Ferill 198. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1993. – 1063 ár frá stofnun Alþingis.
117. löggjafarþing. – 198 . mál.


220. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um meðferð einkamála, nr. 91 31. desember 1991.

(Lagt fyrir Alþingi á 117. löggjafarþingi 1993.)



1. gr.


    Í 1. mgr. 14. gr. laganna falla niður orðin „þar á meðal dómsgerðir í heild sinni“.
    Í fyrri málslið 2. mgr. 14. gr. laganna falla burt orðin „eftirrit af því sem hefur verið hljóðritað eða tekið á myndband“ en í stað þeirra kemur: eftirgerð af hljóðupptöku eða myndbandsupptöku.
    

2. gr.


    Í 15. gr. laganna fellur niður e-liður. Eldri f-liður verður þá e-liður.
    

3. gr.


    2. málsl. 5. mgr. 124. gr. laganna fellur niður.
    

4. gr.


    151. gr. laganna verður svohljóðandi:
    1. Með þeim takmörkunum sem leiðir af öðrum ákvæðum þessara laga er aðila heimilt að áfrýja héraðsdómi til Hæstaréttar. Við áfrýjun má leita endurskoðunar á úrskurðum og ákvörðunum sem hafa gengið undir rekstri máls í héraði.
    2. Hafi sakarefni verið skipt í máli skv. 31. gr. verður að áfrýja hverjum dómi fyrir sig áður en lengra er haldið við rekstur þess.
    3. Áfrýja má dómi í því skyni að honum verði breytt að efni til eða hann staðfestur, hann verði ómerktur og máli vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar eða máli verði vísað frá héraðsdómi.
    4. Heimilt er báðum eða öllum aðilum að áfrýja dómi. Skal málið þá flutt í einu lagi fyrir Hæstarétti.
    5. Afsal á rétti til málskots, hvort heldur er berum orðum eða þegjandi, verður ekki gefið fyrr en dómur er genginn í máli í héraði.
    

5. gr.


    152. gr. laganna verður svohljóðandi:
    1. Nú varðar mál fjárkröfu og er það þá skilyrði áfrýjunar að fjárhæð hennar nemi 500.000 krónum. Þessari fjárhæð skal breyta um hver áramót miðað við breytingu á lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1992, en dómsmálaráðherra auglýsir í Lögbirtingablaði nýja fjárhæð ekki síðar en 10. desember ár hvert.
    2. Áfrýjunarfjárhæð skal ákveða eftir höfuðstól kröfu í áfrýjunarstefnu. Ef fleiri kröfur en ein eru sóttar saman í máli skal leggja þær saman við ákvörðun áfrýjunarfjárhæðar. Hafi gagnkrafa verið höfð uppi til skuldajafnaðar skal ekki litið til hennar við ákvörðun áfrýjunarfjárhæðar.
    3. Ef mál varðar annars konar kröfu en fjárkröfu ákveður Hæstiréttur hvort hagsmunirnir svari til áfrýjunarfjárhæðar. Áður en ákvörðun er tekin getur Hæstiréttur leitað umsagnar málsaðila.
    4. Nú nær krafa ekki áfrýjunarfjárhæð eða Hæstiréttur telur hagsmuni ekki nægja til áfrýjunar skv. 3. mgr. og getur hann þá orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja máli ef einhverju eftirtalinna skilyrða er fullnægt:
    úrslit málsins hafa verulegt almennt gildi,
    úrslit málsins varða mikilvæga hagsmuni þess sem leitar áfrýjunarleyfis,
    málstaður þess sem leitar áfrýjunarleyfis gefur tilefni til að ætla að dómi kunni að verða breytt svo einhverju nemi.
    

6. gr.


    153. gr. laganna verður svohljóðandi:
    1. Dómi verður áfrýjað til Hæstaréttar innan þriggja mánaða frá uppkvaðningu hans.
    2. Hæstiréttur getur orðið við umsókn um leyfi til að áfrýja dómi sem berst næstu þrjá mánuði eftir lok frests skv. 1. mgr. ef skilyrðum 4. mgr. 152. gr. er fullnægt, enda sé dráttur á áfrýjun nægilega réttlættur.
    3. Nú áfrýjar aðili dómi og er gagnaðila þá heimilt að gagnáfrýja án tillits til áfrýjunarfrests, en stefnu til gagnáfrýjunar verður að gefa út meðan hann nýtur enn frests til að leggja fram greinargerð fyrir Hæstarétti, sbr. 1. mgr. 158. gr.
    4. Ef mál, sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar innan frests skv. 1.–3. mgr., verður ekki þingfest, það fellur þar niður eða því er vísað þaðan frá dómi er aðila heimilt að skjóta því þangað aftur þótt áfrýjunarfrestur sé þá liðinn. Ber þá að fá áfrýjunarstefnu gefna út á ný innan fjögurra vikna frá því málið átti að þingfesta eða uppkvaðningu dóms um niðurfellingu þess eða frávísun. Þessari heimild verður ekki beitt oftar en einu sinni í máli.

7. gr.


    154. gr. laganna verður svohljóðandi:
    1. Sá sem leitar áfrýjunarleyfis skv. 152. eða 153. gr. skal senda Hæstarétti skriflega umsókn um það ásamt áfrýjunarstefnu sem hann vill fá gefna út og endurriti héraðsdóms. Í umsókninni skal rökstutt ítarlega hvernig umsækjandi telur skilyrðum fyrir áfrýjunarleyfi fullnægt.
    2. Hæstiréttur getur gefið öðrum málsaðilum kost á að tjá sig um umsókn áður en ákvörðun er tekin.
    3. Synji Hæstiréttur um áfrýjunarleyfi getur sami aðili ekki sótt um það öðru sinni.
    4. Nú er áfrýjunarleyfi veitt og skal þá gefa út áfrýjunarstefnuna sem fylgdi umsókn og árita hana um leyfisveitinguna. Hæstiréttur verður ekki krafinn um rökstuðning fyrir þeirri ákvörðun.
    5. Ef synjað er um áfrýjunarleyfi skal þeim sem sótti um það tilkynnt bréflega um þá niðurstöðu. Í tilkynningunni skal greint stuttlega frá ástæðum fyrir synjuninni.
    

8. gr.


    155. gr. laganna verður svohljóðandi:
    1. Nú vill aðili áfrýja dómi og leggur hann þá fyrir hæstaréttarritara áfrýjunarstefnu ásamt endurriti af dóminum. Í áfrýjunarstefnu skal greina:
    heiti og númer sem málið bar fyrir héraðsdómi, fyrir hverjum héraðsdómstóli var leyst úr málinu og hvenær dómur var kveðinn upp í því,
    nöfn aðila, kennitölu og heimili eða dvalarstað, svo og nöfn fyrirsvarsmanna þeirra, ef því er að skipta, stöðu þeirra og heimili eða dvalarstað,
    hver eða hverjir flytji málið fyrir áfrýjanda,
    í hverju skyni sé áfrýjað og hvers áfrýjandi krefjist nákvæmlega fyrir Hæstarétti, en í þessum efnum skal skýrlega tekið fram við hver atriði í niðurstöðum héraðsdóms áfrýjandi uni og hverjum atriðum hann leitist við að fá breytt og hvernig, svo og hvort einnig sé áfrýjað til að fá hnekkt tilteknum úrskurði eða ákvörðun héraðsdómara,
    málsástæður sem áfrýjandi ber fyrir sig fyrir Hæstarétti, en lýsing þeirra skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála á hverju áfrýjun sé byggð; felli áfrýjandi sig ekki við lýsingu annarra atvika í héraðsdómi skal hann geta á sama hátt hvernig hann telji þeim réttilega lýst,
    tilvísun til helstu réttarreglna sem áfrýjandi byggir málatilbúnað sinn á fyrir Hæstarétti,
    gögn sem áfrýjandi hyggst afhenda Hæstarétti með áfrýjunarstefnunni eftir birtingu hennar, svo og gögn sem áfrýjandi telur sig þurfa að afla eftir þann tíma,
    hvenær stefndi verði í síðasta lagi að tilkynna Hæstarétti að hann hafi í hyggju að halda uppi vörnum í málinu, en hæstaréttarritari ákveður dagsetningu í þessu skyni við útgáfu stefnu,
    hverju það varði að stefndi komi ekki fram tilkynningu skv. h-lið.
    2. Afhenda skal hæstaréttarritara tvö eintök af áfrýjunarstefnu sem Hæstiréttur fær haldið eftir.
    3. Hæstaréttarritari synjar um útgáfu áfrýjunarstefnu ef hann telur hana ekki vera í réttu horfi. Sé áfrýjunarfrestur að renna út getur hann ákveðið skamman frest handa áfrýjanda til að bæta úr áfrýjunarstefnu og má þá gefa hana út án áfrýjunarleyfis ef henni er framvísað til útgáfu á ný í réttu horfi innan þess tíma þótt áfrýjunarfrestur sé þá liðinn. Frestur í þessu skyni skal ekki vera lengri en ein vika og verður aðeins veittur í eitt skipti. Áfrýjandi getur krafist ákvörðunar Hæstaréttar um synjun hæstaréttarritara um útgáfu áfrýjunarstefnu.
    4. Hæstaréttarritari gefur út áfrýjunarstefnu í nafni dómsins.
    5. Áfrýjunarstefnu verður að birta ekki síðar en viku áður en frestur handa stefnda skv. h-lið 1. mgr. er á enda. Að öðru leyti gilda ákvæði XIII. kafla um birtingu áfrýjunarstefnu.
    

9. gr.


    156. gr. laganna verður svohljóðandi:
    1. Eftir birtingu áfrýjunarstefnu en áður en fresti stefnda skv. h-lið 1. mgr. 155. gr. lýkur skal áfrýjandi afhenda Hæstarétti stefnuna ásamt sönnun fyrir birtingu hennar. Einnig skal hann þá skila málsgögnum í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður, en til þeirra teljast þau málsskjöl og endurrit sem áfrýjandi hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti og liggja þegar fyrir. Mál er þá þingfest fyrir Hæstarétti.
    2. Þegar mál hefur verið þingfest beinir hæstaréttarritari því til héraðsdómstólsins, þar sem var leyst úr máli, að afhenda Hæstarétti dómsgerðir.
    3. Hæstiréttur setur nánari reglur um frágang málsgagna og dómsgerða.
    

10. gr.


    Ný grein, sem verður 157. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Nú lætur áfrýjandi undir höfuð leggjast að afhenda Hæstarétti áfrýjunarstefnu og málsgögn samkvæmt fyrirmælum 156. gr. og verður þá ekki frekar af máli.
    2. Ef ekki er sótt þing af hálfu áfrýjanda á síðara stigi verður málið fellt niður með dómi. Hafi stefndi skilað greinargerð í málinu má dæma honum málskostnað úr hendi áfrýjanda.

11. gr.


    Ný grein, sem verður 158. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Nú hyggst stefndi skila greinargerð í máli, og skal þá bréfleg tilkynning hans um það berast Hæstarétti innan frests sem honum var settur í þessu skyni í áfrýjunarstefnu. Þegar mál er þingfest ákveður hæstaréttarritari stefnda frest í tvær til sex vikur til að skila greinargerð og sendir honum eintak af málsgögnum áfrýjanda. Áfrýjanda skal tilkynnt um þann frest sem stefnda er veittur.
    2. Gagnáfrýjun veitir ekki stefnda rétt til sjálfstæðs frests.
    3. Berist Hæstarétti ekki tilkynning skv. 1. mgr. eða skili stefndi ekki greinargerð innan þess frests sem honum hefur verið settur skal litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms. Skal málið þá dómtekið, en fyrst má þó veita áfrýjanda skamman frest til að ljúka gagnaöflun sem hann hefur boðað í áfrýjunarstefnu. Hæstiréttur kveður upp dóm í málinu á grundvelli fyrirliggjandi gagna án munnlegs flutnings.
    4. Hafi stefndi skilað greinargerð en þingsókn fellur niður af hans hálfu á síðara stigi máls má gefa áfrýjanda kost á að svara vörnum hans í skriflegri sókn og ljúka gagnaöflun. Skal málið síðan dómtekið og dómur lagður á það eftir framkomnum kröfum, gögnum og sókn áfrýjanda með tilliti til þess sem hefur komið fram af hálfu stefnda.
    5. Nú hefur stefndi ekki skilað greinargerð og getur þá Hæstiréttur allt að einu heimilað honum að taka til varna í máli með eða án samþykkis áfrýjanda, enda séu miklir hagsmunir í húfi fyrir hann og vanræksla hans þyki afsakanleg. Eins má fara að ef þingsókn stefnda fellur niður á síðara stigi máls.
    

12. gr.


    Ný grein, sem verður 159. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Í greinargerð stefnda skal koma fram:
    hver eða hverjir flytji málið fyrir stefnda,
    kröfugerð stefnda, en í þeim efnum skal skýrlega tekið fram hvort og þá hvers vegna hann breyti kröfum frá þeim sem hann gerði í héraði, svo og hvort hann samþykki kröfur áfrýjanda í einhverjum atriðum og þá nákvæmlega hverjum,
    málsástæður sem stefndi ber fyrir sig fyrir Hæstarétti, en lýsing þeirra skal vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála á hverju hann byggi. Felli stefndi sig ekki við lýsingu annarra atvika máls í héraðsdómi eða eftir atvikum áfrýjunarstefnu skal hann geta á sama hátt hvernig hann telji atvikum réttilega lýst,
    tilvísun til helstu réttarreglna sem stefndi byggir málatilbúnað sinn á fyrir Hæstarétti,
    athugasemdir við málatilbúnað áfrýjanda ef þeirra er þörf,
    gögn sem stefndi telur sig þurfa að afla síðar.
    2. Með greinargerð skal stefndi afhenda málsgögn í þeim fjölda eintaka sem Hæstiréttur ákveður, en til þeirra teljast þau málsskjöl og endurrit sem hann hyggst byggja mál sitt á fyrir Hæstarétti og liggja þegar fyrir, enda hafi áfrýjandi ekki þegar afhent þau.
    3. Ákvæði 3. mgr. 156. gr. gilda um málsgögn stefnda.
    

13. gr.


    Ný grein, sem verður 160. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Áfrýjanda skal tilkynnt þegar Hæstarétti hafa borist greinargerð og málsgögn stefnda og sent eintak af þeim. Hafi aðilar ekki þegar lýst gagnaöflun lokið skal þeim um leið veittur sameiginlegur frestur til frekari gagnaöflunar. Sá frestur skal að jafnaði ekki vera lengri en einn mánuður. Hvor aðili um sig skal afhenda í einu lagi ný gögn sín í frumriti og ljósrit eða eftirrit þeirra í sama búningi og segir í 156. og 159. gr. Hæstiréttur tilkynnir aðilum um gögn sem berast innan þessa frests, en að honum liðnum telst gagnaöflun sjálfkrafa lokið nema áður hafi verið fallist á skriflega ósk aðila um lengri frest eða dómurinn beinir því síðar til aðila að hann megi afla tiltekinna gagna.
    2. Strax og gagnaöflun er lokið skal hvor aðili um sig tilkynna Hæstarétti hve langan tíma hann áætli að hann þurfi til að flytja munnlega málflutningsræðu í málinu.
    3. Ef þörf krefur tekur Hæstiréttur mál fyrir á dómþingi til að ráða til lykta atriðum varðandi rekstur þess. Skulu aðilar kvaddir fyrir dóm með hæfilegum fyrirvara í þessu skyni.
    

14. gr.


    Ný grein, sem verður 161. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Þegar gagnaöflun er lokið í máli þar sem stefndi skilar greinargerð ákveður Hæstiréttur hvenær það verði flutt og tilkynnir aðilum um það með hæfilegum fyrirvara.
    2. Að jafnaði skal flytja mál um formsatriði þess áður en það verður tekið til frekari meðferðar að efni til. Hæstiréttur getur þó ákveðið að mál verði flutt í einu lagi um formsatriði og efni eða að taka formsatriði máls til úrlausnar án sérstaks málflutnings, enda hafi aðilar þá áður átt kost á að tjá sig um það.
    3. Ef stefndi hefur skilað greinargerð í máli verður það flutt munnlega. Hæstiréttur getur þó ákveðið að mál verði skriflega flutt ef sérstakar ástæður mæla með því. Hæstiréttur getur einnig tekið til greina samhljóða óskir aðila um að málið verði dómtekið án sérstaks málflutnings.
    4. Um leið og boðað er til málflutnings getur Hæstiréttur beint til aðila að þeir afhendi hvor um sig með tilteknum fyrirvara stutt yfirlit um atvik máls í tímaröð, málsástæður sínar og tilvísanir til réttarreglna, svo og um tilvitnanir í fræðirit og dóma sem þeir hyggjast styðjast við í málflutningi.
    5. Hæstiréttur getur takmarkað ræðutíma aðila við munnlegan flutning máls. Þegar boðað er til málflutnings má taka fram hve langan tíma aðilar fá hvor um sig til umráða.
    

15. gr.


    Ný grein, sem verður 162. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Áður en munnlegur málflutningur hefst á dómþingi skal gerð grein fyrir dómsorði héraðsdóms og áfrýjunarstefnu að því leyti sem forseti telur þess þörf til skýringar á málflutningi. Að því loknu verða málflutningsræður fluttar.
    2. Frumræða verður fyrst flutt af hálfu áfrýjanda og síðan af hálfu stefnda nema forseti hafi ákveðið aðra röð og aðilum verið það tilkynnt við boðun til málflutnings. Eftir frumræður skal gefinn kostur á að fram komi stutt andsvör af hálfu hvors aðila í sömu röð. Flytji málflutningsumboðsmaður málið af hálfu aðila getur forseti heimilað aðilanum sjálfum að koma að stuttum athugasemdum að loknum andsvörum umboðsmanns hans.
    3. Í málflutningi skal gera grein fyrir kröfum, í hverju ágreiningsefni aðilanna felast, málsástæðum og öðrum röksemdum fyrir kröfum. Skal forðast málalengingar og málflutningi beint að þeim atriðum sem ágreiningur er um eða nauðsynlegt er að fjalla um til að varpa ljósi á ágreiningsefni.
    4. Forseti stýrir þinghaldi. Hann getur krafist að málflytjandi haldi sig við efnið og láti vera að fjalla um þá þætti máls sem ágreiningur er ekki um eða ástæðulaust er af öðrum sökum að gera frekari grein fyrir. Forseti getur stöðvað málflutning ef ræður verða langar úr hófi fram eða sett honum tímatakmörk og við þau bundið enda á málflutning.
    5. Að loknum málflutningi tekur Hæstiréttur málið til dóms.
    

