byggðarlaga sem upp koma meðan við lýði er fyrirkomulag frjáls framsals veiðiheimilda. Slík breyting er að mati undirritaðra ekki heppilegt innlegg í þá endurskoðun laga um fiskveiðistjórn sem yfir stendur og brýna nauðsyn ber til að hraða.
     Þá er ekki síður ástæða til að staðnæmast við það skref í átt til „sölu“ veiðiheimilda sem í þessari breytingu felst. Því verður ekki á móti mælt að verði af þessum áformum yrði hluti veiðiheimilda á Íslandsmiðum boðinn til sölu af hinu opinbera og söluverðmætið tekið út úr rekstrarumsvifum sjávarútvegsins. Slíku skrefi í átt til veiðileyfasölu eru fulltrúar Alþýðubandalagsins andvígir og telja enn síður nú meðan endurskoðun fiskveiðistefnunnar stendur yfir réttlætanlegt að fara út í slíkar breytingar.
     Að lokum má ekki gleyma sjálfum hagræðingarverkefnum sjóðsins sem hann dregur nafn sitt af, en ljóst er að með þeim breytingum, sem fjárlagafrumvarpið boðar, væri klippt á getu sjóðsins til að sinna þeim verkefnum.
     Til að fyrirbyggja allan misskilning vill 1. minni hluti nefndarinnar taka skýrt fram að hann styður heils hugar að aukin áhersla verði lögð á hafrannsóknir og fagnar þeim nýju verkefnum sem boðað er að ráðast eigi í á sviði fjölstofnarannsókna. Fyrsti minni hluti telur hins vegar að verkefnin eigi að fjármagna með öðrum hætti en þeim að seilast í vasa sjávarútvegsins einnig í ljósi þess hvernig nú háttar til um afkomu í greininni.
     Í orði kveðnu eru flestir sammála um að eitt meginverkefni ríkisins á sviði atvinnulífsins eigi að vera á sviði rannsókna og þróunar og leiðin til öflugra atvinnulífs og aukins hagvaxtar hljóti að liggja gegnum myndarleg framlög úr sameiginlegum sjóðum til slíkra verkefna. Hér sýnist eiga að halda í þveröfuga átt og því eru fulltrúar Alþýðubandalagsins andvígir.
     Að öðru leyti sjá undirritaðir ekki ástæðu til að gera athugasemdir við einstök atriði frumvarpsins enda varð það ofan á í sjávarútvegsnefnd að ræða fyrst og fremst þau atriði sem fælu í sér breytingar og væru stefnumarkandi á einhvern hátt.
     Eins og áður sagði og með vísan til þess rökstuðnings, sem að ofan greinir, geta fulltrúar Alþýðubandalagsins í sjávarútvegsnefnd ekki mælt með samþykkt þess hluta frumvarpsins sem lýtur að fjárveitingum til sjávarútvegsmála og munu greiða atkvæði gegn þeirri fénýtingu veiðiheimilda Hagræðingarsjóðs sem frumvarpið gerir ráð fyrir.

Alþingi, 11. nóv. 1991.



Jóhann Ársælsson.


Steingrímur J. Sigfússon.



Fylgiskjal XIV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (05 Sjávarútvegsráðuneyti).

Frá 2. minni hluta sjávarútvegsnefndar.



