Ferill 28. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1995. – 1064 ár frá stofnun Alþingis.
119. löggjafarþing. – 28 . mál.


57. Breytingartillögur



við frv. til l. um breyt. á l. nr. 38/1990, um stjórn fiskveiða, með síðari breytingum.

Frá meiri hluta sjávarútvegsnefndar (ÁRÁ, StG, VE, EOK, HjÁ, GHall).



     1.     Við 1. gr. bætist nýr málsliður, 7. málsl., og orðist svo: Þetta á þó ekki við um breytingar á skipum sem veiðar stunda með aflamarki og leyfi fengu til veiða í atvinnuskyni fyrir 1. janúar 1986, en ekki skulu slíkar breytingar lagðar til grundvallar við mat á afkastagetu við endurnýjun skipsins síðar.
     2.     Við 8. mgr. 2. gr. bætist þrír nýir málsliðir er orðist svo: Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að í stað viðbótarbanndaga samkvæmt þessari málsgrein sé útgerð heimill að eig in vali tiltekinn fjöldi sóknardaga innan hvers veiðitímabils. Skal fjöldi sóknardaga vera ákveðinn þannig að sókn sé heimil á 40% færri dögum á hverju tímabili en verið hefði með fastákveðnum viðbótarbanndögum. Ráðherra skal með reglugerð kveða nánar á um fyrirkomulag sóknardaga og eftirlit með þeim.
     3.     5. gr. orðist svo:
                  Lög þessi öðlast þegar gildi og koma til framkvæmda við upphaf þess fiskveiðiárs er hefst 1. september 1995. Ákvæði 1. gr. koma þó þegar til framkvæmda. Hafi bindandi samningur verið gerður fyrir gildistöku laga þessara um kaup eða smíði á nýjum báti í stað krókabáts eða um breytingar á slíkum báti skulu eldri reglur um endurnýjun þó gilda um þann bát enda hafi hann fengið útgefið haffærisskírteini fyrir 31. ágúst 1995.
     4.     Ákvæði til bráðabirgða III orðist svo:
                  Sjávarútvegsráðherra skal með reglugerð ákveða að sóknardagar að eigin vali útgerðar komi í stað fyrir fram ákveðinna viðbótarbanndaga, sbr. 8. mgr. 6. gr., jafnskjótt og hann telur að tæknilegar og fjárhagslegar forsendur séu fyrir hendi til að hafa virkt eftirlit með nýtingu sóknardaga báta, sem krókaveiðar stunda með sjálfvirkum búnaði til fjareftirlits eða öðru eftirliti sem ráðherra telur fullnægjandi. Skal ráðherra í því skyni tafarlaust láta fara fram sérstaka könnun á þeim kostum sem fyrir hendi eru varðandi búnað til eftirlits með fiskiskipum.