16. gr.


    Ný grein, sem verður 163. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Dómar Hæstaréttar skulu byggðir á því sem hefur komið fram í máli og er sannað eða viðurkennt. Ákvæði 111. gr. gilda um dóma Hæstaréttar.
    2. Nú hefur aðili borið fram kröfur eða málsástæður sem hann hafði ekki uppi í héraði og getur þá Hæstiréttur byggt á þeim við úrlausn máls ef þær hafa komið fram í áfrýjunarstefnu eða greinargerð stefnda, grundvelli máls er ekki raskað á þann hátt, afsakanlegt er að þær voru ekki hafðar uppi í héraði og það yrði aðilanum til réttarspjalla að ekki yrði tekið tillit til þeirra.
    

17. gr.


    Ný grein, sem verður 164. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Að því leyti sem þarf að taka afstöðu til atriða varðandi rekstur máls fyrir Hæstirétti ræður hann þeim til lykta með ákvörðun, hvort sem ágreiningur er um þau milli aðila eða ekki, enda leiði ákvörðunin ekki til loka máls fyrir dóminum. Ákvörðun verður ekki rökstudd sérstaklega, en um efni hennar skal getið í þingbók eftir þörfum.
    2. Úr öðrum atriðum máls leysir Hæstiréttur með dómi. Ef mál er fellt niður eða því er vísað frá Hæstarétti skal aðeins getið um ástæður þess í dómi, svo og um málskostnað ef því er að skipta. Sama gildir ef héraðsdómur er ómerktur og máli vísað heim eða því er vísað frá héraðsdómi.
    3. Sé kveðið á í dómi um önnur málalok en getur í 2. mgr. skal greina þar frá kröfum aðila eftir því sem þörf er á svo að niðurstaða verði skýr. Að því leyti sem greinargerð um málsatvik er ábótavant í héraðsdómi skal bætt úr því í dómi Hæstaréttar. Ef og að því leyti sem niðurstöðu héraðsdóms er breytt skal það rökstutt í dómi Hæstaréttar. Fallist Hæstiréttur á niðurstöðu héraðsdóms en ekki á röksemdir fyrir henni getur hann greint frá rökum sínum eftir því sem þykir þörf.
    4. Um dóma Hæstaréttar gilda að öðru leyti ákvæði 114. gr. eftir því sem getur átt við.
    

18. gr.


    Ný grein, sem verður 165. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    1. Dóm skal kveða upp svo fljótt sem er unnt eftir að mál er dómtekið og aldrei síðar en þegar fjórar vikur eru liðnar frá því. Verði því ekki komið við og hafi mál verið munnlega flutt skal endurtaka málflutning að því leyti sem Hæstarétti þykir nauðsynlegt.
    2. Strax eftir dómtöku máls skulu dómarar ræða með sér fyrir luktum dyrum röksemdir og niðurstöðu dóms. Fyrir málflutning felur forseti einum dómara að vera frummælandi á þeim fundi, en forseti stýrir þar ráðagerðum, ber fram spurningar, stuðlar að því að álit hvers dómara komi þar sem skýrast fram og telur atkvæði þeirra. Afl atkvæða ræður úrslitum. Að lokinni umræðu felur forseti frummælandanum að semja atkvæði að dómi. Greinist dómarar í meiri og minni hluta semur frummælandinn atkvæði fyrir þann hluta sem hann heyrir til, en hinir dómararnir ákveða hver þeirra semji atkvæði þeirra. Dómari, sem greiðir atkvæði með ómerkingu héraðsdóms eða frávísun máls og verður í minni hluta, verður einnig að greiða atkvæði um efni máls. Dómarar ganga í sameiningu frá dómi, með eða án sératkvæða.
    3. Við uppkvaðningu dóms skal lesa upp dómsorð í heyranda hljóði á dómþingi eftir því sem þörf þykir. Ef sératkvæði er í dómi skal þess einnig getið.
    4. Í dómasafni Hæstaréttar skal birta alla dóma hans ásamt rökstuðningi fyrir héraðsdómum í sömu málum og öðru því úr héraðsdómum sem er þörf á svo að dómar Hæstaréttar verði nægilega ljósir. Einnig skal birta sératkvæði í dómum Hæstaréttar ef þar er komist að annarri niðurstöðu en í atkvæði meiri hluta, en annars nægir að geta að ágreiningur hafi orðið um rökstuðning fyrir niðurstöðu. Birta má útdrátt úr dómi ef það telst nægilegt til upplýsinga um málavexti og málsástæður. Hæstiréttur setur nánari reglur um dómasafn.

19. gr.


    Ný grein, sem verður 166. gr. laganna, verður svohljóðandi:
    Um meðferð áfrýjunarmála fer að öðru leyti eftir reglum þessara laga um meðferð mála í héraði eftir því sem á við.
    

20. gr.


    157. og 158. gr. laganna verða 167. og 168. gr.
    

21. gr.


    Á eftir 168. gr. laganna kemur nýr kafli, sem verður XXVII. kafli, en fyrirsögn hans verður: Endurupptaka máls sem hefur verið dæmt í Hæstarétti. Í þeim kafla verður ein grein, sem verður 169. gr., svohljóðandi:
    1. Hæstiréttur getur leyft samkvæmt umsókn aðila að mál, sem þar hefur verið dæmt, verði tekið þar til meðferðar og dómsuppsögu á ný ef eftirfarandi skilyrðum er fullnægt:
    sterkar líkur eru leiddar að því að málsatvik hafi ekki verið leidd réttilega í ljós í Hæstarétti þegar málið var þar til meðferðar fyrra skiptið og aðilanum verður ekki kennt um það,
    sterkar líkur eru leiddar að því að ný gögn muni verða til breyttrar niðurstöðu í mikilvægum atriðum,
    önnur atvik mæla með því að leyfið verði veitt, þar á meðal að stórfelldir hagsmunir aðilans séu í húfi.
    2. Aðili getur ekki sótt um endurupptöku máls skv. 1. mgr. nema einu sinni. Að öðru leyti getur aðili ekki afsalað sér rétti til að beiðast endurupptöku.
    3. Ákvæði 1.–3. mgr. 168. gr. gilda um umsókn um endurupptöku, meðferð umsóknar, ákvörðun um hana og áhrif endurupptöku.
    4. Nú hefur endurupptaka verið ákveðin en útivist verður við nýja meðferð málsins fyrir Hæstarétti af hendi þess sem beiddist hennar og fellur þá frekari meðferð málsins niður þannig að fyrri dómur stendur óhaggaður. Dómur skal hins vegar felldur á málið þótt gagnaðili sæki ekki þing.
    5. Að öðru leyti fer meðferð málsins fram á ný fyrir Hæstarétti samkvæmt reglum XXIV. eða XXV. kafla þessara laga eftir því sem á við.
    

22. gr.


    159.–169. gr. laganna verða 170.–180. gr. Þá verða XXVII. og XXVIII. kafli laganna XXVIII. og XIX. kafli.
    

23. gr.


    1. Nú hefur dómi verið áfrýjað fyrir gildistöku þessara laga og hagsmunir í málinu hefðu ekki nægt til að áfrýjað yrði skv. 152. gr., og getur þá Hæstiréttur ákveðið að málið verði skriflega flutt þar fyrir dómi.
    2. Hafi dómi verið áfrýjað fyrir gildistöku þessara laga en málið ekki verið þingfest fyrir Hæstarétti skal þingfesting fara fram eftir fyrirmælum eldri laga á áður ákveðnum tíma, en upp frá því skal málið rekið eftir reglum þessara laga, sbr. einnig 3. mgr.
    3. Hafi mál verið þingfest fyrir Hæstarétti fyrir gildistöku þessara laga en greinargerð áfrýjanda ekki verið lögð fram þar fyrir dómi eða ágrip dómsgerða verið afhent skal Hæstiréttur setja áfrýjanda frest til að afhenda sérstaka greinargerð, þar sem skal greint frá því sem ætti annars að vera gert í áfrýjunarstefnu skv. 1. mgr. 155. gr., og málsgögn skv. 156. gr. Upp frá því skal málið rekið eftir reglum þessara laga, en fyrri ákvörðun um fyrirtöku máls fyrir Hæstarétti fellur þá niður.
    4. Hafi áfrýjandi lagt fram greinargerð fyrir Hæstarétti og afhent ágrip dómsgerða fyrir gildistöku þessara laga en stefndi ekki lagt fram greinargerð fyrir sitt leyti skal Hæstiréttur setja honum frest til að afhenda greinargerð og málsgögn fyrir sitt leyti skv. 159. gr. Upp frá því skal málið rekið eftir reglum þessara laga, en fyrri ákvörðun um fyrirtöku máls fyrir Hæstarétti fellur þá niður.
    5. Hafi greinargerðir aðila verið lagðar fram í máli fyrir Hæstarétti fyrir gildistöku þessara laga og því hefur verið frestað til frekari gagnaöflunar skal Hæstiréttur setja aðilunum frest til að ljúka henni skv. 160. gr. Upp frá því skal málið rekið eftir reglum þessara laga, en fyrri ákvörðun um fyrirtöku máls fyrir Hæstarétti fellur þá niður.
    6. Nú er mál tilbúið til munnlegs málflutnings eða málflutningur hefur þegar farið fram en máli er þó ekki lokið fyrir Hæstarétti við gildistöku þessara laga og gilda þá reglur þessara laga um frekari meðferð þess eftir því sem getur átt við.
    

24. gr.


    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1994. Við gildistöku þessara laga falla úr gildi 39.–59. gr. laga um Hæstarétt Íslands, nr. 75 21. júní 1973, með áorðnum breytingum.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Þetta frumvarp er samið að tilhlutan dómsmálaráðherra og á vegum réttarfarsnefndar og er það liður í heildarendurskoðun á reglum í réttarfarslögum um áfrýjun héraðsdóma til Hæstaréttar og meðferð áfrýjunarmála þar fyrir dómi. Í þessu frumvarpi eru gerðar tillögur um reglur um áfrýjun dóma í einkamálum og meðferð þeirra mála á æðra dómstigi og er ráðgert að reglurnar falli inn í lög um meðferð einkamála, nr. 91/1991, ef frumvarpið nær fram að ganga. Samhliða þessu hefur verið samið frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, og eru gerðar þar svipaðar tillögur varðandi opinber mál og hér eru. Að auki hefur verið samið sérstakt frumvarp þar sem eru lagðar til nokkrar breytingar á lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973. Er þá gengið út frá að þessi þrjú frumvörp komi í einu lagi til nánari athugunar og eftir atvikum afgreiðslu, enda byggjast tillögur í þeim á sameiginlegum grunni og hafa að markmiði að koma á nýrri heildarskipan varðandi áfrýjun dómsmála.
    Endurskoðunin á reglum um áfrýjun og málsmeðferð fyrir Hæstarétti er framhald af vinnu við ný réttarfarslög sem tóku gildi 1. júlí 1992, en í henni var megináhersla lögð á endurskoðun reglna um skipan héraðsdómstóla og meðferð mála fyrir þeim, svo og heimildir til að kæra atriði varðandi rekstur mála fyrir héraðsdómi til Hæstaréttar og meðferð kærumála þar. Þegar nýja réttarfarslöggjöfin var í mótun var beðið um sinn með að gera endanlegar tillögur um reglur varðandi áfrýjun til Hæstaréttar og meðferð áfrýjunarmála, m.a. til að hægt yrði að fá lítils háttar reynslu af áhrifum nýrra reglna um meðferð máls í héraði á annir og starfshætti Hæstaréttar. Í lögum um meðferð einkamála voru þannig aðeins settar nýjar reglur um heimildir til áfrýjunar sem leiddu til nokkurra breytinga frá eldri lögum, en að öðru leyti voru reglur um meðferð áfrýjaðra einkamála fyrir Hæstarétti látnar haldast lítt breyttar í lögum um Hæstarétt Íslands. Þá voru eldri reglur um áfrýjun í opinberum málum og meðferð þeirra fyrir Hæstarétti teknar upp með nokkrum breytingum í lög nr. 19/1991. Með þessu frumvarpi eru lagðar til frekari breytingar á reglum um heimildir til áfrýjunar í einkamálum en voru gerðar með XXV. kafla laga um meðferð einkamála, en jafnframt miða ákvæði frumvarpsins að því að flytja nýjar reglur um meðferð einkamála fyrir Hæstarétti úr lögum nr. 75/1973 í umræddan XXV. kafla sem lengist þar með nokkuð. Er það gert til samræmis við þá stefnu sem var mótuð með setningu nýju réttarfarslaganna sem tóku gildi 1. júlí 1992 því með þeim voru reglur um málskot og meðferð mála fyrir æðra dómi fluttar að verulegu leyti úr lögunum um Hæstarétt. Verði þetta frumvarp að lögum mundu aðeins standa eftir fyrstu ellefu greinar laganna um Hæstarétt Íslands frá 1973 þar sem er fjallað um skipan dómstólsins og fáein almenn atriði varðandi starfsskipulag þar, en reglur um málskot og meðferð mála væru þá horfnar með öllu úr lögunum. Er stefnt að því að á komandi ári líti síðan dagsins ljós frumvarp til nýrra laga um skipan dómstóla þar sem reglur yrðu bæði um skipan héraðsdómstóla og Hæstaréttar, auk almennra reglna um dómara á báðum dómstigum. Með því frumvarpi yrði stefnt að endanlegu brottfalli laganna um Hæstarétt Íslands, auk þess að það ætti að leysa af hólmi reglur um skipan héraðsdómstóla sem eru nú í I. kafla laga um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði, nr. 92/1989. Með því frumvarpi væri þá endanlega lokið þeirri heildarendurskoðun á réttarfarslöggjöf sem hófst á árinu 1987.
    

Helstu efnisatriði frumvarpsins.


I.


    Í núgildandi löggjöf er reglum um áfrýjunarheimildir í einkamálum og meðferð áfrýjaðra einkamála eins og áður segir skipt milli tvennra laga því í XXV. kafla laga um meðferð einkamála er mælt fyrir um heimildir til áfrýjunar og fyrstu stig áfrýjunarmeðferðar sem felast í útgáfu áfrýjunarstefnu, en um meðferð mála er að öðru leyti fjallað í lögum um Hæstarétt Íslands, nr. 75/1973. Reglurnar, sem voru teknar upp í XXV. kafla laga um meðferð einkamála, voru áður í lögunum um Hæstarétt Íslands. Við það tækifæri voru gerðar vissar breytingar á reglunum sem færðust á þennan hátt milli laga, en breytingarnar sneru einkum að skilyrðum fyrir áfrýjun og veitingu undanþágu frá þeim með áfrýjunarleyfi. Að öðru leyti eru núgildandi reglur að stofni til miklum mun eldri en lög nr. 75/1973, enda hafa þær staðið með tiltölulega litlum breytingum allt frá fyrstu lögunum um Hæstarétt Íslands, nr. 22/1919, og gegnum yngri lög um hann, nr. 112/1935 og síðan nr. 57/1962, þar til núgildandi lög voru sett.
    Þótt reglur um áfrýjun og meðferð áfrýjunarmála hafi þannig tekið litlum breytingum á þeim áratugum sem þær hafa staðið í lögum hafa aðstæður á þessum vettvangi breyst talsvert að öðru leyti. Þannig hafa til dæmis smám saman orðið verulegar breytingar á reglum um meðferð einkamála fyrir héraðsdómi sem hafa meðal annars leitt af sér auknar kröfur til málsaðila eða lögmanna þeirra um undirbúning mála í hendur dómstóla. Reglur hafa einnig verið settar til að stuðla að greiðari málsmeðferð í héraði með því meðal annars að létta verklagið og draga úr óþarfa formsatriðum, auk þess að tillit hefur verið tekið í nýrri reglum til tækniframfara varðandi fjölföldun gagna og fleiri sambærileg atriði. Þessum breytingum á reglum um málsmeðferð í héraði hefur lítið verið fylgt eftir með endurskoðun á reglum um meðferðina fyrir æðra dómi. Þá hefur verið leitast við að gera nauðsynlegar breytingar á reglum, sem varða málsmeðferð á lægra dómstigi, til að vega á móti stórfelldri fjölgun dómsmála sem hefur aukið álag á dómstólunum verulega og leitt af sér hættu á seinagangi við rekstur mála. Þessu hefur ekki að öllu leyti verið fylgt eftir með endurskoðun á reglum um málsmeðferðina fyrir Hæstarétti eða reglum um heimildir til málskots þar sem hafa löngum verið mjög væg skilyrði fyrir málskoti þótt vissar breytingar hafi orðið í þeim efnum á síðustu árum.
    Með þessu frumvarpi er ekki aðeins lagt til að það skref verði stigið að sameina reglur um áfrýjunarheimildir í einkamálum og meðferð áfrýjaðra einkamála fyrir Hæstarétti í ein lög, heldur eru um leið gerðar ýmsar tillögur um breytingar á reglunum. Þær helstu eru eftirfarandi:
    Í fyrsta lagi að herða skilyrði fyrir rétti til að áfrýja smærri málum og gera þá réttinn til málskots háðan leyfi Hæstaréttar í þeim tilvikum. Er vikið nánar að þessu í III. lið hér á eftir.
    Í öðru lagi byggja tillögur í frumvarpinu á því að þótt rétturinn til áfrýjunar yrði að nokkru leyti skilyrtur verði hvergi nærri girt fyrir endurskoðun á þeim úrlausnum héraðsdómstóla sem slík skilyrði mundu ná til. Koma þá bæði til heimildir Hæstaréttar samkvæmt reglum frumvarpsins til að veita leyfi til áfrýjunar, m.a. á þeirri forsendu að tilefni geti verið til að ætla að niðurstöðum héraðsdóms yrði breytt við áfrýjun til Hæstaréttar og að Hæstiréttur mundi þannig meta hvort annmarkar séu á úrlausn héraðsdóms í smærri málum og veita leyfi til að áfrýja þeim ef svo væri. Meðferð Hæstaréttar á beiðnum um leyfi til að áfrýja smærri málum fæli þannig í sér að úrlausnir í þeim kæmu til vissrar endurskoðunar fyrir æðra dómi, en samkvæmt reglum frumvarpsins yrði sú endurskoðun framkvæmd með tiltölulega einföldum og skjótvirkum hætti í stað þess að málin sættu áfrýjun til Hæstaréttar eins og nú er. Um tillögur í frumvarpinu um þetta er einnig fjallað nánar í III. lið hér á eftir.
    Þá er í þriðja lagi ráðgert í frumvarpinu að breytingar verði á meðferð áfrýjaðra einkamála fyrir Hæstarétti, en með tillögum um þetta er stefnt að því að einfalda meðferðina og flýta henni. Að helstu atriðunum í því sambandi verður vikið nánar í IV. lið hér á eftir.
    

