Ferill 351. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 474  —  351. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á almennum hegningarlögum, nr. 19 12. febrúar 1940, með síðari breytingum (reynslulausn o.fl.).

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

1. gr.

    40. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 16/1976 og 4. gr. laga nr. 42/1985, orðast svo:
    Þegar fangi hefur afplánað2/ 3hluta refsitímans getur Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðið að fanginn skuli látinn laus til reynslu.
    Reynslulausn má þó veita, ef sérstaklega stendur á, þegar liðinn er helmingur refsitímans.
    Reynslulausn verður ekki veitt ef slíkt þykir óráðlegt vegna haga fangans, enda skal hon­um vís hentugur samastaður og vinna eða önnur kjör sem nægja honum til framfærslu. Yfir­lýsing hans skal og fengin um að hann vilji hlíta þeim skilyrðum sem sett eru fyrir reynslu­lausn.
    Þegar fangi fær lausn til reynslu skal afhenda honum skírteini er greini skilyrði fyrir reynslulausn og hverju skilorðsrof varði.
    Þegar hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn verður reynslulausn ekki veitt. Sama gildir þegar fangi afplánar vararefsingu fésektar.

2. gr.

    41. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 16/1976 og 5. gr. laga nr. 82/1998, orðast svo:
    Reynslutími skal vera allt að 3 árum. Nú er óafplánað fangelsi lengra en 3 ár, og má þá ákveða reynslutíma allt að 5 árum.
    Það er skilyrði reynslulausnar að aðili gerist ekki sekur um nýtt brot á reynslutíma. Ákveða má að reynslulausn skuli vera bundin því skilyrði að aðili sé háður umsjón og eftir­liti Fangelsismálastofnunar ríkisins eða annars aðila sem hún ákveður, allan eða nánar tiltek­inn hluta reynslutímans. Enn fremur má binda reynslulausn þeim skilyrðum, nokkrum eða öllum, sem greinir í 3. mgr. 57. gr. Skilyrði um vistun á hæli getur þó eigi staðið lengur en til loka refsitímans.
    Fangelsismálastofnun ríkisins tekur ákvarðanir skv. 1. og 2. mgr. og getur vegna breyttra ástæðna fellt skilyrði niður að nokkru leyti eða öllu.

3. gr.

    42. gr. laganna, sbr. 3. gr. laga nr. 16/1976, 5. gr. laga nr. 42/1985 og 6. gr. laga nr. 82/1998, orðast svo:
    Nú fremur aðili nýtt brot eftir að hann hlýtur reynslulausn og rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum sem sakborningi fyrir lok reynslutíma, og ákveður þá dómstóll sem fjallar um mál þetta refsingu í einu lagi fyrir brot það sem nú er dæmt um og svo með hliðsjón af fang­elsisrefsingu sem óafplánuð er samkvæmt reglum 60. gr. þannig að fangelsi samkvæmt eldra dómi er virt með sama hætti og skilorðsdómur.
    Rjúfi aðili skilorð að öðru leyti getur Fangelsismálastofnun ríkisins ákveðið hvort breytt skuli skilyrðum og reynslu- og/eða tilsjónartími lengdur allt að lögmæltu hámarki hans eða að aðili taki út refsingu sem eftir stendur.
    Nú er ekki tekin ákvörðun um að aðili afpláni fangelsisrefsingu sem hann átti ólokið, sbr. 1. og 2. mgr., og telst refsingu þá fullnægt á því tímamarki sem aðili fékk reynslulausn.
    Nú er ákveðið að láta aðila taka út eftirstöðvar fangelsisrefsingar, sbr. 2. mgr., og má þá veita reynslulausn á ný þótt eigi sé fullnægt skilyrðum 1. og 2. mgr. 40. gr. Í þessu tilviki gilda ákvæði 41. gr. um reynslutíma en þó þannig að dreginn skal frá sá tími sem hann hefur notið reynslulausnar áður.
    Nú er aðili sem sætt hefur nokkrum hluta fangelsisrefsingar náðaður skilorðsbundið, og er þá heimilt að setja honum þau skilyrði að hann hlíti ákvæðum 1.–4. mgr.

4. gr.

