Ferill 555. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.




122. löggjafarþing 1997–98.
Þskj. 944 – 555. mál.



Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 22/1968, um gjaldmiðil Íslands, með síðari breytingum .

(Lagt fyrir Alþingi á 122. löggjafarþingi 1997–98.)



1. gr.

    8. gr. laganna orðast svo:
    Að tillögu Seðlabanka Íslands er ráðherra heimilt að ákveða að fjárhæð sérhverrar kröfu eða reiknings skuli greind og greidd með heilli krónu. Skal fimmtíu aurum eða lægri fjárhæð sleppt, en fimmtíu og einn eyrir eða hærri fjárhæð hækkuð í eina krónu. Seðlabankinn ákveður alla nánari framkvæmd þessa ákvæðis.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er flutt að tillögu Seðlabanka Íslands, sem telur tímabært að fá heimild til að hætta notkun 5, 10 og 50 aura myntar, þannig að krónan verði lægsta mynteining í umferð.
    Frá því að gjaldmiðli Íslands var breytt 1. janúar 1981 og verðmæti krónunnar hundrað faldaðist hefur verulega dregið úr notkun aura í viðskiptalífinu. Nú er svo komið að ein króna er smæsta eining í viðskiptum fjölmargra aðila, m.a. ríkissjóðs.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til breytingar á lögum um gjaldmiðil Íslands sem eru hlið stæðar breytingum sem gerðar voru með lögum nr. 38 8. maí 1974, sbr. reglugerð nr. 339 frá 13. nóvember 1974, um að fjárhæð sérhverrar kröfu eða reiknings skuli greind og greidd með heilli krónu. Samfara gjaldmiðilsbreytingunni 1981 voru framangreind lagaákvæði felld úr gildi með lögum nr. 65 29. maí 1979.
    Verði frumvarp þetta að lögum verður enginn skyldugur að greiða fjárhæð er reiknast fimmtíu aurar eða lægri fjárhæð. Hins vegar verða allir skyldugir til að hlíta því að greiða fjár hæð er reiknast fimmtíu og einn eyrir eða hærri fjárhæð með heilli krónu.
    Þessi ákvæði girða þó ekki fyrir það að einstakar einingar séu verðlagðar með því að til greina verð þeirra í aurum, t.d. gengi erlendra gjaldmiðla, verð á lítra af eldsneyti, verð á ein ingu af rafmagni, heitu vatni o.s.frv.
    Er því eðlilegt að gera ráð fyrir því að aurar séu eftir sem áður til sem eining í gjald miðlinum þótt sláttu 5, 10 og 50 aura myntar sé hætt. Yrði það þannig að vörur og þjónustu megi áfram verðleggja í aurum, eins og að framan getur, en heildaruppgjörsfjárhæð kröfu eða reiknings sé ávallt sléttuð út miðað við heila krónu. Þetta hefur í för með sér að í reikningum eru einstaka liðir í aurum en samtala reiknings ávallt sléttuð út miðuð við lægstu slegnu einingu og á þetta við hvort sem greiðsla fer fram í reiðufé eða á annan hátt.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstof a:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 22/1968,
um gjaldmiðil Íslands, með síðari breytingum.

    Með frumvarpi þessu er lagt til að hætt verði að nota aura í peningaviðskiptum. Öll við skipti verði í heilum krónum. Seðlabanki Íslands hefur til þessa gefið út í minni mynt en krónu. Slík mynt hefur ekki verið slegin undanfarin tólf ár, enda eftirspurn eftir henni lítil.
    Ekki mun koma til kostnaðar ríkissjóðs af samþykkt frumvarps þessa.