Ferill 533. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1991–92. – 1061 ár frá stofnun Alþingis.
115. löggjafarþing. – 533 . mál.


947. Frumvarp til laga



um samkomudag reglulegs Alþingis 1992 o.fl.

Frá forsætisráðherra.



1. gr.


    Reglulegt Alþingi 1992 skal koma saman mánudaginn 17. ágúst. Sama dag lýkur 115. löggjafarþingi.
    116. löggjafarþing skal standa til samkomudags reglulegs Alþingis 1993, sbr. 35. gr. stjórnarskrárinnar.

2. gr.


    Frestur samkvæmt ákvæðum 2. mgr. 36. gr. og 6. mgr. 44. gr. laga nr. 55/1991, um þingsköp Alþingis, til að leggja fram lagafrumvörp og þingsályktunartillögur, svo að þau megi koma á dagskrá og til meðferðar, skal á 116. löggjafarþingi vera til 1. apríl 1993.

3. gr.


    Lög nr. 3/1967, um samkomudag reglulegs Alþingis, falla brott.

4. gr.


    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt í samræmi við samkomulag þingflokka um þingmeðferð mála er tengjast samningum um Evrópskt efnahagssvæði. Samkvæmt 1. gr. þess mun nýtt reglulegt Alþingi, 116. löggjafarþing, verða sett mánudaginn 17. ágúst 1992, en frá sama tíma lýkur 115. löggjafarþingi. Með þessari bráðabirgðabreytingu á samkomudegi Alþingis er stefnt að því að lengja starfstíma Alþingis haustið 1992. Að öðru leyti er gert ráð fyrir því að 116. löggjafarþing standi fram til septemberloka 1993 eins og stjórnarskrárákvæðið mælir fyrir um.
    Í 35. gr. stjórnarskrárinnar, sbr. 9. gr. stjórnarskipunarlaga, nr. 56/1991, eru ákvæði um að reglulegt Alþingi skuli koma saman ár hvert hinn fyrsta dag októbermánaðar og standa til jafnlengdar næsta árs. En jafnframt er í greininni veitt heimild til þess að breyta samkomudeginum með lögum. Slík lögbundin undanþága frá stjórnarskrárákvæðinu um samkomudag Alþingis var líka í eldri stjórnarskipunarlögum og var henni alloft beitt þar til sett voru almenn ákvæði um samkomudag Alþingis árið 1967. Var þá miðað við 10. október sem reglulegan samkomudag, en í stjórnarskránni var samkomudagurinn 15. febrúar. Lögin frá 1967 eru enn í gildi en eðlilegt hefði verið að fella þau brott um leið og sett var nýtt stjórnarskrárákvæði um samkomudag Alþingis. Þess vegna er nú í 3. gr. frumvarpsins kveðið á um brottfall laganna um samkomudag Alþingis.
    Í þingsköpum segir að lagafrumvörp og þingsályktunartillögur, sem útbýtt er sex mánuðum eftir þingsetningu, verði því aðeins tekin á dagskrá að meiri hluti þings samþykki það. Að öllu óbreyttu hefði sá frestur runnið út 17. febrúar 1993. En til þess að lenging haustþings hafi ekki áhrif á framlagningarfrestinn er í 2. gr. frumvarpsins gerð sú bráðabirgðabreyting á þingsköpum að á 116. löggjafarþingi verði fresturinn lengdur til 1. apríl 1993 eins og verið hefði ef þing hefði komið saman á eðlilegum tíma.