    58. gr. laganna, sbr. 5. gr. laga nr. 22/1955 og 12. gr. laga nr. 84/1996, orðast svo:
    Þegar umsjón er gerð að skilyrði fer Fangelsismálastofnun ríkisins með hana eða felur umsjónina öðrum aðila. Fangelsismálastofnun getur af sjálfsdáðum eða eftir tilmælum aðila breytt fyrirmælum sem aðila hafa verið sett skv. 2., 5. og 6. tölul. 3. mgr. 57. gr.
    Nú hefur aðila verið sett skilyrði um dvöl á hæli skv. 4. tölul. 3. mgr. 57. gr., og getur Fangelsismálastofnun þá vegna breyttra ástæðna fellt skilyrðið niður að nokkru leyti eða öllu, að fengnum tillögum forstöðumanns hælis, ef því er að skipta.

5. gr.

    1. mgr. 59. gr. laganna, sbr. 1. gr. laga nr. 20/1981 og 12. gr. laga nr. 84/1996, orðast svo:
    Ef aðili rýfur í verulegum atriðum skilyrði þau eða fyrirmæli sem honum hafa verið sett skv. 1.–6. tölul. 3. mgr. 57. gr. getur ákærandi krafist þess að dómari taki málið fyrir að nýju, enda sé skilorðstími ekki liðinn þegar rannsókn á skilorðsrofi hefst hjá lögreglu gegn viðkomandi manni.

6. gr.

    1. málsl. 60. gr. laganna, sbr. 2. gr. laga nr. 20/1981, orðast svo: Nú hefst rannsókn hjá lögreglu gegn manni sem sakborningi fyrir lok skilorðstíma, og er dómstólum þá heimilt að dæma refsingu fyrir það brot sér í lagi án skilorðs, en láta skilorðsdóm haldast.

7. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið á vegum refsiréttarnefndar að tilhlutan dómsmálaráðherra. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum í V. og VI. kafla almennra hegn­ingarlaga, nr. 19/1940.
    Helstu tillögur frumvarpsins eru þessar:

1. Reynslulausn verði veitt þótt eftirstöðvar fangelsis séu skemmri en 30 dagar.
    Samkvæmt 40. gr. hegningarlaga er heimilt að veita fanga reynslulausn þegar hann hefur tekið út 2/ 3 hluta refsitímans, en þó minnst tvo mánuði. Reynslulausn má þó veita, ef sérstaklega stendur á, þegar liðinn er helmingur refsitímans. Með lögum nr. 42/1985 var þessi heimild takmörkuð þannig að reynslulausn yrði ekki veitt ef eftirstöðvar refsitímans væru skemmri en 30 dagar, sbr. 3. mgr. 40. gr. hegningarlaga. Því er ekki unnt að veita helmings­lausn til reynslu þegar dæmd refsing er skemmri en tveggja mánaða fangelsi. Í athugasemd­um við þetta ákvæði í greinargerð með frumvarpi sem varð að lögum nr. 42/1985 segir að þessi breyting hafi verið gerð til samræmis við hliðstæð ákvæði í hegningarlögum annars staðar á Norðurlöndum, auk þess sem óeðlilegt þyki að veita reynslulausn af styttri dómum en tveggja mánaða refsivist.
    Með lögum nr. 82/1998 var varðhaldsrefsing afnumin, þannig að refsivist verður ekki dæmd í skemmri tíma en 30 daga fangelsi, sbr. 34. gr. hegningarlaga. Fyrir gildistöku þeirra laga var hins vegar unnt að dæma í varðhaldsrefsingu um skemmri tíma eða allt niður í fimm daga. Í kjölfar þessarar hækkunar á lágmarki refsingar er ekki jafnríkt tilefni og áður fyrir því skilyrði reynslulausnar í 3. mgr. 40. gr. laganna að eftirstöðvar refsitíma megi ekki vera skemmri en 30 dagar. Þótt unnt verði að veita reynslulausn þegar dæmd fangelsisrefsing er skemmri en tveir mánuðir verður fanga í öllu falli ekki veitt reynslulausn fyrr en hann hefur afplánað fangelsi í minnst 15 daga, sem er helmingur lágmarksrefsingar. Með hliðsjón af þessu verður einnig talið að síður sé hætt við að það geti rýrt varnaðaráhrif refsinga þótt þetta skilyrði reynslulausnar verði fellt úr gildi. Þá felur umrætt ákvæði í sér mismunum gagnvart föngum eftir tímalengd dæmdrar fangelsisrefsingar. Þannig er heimilt að gildandi lögum að veita fanga sem hlotið hefur tveggja mánaða fangelsisdóm reynslulausn þegar hann hefur afplánað 30 daga í fangelsi, meðan reynslulausn verður ekki veitt fyrir neinum hluta refsitíma þegar fangi hefur hlotið fangelsisdóm í 45 daga. Að öllu þessu virtu er lagt til að fellt verði úr lögum skilyrði um lágmarkseftirstöðvar refsitíma svo að reynslulausn verði veitt.