II.


    Helstu tillögurnar í frumvarpinu taka meðal annars mið af því að á undangengnum áratug hefur málum, sem skotið er til Hæstaréttar, fjölgað mikið, en þetta hefur aftur valdið því að afgreiðslutími mála hefur lengst þar stig af stigi. Með þessu frumvarpi er leitast við að ráða bót á þessu, bæði með því að draga úr málafjöldanum og flýta afgreiðslu mála.
    Svipuð staða hefur komið upp fyrr hér á landi og má í því sambandi minnast þess að gripið var til sérstakra úrræða af þessum sökum með tímabundinni fjölgun dómara við Hæstarétt á árunum 1982 og 1983, á grundvelli laga nr. 67/1982. Fyrir þann tíma höfðu óafgreidd mál safnast fyrir í þeim mæli vegna aukinna áfrýjana að annað þótti ekki verjandi en að ráðast gegn því með fjölgun dómara. Þetta bar þann árangur að um og upp úr miðjum síðasta áratug hafði tekist að draga verulega úr fjölda óafgreiddra mála og var málatíminn fyrir Hæstarétti orðinn fremur stuttur, bæði í samanburði við undangengin ár hér á landi og málatíma í öðrum löndum. Á árinu 1986 fór hins vegar að gæta nýrrar öldu í fjölgun mála fyrir Hæstarétti sem reis hærra en dæmi höfðu sést um fyrr, en málafjöldinn steig frá ári til árs allt fram að árinu 1992 eins og hér sést nánar:




    


TAFLA REPRÓ
    
    Á árinu 1993 hefur málafjöldinn þróast þannig fram til 1. september að áfrýjanir í einkamálum voru 172, áfrýjanir í opinberum málum voru 71, kærur í einkamálum voru 77 og kærur í þeim opinberu 30, en alls voru ný mál á tímabilinu þannig 350. Eru þau um tuttugu fleiri en á sama tíma á árinu 1992.
    Ekki verður séð að hægt sé að benda á neinar algildar skýringar á þeirri fjölgun sem varð á málum fyrir Hæstarétti á þessu tímabili. Að hluta kann þetta þó að skýrast af því að svokölluð áfrýjunarfjárhæð, þ.e. lágmarksfjárhæðin sem hagsmunir í máli þurftu að ná til að áfrýjun væri heimil, var ákveðin með breytingu sem var gerð á lögum nr. 75/1973 á árinu 1982, en hún stóð síðan í stað allt til ársins 1992 þrátt fyrir verulegar verðlagsbreytingar. Eins fór þess að gæta í auknum mæli að einkamálum væri áfrýjað að því er virðist gagngert til að tefja fyrir að fullnusta yrði fengin á kröfum. Eins og má ráða af ofangreindum tölum dróst fjöldi nýrra mála hins vegar nokkuð saman á árinu 1992, auk þess að innbyrðis vægi milli málategunda breyttist með fjölgun á kærum í einkamálum og samdrætti á áfrýjunum á sama sviði. Þessi þróun á árinu 1992 á meira eða minna rætur að rekja til breytinga sem urðu með gildistöku nýrra réttarfarslaga á miðju árinu, en þar kom bæði til að ýmsar tegundir mála, sem sættu áður áfrýjun til Hæstaréttar, breyttust í kærumál og vissar breytingar komu þá til framkvæmdar á skilyrðum fyrir áfrýjun í einkamálum, auk þess að mjög var dregið úr að hægt væri að beita áfrýjun til að ná aðeins fram töfum á fullnustu á kröfu.
    Á tímabilinu frá 1988 til 1992 leiddi þessi aukni fjöldi mála fyrir Hæstarétti til þess að smám saman lengdist afgreiðslutími mála þar. Tímabundin fjölgun dómara á árunum 1982 og 1983 leysti um sinn sambærilegan vanda á sínum tíma, enda var afgreiðslutími mála eins og áður sagði orðinn skammur á árabilinu 1985 til 1987. Í tengslum við þær aðgerðir var hins vegar ekki gripið til neinna ráðstafana til að draga úr hættu á að aftur mundi sækja í sama far, t.d. með breytingu á reglum um málskotsheimildir eða málsmeðferð, þannig að skömmu eftir að málafjöldinn jókst frá fyrra horfi tókst ekki að hafa undan nýjum málum. Eftirfarandi eru upplýsingar um mál sem hefur verið lokið fyrir Hæstarétti á því árabili:
    

TAFLA REPRÓ










    
    Af þessu er ljóst að fjöldi afgreiddra mála fyrir Hæstarétti hefur aukist verulega frá ári til árs eftir 1988 ef frá er talið árið 1990, en mesta breytingin varð þó á árinu 1992 sem stafaði öðrum þræði af því hve miklu fleiri mál voru afgreidd þá sem kærumál í skjóli breytinga á réttarfarslöggjöf sem tóku gildi á árinu. Taka verður fram með nýju lögunum varð sjálfkrafa sú breyting á málum varðandi fullnustugerðir sem hafði verið áfrýjað fyrir gildistöku þeirra samkvæmt reglum eldri laga að þau sættu kærumeðferð upp frá því. Skýrir það hvers vegna dómar á árinu 1992 í kærðum einkamálum urðu svo margir sem raun ber vitni þótt málskotum með kæru hafi ekki fjölgað jafnmikið á því ári. Þrátt fyrir þessa verulegu aukningu á afgreiddum málum má sjá af samanburði á þessum upplýsingum við yfirlitið hér á undan um fjölda nýrra mála að á árinu 1992 hefur tekist í fyrsta sinn frá árinu 1985 að nálgast að ná jöfnuði milli nýrra mála og afgreiddra á sama ári, en umtalsvert bil var þar á milli á næstu árum á undan. Á þessu heildartímabili hefur tekist meira eða minna að afgreiða nærri jafnharðan kærumál, bæði í einkamálum og opinberum málum, og opinber mál sem hefur verið skotið til Hæstaréttar með áfrýjun, en slík mál hafa yfirleitt verið látin ganga að einhverju leyti fyrir öðrum málum. Áfrýjuð einkamál hafa á hinn bóginn þurft að bíða nokkuð afgreiðslu og var svo komið við lok ársins 1992 að 275 slík mál biðu tilbúin til málflutnings og dóms fyrir Hæstarétti. Biðtíminn frá því slík mál eru tilbúin til málflutnings og þar til málflutningur fer fram hefur lengst stig af stigi á þessu tímabili og er nú um tvö og hálft ár.
    Aukið álag á dómstólum á málskotsstigi og lenging á afgreiðslutíma þar eru engan veginn einsdæmi hér á landi, enda er sambærileg staða uppi í mörgum nágrannalöndum. Sá munur er þó á aðstæðum að meðan þetta leiðir til vandkvæða hér á landi fyrir Hæstarétti beinast vandkvæðin fremur að álagi á millidómstigi í öðrum löndum þar sem dómstigin eru þrjú en ekki tvö eins og hér. Annars staðar hefur víða verið reynt að bregðast við þessu með því að styrkja fyrsta dómstigið og takmarka síðan heimildir til málskots þaðan á millidómstig, en á æðsta dómstig komast sums staðar engin mál án leyfis. Hér á landi mætti vissulega bregðast við auknu álagi á Hæstarétti með því að koma á fót millidómstigi sem mætti áfrýja úrlausnum héraðsdómstóla til og þrengja síðan mjög heimildir til að skjóta málum þaðan til æðsta dómstólsins sem fengist þá einkum við stefnumarkandi mál. Þessu mundi á hinn bóginn fylgja umtalsverður kostnaður og er jafnvel hætta á að vandinn færðist aðeins milli dómstiga, þannig að heildartíminn, sem tæki að fá mál endanlega afgreidd, yrði sá sami og nú er eða ef til vill lengri, ekki síst ef mál færi um þrjú dómstig. Þrátt fyrir að ýmsir kostir gætu fylgt fjölgun dómstiga hér á landi er ekki ráðgert í þessu frumvarpi að það verði gert, heldur er tekið mið af óbreyttri dómstólaskipan og reynt þess í stað með tillögum í frumvarpinu að draga úr fjölda þeirra mála sem verður skotið til Hæstaréttar og auðvelda meðferð þeirra. Er þá meðal annars tekið tillit til leiða sem hafa verið farnar erlendis í þessu skyni eða eru þar til umræðu. Á þennan hátt þykir raunhæft að vænta að það takist að treysta í sessi að jafnvægi haldist milli nýrra mála og afgreiddra fyrir Hæstarétti. Eftir sem áður stæði þá óleystur sá vandi sem stafar af fyrrnefndri uppsöfnun óafgreiddra mála frá síðustu árum, en lausn á honum fengist varla nema á lengri tíma en viðunandi væri með þeim úrræðum einum sem eru lögð til í þessu frumvarpi. Er því lagt til með sérstöku frumvarpi að dómurum verði fjölgað um einn við Hæstarétt og að nokkrar minni háttar breytingar verði um leið gerðar á reglum í lögum nr. 75/1973 sem hafa áhrif á verklag við málsmeðferð, en með þeim væri hægt að liðka nokkuð fyrir afgreiðslu mála. Með því væri fyrirsjáanlega hægt að ljúka eldri málum sem bíða nú afgreiðslu fyrir Hæstarétti um leið og nýrri málum yrði sinnt jafnharðan.
    

III.


    Takmarkanir hafa löngum verið hér á landi, líkt og í öðrum löndum, á heimildum til að áfrýja dómum í einkamálum, en breytilegt hefur verið hér frá einum tíma til annars hversu miklar þær hafa verið. Helsta takmörkunin í þessum efnum hér á landi hefur tengst áskilnaði um að hagsmunir í máli verði að ná tilteknu lágmarki. Frá því á árinu 1983 og fram að gildistöku laga um meðferð einkamála 1. júlí 1992 mátti áfrýja dómum í einkamálum án frekari skilyrða um hagsmuni ef höfuðstóll peningakröfu, sem mál varðaði, náði 7.000 krónum. Undanþágu mátti fá frá þessu skilyrði með áfrýjunarleyfi sem dómsmálaráðherra veitti. Skilyrði fyrir áfrýjun voru hert talsvert að þessu leyti með lögunum um meðferð einkamála því áfrýjunarfjárhæð var hækkuð þar í 150.000 krónur, en á móti því komu sem fyrr heimildir til að veita áfrýjunarleyfi sem Hæstarétti var falið að annast. Þá voru áfrýjunarheimildir einnig takmarkaðar með lögunum á þann hátt að girt var fyrir að stefndi í máli gæti áfrýjað dómi á hendur sér ef hann hafði ekki mætt til að halda uppi vörnum fyrir héraðsdómi, en í stað málskots opnuðust heimildir til að leita eftir endurupptöku slíkra mála í héraði. Bæði eftir eldri og yngri lögum hefur heimildin til að áfrýja dómum í málum, sem varða annað en peningakröfu, verið háð því skilyrði að hagsmunir af úrslitum máls teljist svara til áfrýjunarfjárhæðar að mati Hæstaréttar.
    Ástæðan fyrir takmörkunum af þessum toga á skilyrðislausri heimild til áfrýjunar er öðru fremur þörfin á að koma í veg fyrir að mál, sem litlu eða engu skipta, auki álag á æðra dómstigi. Í því sambandi er haft í huga að tekið getur jafnlangan tíma og sömu erfiðismuni að reka og leysa úr máli þar sem hagsmunir eru hverfandi litlir og máli þar sem aðilarnir eiga mikið í húfi. Dómsmál, sem þjóna litlum eða engum tilgangi, geta um leið tafið fyrir framgangi mála sem einhverju skipta. Þá ræðst kostnaður af rekstri dómstóla ekki af hagsmunum sem eru til úrlausnar í einstaka málum, heldur af fjölda og umfangi málanna sem eru þar til meðferðar. Enn fremur hefur verið tekið tillit til þess að við áfrýjun er leitað eftir endurskoðun á dómsúrlausn sem hefur verið fengin fyrir dómstóli á lægra dómstigi, en þar starfa löglærðir dómarar sem verða að fullnægja ýmsum almennum hæfisskilyrðum. Hafa má í huga að endurskoðun dómstólakerfisins og breytingar á réttarfarslögum hafa þegar styrkt fyrsta dómstigið mikið og gefa einnig kost á að gera það enn frekar. Meðal annars af tilliti til þessara atriða hefur þannig þótt nauðsynlegt og óhætt að búa við reglur sem geta leitt til þess að úrlausn, sem er fengin á fyrsta dómstigi, geti orðið endanleg.
    Notkun á kröfufjárhæð sem viðmiði fyrir skilyrðislausri heimild til áfrýjunar helgast bæði hér á landi og erlendis af því að hún gefur yfirleitt ákveðnar vísbendingar um mikilvægi dómsmáls þótt hún geti alls ekki talist vera einhlítur mælikvarði í þeim efnum. Tvö mál geta þannig snúist um sömu fjárhæð sem í einu tilviki skiptir verulega miklu fyrir einstakling sem á hlut að máli en skiptir mjög litlu í öðru máli sem stórfyrirtæki á aðild að. Fjárhæð segir heldur ekki alla söguna um almennt gildi dóms, enda getur mikilvægt fordæmi fengist um lagaatriði í máli þar sem kröfufjárhæð er mjög lág. Í núgildandi reglum um heimildir til að veita undanþágu frá áskilnaði um áfrýjunarfjárhæð, í 154. gr. laga um meðferð einkamála, er einmitt tekið tillit til atriða af þessum meiði, enda eru skilyrðin þar fyrir veitingu leyfis til að áfrýja dómi í máli, þar sem áfrýjunarfjárhæð er ekki náð, þess efnis að úrslit máls verði annaðhvort að vera mikilvæg frá almennu sjónarmiði eða að varða mikilvæga hagsmuni málsaðilanna.
    Athugun á dómum Hæstaréttar frá undanförnum árum í einkamálum, sem hafa sætt áfrýjun, leiðir í ljós að fjárhæðir, sem málin varða, eru oft og tíðum lágar og er þar með líklegt að hagsmunir af málunum hafi ekki alltaf verið teljandi. Í tengslum við gerð þessa frumvarps hefur verið gerð könnun á slíkum dómum sem gengu frá ársbyrjun 1988 fram á árið 1992, en með því að framreikna með lánskjaravísitölu fjárhæð höfuðstóls peningakröfunnar í hverju máli frá gjalddaga hennar til septembermánaðar 1993 kemur fram að miðað við núverandi verðlag greinast málin með eftirfarandi hætti:
    