    Undirritaðir nefndarmenn sjávarútvegsnefndar vilja taka fram að í nefndarstarfinu hefur ekki farið fram sú umræða og þau skoðanaskipti sem nauðsynleg eru til að hægt sé að glöggva sig nægjanlega á þeim þáttum fjárlagafrumvarpsins sem snerta sjávarútveginn og stofnanir tengdar honum. Til að svo hefði verið hefðu fulltrúar frá hinum ýmsu sviðum sjávarútvegsins þurft að koma á fund sjávarútvegsnefndar og gefa nefndarmönnum sem gleggstar upplýsingar um starfsemi og framtíðaráform.
    Annar minni hluti nefndarinnar styður eindregið að starfsemi Hafrannsóknastofnunar verði efld og bendir þar m.a. á fjölstofnarannsóknir sem eru eðlilegt framhald fiskirannsókna síðustu ára.
    Mikilvægur grunnur þessara rannsókna var lagður í rannsóknaáætlun um sjávarspendýr sem ríkissjóður kostaði að litlu leyti og því eðlilegt að ríkissjóður leggi nú eitthvað að mörkum til að tryggja framhaldið.
    Hjá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins er nú unnið að margvíslegum verkefnum og væntir 2. minni hluti nefndarinnar þess að fjárlaganefnd taki tillit til þess við gerð fjárlaga hversu þýðingarmikill þessi þáttur er sjávarútveginum og þjóðinni allri.
    Annar minni hluti nefndarinnar lýsir andstöðu og varar við þeim hugmyndum, sem fram koma í fjárlagafrumvarpinu, að fénýta aflaheimildir Hagræðingarsjóðs og kippa þannig grunninum undan þeim meginmarkmiðum sjóðsins að stuðla að aukinni hagkvæmni í útgerð og koma til aðstoðar byggðarlögum er standa höllum fæti vegna breyttra útgerðarhátta.
    Annar minni hluti nefndarinnar mótmælir eindregið þeim áformum sem lesa má í fjárlagafrumvarpinu um stóraukna skattheimtu á sjávarútveginn og varar mjög alvarlega við þeim ásetningi ríkisstjórnarinnar að feta sig á leið veiðileyfasölu til að fjármagna ríkisútgjöld.
    Við umræðu um afgreiðslu fjárlaga og fylgifrumvarpa þess munu undirritaðir nefndarmenn gera frekari grein fyrir einstökum þáttum þessara mála og annarra sem þeim tengjast.

Alþingi, 15. nóv. 1991.



Halldór Ásgrímsson.


Stefán Guðmundsson.





Fylgiskjal XV.


Álit



um frv. til fjárlaga fyrir árið 1992 (14 Umhverfisráðuneyti).

Frá umhverfisnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um þá þætti fjárlagafrumvarpsins sem eru á hennar málefnasviði, sbr. ákvæði 2. mgr. 25. gr. þingskapa. Vegna umfjöllunar nefndarinnar hafa eftirfarandi komið á fund hennar: Eiður Guðnason umhverfisráðherra, Magnús Jóhannesson, aðstoðarmaður ráðherra, Kristinn Sv. Helgason, skrifstofustjóri umhverfisráðuneytis, Jón Gunnar Ottósson, deildarstjóri í umhverfisráðuneytinu, Arnþór Garðarsson, formaður Náttúruverndarráðs, og Þóroddur Þóroddsson, framkvæmdastjóri Náttúruverndarráðs. Fékk nefndin hjá þeim nánari skýringar á þeim kafla fjárlagafrumvarpsins sem fjallar um umhverfisráðuneyti og stofnanir þess.
    Nefndin telur að umfjöllun hennar um fjárlagafrumvarpið hafi verið gagnlegt nýmæli og hyggst hún halda áfram á sömu braut á næsta þingi. Við skipulagningu starfsins næsta haust tekur nefndin mið af fenginni reynslu og mun hefja yfirferðina fyrr en nú var mögulegt.
    Nefndin ákvað að gera ekki breytingartillögur við einstaka liði þess hluta fjárlagafrumvarpsins sem að henni snýr. Eigi að síður vill nefndin vekja athygli á brýnni fjárþörf til verkefna á sviði umhverfisráðuneytis eins og viðbótartillögur ráðuneytisins til fjárlaganefndar vitna um. Þá kom fram í gögnum sem Náttúruverndarráð lagði fram að fjölgun verkefna og stöðug eftirspurn eftir þjónustu ráðsins kalli á meiri fjárþörf af opinberu fé en verið hefur hingað til. Enn fremur vill nefndin minna á að umhverfisráðuneytið er yngsta ráðuneytið innan Stjórnarráðsins og því er brýnt að við fjárveitingar til ráðuneytisins verði nægilegt tillit tekið til uppbyggingar þess. Þýðing umhverfismála á alþjóðavísu fer ört vaxandi og það endurspeglast m.a. í auknum fjárframlögum til þessa málaflokks í nágrannalöndum okkar. Einstakir nefndarmenn munu, ef þeir svo kjósa, lýsa nánar viðhorfum sínum við framhaldsumræðu málsins og skoða málefni umhverfisráðuneytis í ljósi heildarniðurstöðu fjárlaga.

Alþingi, 7. nóv. 1991.



Gunnlaugur Stefánsson, form.


Árni R. Árnason.


Árni M. Mathiesen.


Hjörleifur Guttormsson.


Kristín Einarsdóttir.


Lára Margrét Ragnarsdóttir.


Ólafur Ragnar Grímsson.


Valgerður Sverrisdóttir.