TAFLA REPRÓ


















    
    Benda verður sérstaklega á að kröfufjárhæðir hafa verið framreiknaðar hér eingöngu til að leiða í ljós umfang þeirra á núverandi verðlagi og gera um leið kleift að draga saman upplýsingar yfir lengra tímabil án hættu á að verðlagsbreytingar skekki myndina. Athygli verður að vekja á því að þegar metið er hvort krafa nái áfrýjunarhæð er aðeins litið til höfuðstóls hennar án vaxta eða framreiknings vegna verðlagsbreytinga frá því hún féll í gjalddaga, sbr. 2. mgr. 152. gr. laga um meðferð einkamála. Þetta verður að hafa í huga þegar litið er til þessara upplýsinga, enda geta oft liðið nokkur ár frá því krafa féll í gjalddaga þar til reynir á hvort hún nái þeirri áfrýjunarfjárhæð sem gildir þegar til kemur.
    Til viðbótar við ofangreindar tölulegar upplýsingar er rétt að taka fram að á eins árs tímabili frá því að lög um meðferð einkamála tóku gildi 1. júlí 1992 og leiddu til hækkunar áfrýjunarfjárhæðar í 150.000 krónur bárust Hæstarétti tólf umsóknir um leyfi til undanþágu frá því skilyrði fyrir áfrýjun. Áfrýjunarleyfi var veitt í þremur tilvikum.
    Af þessum upplýsingum má ráða að nokkur hluti af þeim einkamálum, sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar á liðnum árum, hefur varðað fremur takmarkaða hagsmuni. Þau mál hafa þó eins og önnur leitt til aukins fjölda mála fyrir dóminum og tafa á afgreiðslu þeirra. Þeim mun frekar má draga í efa að öll þessi mál hafi átt knýjandi erindi til æðra dóms þegar tekið er tillit til þess að í verulegum meiri hluta tilvika hafa niðurstöður í héraðsdómum verið staðfestar með dómum Hæstaréttar, a.m.k. í aðalatriðum, en þetta virðist gilda almennt án tillits til hagsmunanna sem hafa verið í húfi hverju sinni.
    Tilgangurinn að baki þeirri skipan að til sé æðra dómstig, þar sem er gefinn kostur á að leita endurskoðunar á úrlausn af lægra dómstigi, er þó ekki aðeins að tryggja að mál, sem varða mikla hagsmuni, geti fengið athugun á tveimur stigum áður en þeim verður lokið endanlega, heldur einnig að hægt sé að fá leiðréttingu á rangri niðurstöðu í héraðsdómi og að æðri dómur geti stuðlað að samræmi í lagaframkvæmd. Þessi síðastnefndu atriði standa ekki endilega í neinum tengslum við mikilvægi hvers og eins máls. Þannig eru yfirleitt sömu rök fyrir heimild til málskots til að leita leiðréttingar á rangri niðurstöðu, hvort sem hagsmunirnir, sem eru í húfi, eru miklir eða litlir. Þar með er þó ekki sagt að öll mál, sem gæti komið til álita að sækjast eftir að fá endurskoðuð á þessari forsendu, þurfi að fá sams konar meðferð fyrir æðra dómi. Eftir því sem hagsmunir í máli eru minni er einmitt frekar ástæða til að mál fái einfalda og ódýra meðferð ef unnt er að tryggja að réttaröryggi sé borgið með henni.
    Þegar reynt er að ráða bót á þeirri stöðu, sem hefur skapast á síðustu árum vegna aukins málafjölda og tafa á meðferð mála fyrir Hæstarétti, er meðal annars nauðsynlegt að leita leiða til að draga úr fjölda þeirra mála sem verður komið þar að með áfrýjun og einfalda jafnframt afgreiðslu minni mála. Af fenginni reynslu virðist óhætt að fullyrða að nokkur fjöldi þeirra einkamála, sem hefur verið áfrýjað til Hæstaréttar á undanförnum árum, varði svo litla hagsmuni að til undantekninga heyri að þau eigi þangað erindi, ekki síst þegar tekinn er með í reikninginn sá kostnaður sem áfrýjandi getur sjálfur þurft að bera af málskoti sínu. Verulega var dregið úr kosti á áfrýjun slíkra mála með hækkun áfrýjunarfjárhæðar í núgildandi lögum, en í þeim efnum hefði að líkindum verið réttlætanlegt að ganga að mun lengra, einkum þegar tekið er tillit til gildandi heimilda til að veita áfrýjunarleyfi. Af tilliti til réttaröryggis er eins og áður sagði nauðsynlegt að kostur sé á að fá leiðréttingu á röngum héraðsdómi með málskoti, en þetta þarf á hinn bóginn ekki að kosta að öll mál fái þá rækilegu umfjöllun sem leiðir af áfrýjun. Í því sambandi má benda á að við athugun á dómum Hæstaréttar á árabilinu frá 1988 til 1992 kemur í ljós að í um 43,5% tilvika voru héraðsdómar staðfestir án neinna breytinga, í um 10% tilvika voru þeir staðfestir með minni háttar breytingum, en í um 46,5% tilvika var niðurstöðu héraðsdóms breytt meira eða málsmeðferðin í héraði felld úr gildi vegna formgalla. Er því unnt að segja að í um helmingi mála leiddi áfrýjun til lítilla sem engra breytinga. Oft og tíðum er einmitt unnt að ráða með fyrirhafnarlítilli athugun á héraðsdómi, málsgögnum og röksemdum málsaðila hvort nokkur líkindi séu fyrir að héraðsdómi yrði breytt að undangenginni rækilegri athugun. Ef þau líkindi þykja engin er til einskis að verja tíma og fjármunum í rekstur tilgangslauss máls fyrir æðra dómi, einkum ef hagsmunir af því eru litlir.
    Með tilliti til þessara atriða er gerð tillaga í 5. gr. frumvarpsins um þá breytingu á áfrýjunarfjárhæð að hún nemi 500.000 krónum, en heimilt yrði að leita áfrýjunarleyfis ef kröfufjárhæð í máli næði ekki þeirri fjárhæð. Með sama hætti og eftir núgildandi reglum kæmi í hlut Hæstaréttar að ákveða hvort leyfi yrði veitt og væri hægt að veita það eins og hingað til ef úrslit máls hafa mikið almennt gildi eða varða mikilvæga hagsmuni málsaðila. Mestu skiptir þó í þessu sambandi að ráðgert er í c-lið 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins að þriðja kostinum verði bætt við sem forsendu fyrir að veita áfrýjunarleyfi, en hann er sá að málstaður þess sem leitar leyfisins gefi tilefni til að ætla að héraðsdómi kunni að verða breytt svo einhverju nemi. Með þessari reglu væri opnuð leið til að veita áfrýjunarleyfi án tillits til hagsmuna í máli með hliðsjón af því að ekki sé víst að héraðsdómur yrði staðfestur fyrir Hæstarétti ef málið fengi áfrýjunarmeðferð. Leggja verður áherslu á að hér er gengið út frá að meðferð umsóknar um áfrýjunarleyfi, sem væri studd við þessa forsendu, fæli í raun í sér að Hæstiréttur tæki afstöðu til efnisatriða í máli og endurskoðaði þar með niðurstöðu héraðsdóms. Þannig má benda á að skv. 7. gr. frumvarpsins yrði umsókn um áfrýjunarleyfi að vera ítarlega rökstudd og bæri Hæstarétti að gefa gagnaðila umsækjandans kost á að tjá sig um hana, en þar með kæmu fram röksemdir beggja eða allra málsaðila varðandi hugsanlegar breytingar á niðurstöðu í héraðsdómi. Þá ber að nefna að skv. 5. mgr. 3. gr. laga nr. 75/1973 eru það dómarar við Hæstarétt sem taka afstöðu til umsóknar um áfrýjunarleyfi. Loks verður að vekja athygli á að eins og orðalagi er hagað í c-lið 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins ætti ekki að synja um áfrýjunarleyfi nema næsta víst þyki að engar eða aðeins mjög óverulegar breytingar yrðu gerðar á niðurstöðu í héraðsdómi ef áfrýjun yrði leyfð. Er þannig ráðgert að Hæstiréttur tæki eingöngu endanlega afstöðu til efnisatriða í máli í tengslum við höfnun umsóknar um áfrýjunarleyfi og þá aðeins á þeim grunni að málið varði ekki mikilvæga hagsmuni og ekki sé annars að vænta en að héraðsdómur í því yrði staðfestur að undangenginni áfrýjun. Slík höfnun yrði að vera rökstudd, sbr. 5. mgr. 7. gr. frumvarpsins. Ef vafi væri hins vegar um hugsanleg málalok yrði að veita áfrýjunarleyfið og þá án þess að neinu væri slegið föstu um hvernig endanlegar lyktir málsins gætu síðan orðið.
    Með þeim tillögum, sem nú hefur verið lýst, er ekki beinlínis verið að stefna að frekari takmörkunum á heimildum til að leita endurskoðunar á héraðsdómum í einkamálum en eru gildandi nú, heldur er fremur opnuð einföld og skjótvirk leið til að ljúka þeirri endurskoðun fyrir Hæstarétti ef mál varðar aðeins takmarkaða hagsmuni og ljóst þykir að héraðsdómi yrði ekki breytt þótt málið fengi umfangsmeiri meðferð. Sérstaklega verður að benda á að þótt frumvarpið yrði að lögum væri ekki búið að útiloka neitt teljandi hlutfall mála frá áfrýjun með hækkun áfrýjunarfjárhæðarinnar frá því sem nú gildir því eftir sem áður yrði að veita áfrýjunarleyfi í málum þar sem niðurstaðan skiptir miklu fyrir málsaðila eða almennt séð og eins bæri að veita slíkt leyfi ef ekki þætti ljóst að máli um takmarkaða hagsmuni lyki með staðfestingu héraðsdóms. Um þá fækkun áfrýjunarmála, sem fengist með þessum hætti, mundi á hinn bóginn muna fyrir starfsemi Hæstaréttar og gera hann betur settan til að sinna vandasamari og mikilvægari málum á skemmri tíma en nú er kleift. Fyrir því má hæglega færa rök að þegar á heildina er litið vegi slík breyting þyngra á metum fyrir réttaröryggi en óheftar heimildir til áfrýjunar.
    

IV.


    Þess var getið hér áður að með frumvarpinu eru gerðar tillögur um ýmsar breytingar á reglum um meðferð áfrýjaðra einkamála fyrir Hæstarétti. Þær helstu eru eftirfarandi:
    Í 8. gr. frumvarpsins eru tillögur um breytingar á ákvæðum 155. gr. laga um meðferð einkamála þar sem er fjallað um áfrýjunarstefnur. Helsta breytingartillagan snýr að því að gera áfrýjunarstefnu verulega ítarlegri en nú er áskilið, en að nokkru er þá leitað fyrirmynda í 80. gr. laganna þar sem er fjallað um stefnu í héraði. Með þessu er leitast við að gera tilgang áfrýjunar og grundvöll máls fyrir Hæstarétti skýrari, m.a. með því að áskilja að greint sé af nákvæmni frá kröfum áfrýjanda um úrslit máls fyrir Hæstarétti og röksemdum fyrir þeim, en um sum þessara atriða skortir oft viðunandi upplýsingar allt fram að munnlegum flutningi máls fyrir Hæstarétti í framkvæmd eftir núgildandi reglum. Þessi breyting hefði augljós áhrif í þá átt að gera rekstur máls fyrir Hæstarétti markvissari frá byrjun.
    Í 44. gr. laga nr. 75/1973 eru reglur um skriflegar greinargerðir sem er ætlast til að málsaðilar leggi fram hvor eða hver fyrir sitt leyti í Hæstarétti. Í þeim reglum er gengið út frá að greinargerðir séu stuttorðar og aðeins greint frá kröfugerð aðila, svo og upplýsingum um atvik máls og sönnunargögnum sem aðilinn byggði ekki á fyrir héraðsdómi. Í frumvarpinu er stefnt að umtalsverðum breytingum frá þessum reglum og þá einkum að þrennu leyti. Í fyrsta lagi er ekki gert ráð fyrir að áfrýjandi skili skriflegri greinargerð fyrir sitt leyti, heldur er ætlast til að hann geri nægilega grein fyrir málinu í áfrýjunarstefnu, sbr. 8. gr. frumvarpsins. Í öðru lagi eru lagðar til reglur í 12. gr. frumvarpsins um miklu ítarlegri greinargerð af hálfu stefnda en eftir núgildandi reglum ef hann hyggst halda uppi vörnum fyrir Hæstarétti. Reglur frumvarpsins um efni greinargerðar stefnda svara meira eða minna til fyrrnefndra reglna um efni áfrýjunarstefnu. Í þriðja lagi er loks ætlast til í 11. gr. frumvarpsins að stefndi fái miklu styttri frest til að skila greinargerð sinni fyrir Hæstarétti en nú tíðkast á grundvelli 44., sbr. 41. og 42. gr. laga nr. 75/1973. Með þeirri tillögu er stefnt að því að mál taki á sig skýra mynd strax á fyrstu stigum.
    Samkvæmt núgildandi reglum í lögum nr. 75/1973 eru háð regluleg þinghöld í Hæstarétti þar sem áfrýjuð einkamál eru þingfest, en eftir þingfestingu eru mál að öðru jöfnu tekin fyrir oftar en einu sinni í reglulegum þinghöldum til að aðilum gefist kostur á leggja fram gögn. Málsaðili verður að láta sækja öll slík þinghöld í máli sínu ef hann ætlar að halda málstað sínum fram, en í þeim er þó fátt annað gert en að leggja fram skjöl í máli og taka ákvörðun um næstu fyrirtöku þess. Með frumvarpinu eru lagðar til verulegar breytingar í þessum efnum. Í 9. gr. frumvarpsins er þannig ráðgert að mál verði þingfest fyrir Hæstarétti með því að áfrýjandi afhendi á skrifstofu dómsins áfrýjunarstefnu með sönnun fyrir birtingu hennar, ásamt þeim gögnum sem hann byggir á í málinu, en þetta yrði þá ekki gert á dómþingi. Samkvæmt h-lið 1. mgr. 8. gr. og 11. gr. frumvarpsins yrði ekki ætlast til eins og nú að stefndi mæti til þingfestingar máls í þinghaldi til að tjá sig um hvort hann ætli að halda uppi vörnum fyrir Hæstarétti, heldur mundi hæstaréttarritari ákveða frest handa stefnda við útgáfu áfrýjunarstefnu til að tilkynna dóminum bréflega um þetta. Stefnan yrði árituð af hæstaréttarritara um lengd þessa frests sem mundi þó ekki aðeins marka þann tíma sem stefndi nyti til að tilkynna dóminum hvort hann vilji taka þar til varna, heldur einnig þann tíma sem áfrýjandinn hefði til að þingfesta málið, sbr. einnig 9. gr. frumvarpsins. Í kjölfarið er ráðgert að aðilar fái aðeins takmarkaða fresti og skili gögnum á skrifstofu Hæstaréttar, en mál yrði ekki tekið fyrir á dómþingi fyrr en við munnlegan flutning þess nema upp komi ágreiningsatriði um rekstur þess, sbr. einkum 13. og 14. gr. frumvarpsins.
    Eftir núgildandi reglum er ætlast til að í tengslum við áfrýjun afli áfrýjandi sér dómsgerða í máli hjá héraðsdómstólnum þar sem var leyst úr því. Í dómsgerðum þarf að vera eintak af öllum gögnum sem voru lögð fram í héraði og endurrit af framburði málsaðila og vitna fyrir dómi, hvort sem byggt verður á þeim gögnum fyrir Hæstarétti eða ekki. Í framkvæmd er mjög seinlegt að gera dómsgerðir í þessum búningi og tefur það oft talsvert fyrir rekstri máls í Hæstarétti. Samkvæmt 41. og 42. gr. laga nr. 75/1973 eiga málsaðilar síðan að búa sameiginlega til svokallað ágrip dómsgerða til afnota við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Eins og nafnið gefur til kynna er ætlast til að þar verði aðeins tekinn upp hluti af gögnunum úr dómsgerðum, en þetta eiga að vera þau gögn sem aðilarnir hyggjast nota fyrir Hæstarétti. Ágripi eiga aðilarnir að skila í nokkrum fjölda eintaka á skrifstofu Hæstaréttar ásamt dómsgerðum og greinargerðum sínum í máli innan frests sem er að öðru jöfnu ekki skemmri en fjórir mánuðir frá þingfestingu máls fyrir Hæstarétti. Framkvæmd hefur farið nokkuð úr böndum í þessum efnum. Reyndin er yfirleitt sú að áfrýjandi gerir ágrip dómsgerða í litlu eða engu samráði við gagnaðila sinn sem getur þá þurft gera viðbótarágrip til að koma að frekari gögnum. Á síðari árum hefur þetta safn skjala yfirleitt ekki staðið undir nafni því algengt er að öll gögn úr héraði séu sett í það án tillits til notagildis við rekstur máls fyrir Hæstarétti og er það þannig ekki lengur réttnefnt ágrip dómsgerða, heldur samrit þeirra. Frágangur skjala í þessum búningi missir þannig marks auk þess að leiða til tafa og kostnaðar við rekstur máls. Í 9. og 12. gr. frumvarpsins eru lagðar til verulegar breytingar frá þeirri tilhögun sem hér var lýst í stuttu máli. Þannig er ráðgert í fyrrnefnda ákvæðinu að Hæstiréttur kalli sjálfur eftir dómsgerðum frá héraðsdómi þegar mál hefur verið þingfest fyrir Hæstarétti, en aðilar afli sér ekki dómsgerða eins og hingað til. Er reiknað með að gengið verði frá dómsgerðum með miklu einfaldari hætti en nú er gert og Hæstiréttur hafi þær aðeins undir höndum til athugana sem sérstakt tilefni kynni að gefast til við rekstur máls. Í sama ákvæði er einnig ráðgert að áfrýjandi afhendi málsgögn fyrir sitt leyti við þingfestingu máls, en í þeim eiga að vera eintök af skjölum og endurrit af munnlegum framburði sem hann byggir á fyrir Hæstarétti og á það jöfnum höndum við um gögn sem áfrýjandi lagði sjálfur fram í héraði og gögn sem gagnaðilinn lagði þar fram. Er þá lagt á vald áfrýjanda að velja nauðsynleg sönnunargögn til afnota við rekstur máls fyrir Hæstarétti. Hafi áfrýjandi í hyggju að styðjast við munnlegan framburð, sem var gefinn fyrir héraðsdómi, er miðað við að hann geti aflað sér eftirgerðar af hljóðupptöku af framburðinum hjá dómstólnum og látið sjálfur rita framburðinn upp eftir þörfum til að leggja fram í málsgögnum sínum. Slíka endurritun á hljóðupptökum fengi hann hins vegar ekki framkvæmda hjá héraðsdómstólnum, eins og má ráða af 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins. Eftir að áfrýjandi hefði afhent málsgögn sín kæmi í hlut Hæstaréttar að senda stefnda eintak af þeim, ef hann hefur tilkynnt dóminum að hann hyggist taka til varna í málinu. Samkvæmt 12. gr. frumvarpsins gæfist stefnda síðan kostur á að bæta við gögnum, sem væru ekki í málsgögnum áfrýjanda, með því að afhenda málsgögn fyrir sitt leyti. Þetta yrði að gerast um leið og hann afhendir Hæstarétti greinargerð sína sem hann hefði frest til eftir ákvörðun dómsins í tvær til sex vikur frá þingfestingu máls. Eftir þetta ættu aðilar að vísu kost á að leggja fram frekari gögn skv. 13. gr. þegar málsgögn stefnda væru komin fram. Þetta mundi gerast á miklu skemmri tíma en eftir núgildandi reglum, auk þess að með reglum frumvarpsins yrði dregið mjög úr því að óþörf gögn yrðu lögð fram. Til samans yrði þetta til að flýta talsvert undirbúningi máls fyrir málflutning og mundi það einnig leiða til sparnaðar.
    Í 4. mgr. 14. gr. frumvarpsins er lagt til að Hæstarétti verði heimilað að beina til málsaðila að þeir afhendi yfirlit yfir helstu atriði máls, röksemdir sínar og málflutningsatriði með fyrirvara áður en mál kæmi til munnlegs flutnings. Um þetta hafa ekki gilt ákveðnar reglur, en í framkvæmd hefur tíðkast nokkuð að lögmenn aðila afhendi slík yfirlit í einhverri mynd við munnlegan flutning máls. Með því að Hæstiréttur fengi nokkuð ítarlegt yfirlit um þessi atriði með fyrirvara má ætla að hægt yrði að gera munnlegan málflutning skipulegri og fljótlegri.
    Í 14. og 15. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir mun ítarlegri og markvissari reglum en eru nú í lögum um flutning máls fyrir Hæstarétti. Í þeim er meðal annars tekið mið af reglum um málflutning fyrir héraðsdómi sem koma fram í 101. og 103. gr. laga um meðferð einkamála, svo og venjum í þessum efnum, en í ýmsum atriðum fela reglurnar í sér nýmæli.
    Í 17. og 18. gr. frumvarpsins eru lagðar til mun fyllri reglur en gilda nú um dóma Hæstaréttar og aðrar úrlausnir. Vekja má athygli á að samkvæmt núgildandi lögum getur Hæstiréttur þurft að taka afstöðu til atriða, sem koma upp undir rekstri máls, með rökstuddum úrskurði. Í 17. gr. frumvarpsins er ekki gert ráð fyrir að leyst verði úr slíkum atriðum með úrskurðum, heldur með ákvörðunum sem væri ekki þörf á að rökstyðja sérstaklega. Er þetta meðal annars gert til samræmis við reglur um afgreiðslu samsvarandi atriða fyrir héraðsdómi skv. 112. gr. laga um meðferð einkamála.
         Þess má loks geta að í 21. gr. frumvarpsins eru reglur um heimildir málsaðila til að leita eftir endurupptöku máls sem hefur áður verið dæmt í Hæstarétti. Reglur um þetta eru nú í 59. gr. laga nr. 75/1973 og eru ekki lagðar hér til teljandi breytingar frá þeim.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Í 1. gr. eru lagðar til breytingar á 14. gr. laga um meðferð einkamála þar sem eru reglur um afhendingu héraðsdómstóla á málsgögnum og eftirritum af þeim, þar á meðal dómsgerðum. Í 14. gr. laganna er tekið mið af þeirri tilhögun sem nú er ríkjandi varðandi frágang dómsgerða og var lýst hér á undan, en meðal annars eru hljóðbandsupptökur af munnlegum framburði, sem vitni eða málsaðilar hafa gefið undir rekstri máls fyrir héraðsdómi, endurritaðar frá orði til orðs og felldar inn í dómsgerðir. Oft er þetta algerlega þarflaust, en veldur yfirleitt verulegum töfum og kostnaði.
    Í almennum athugasemdum hér á undan var greint frá helstu atriðunum varðandi reglur frumvarpsins um nýjar aðferðir við frágang gagna í tengslum við áfrýjun máls. Samkvæmt þeim ætti Hæstiréttur að fá dómsgerðir afhentar beint frá viðkomandi héraðsdómstóli og þá án þess að hljóðupptökur af munnlegum framburði verði endurritaðar, en þess í stað mundi eftirgerð af hljóðupptökum fylgja skjölum málsins. Aðilunum er síðan ætlað að fjölfalda þau málsgögn sem þeir ætla að byggja á fyrir Hæstarétti og afhenda þau þangað, en sú fjölföldun yrði þá yfirleitt gerð eftir eintökum af gögnunum sem aðilarnir hefðu sjálfir undir höndum eftir meðferð máls í héraði. Í þessu ljósi er lagt til með 1. mgr. 1. gr. frumvarpsins að niður falli ummæli í 1. mgr. 14. gr. laganna um meðferð einkamála þar sem er ráðgert að aðili leiti eftir því við héraðsdómstól að fá afhentar dómsgerðir úr máli í heild sinni, enda væri þeirri reglu ofaukið miðað við þá nýju tilhögun sem er stefnt að.
    Með frumvarpinu er ráðgert að sú leið verði farin ef aðili telur sig þurfa að leggja fram einhvern hluta af munnlegum framburði til sönnunar fyrir Hæstarétti að hann fái eftirgerð af hljóðbandsupptöku frá hlutaðeigandi héraðsdómstóli og annist síðan sjálfur gerð endurrits eftir hljóðupptökunni. Í 2. mgr. 14. gr. laga um meðferð einkamála er meðal annars mælt fyrir um skyldu héraðsdómstóls til að gera slík endurrit samkvæmt beiðni, en eftir umræddum ráðagerðum í frumvarpinu ætti þetta verk að hverfa úr höndum dómstólanna. Er því lagt til í 2. mgr. 1. gr. frumvarpsins að 2. mgr. 14. gr. laganna verði breytt þessu til samræmis.
    

Um 2. gr.


    Í 15. gr. laga um meðferð einkamála er kveðið á um heimildir dómsmálaráðherra til að setja nánari fyrirmæli í reglugerð um ýmis atriði varðandi skrár, bækur og skjalavörslu við héraðsdómstóla, en þar á meðal er heimilað að setja nánari reglur um dómsgerðir. Reglugerð um þessi efni hefur verið sett og er hún nr. 225/1992.
    Eins og var meðal annars getið hér á undan í athugasemdum við 1. gr. er ætlast til að talsverðum breytingum yrði komið á til einföldunar og flýtis varðandi afhendingu málsgagna við áfrýjun einkamála ef þetta frumvarp verður að lögum. Er þá miðað við að dómsgerðir gangi beint frá héraðsdómstólum til Hæstaréttar við áfrýjun mála í stað þess að fara um hendur málsaðila og þær verði ekki endilega í jafnformlegum búningi og nú er. Til að greiða fyrir að reglur um þetta verði sveigjanlegar og lagaðar að þörfum í framkvæmd á hverjum tíma er lagt til með 3. mgr. 9. gr. frumvarpsins að Hæstiréttur setji reglur um frágang dómsgerða. Í því ljósi yrði ekki lengur þörf á fyrirmælum um þetta í reglugerð og er því lagt til í 2. gr. frumvarpsins að umrædd reglugerðarheimild verði felld úr 15. gr. laganna.
    

Um 3. gr.


    Í almennum athugasemdum hér að framan var minnst á að reglur frumvarpsins taki mið af því að ekki yrði lengur gert ágrip dómsgerða til afnota við rekstur máls fyrir Hæstarétti, heldur búi aðilarnir hvor um sig til málsgögn, sem svo eru nefnd í 9. og 12. gr. frumvarpsins, í þessu skyni. Í 124. gr. laga um meðferð einkamála er sérstök heimild handa málsaðila til að leita eftir heimild Hæstaréttar til að látið verði ógert að gera ágrip dómsgerða ef mál sætir flýtimeðferð eftir reglum XIX. kafla laganna, en þessi undantekningarregla var sett á sínum tíma til að greiða fyrir málum sem sæta flýtimeðferð. Nái þetta frumvarp fram að ganga verður þessi sérregla óþörf í ljósi þess sem áður segir og er því lagt til með 3. gr. að hún verði felld niður.
    

Um 4. gr.


    Í þessari grein er texti núverandi 151. gr. laga um meðferð einkamála tekinn upp lítt breyttur og gert ráð fyrir að greinarnúmerið haldist óbreytt á þessu upphafsákvæði í kafla laganna um áfrýjun þar sem koma fram nokkrar almennar reglur um hverju verði áfrýjað í einkamáli og afsal á rétti til áfrýjunar.
    Í þessu ákvæði frumvarpsins eru lagðar til fáeinar minni háttar orðalagsbreytingar frá núgildandi reglu sem fela þó ekki í sér merkingarmun. Að tvennu leyti eru þó einnig lagðar til efnislegar breytingar. Annars vegar er tekið upp nýtt ákvæði í 2. mgr. þar sem er mælt fyrir um hvernig verði staðið að áfrýjun í tilvikum þegar sakarefni í einkamáli er skipt skv. 31. gr. laganna og tveir eða fleiri dómar ganga í málinu, hver um afmarkaðan hluta þess. Slík skipting á sakarefninu hefur verið fremur sjaldgæf í framkvæmd á síðari árum, en regla um áfrýjunarheimildir í þeim tilvikum getur þó haft raunhæft gildi. Til að koma í veg fyrir óvissu um þetta er ráðgert að í 2. mgr. verði tekið fram að áfrýja verði sjálfstætt hverjum dómi fyrir sig sem kann að ganga um afmarkaðan hluta máls undir þessum kringumstæðum, en með þessu eru tekin af tvímæli um að málinu yrði ekki áfrýjað í einu lagi þegar allir dómar hefðu gengið í því. Rétt er að benda á að önnur afbrigði eru ekki lögð til um áfrýjun í þessum tilvikum og mundu því gilda almennar reglur að öðru leyti, m.a. um áfrýjunarfrest. Taka má fram í þessu sambandi að sérstök regla var áður um þetta í 71. gr. laga nr. 85/1936 sem féllu niður við gildistöku laga um meðferð einkamála, og var hún nokkuð á annan veg en hér. Hins vegar er lagt til með 4. gr. frumvarpsins að núgildandi 4. mgr. 151. gr. laga um meðferð einkamála falli niður, en í henni er tekið fram að ekki þurfi að stefna héraðsdómara við áfrýjun máls nema krafa sé gerð á hendur honum um refsingu eða skaðabætur. Telja verður alveg ástæðulaust að taka fram með þessum hætti að ekki þurfi að stefna dómara við áfrýjun, en um tilvik, þar sem krafa er gerð á hendur héraðsdómara um refsingu eða skaðabætur, eru nú sérreglur í 8. gr. A laga nr. 92/1989 þar sem er meðal annars kveðið á um hvenær héraðsdómara verði stefnt fyrir Hæstarétt í þessu skyni. Af þessum ástæðum er litið svo á að þetta ákvæði þjóni engum tilgangi í núverandi mynd.
    

Um 5. gr.


    Í 5. gr. eru tillögur um reglur varðandi skilyrði fyrir áfrýjun sem snúa að hagsmunum sem þurfa að vera í húfi í máli til að héraðsdómi í því verði áfrýjað án sérstaks leyfis. Í greininni eru einnig tillögur um reglur um veitingu áfrýjunarleyfis ef þeim skilyrðum er ekki fullnægt. Að mörgu leyti er þetta ákvæði sama efnis og núverandi 152. gr. laga um meðferð einkamála sem það á að leysa af hólmi, en um nokkur mikilvæg atriði eru þó lagðar til breytingar. Í almennum athugasemdum hér áður var fjallað sérstaklega um röksemdir að baki helstu breytingartillögunum í þessari grein, sem varða hækkun svokallaðrar áfrýjunarfjárhæðar skv. 1. mgr., nýmæli um skilyrði fyrir undanþágu frá henni með áfrýjunarleyfi skv. c-lið 4. mgr. og þann nýja tilgang meðferðar á umsókn um áfrýjunarleyfi skv. c-lið 4. mgr. að með henni yrði í reynd unnt í sumum tilvikum að ljúka endurskoðun héraðsdóms án áfrýjunarmeðferðar máls. Er því unnt að vísa til þeirrar umfjöllunar og láta ógert að huga frekar að þeim atriðum á þessum stað, en að öðru leyti eru fáein atriði í þessari grein sem er ástæða til að víkja að.
    Í 1. mgr. er eins og áður var getið kveðið á um nýja áfrýjunarfjárhæð, en tekið er fram að henni skuli breytt við hver áramót miðað við breytingar sem hafa orðið á lánskjaravísitölu frá 1. júlí 1992 og auglýsi dómsmálaráðherra árlega fyrir 10. desember hver fjárhæðin verði á komandi ári. Reglan um uppfærslu áfrýjunarfjárhæðar vegna verðlagsbreytinga er sama efnis og núgildandi fyrirmæli í 1. mgr. 152. gr. laganna. Rétt er að taka fram að miðað er hér við að grunnvísitalan, sem framreikningur á áfrýjunarfjárhæðinni ætti að styðjast við, verði sú sem var í gildi þegar lögin um meðferð einkamála tóku gildi 1. júlí 1992, eða 3230 stig. Er þetta gert til að forðast að texti laganna verði óskýr eða tvíræður um þá grunnvísitölu sem er ætlast til að verði beitt ef frumvarpið nær fram að ganga, en í þeim efnum er haft í huga að ef mælt væri fyrir um að stuðst yrði við gildandi vísitölu þegar lögin öðluðust gildi gæti orkað tvímælis hvort átt væri við grunnvísitöluna þegar upphaflegu lögin öðluðust gildi eða breytingalögin. Vekja verður athygli á að í septembermánuði 1993 er lánskjaravísitalan 3330 stig, eða 3,09% hærri en sú grunnvísitala sem yrði tekið mið af hér. Verður því að hafa í huga að áfrýjunarfjárhæðin, sem er lögð til í 1. mgr. 5. gr., hefur þegar hækkað sem þessu nemur.
    Í 2. mgr. eru fyrirmæli um hvað verði miðað nákvæmlega við þegar metið er hvort skilyrðum 1. mgr. um áfrýjunarfjárhæð sé fullnægt hverju sinni, en aðalreglan í þessum efnum er sú að þetta ráðist af höfuðstól peningakröfunnar sem er höfð uppi í áfrýjunarstefnu. Sérreglur koma síðan fram til áréttingar um hvernig verði farið að ef tvær eða fleiri kröfur eru sóttar í einu lagi í máli, eins og er heimilt skv. 27. gr. laganna, eða gagnkrafa hefur verið höfð uppi til skuldajafnaðar skv. 28. gr. laganna. Reglurnar í 2. mgr. eru efnislega þær sömu og nú koma fram í 2. mgr. 152. gr. laganna, en eru þó orðaðar mun skýrar en áður.
    Í 3. mgr. eru fyrirmæli um hvernig verði metið hvort hagsmunir nægi til áfrýjunar án leyfis ef mál er rekið um kröfu sem er um annað en peningagreiðslu, t.d. kröfu um afhendingu hlutar, riftun samnings eða viðurkenningu á réttindum. Í slíkum tilvikum er ráðgert að Hæstiréttur verði að meta hvort hagsmunirnir, sem eru í húfi, samsvari áfrýjunarfjárhæð skv. 1. mgr. greinarinnar. Er boðið að Hæstiréttur geti leitað umsagnar annarra málsaðila áður en ákvörðun yrði tekin um þetta.
    Telji Hæstiréttur hagsmunina nægilega eftir þessum mælikvarða yrði áfrýjun heimil án sérstaks leyfis, en að öðrum kosti yrði áfrýjandi að sækjast eftir áfrýjunarleyfi samkvæmt reglum 4. mgr. greinarinnar. Þessar reglur í 3. mgr. eru meira eða minna sama efnis og núverandi 3. mgr. 152. gr. laganna. Sá munur er þó á að í núgildandi reglu er ráðgert að Hæstiréttur eigi alltaf að leita umsagnar annarra málsaðila áður en ákvörðun er tekin um heimild til áfrýjunar undir þessum kringumstæðum, meðan í reglu frumvarpsins er miðað við að Hæstiréttur geti leitað slíkrar umsagnar, en honum sé það ekki skylt. Tillaga er gerð um þessa breytingu til samræmis við framkvæmd, enda mun ekki tíðkast að leita í öllum tilvikum eftir umsögn, eins og núgildandi regla býður ef niðurstaða er augljós.
    Um ákvæði 4. mgr., þar sem er fjallað um heimildir til að fá áfrýjunarleyfi til að víkja frá skilyrðum um áfrýjunarfjárhæð, hefur verið fjallað nægilega hér áður í almennum athugasemdum, en þess má geta að núgildandi reglur um hvenær áfrýjunarleyfi verður veitt eru í 2. mgr. 154. gr. laga um meðferð einkamála.
    

Um 6. gr.


    Í 6. gr. eru reglur um áfrýjunarfrest og heimild til að víkja frá þeim með áfrýjunarleyfi, en í núgildandi lögum eru fyrirmæli um þessi atriði í 153. gr. og yrði því greinarnúmer að þessu leyti óbreytt ef frumvarpið nær fram að ganga. Með 6. gr. eru ekki gerðar tillögur um teljandi breytingar, en til nánari athugunar skal litið hér til hverrar málsgreinar um sig í samanburði við núgildandi reglur.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um almennan áfrýjunarfrest sem er þrír mánuðir frá uppkvaðningu héraðsdóms, en innan þess frests verður áfrýjandi með öðrum orðum að fá áfrýjunarstefnu gefna út, sbr. þó 3. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Þessi regla er óbreytt frá núgildandi 1. mgr. 153. gr. laganna.
    Í 2. mgr. er kveðið á um að Hæstiréttur geti veitt leyfi til áfrýjunar ef ekki hefur verið áfrýjað innan almenna áfrýjunarfrestsins og umsókn um það berst á næstu þremur mánuðum eftir lok hans. Er áskilið að áfrýjandinn verði þá að réttlæta drátt á áfrýjun sérstaklega í umsókn um áfrýjunarleyfi og að einhverju einu eða fleiri af skilyrðunum þremur í 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins þurfi að vera fullnægt til að leyfið verði veitt. Með þessu eru lagðar til vissar breytingar frá núgildandi reglu um sama efni í 2. mgr. 153. gr. laganna. Í því sambandi verður í fyrsta lagi að vekja athygli á að í núgildandi reglu er heimilað að veita áfrýjunarleyfi í allt að níu mánuði frá lokum almenns áfrýjunarfrests eða með öðrum orðum þar til ár er liðið frá uppkvaðningu héraðsdóms. Þessi frestur er óþarflega langur, enda hefur þess gætt í framkvæmd að dregist hafi að taka ákvörðun um áfrýjun í lengri tíma í skjóli reglunnar þótt engar knýjandi ástæður hafi verið fyrir þeim töfum. Óvissan, sem reglan leiðir af sér um hvort dómi verði áfrýjað, veldur jafnframt óhagræði og tefur í allt of langan tíma fyrir að málsaðili geti treyst að hann megi haga gerðum sínum í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms. Þess má geta að í samanburði við erlendar reglur í þessum efnum yrði frestur samkvæmt tillögunni í frumvarpinu enn með lengra móti. Í öðru lagi er ráðgert í frumvarpinu að umsækjandi um áfrýjunarleyfi verði að greina frá réttlætanlegum ástæðum fyrir drætti á áfrýjun ef unnt á að vera að taka málaleitan hans til greina. Um þetta eru ekki bein fyrirmæli í núgildandi reglu, en í framkvæmd mun allt að einu vera ætlast til að skýringar af þessum toga komi fram. Í þriðja lagi má benda á að samkvæmt núgildandi reglum verður áfrýjunarleyfi ekki veitt undir þessum kringumstæðum nema úrslit málsins séu annaðhvort mikilvæg frá almennu sjónarmiði eða varði mikilvæga hagsmuni aðila, sbr. 2. mgr. 154. gr. laganna. Í 2. mgr. 6. gr. frumvarpsins eru þessi skilyrði rýmkuð nokkuð því gert er ráð fyrir að sömu skilyrði gildi hér eins og um áfrýjunarleyfi til að víkja frá áskilnaði um áfrýjunarfjárhæð. Auk þeirra atriða, sem geta orðið forsenda fyrir áfrýjunarleyfi eftir núgildandi reglu, mundi þannig einnig vera unnt að veita þetta leyfi ef vænta mætti að niðurstöðu héraðsdóms yrði breytt svo einhverju nemi við áfrýjun, sbr. c-lið 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Að öðru leyti er rétt að taka fram að í frumvarpinu eru ekki tekin upp fyrirmæli, sem eru nú í síðari málslið 2. mgr. 153. gr. laganna, um að áfrýjandi verði að fá áfrýjunarstefnu gefna út innan fjögurra vikna frá því að áfrýjunarleyfi er veitt. Stafar þetta af því að í 7. gr. frumvarpsins er lagt til að fullbúin áfrýjunarstefna verði hverju sinni að fylgja umsókn um áfrýjunarleyfi, en leyfið sem slíkt yrði í raun veitt með því að stefnan yrði gefin út af hæstaréttarritara á grundvelli ákvörðunar dómsins.
    Í 3. mgr. eru fyrirmæli um frest til gagnáfrýjunar. Í núgildandi reglu 3. mgr. 153. gr. laganna um sama efni segir að gagnaðila áfrýjanda sé heimilt að gagnáfrýja þótt áfrýjunarfrestur sé liðinn ef það gerist innan fjögurra vikna frá því áfrýjunarstefna er birt fyrir honum. Regla frumvarpsins um þetta er í meginatriðum sú sama. Í henni er þó vikið frá núgildandi reglu á þann hátt að í stað þess að binda frest til gagnáfrýjunar við fjórar vikur frá birtingu áfrýjunarstefnu er miðað við að stefndi geti gagnáfrýjað eins lengi og hann nýtur frests til að leggja fram greinargerð í málinu fyrir Hæstarétti.
    Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins væri sá frestur tvær til sex vikur og ekki unnt að lengja hann umfram þau mörk. Með þessu er hugsanlegt að frestur til gagnáfrýjunar geti orðið lítillega lengri en eftir núgildandi reglu, en þetta gæti varla valdið þyngslum, enda er þá miðað við að stefndi geti undirbúið málið fyrir sitt leyti í einu lagi með samningu greinargerðar sinnar og stefnu til gagnáfrýjunar í stað þess að greina þessi tvö atriði að.
    Í 4. mgr. eru loks reglur um heimild til að áfrýja dómi á ný ef áfrýjun fellur niður eða máli er vísað frá Hæstarétti. Gert er ráð fyrir að þetta megi gera í eitt skipti án tillits til almennra reglna um áfrýjunarfrest ef skemmri tími en fjórar vikur líður frá fyrri málalokum þar til áfrýjunarstefna er gefin út á ný. Þessi regla er efnislega sú sama og núgildandi 4. mgr. 153. gr. laganna.
    

Um 7. gr.


    Í þessari grein eru reglur um umsókn um áfrýjunarleyfi, meðferð Hæstaréttar á henni og afgreiðslu hennar. Þessum reglum er ætlað að taka í einu lagi til beggja afbrigða áfrýjunarleyfis, eða nánar tiltekið leyfis til undanþágu frá skilyrðum um áfrýjunarfjárhæð og leyfis til að víkja frá almennum áfrýjunarfresti, en að því leyti svarar 7. gr. frumvarpsins til 154. gr. núgildandi laga sem er ráðgert að hún leysi af hólmi.
    Reglur frumvarpsins um þetta eru mun ítarlegri en ákvæðin í núgildandi lögum. Þannig er í 1. mgr. 7. gr. kveðið nánar á um efni umsóknar um áfrýjunarleyfi en nú er gert í lögum, auk þess að nýmæli eru um að umsókninni verði að fylgja áfrýjunarstefna og endurrit af héraðsdómi. Eru þessi nýmæli lögð til svo að gleggri upplýsingar liggi fyrir um málið sem slíkt, markmið umsækjandans með áfrýjun og röksemdir hans fyrir kröfum þegar Hæstiréttur metur hvort leyfið verði veitt. Í 2. mgr. er síðan mælt fyrir um að Hæstiréttur geti gefið öðrum málsaðilum kost á að tjá sig um umsókn áður en ákvörðun verður tekin um hana, en í sambærilegri reglu í 1. mgr. 154. gr. núgildandi laga er gert ráð fyrir að slíkrar umsagnar sé alltaf leitað sem má telja óþarfa ef málalok þykja augljós. Í 3. mgr. eru nýmæli sem er ætlað að girða fyrir að málsaðili leiti oftar en einu sinni eftir áfrýjunarleyfi í sama máli ef fyrri umsókn hans um það hefur þegar verið hafnað. Sambærileg regla er ekki í núgildandi lögum, en hún er lögð til hér til að koma í veg fyrir endurtekna málaleitan og til að skapa um leið aðhald um að vandað verði til umsóknar um áfrýjunarleyfi í byrjun. Í 4. mgr. eru einnig nýmæli þar sem kemur fram að áfrýjunarleyfi verði í raun veitt með útgáfu áfrýjunarstefnunnar sem fylgdi umsókn um það og hún verði um leið árituð um leyfisveitinguna. Með þessu er leitast við að einfalda meðferð umsóknar og gert óþarft að gera sérstakt leyfisbréf þegar umsókn yrði tekin til greina. Tekið er fram í reglunni að Hæstiréttur yrði ekki krafinn um rökstuðning fyrir veitingu áfrýjunarleyfis, en regla gildir nú þótt þetta sé ekki tekið fram í lögum. Í 5. mgr. 7. gr. frumvarpsins er ráðgert að Hæstiréttur verði að tilkynna umsækjanda um áfrýjunarleyfi ef umsókn hans er hafnað og um leið verði látin uppi stuttorð skýring á ástæðum fyrir höfnuninni. Um þetta eru engin fyrirmæli í núgildandi lögum og hefur ekki tíðkast að rökstyðja sérstaklega ástæður fyrir synjun umsóknar. Breyting í þessum efnum er lögð hér til vegna þess aukna vægis sem meðferð umsóknar um áfrýjunarleyfi hefði til að ljúka máli endanlega, enda verður að telja eðlilegt að umsækjandi fái einhverjar skýringar ef mál væri leitt til lykta fyrir Hæstarétti með höfnun umsóknar. Leggja verður þó áherslu á að eftir orðalagi þessa ákvæðis yrði umfang rökstuðnings engan veginn sambærilegt því sem þarf að vera í dómi, heldur yrði aðeins greint frá meginástæðunum fyrir niðurstöðunni í mjög stuttu máli. Taka verður sérstaklega fram að ef dómarar við Hæstarétt, sem tækju þátt í slíkri afgreiðslu máls, væru ekki sammála um niðurstöðuna eða rökin fyrir henni væri ekki ætlast til að greint yrði frá því í svari til umsækjandans.
    

Um 8. gr.


    Í 8. gr. eru gerðar tillögur um nýjar reglur um efni áfrýjunarstefnu, útgáfu hennar og birtingu. Er ráðgert að þessar reglur komi í stað núgildandi 155. gr. laga um meðferð einkamála og að greinarnúmer ákvæðisins verði þá óbreytt.
    Eins og vikið var að hér áður í almennum athugasemdum miða tillögur í 1. mgr. 8. gr. að því að áfrýjunarstefna verði verulega ítarlegri en nú er boðið í 1. mgr. 155. gr. laganna. Ástæðurnar fyrir þessu hafa verið nefndar fyrr, en þær eru einkum að með þessu yrði lagður traustari grunnur að meðferð málsins fyrir Hæstarétti og báðum málsaðilum og dóminum yrði ljóst frá fyrstu stigum til hvers áfrýjað væri og um hvað deilan snúist. Misbrestur er á þessu í framkvæmd eftir núgildandi reglum, en þetta hefur valdið erfiðleikum við undirbúning mála og skipulagningu á störfum dómsins. Með 1. mgr. 8. gr. er leitast við að færa reglur um efni áfrýjunarstefnu í það horf að þær svari eftir því sem er unnt til reglna um stefnu á héraðsdómsstigi í 1. mgr. 80. gr. laganna. Með samanburði á þessu ákvæði frumvarpsins við síðastnefnda reglu verða þessi tengsl auðséð, en af augljósum ástæðum getur þessi samsvörun þó ekki náð til allra atriða, enda er sá eðlismunur á þessum tvenns konar stefnum að fyrir héraðsdómi verður stefnandinn að greina ítarlega frá málinu sem er að koma fyrir dóm í fyrsta sinn, en við áfrýjun er unnt að byggja á því sem hefur þegar verið gert á lægra dómstigi og beina umfjöllun í stefnu fremur að því sem áfrýjandinn getur ekki samsinnt í héraðsdómi. Þessi eðlismunur setur öðru fremur mark sitt á ákvæðin í a-, d-, e- og h-liðum 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins sem eru með nokkuð öðrum hætti en reglur um sambærileg atriði í 80. gr. laganna. Um a-lið 1. mgr. 8. gr. er ástæðulaust að fjalla hér frekar, enda má telja ákvæðið skýra sig sjálft og ástæðurnar fyrir því ljósar. Hin ákvæðin þrjú, sem voru hér nefnd, þarfnast hins vegar frekari skýringa.
    Í fyrsta lagi verður að vekja athygli á að í d-lið málsgreinarinnar er gert ráð fyrir að áfrýjandi verði að greina með miklu nákvæmari hætti frá kröfugerð sinni fyrir Hæstarétti en er áskilið í núgildandi reglum. Þannig er mælt þar fyrir um að áfrýjandinn verði að taka skýrlega fram við hvaða atriði hann uni í niðurstöðum héraðsdóms um kröfur sínar á þeim vettvangi, en greina verði nákvæmlega frá því til hvers sé áfrýjað og hverra breytinga sé krafist á niðurstöðum í héraði. Við fyrstu sýn getur virst eins og tillögur séu ekki gerðar hér um jafnmiklar breytingar og gefið hefur verið til kynna því í d-lið 1. mgr. 155. gr. núgildandi laga er ætlast til að í áfrýjunarstefnu verði greint frá því í hverju skyni sé áfrýjað og hverjar dómkröfur áfrýjandi geri. Framkvæmd eftir þessari eldri reglu hefur hins vegar verið losaraleg, enda er yfirleitt látið við það sitja að fullnægja áskilnaði þeirrar reglu með þeim orðum einum í áfrýjunarstefnu að krafist sé að allar kröfur áfrýjanda fyrir héraðsdómi, sem er þó ekki getið nánar um, verði teknar til greina, með eða án heimvísunar eða frávísunar máls. Er að vonum örðugt fyrir gagnaðila áfrýjanda og dómstólinn að ráða af slíku orðalagi að hverju kröfur áfrýjanda beinast eða aðfinnslur hans um niðurstöðu í héraðsdómi, en stundum kemur það ekki fram í gleggri mynd fyrr en við munnlegan flutning máls.
    Í öðru lagi er stefnt að því með e-lið 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins að áfrýjunarstefna gefi skýrlega til kynna hvort og þá að hverju leyti áfrýjandinn uni við mat héraðsdómara á sönnunaratriðum í máli og röksemdir fyrir niðurstöðum í héraðsdómi. Þannig er ráðgert að áfrýjandinn verði að taka af skarið um hvort hann fallist á að atvik að baki máli, þar á meðal þau sem aðilarnir kunna að hafa deilt um hvort hafi gerst og sönnunargögn hafa verið færð fram um, séu með þeim hætti sem héraðsdómari hefur lagt til grundvallar. Að því leyti, sem áfrýjandinn samsinnir ekki því mati, yrði hann að taka fram hvað hann telji rétt. Að því leyti, sem áfrýjandinn væri ósammála niðurstöðum í héraðsdómi um málsástæður eða röksemdir, yrði hann jafnframt að greina frá því og tíunda röksemdir sínar, eftir atvikum á nýjan leik. Því verður ekki neitað að þessi regla mundi leggja öllu meiri vinnu á þann sem semur áfrýjunarstefnu, enda er ekki ætlast til að nein atriði af þessum toga komi þar til umfjöllunar eftir núgildandi reglum. Með þessu yrði á hinn bóginn stuðlað að því að mál yrðu betur undirbúin fyrir Hæstarétti, enda yrði áfrýjandinn knúinn til að skipuleggja málatilbúnað sinn á markvissan hátt frá byrjun. Þetta mundi einnig auðvelda gagnaðila hans að undirbúa málið fyrir sitt leyti því hann gæti beint málatilbúnaði sínum gagngert að þeim atriðum sem væri ljóst að aðilarnir deili um. Síðast en ekki síst mundi þetta auðvelda störf Hæstaréttar því ágreiningsatriði máls yrðu afmörkuð skýrlega með áfrýjunarstefnu og greinargerð stefnda, og einnig yrði munnlegur málflutningur þá markvissari.
    Í þriðja lagi má vekja athygli á því að skv. h-lið 1. mgr. 8. gr. yrði ekki tekið fram í áfrýjunarstefnu að gagnaðila áfrýjanda sé stefnt til að mæta á dómþingi Hæstaréttar á tilteknum tíma til að láta ljós hvort hann vilji halda þar uppi vörnum gegn kröfum áfrýjandans, líkt og nú er gert í áfrýjunarstefnu. Þess í stað eru þau nýmæli lögð til í þessu ákvæði að í áfrýjunarstefnu verði greint frá því að stefndi eigi kost á að tilkynna Hæstarétti bréflega innan tiltekins tíma ef hann vill halda uppi vörnum, en við útgáfu stefnunnar er hæstaréttarritara ætlað að ákveða frest stefnda í þessu skyni með því að færa dagsetningu þegar fresti lýkur inn í texta stefnunnar sem væri að öðru leyti fullbúinn. Í ljósi fyrirmæla í i-lið 1. mgr. 8. gr. yrði að taka fram í stefnunni að ef slík tilkynning berst ekki frá stefnda innan frestsins verði litið svo á að hann krefjist staðfestingar héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins. Þessi atriði tengjast því að í ákvæðum frumvarpsins er miðað við að þingfesting máls fari ekki fram á dómþingi, heldur með afhendingu áfrýjanda á tilteknum gögnum, sbr. 9. gr., og mál verði yfirleitt ekki tekið fyrir að öðru leyti á dómþingi fyrr en munnlegur málflutningur fer fram. Um þetta var fjallað hér fyrr í almennum athugasemdum sem má vísa til að öðru leyti.
    Samkvæmt 2. mgr. 8. gr. yrði ætlast til að áfrýjandi afhendi hæstaréttarritara áfrýjunarstefnu í tilteknum fjölda eintaka þegar hann legði hana fyrir til útgáfu, en um þetta er ekki mælt í núgildandi lögum. Í ákvæðinu er tekið mið af þörfum Hæstaréttar í þessum efnum, en að öðru leyti yrði áfrýjandi að hafa undir höndum nægilega mörg eintök af stefnunni fyrir eigin þarfir og gagnaðila sinna sem afstaða er ekki tekin til í þessari reglu.
    Í 3. mgr. 8. gr. er kveðið á um heimild hæstaréttarritara til að synja um útgáfu áfrýjunarstefnu vegna annmarka á henni, en um þá synjun gæti áfrýjandi krafist ákvörðunar Hæstaréttar. Standi þannig á að almennur áfrýjunarfrestur sé að renna út er gert ráð fyrir að afhending stefnu, sem hefur þó ekki fengist gefin út, geti rofið frestinn og áfrýjandi fái tækifæri í allt að viku til að ráða bót á annmörkunum og leggja stefnu fyrir á ný án þess að þurfa að afla áfrýjunarleyfis. Sambærilegar reglur eru ekki í núgildandi lögum, en með þeim yrði stuðlað að því að unnt væri að beina máli inn á réttan farveg á fyrstu stigum í stað þess að gallar á áfrýjunarstefnu komi fyrst til athugunar síðar undir rekstri máls.
    Samkvæmt 4. mgr. 8. gr. frumvarpsins kæmi í hlut hæstaréttarritara að gefa út áfrýjunarstefnu, en sama regla gildir nú skv. 4. mgr. 155. gr. laga um meðferð einkamála.
    Í 5. mgr. 155. gr. núgildandi laga er mælt fyrir um að almennar reglur XIII. kafla laganna gildi um birtingu áfrýjunarstefnu og stefnufrest. Gengið er út frá sömu reglu varðandi birtingu áfrýjunarstefnu í 5. mgr. 8. gr. frumvarpsins, en um stefnufrest eru lagðar til breytingar. Tilvísunin í núgildandi ákvæði til XIII. kafla laganna veldur því að stefnufrestur er breytilegur, eða frá þremur sólarhringum upp í einn mánuð, sbr. 91. gr. þeirra, en lengd frestsins ræðst hverju sinni öðru fremur af búsetustað eða aðsetri stefnda. Í 5. mgr. 8. gr. er lagt til að þessi frestur verði alltaf sá sami, eða ein vika, en sá tími yrði þá að lágmarki að líða frá því stefna væri birt og þar til fresti handa stefnda til að tilkynna Hæstarétti um að hann hyggist halda þar uppi vörnum væri lokið. Í þeim efnum verður að telja að þriggja sólarhringa frestur yrði í skemmra lagi, en mánuði væri hins vegar ofaukið. Benda má á að stefnufrestur er lágmarksfrestur sem verður að birta stefnu með, en birting getur að sjálfsögðu átt sér stað með rýmri fyrirvara og er það algengt í framkvæmd.
    

Um 9. gr.


    Í þessari grein eru lagðar til reglur um þingfestingu máls fyrir Hæstarétti eftir birtingu áfrýjunarstefnu og þau gögn sem yrði ætlast til að áfrýjandi afhenti á því stigi. Verður þetta 156. gr. laganna ef frumvarpið nær fram að ganga.
    Í 1. mgr. eru nýmæli um hvernig mál yrði þingfest sem hefur verið vikið að hér áður í öðru samhengi. Miðað er við að þingfesting eigi sér stað með þeim einfalda hætti að áfrýjandi afhendi á skrifstofu Hæstaréttar áfrýjunarstefnu, með sönnun fyrir að hún hafi verið birt eftir reglum XIII. kafla laganna, og málsgögn sem hann byggir á þar fyrir dómi. Áfrýjandi yrði þó að gera þetta innan afmarkaðs tíma. Eins og minnst var á hér áður í athugasemdum við 1. mgr. 8. gr. er gengið út frá því að við útgáfu áfrýjunarstefnu ætti hæstaréttarritari að ákveða tiltekinn dag þegar fresti lýkur fyrir stefnda til að tilkynna dóminum um hvort hann ætli að halda þar uppi vörnum. Eftir lokamálsgrein 8. gr. yrði að birta áfrýjunarstefnu fyrir stefnda að minnsta kosti viku áður en þeim fresti lýkur. Samkvæmt 1. mgr. 9. gr. ræður þessi dagsetning því til viðbótar hvenær áfrýjandi verði í síðasta lagi að gefa sig fram á skrifstofu Hæstaréttar til að þingfesta mál. Áfrýjandi hefði með öðrum orðum svigrúm til að þingfesta mál hvenær sem er á því tímabili sem mundi líða frá birtingu stefnu fram að lokum umrædds frests, en það stæði yfir í að minnsta kosti eina viku. Áfrýjandi gæti þingfest málið án tillits til þess hvort stefndi hafi áður komið á framfæri áðurnefndri tilkynningu af sinni hálfu. Þessum reglum er ætlað að koma í stað reglna um þingfestingu einkamála fyrir Hæstarétti sem eru nú í 39. gr. laga nr. 75/1973. Áður hefur verið greint frá ástæðunum fyrir því að lagt sé til að hætt verði að þingfesta mál á dómþingi sem aðilarnir verða að sækja í því skyni á tilteknum tíma og skal vísað til þess hér.
    Að öðru leyti snúa ákvæði 9. gr. að því hvernig gögn yrðu afhent eða bærust Hæstarétti á fyrstu stigum máls við þingfestingu eða í kjölfarið á henni. Hér á undan hefur verið lýst aðeins hvernig staðið er að þessu eftir núgildandi reglum, en í stuttu máli er ferillinn sá að fyrst í stað verður áfrýjandi að afla dómsgerða í málinu hjá viðkomandi héraðsdómstóli um sömu mundir og hann áfrýjar. Við þingfestingu máls leggur hann eingöngu fram áfrýjunarstefnu, sbr. 39. gr. laga nr. 75/1973, en fær þá frest í allt að fjóra mánuði til að gera ágrip úr dómsgerðunum sem á að gerast í samráði við gagnaðila, sbr. 41. og 42. gr. laganna. Ef þörf krefur verður sá frestur framlengdur, en þegar gerð ágrips hefur verið lokið er það afhent á skrifstofu Hæstaréttar ásamt skriflegri greinargerð áfrýjanda, sbr. 42. og 44. gr. laganna. Að öðru jöfnu tekur þetta til samans um sex mánuði frá þingfestingu máls fyrir Hæstarétti, en stundum skemmri tíma og stundum lengri. Um ókosti þessara aðferða við frágang gagna í hendur Hæstarétti hefur áður verið fjallað hér. Með 9. gr. frumvarpsins eru ráðgerðar verulegar breytingar á þessu því með 2. mgr. greinarinnar er stefnt að því að Hæstiréttur kalli sjálfur eftir dómsgerðum frá héraðsdómstólnum í kjölfarið á þingfestingu máls og skv. 3. mgr. ætti Hæstiréttur að setja reglur um frágang dómsgerða sem mætti vænta að yrðu til að einfalda það verk og flýta því. Í 1. mgr. 9. gr. er gengið út frá að málsaðilar geri ekki lengur ágrip til að styðjast við í rekstri máls fyrir Hæstarétti, heldur leggi þeir hvor um sig til málsgögn sem svo eru nefnd í ákvæðinu. Í frumvarpinu er ekki mælt fyrir um hvernig þessi málsgögn yrðu úr garði gerð, heldur ætti Hæstiréttur að setja reglur um það, sbr. 3. mgr. 9. gr. Ætlast er þó til að áfrýjandi taki saman þau skjöl sem eintök voru lögð fram af við meðferð máls í héraði og endurrit úr þingbók héraðsdómstólsins sem hann telur hafa gildi við meðferð málsins fyrir Hæstarétti í ljósi þeirra krafna og röksemda sem hann hefur þar uppi. Þessi skjöl hefði áfrýjandinn yfirleitt undir höndum í ljósriti en gæti að öðrum kosti fengið eintök af þeim hjá héraðsdómstólnum. Þessi gögn, svo og ný gögn ef því væri að skipta, þyrfti áfrýjandinn að fjölfalda í nægilegum fjölda eintaka, raða þeim upp og hefta saman með efnisyfirliti, en þetta væru þá málsgögnin sem honum væri ætlað að afhenda við þingfestingu máls skv. 1. mgr. 9. gr. frumvarpsins.
    Málsgögn í þeim búningi, sem hér var lýst, yrði að búa til með nægilegum fyrirvara til að hægt yrði að afhenda þau við þingfestingu málsins, enda er ekki ráðgert í 9. gr. að áfrýjandi gæti fengið frest til að skila þeim. Þetta mundi yfirleitt kosta að áfrýjandinn yrði að hefja undirbúning að gerð málsgagna um líkt leyti og áfrýjunarstefna yrði samin eða jafnvel fyrir þann tíma. Í því sambandi má benda á að skv. g-lið 1. mgr. 8. gr. frumvarpsins þyrfti hvort sem er að gera grein fyrir þeim skjölum, sem áfrýjandinn hyggst setja í málsgögn sín, í áfrýjunarstefnu. Yrði hann því að hafa gert upp hug sinn í þessum efnum áður en lokið væri við að semja áfrýjunarstefnu og stæði þá aðeins eftir að fjölfalda þessi gögn og búa endanlega um þau til afhendingar.
    Þessar reglur mundu valda að málatími fyrir Hæstarétti gæti styst sem næmi mörgum mánuðum frá því sem nú er. Að auki má benda á að ef frumvarpið yrði að lögum mundi áfrýjandi spara útgjöld af því að afla dómsgerða, og einnig má ætla að frágangur málsgagna í þeirri mynd, sem hér var lýst, yrði ódýrari en gerð ágrips eftir núgildandi reglum.
    

Um 10. gr.


    Með 10. gr. er lagt til að nýtt ákvæði komi í 157. gr. laganna. Í 1. mgr. 10. gr. koma fram reglur um afleiðingarnar af því að áfrýjandi þingfesti ekki mál innan þess frests sem hann nyti skv. 9. gr. frumvarpsins eða afhenti ekki málsgögn við það tækifæri. Samkvæmt ákvæðinu hefði þetta í för með sér að ekki yrði frekar af málinu, en sama regla gildir nú samkvæmt 39. gr. laga nr. 75/1973 um tilvik þar sem áfrýjandi sækir ekki dómþing til að þingfesta mál sitt.
    Samkvæmt 2. mgr. yrði mál fellt niður ef áfrýjandi vanrækti að sækja þinghald þar sem það yrði tekið fyrir eftir þingfestingu, og er þetta sama regla og gildir nú samkvæmt fyrrnefndri 39. gr. laga nr. 75/1973. Með sama hætti og hingað til mætti gera áfrýjanda að greiða stefnda málskostnað við þessar aðstæður, en í 2. mgr. 10. gr. er þó tekið fram að þetta sé háð því að stefndi hafi skilað greinargerð fyrir sitt leyti. Eins og áður var getið er stefnt að því með frumvarpinu að þinghöld til fyrirtöku á málum verði yfirleitt ekki háð nema til munnlegs málflutnings, en eftir atvikum gæti þó einnig komið til þess að mál yrði tekið sérstaklega fyrir áður en komið væri að málflutningi vegna atriða sem varða rekstur þess, sbr. 3. mgr. 13. gr. Yrðu tilefni til að máli lyki á þennan veg því ekki mörg eftir reglum frumvarpsins.
    Rétt er að vekja athygli á að ef máli lyki með niðurfellingu eftir reglum 10. gr. ætti áfrýjandi kost á að áfrýja málinu í eitt skipti enn skv. 4. mgr. 6. gr. frumvarpsins.
    

Um 11. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins, sem er lagt til að verði 158. gr. laganna, koma fram reglur um framvindu máls eftir þingfestingu þess, en þær snúa nánar tiltekið að atriðum sem varða afstöðu stefnda til máls og viðbrögð hans við áfrýjunarstefnu.
    Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. yrði stefndi sem áður segir að tilkynna Hæstarétti bréflega ef hann hefði hug á að taka til varna gegn kröfum áfrýjanda í máli. Slík tilkynning yrði að berast á skrifstofu Hæstaréttar innan frests sem var ákveðinn í þessu skyni við útgáfu áfrýjunarstefnu, og væri það eitt því ekki nægilegt að tilkynningin yrði send innan frestsins. Eftir þingfestingu máls eftir reglum 9. gr. frumvarpsins og að fram kominni tilkynningu stefnda er ætlast til að hæstaréttarritari ákveði frest handa stefnda til að skila greinargerð um varnir sínar og yrði sá frestur frá tveimur upp í sex vikur sem má ætla að réðist öðru fremur af umfangi máls. Samkvæmt 1. mgr. 11. gr. yrði hæstaréttarritari að tilkynna stefnda eða lögmanni hans um þennan frest og senda honum um leið eintak af málsgögnum áfrýjanda, en áfrýjanda yrði jafnframt tilkynnt um lengd frestsins. Tilkynningar af þessum toga yrði að senda með sannanlegum hætti, sbr. 92. gr. laga um meðferð einkamála, og væri dóminum lagt á vald hvernig það yrði gert hverju sinni, til dæmis með símbréfi eða póstsendri tilkynningu, en taka má fram að það sama mundi gilda um aðrar tilkynningar sem þyrfti að beina til aðilanna eða lögmanna þeirra samkvæmt ákvæðum frumvarpsins. Þessum reglum í 1. mgr. 11. gr. frumvarpsins er ætlað að leiða til talsverðra breytinga frá núgildandi lögum, enda er máli nú frestað við þingfestingu fyrir aðilana sameiginlega til að þeir geti gert ágrip dómsgerða og skriflegar greinargerðir og aflað frekari gagna, sbr. 41. gr. laga nr. 75/1973. Sá frestur er sem áður segir að öðru jöfnu fjórir mánuðir og er þannig stefnt að verulegri styttingu á þeim biðtíma með frumvarpinu.
    Samkvæmt 2. mgr. 11. gr. ætti stefndi ekki rétt til lengri frests en áður var getið þótt hann hefði hug á að gagnáfrýja dómi. Eins og var nefnt í athugasemdum við 3. mgr. 6. gr. hefði stefndi ráðrúm til að gagnáfrýja dómi meðan hann nyti enn frests til að skila greinargerð í málinu og færi því fresturinn saman í öllu tilliti til þessara þarfa. Sama regla og hér um ræðir gildir nú samkvæmt síðari málslið 41. gr. laga nr. 75/1973.
    Í 1. og 2. mgr. 11. gr. er ekki minnst sérstaklega á hvernig færi um frekari meðferð máls ef stefndi léti verða af því að gagnáfrýja dómi. Í því sambandi verður að hafa í huga að gagnáfrýjun er í raun sjálfstætt málskot á fyrstu stigum og yrði því stefndi að fá áfrýjunarstefnu gefna út í þessu skyni með sama hætti og er lýst í 1.–3. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Stefnu til gagnáfrýjunar yrði að birta eftir fyrirmælum 4. mgr. sömu greinar og yrði aðaláfrýjanda settur frestur til að tilkynna hvort hann tæki til varna í gagnsök. Stefndi, sem nú væri orðinn gagnáfrýjandi, þyrfti að þingfesta gagnsökina eftir reglum 9. gr. frumvarpsins og gæti aðaláfrýjandanum síðan verið veittur frestur til að skila greinargerð skv. 1. mgr. 11. gr. í gagnsök. Þótt það sé þannig ekki tekið sérstaklega fram í reglum frumvarpsins yrði ferill gagnáfrýjunar í raun sá sami og við upphaflega áfrýjun þar til komið væri á síðari stig málsmeðferðar og áfrýjanirnar rynnu meira eða minna saman í einu máli.
    Í 3. mgr. 11. gr. koma fram reglur um afdrif máls ef stefndi tilkynnir ekki Hæstarétti um að hann vilji halda þar uppi vörnum gegn kröfu áfrýjanda eða hann skilar ekki greinargerð innan frests sem honum hefur verið veittur til þess í kjölfarið á slíkri tilkynningu. Er kveðið á um að litið verði svo á að stefndi krefjist þá staðfestingar héraðsdóms. Um þetta eru ekki bein fyrirmæli í núgildandi lögum, en allt að einu hefur verið byggt á hliðstæðri reglu í framkvæmd. Að öðru leyti er gert ráð fyrir að mál verði tekið til dóms eins og það lá fyrir við þingfestingu, nema áfrýjandi hafi tekið fram í áfrýjunarstefnu að hann ætti enn eftir að afla frekari gagna, sbr. g-lið 1. mgr. 8. gr., sem honum yrði þá veittur skammur frestur til að ljúka. Úr málinu yrði síðan leyst á grundvelli fyrirliggjandi gagna. Með þessum reglum er ekki stefnt að breytingum frá því sem nú gildir því að nokkru eru sambærileg ákvæði í 1. mgr. 40. gr. laga nr. 75/1973 um tilvik þar sem stefndi sækir ekki dómþing við þingfestingu máls, en að öðru leyti er framkvæmd í þeim tilvikum á sama veg og er lýst beinlínis í 3. mgr. 11. gr. frumvarpsins.
    Í 4. mgr. 11. gr. eru síðan fyrirmæli um afleiðingar af því að dómþing sé ekki sótt af hálfu stefnda þegar mál yrði tekið fyrir eftir að greinargerð væri komin fram af hans hálfu. Er þá ráðgert að málið yrði dómtekið að því undangengnu að áfrýjanda væri gefinn kostur á fresti til að ljúka gagnaöflun og leggja fyrir skrifleg svör sín við greinargerð stefnda, en málið yrði síðan dæmt á grundvelli framkominna gagna. Þessi regla svarar efnislega til ákvæða 1. mgr. 40. gr. laga nr. 75/1973 og framkvæmdar samkvæmt þeim.
    Samkvæmt 5. mgr. 11. gr. frumvarpsins væri ekki með öllu útilokað að stefndi gæti tekið til varna þótt hann hefði ekki skilað greinargerð í máli eða tilkynnt að hann óskaði eftir að gera það því Hæstarétti væri heimilað að gefa honum kost á því á síðari stigum eftir nánari reglum í ákvæðinu. Með sambærilegum hætti væri unnt að gefa stefnda kost á að taka aftur upp varnir ef þingsókn hefði fallið niður af hans hálfu eftir að greinargerð hans var komin fram í máli. Ætlast er til að þessum heimildum yrði aðeins beitt í undantekningartilvikum, enda hefur sambærileg regla, sem er nú í 2. mgr. 40. gr. laga nr. 75/1973, sjaldan verið notuð í framkvæmd.
    

Um 12. gr.


    Í 12. gr. eru fyrirmæli um greinargerð stefnda sem varða efni og afhendingu hennar, svo og um málsgögn af hans hálfu, en miðað er við að þetta verði 159. gr. laganna ef frumvarpið nær fram að ganga.
    Í 1. mgr. er kveðið á um hvað sé ætlast til að komi fram í greinargerð stefnda og er í öllum meginatriðum gengið út frá að hún svari að breyttu breytanda til umfjöllunar af hálfu áfrýjanda í áfrýjunarstefnu. Er því unnt að vísa hér um einstaka atriði til athugasemda við 1. mgr. 8. gr. þar sem var fjallað um ýmis efnisatriði sem er ráðgert að komi fram í stefnunni. Að öðru leyti verður að benda á að með 1. mgr. 12. gr. er stefnt að því að greinargerð stefnda um varnir hans verði ítarlegri en sams konar skjal á að vera skv. 44. gr. laga nr. 75/1973. Er þetta lagt til af sömu ástæðum og áður var getið í sambandi við ráðagerðir í frumvarpinu um aukið efni áfrýjunarstefnu í samanburði við núgildandi lög.
    Samkvæmt 2. og 3. mgr. 12. gr. yrði stefndi að afhenda málsgögn af sinni hálfu á sama tíma og hann afhendir greinargerð á skrifstofu Hæstaréttar ef hann telur ástæðu til að leggja fram frekari gögn á því stigi en hafa þegar komið fram af hálfu áfrýjanda. Um málsgögn stefnda gildir meira eða minna það sama og áður var sagt í sambandi við ákvæði 9. gr. frumvarpsins. Taka má þó fram að ætlunin með því að stefnda sé gefinn kostur á að skila sérstökum málsgögnum er að tryggja að hann geti komið á framfæri gögnum sem hann telur skipta máli en áfrýjandi hefur ekki tekið með í málsgögnum sem hann afhenti við þingfestingu máls. Er því aðeins ráðgert að stefndi bæti á þennan hátt við gögnum sem hann telur nauðsynleg, en alls ekki að hann leggi fram gögn sem væru áður komin fram frá áfrýjanda.
    

Um 13. gr.


    Í þessari grein, sem yrði 160. gr. laganna, eru gerðar tillögur um reglur varðandi meðferð máls frá því Hæstarétti bærist greinargerð stefnda og þar til komið væri að munnlegum flutningi þess. Í lögum nr. 75/1973 eru aðeins óveruleg fyrirmæli um atriði í þessu sambandi.
    Samkvæmt 1. mgr. er ætlast til að Hæstiréttur tilkynni áfrýjanda þegar greinargerð og málsgögn berast frá stefnda og sendi honum eintak af þeim. Um leið mundi hefjast sameiginlegur frestur handa aðilunum til að ljúka gagnaöflun ef þeir hafa þá ekki báðir eða allir áður lýst yfir að henni væri lokið af sinni hendi. Yrði sá frestur ákveðinn af Hæstarétti og yfirleitt ekki lengri en einn mánuður, en frá lengd frestsins yrði væntanlega greint í tilkynningum til aðilanna. Gert er ráð fyrir að aðilarnir afhendi síðan hvor fyrir sig viðbótargögn á skrifstofu Hæstaréttar og búi um þau eins og upphafleg málsgögn sín. Hvort sem frekari gögn kæmu fram innan frestsins eða ekki yrði gagnaöflun talið lokið þegar hann væri liðinn, en tekið er þó fram í 1. mgr. 13. gr. að Hæstiréttur gæti fallist á skriflega ósk aðila um lengri frest til þessara þarfa. Við lok gagnaöflunar yrði aðilum tilkynnt um gögn, sem hefðu borist frá gagnaðila, og sent eintak af þeim. Eftir þetta væri ekki unnt að koma að frekari gögnum fyrir Hæstarétti nema hann beindi því til aðila að þeim væri það heimilt.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að aðilar tilkynni Hæstarétti þegar eftir lok gagnaöflunar hvað þeir telji, hvor eða hver fyrir sitt leyti, að þeir þurfi langan tíma til að flytja mál munnlega. Í 5. tölul. 44. gr. laga nr. 75/1973 er mælt fyrir um að sams konar upplýsingar þurfi að koma fram frá aðilum, en ætlast er þó til að þær séu veittar í greinargerðum þeirra. Með frumvarpinu er þannig stefnt að því að þetta gerist á síðari stigum málsmeðferðar en hefur verið. Þessi tillaga er byggð á því að óttast má að aðilarnir séu ekki færir um að gera raunhæfa áætlun í þessum efnum á fyrstu stigum máls meðan ekki liggur fyrir um hvað ágreiningur í því snýst nákvæmlega. Ættu þeir að vera betur settir til að áætla lengd málflutnings síns eftir að hafa getað kynnt sér málatilbúnað hvors annars. Í sambandi við 2. mgr. 13. gr. er að öðru leyti rétt að benda á að ef aðili veitti ekki þessar upplýsingar mætti vænta að Hæstiréttur tæki ákvörðun án þeirra um þann tíma, sem aðilinn hefði til að flytja málflutningsræðu, á grundvelli 5. mgr. 14. gr. frumvarpsins.
    Í 3. mgr. 13. gr. kemur fram að Hæstiréttur geti kvatt aðilanna á dómþing til að taka mál þeirra fyrir áður en komið verði að málflutningi til að taka afstöðu til atriða varðandi rekstur þess. Ætla má að sjaldan yrði þörf á slíkri aðgerð, en til hennar gæti þó komið varðandi til dæmis álitaefni um gagnaöflun í máli.
    

Um 14. gr.


    Í þessari grein frumvarpsins, sem yrði 161. laganna, eru gerðar tillögur um atriði sem varða aðdragandann að flutningi máls fyrir Hæstarétti.
    Í 1. mgr. er mælt fyrir um að Hæstiréttur ákveði þegar gagnaöflun hefur verið lokið í máli, sem vörnum er haldið uppi í, hvenær það verði flutt og tilkynni það aðilum með hæfilegum fyrirvara. Þetta ákvæði svarar efnislega til 1. mgr. 47. gr. laga nr. 75/1973. Vekja má athygli á að því að í tilkynningu til aðila um dómþing til málflutnings gætu um leið komið fram boð til þeirra um atriði sem er fjallað um í 4. og 5. mgr. 14. gr. og 2. mgr. 15. gr. frumvarpsins.
    Í 2. mgr. 14. gr. er gert ráð fyrir þeirri aðalreglu að mál verði flutt sérstaklega um formhlið áður en efnisatriði þess koma til frekari umfjöllunar, en slíkur málflutningur gæti einkum varðað kröfu sem væri gerð um frávísun máls frá Hæstarétti eða héraðsdómi eða um ómerkingu héraðsdóms. Í ákvæðinu er þó miðað við að Hæstiréttur gæti einnig ákveðið að mál verði flutt um formhlið og efni í einu lagi, sem gæti átt við þegar þessi atriði málsins tengjast mjög innbyrðis, eða að leyst verði úr atriðum varðandi formhlið þess án sérstaks málflutnings, en áður yrðu þó aðilar að hafa átt kost á að tjá sig. Að öðru leyti en þessu síðastnefnda svara þessar reglur efnislega til ákvæða 48. gr. laga nr. 75/1973. Nýmælin um heimild til að leysa úr um formsatriði án sérstaks málflutnings eru lögð hér til af tilliti til tilvika þar sem aðilar teldu sig til dæmis hafa tjáð sig til fullnaðar um viðkomandi atriði í skriflegum málatilbúnaði.
    Samkvæmt 3. mgr. 14. gr. yrði aðalreglan eins og hingað til að mál verði munnlega flutt fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 47. gr. laga nr. 75/1973. Í því ákvæði núgildandi laga er þó einnig heimilað að Hæstiréttur ákveði að mál verði skriflega flutt og er sú regla tekin upp í 3. mgr. 14. gr. með þeirri viðbót að sérstakar ástæður þurfi að mæla með því. Þau nýmæli eru síðan lögð til í niðurlagi málsgreinarinnar að Hæstiréttur geti að auki ákveðið að mál verði dómtekið án sérstaks málflutnings ef samhljóða óskir koma fram um það frá aðilunum. Þessi regla á sér fyrirmynd í 1. mgr. 101. gr. laga um meðferð einkamála þar sem héraðsdómara er heimilað að fara þessa leið á lægra dómstigi. Ætla má að lítið mundi reyna á þessa heimild, en ástæða gæti þó verið til að beita henni ef deila aðilanna varðar til dæmis afmarkað álitaefni um skýringu lagaákvæðis og þeir telja fyrirliggjandi gögn og skriflegan málatilbúnað sinn varpa nægu ljósi á það.
    Í 4. mgr. 14. gr. er gerð tillaga um reglu sem á sér ekki hliðstæðu í núgildandi lögum, en áður var vikið að henni í almennum athugasemdum sem má vísa til hér.
    Samkvæmt 5. mgr. 14. gr. er ráðgert að Hæstarétti verði heimilað að takmarka þann tíma sem aðilarnir fengju til umráða við munnlegan flutning máls, en í niðurlagi málsgreinarinnar er tekið fram að gera yrði aðilunum viðvart um þetta í tilkynningunni til þeirra þar sem væri boðað til þinghalds til að flytja málið. Þessi regla á sér ekki hliðstæðu í núgildandi reglum um málflutning fyrir Hæstarétti, en fyrir héraðsdómi er unnt fara þessa leið á grundvelli niðurlagsorða 1. mgr. 102. gr. laga um meðferð einkamála. Rökin fyrir þessum nýmælum eru öðru fremur þau að eftir reglum frumvarpsins ættu aðilar kost á að leggja vandaðan grundvöll að máli í áfrýjunarstefnu og greinargerð og að öðru jöfnu yrði ætlast til að þeir létu í té yfirlit um röksemdir sínar og tilvísanir áður en mál yrði flutt, sbr. 4. mgr. 14. gr. Væri því yfirleitt búið að einangra deiluatriði í máli og skýra þau talsvert í skriflegum gögnum. Með sæmilega vönduðum undirbúningi fyrir málflutning ætti jafnframt að vera unnt að greina frá því sem nauðsyn krefur á hóflegum tíma og væri ástæðulaust að orðlengja þar um atriði sem væru nægilega skýrð í fyrirliggjandi gögnum. Ætla má að Hæstiréttur tæki að öðru jöfnu tillit til þeirra óska sem aðilar settu fram um tíma til málflutnings í tilkynningu skv. 2. mgr. 13. gr. frumvarpsins. Tillaga um nýmælin í 5. mgr. 14. gr. er því einkum gerð til að tryggja að unnt yrði að bregðast á þennan hátt við óskum frá aðila um óhæfilega langan tíma til málflutnings miðað við umfang máls, svo og til aðhalds að öðru leyti varðandi slíkar óskir.
    

Um 15. gr.


    Í 15. gr. eru tillögur um reglur varðandi framkvæmd munnlegs málflutnings fyrir Hæstarétti og yrði þetta 162. gr. laganna ef frumvarpið nær fram að ganga.
    Í 1. mgr. er lýst upphafinu á þinghaldi þar sem mál yrði flutt munnlega, en þar er ætlast til að í byrjun verði gerð grein fyrir dómsorði áfrýjaða héraðsdómsins og áfrýjunarstefnu eftir því sem dómaranum í forsæti þætti þörf á til skýringar á málflutningi. Með þessu yrði lagt á vald dómsins að ákveða hverju sinni hvort slíks upplestrar væri þörf og er að þessu leyti lögð til breyting frá 1. mgr. 49. gr. laga nr. 75/1973.
    Samkvæmt niðurlagsorðum 1. mgr. hæfist málflutningur að loknum upplestri úr dómsorði og áfrýjunarstefnu og er kveðið á um það í 2. mgr. í hverri röð aðilar eða umboðsmenn þeirra fengju að taka til máls. Líkt og í 49. gr. laga nr. 75/1973 er gert ráð fyrir að fyrst yrði talað af hálfu áfrýjanda og svo af hálfu stefnda, nema önnur röð hafi áður verið ákveðin og aðilum tilkynnt um það. Að því gerðu yrði gefinn kostur á stuttum tilsvörum af hálfu hvors um sig.
    Í 3. mgr. 15. gr. kemur fram um hvað eigi að fjalla í munnlegum málflutningi, en þar er getið kröfugerðar aðila, lýsingar á ágreiningsatriðum máls, málsástæðna og annarra röksemda. Er síðan tekið fram að forðast eigi málalengingar og beina málflutningi að ágreiningsatriðum og nauðsynlegum upplýsingum um þau. Þessar reglur fela í sér tillögur um vissar breytingar frá núgildandi reglum um málflutning í 1. mgr. 49. gr. laga nr. 75/1973 því þar er ætlast til að munnlegur málflutningur felist að verulegu leyti í upplestri úr skjölum í ágripi dómsgerða. Þessa breytingu verður að telja eðlilega, enda yrði þá lesið upp úr skjölum með því markmiði sem er lýst í þessu ákvæði frumvarpsins, að því óverulega leyti sem það gæti þjónað tilgangi.
    Í 4. mgr. 15. gr. eru reglur um stjórn þess dómara, sem situr í forsæti hverju sinni, á þinghaldi og flutningi máls. Þessar reglur eiga sér að nokkru hliðstæðu í 50. gr. laga nr. 75/1973 en eru þó öllu ítarlegri um heimildir forsetans í þessum efnum.
    Ákvæði 5. mgr. 15. gr. um dómtöku máls við lok munnlegs flutnings þarfnast ekki skýringa.
    

Um 16. gr.


    Í 16. gr., sem yrði 163. gr. laganna, eru fyrirmæli um á hverju dómar Hæstaréttar verði byggðir. Þannig er í 1. mgr. tekið fram að dómur verði byggður á því sem hefur komið fram í máli og er sannað eða viðurkennt, en að öðru leyti er vísað þar til 111. gr. laganna þar sem koma fram grundvallarreglur um að ekki verði vikið frá kröfum eða málsástæðum aðilanna við úrlausn máls nema í undantekningartilvikum. Að nokkru kemur sambærileg regla nú fram í 56. gr. laga nr. 75/1973.
    Í 2. mgr. 16. gr. eru tekin upp óbreytt ákvæði 45. gr. laga nr. 75/1973 varðandi heimildir til að byggja úrlausn máls í Hæstarétti á kröfu eða málsástæðu sem aðili hefur ekki haft uppi fyrir héraðsdómi. Er miðað við að heimildir í þessum efnum yrðu mjög þröngar, líkt og hefur verið ætlast til með orðalagi núgildandi reglu.
    

Um 17. gr.


    Í þessari grein, sem yrði 164. gr. laganna, eru ákvæði um form úrlausna Hæstaréttar og efni þeirra sem eiga sér ekki teljandi hliðstæður í núgildandi lögum.
    Í 1. og 2. mgr. 17. gr. eru tillögur um reglur um tegundir úrlausna Hæstaréttar í einkamálum og hvenær þær geti átt við. Þannig kemur fram í 1. mgr. að afstaða yrði tekin til atriða, sem þarf að ráða til lykta undir rekstri máls, með ákvörðun dómsins sem yrði ekki rökstudd en yrði færð til bókar eftir þörfum. Ætlast er til að þessi sama aðferð verði notuð hvort sem ágreiningur stæði milli aðilanna um viðkomandi atriði eða ekki. Með þessu er gert ráð fyrir breytingu frá núgildandi reglum sem eru þó ekki lögfestar að neinu teljandi leyti því samkvæmt þeim yrði rökstuddur úrskurður yfirleitt að ganga um atriði af þessum toga. Lagt er til að sú regla verði afnumin, en í því sambandi er tekið tillit til þess að skv. 1. mgr. 112. gr. laga um meðferð einkamála getur héraðsdómari ráðið atriðum sem þessum til lykta með órökstuddri ákvörðun nema í tilvikum þar sem yrði unnt að kæra niðurstöðu hans til Hæstaréttar skv. 143. gr. laganna. Verða ekki séð rök fyrir að leggja frekar á Hæstirétt að kveða upp rökstudda úrskurði um atriði sem þessi. Í 2. mgr. 17. gr. er síðan tekið fram að Hæstiréttur leysi í dómi úr öðrum atriðum en þeim sem niðurstaða fengist um með ákvörðun. Af þessu má sjá að gengið er út frá því í frumvarpinu að aðeins verði til tvenns konar úrlausnir Hæstaréttar sem yrðu ákvarðanir og dómar.
    Í 2. og 3. mgr. 17. gr. koma fram tillögur um reglur um efni dóma Hæstaréttar og er þar gerður nokkur greinarmunur á tilvikum. Þannig er lagt til í 2. mgr. að í tilvikum, þar sem mál væri fellt niður eða vísað frá Hæstarétti eða héraðsdómi, svo og í tilvikum þar sem héraðsdómur væri ómerktur, yrði ekki getið um annað en ástæður fyrir þeim málalokum og niðurstöðu um málskostnað í dómi Hæstaréttar. Þyrfti því ekki að tíunda kröfur aðila í dómi eða röksemdir þeirra nema að því leyti sem þær tengdust slíkum málalokum. Í öðrum tilvikum er hins vegar ráðgert í 3. mgr. að dómar verði öllu efnismeiri en þó breytilegir eftir aðstæðum. Alltaf yrði þó að greina frá kröfum aðila í dómi, en eftir þörfum yrði síðan fjallað um málavexti og röksemdir fyrir niðurstöðu. Þessar reglur eru öllu ítarlegri en núgildandi fyrirmæli í 54. gr. laga nr. 75/1973 og gefa svigrúm til að stytta nokkuð dóma Hæstaréttar eftir því sem tilefni þætti til í framkvæmd.
    Í lokamálsgrein 17. gr. er vísað að öðru leyti til 114. gr. laganna um efnisatriði í dómum. Með hliðsjón af því að ákvæði 2. og 3. mgr. 17. gr. tæma meira eða minna þau atriði, sem er fjallað um í 1. mgr. 114. gr. laganna, beinist þessi tilvísun einkum að 2.–5. mgr. þeirrar greinar.
    

Um 18. gr.


    Í 18. gr. eru tillögur um reglur varðandi samningu, uppkvaðningu og útgáfu dóma Hæstaréttar og er gert ráð fyrir að þetta yrði 165. gr. laganna ef frumvarpið verður að lögum.
    Í 1. mgr. eru ákvæði um fjögurra vikna frest til að kveða upp dóm eftir dómtöku máls, svo og að mál verði munnlega flutt á ný eftir þörfum ef ekki tekst að ljúka því á þeim tíma. Í 51. gr. laga nr. 75/1973 segir það eitt að dómar skuli kveðnir upp svo fljótt sem unnt er eftir lok málflutnings, og eiga þannig reglurnar í 1. mgr. sér ekki hliðstæðu að öllu leyti í núgildandi lögum. Í tillögunni, sem er gerð hér, er tekið mið af fresti til að kveða upp dóm í héraði skv. 1. mgr. 115. gr. laga um meðferð einkamála og er þá gengið út frá að sama regla yrði látin gilda á báðum dómstigum.
    Í 2. mgr. eru reglur um hvernig dómarar greiði atkvæði um niðurstöðu og um samningu dóms, en þær svara efnislega til 52. gr. og 1. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1973.
    Samkvæmt 3. mgr. 18. gr. yrði dómsorð lesið eftir þörfum í heyranda hljóði á dómþingi við uppkvaðningu dóms, auk þess að greint yrði frá því ef sératkvæði væri í dómi. Með þessu er gengið út frá að staðið yrði á sambærilegan hátt að verki við uppkvaðningu dóms og nú er gert á grundvelli 1. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1973 að öðru leyti en því að í reglu frumvarpsins er ekki ráðgert að upplestrar gæti í jafnríkum mæli við uppkvaðningu dóms og eftir núgildandi reglu.
    Í 4. mgr. 18. gr. eru ákvæði um útgáfu dóma Hæstaréttar í dómasafni, en að flestu leyti eru svipaðar reglur nú í 2. mgr. 55. gr. laga nr. 75/1973.
    

Um 19. gr.


    Í þessari grein, sem yrði 166. gr. laganna og um leið lokaákvæði kaflans um áfrýjun, er eingöngu vísað til þess að ákvæðum laganna um meðferð máls í héraði verði beitt til fyllingar eftir því sem þörf krefur. Sambærileg tilvísunarregla kemur nú fram í 58. gr. laga nr. 75/1973.
    

Um 20. gr.


    Eins og áður kom fram er miðað að því með þessu frumvarpi að reglur um áfrýjun einkamála og meðferð þeirra fyrir Hæstarétti komi fram á tæmandi hátt í XXV. kafla laga um meðferð einkamála.
    Í núverandi mynd hefur kaflinn að geyma sex greinar, en í frumvarpinu er gert ráð fyrir að greinunum fjölgi um tíu. Veldur þetta því að greinarnúmer í XXVI. kafla laganna yrðu að taka breytingum með þeim hætti sem er mælt fyrir um í 20. gr. frumvarpsins.
    

Um 21. gr.


    Í 21. gr. er lagt til að nýjum kafla verði bætt í lögin og yrði hann sá XXVII. ef frumvarpið verður að lögum. Í honum yrði aðeins ein grein sem yrði 169. gr. laganna. Í greininni er fjallað um endurupptöku mála sem hafa verið dæmd í Hæstarétti og er kaflanum gefin fyrirsögn því til samræmis.
    Ákvæði 21. gr. eru tekin upp úr 59. gr. laga nr. 75/1973 með óverulegum breytingum. Uppsetningu greinarinnar og orðalagi er breytt nokkuð til samræmis við náskyld ákvæði um endurupptöku óáfrýjaðs máls fyrir héraðsdómi í núverandi 157. og 158. gr. laga um meðferð einkamála sem yrðu 167. og 168. gr. samkvæmt fyrrnefndri 20. gr. frumvarpsins. Benda verður á að í fyrri málslið 2. mgr. og 5. mgr. 21. gr. eru að nokkru leyti nýmæli, en af tilliti til mjög takmarkaðs raunhæfs gildis þessara reglna þykir ástæðulaust að fjalla hér nánar um efni þeirra.
    

Um 22. gr.


    Í þessari grein er mælt fyrir um breytingar á númerum á greinum og köflum í lögunum sem standa aftan við þau ákvæði sem hefur verið fjallað um hér á undan. Telja verður að þessi grein skýri sig sjálf.
    

Um 23. gr.


    Í 23. gr. eru fyrirmæli um tengsl eldri laga og yngri um þau atriði sem frumvarpið tekur til. Verður ekki séð að tilefni sé til að fjalla hér um einstaka atriði í þessari grein.
    

Um 24. gr.


    Í þessari lokagrein frumvarpsins eru fyrirmæli um gildistöku og brottfall lagaákvæða sem þarfnast ekki skýringa.


Fylgiskjal.

    
Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:
    

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum um meðferð einkamála,


nr. 91 31. desember 1991.


    
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til ákveðnar breytingar á áfrýjunarmeðferð einkamála í samræmi við frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 75 21. júní 1975, um Hæstarétt Íslands, svo og frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 19 26. mars 1991, um meðferð opinberra mála.
    Með frumvarpinu er lagt til að skilyrði til áfrýjunar á málum til Hæstaréttar verði þrengd, einkum í smærri málum. Þá verði réttur til áfrýjunar skilyrtur og í þriðja lagi verði meðferð áfrýjaðra einkamála einfölduð.
    Enginn beinn kostnaður mun hljótast af samþykkt þessa frumvarps. Það er til þess fallið að gera alla áfrýjunarmeðferð einfaldari og liðlegri, en um leið verður réttur til áfrýjunar takmarkaður frá því sem nú er. Ekki er sjáanlegt að af þessum breytingum hljótist beinn sparnaður fyrir ríkissjóð. Málsaðilar í einkamálum eru hins vegar líklegir til að ná fram sparnaði þar sem meðferð mála þeirra yrði gerð liðlegri.