2. Reynslulausn verði ekki veitt þegar hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundin.
    Lagt er til að tekið verði fram í almennum hegningarlögum að reynslulausn verði ekki veitt ef hluti fangelsisrefsingar er óskilorðsbundinn en hluti skilorðsbundinn. Með þessu yrði lögfest órofa venjubundin framkvæmd, sem á sér stoð í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um fulln­ustu refsidóms, nr. 29/1993, en rétt þykir að kveða afdráttarlaust á um þetta í lögum. Að baki þessu búa þær röksemdir að með dómi hefur tiltekin refsing verið lögð við broti og refsingin er ein og hin sama þótt tiltekin hluti hennar hafi verið skilorðsbundin. Þegar hluti fangelsis­refsingar er skilorðsbundinn hefur aftur á móti verið ákveðið með dómi að hvaða marki refs­ingin kemur til fullnustu og að hvaða marki fullnustu er frestað með skilyrðum. Þannig hefur fullnusta refsingarinnar þegar verið ákveðin, en heimild til að skilorðsbinda dóm eru hér rýmri en þegar fanga er veitt reynslulausn á hluta refsingar.

3. Reynslulausn þegar vararefsing fésektar er afplánuð.
    Í 1. mgr. 31. gr. almennra hegningarlaga segir að hegningar samkvæmt lögunum séu fang­elsi og fésektir. Fyrir gildistöku laga nr. 82/1998 voru hegningar refsivist og fésektir, en refsivist greindist í varðhald og fangelsi, sbr. þágildandi 31. og 32. gr. laganna. Skv. 40. gr. laganna er heimilt að veita fanga reynslulausn þegar hann hefur tekið út 2/ 3 hluta refsitímans, en þó minnst tvo mánuði. Þó má veita reynslulausn, ef sérstaklega stendur á, þegar liðinn er helmingur refsitímans. Í hegningarlögum er ekki að finna hliðstæða heimild til að veita eftir­gjöf með skilyrðum á dæmdri fésekt. Verði fésekt ekki greidd skal hún aftur á móti afplánuð í fangelsi, nema háttsemi hafi verið manni ósaknæm og er vararefsing þá eigi ákveðin, sbr. 53. gr. laganna. Í tíð eldri laga var einnig heimilt að ákveða að vararefsing yrði afplánuð í varðhaldi. Með hliðsjón af skilyrðislausri skyldu til greiðslu sektar og þvingunareðli vara­refsingar hefur í framkvæmd verið litið svo á að ekki sé heimilt að veita eftirgjöf á vararefs­ingu með reynslulausn.
    Á það reyndi nýlega í málum tveggja fanga hvort unnt væri að veita reynslulausn þegar vararefsing fésektar væri afplánuð. Beiðnum þar að lútandi hafði verið hafnað af Fangelsis­málastofnun ríkisins og var sú niðurstaða staðfest með úrskurðum dómsmálaráðuneytisins. Þessi niðurstaða ráðuneytisins var reist á tillögum náðunarnefndar, sem hafði fengið málin til umfjöllunar í samræmi við 6. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993.
    Í tillögum náðunarnefndar til ráðuneytisins segir að við setningu ákvæða almennra hegn­ingarlaga um vararefsingu fésektar og reynslulausn hafi ekki verið gert ráð fyrir því að veitt yrði reynslulausn af vararefsingu, og í framkvæmd hafi verið stuðst við þá túlkun. Í 1. og 2. mgr. 40. gr. almennra hegningarlaga séu skilyrði fyrir reynslulausn sem lúti meðal annars að því að fangi hafi afplánað tiltekinn hluta refsitíma. Við mat á þessum skilyrðum þurfi þannig að vera fyrir fram ljóst hver verði raunveruleg tímalengd afplánunar dæmdrar refsing­ar komi til reynslulausnar. Leiki vafi á því verði ekki metið með vissu hvort skilyrði um tímatakmörk 40. gr. séu fyrir hendi. Þá segir í tillögum náðunarnefndar að í framkvæmd hafi verið talið að fésektarrefsing falli ekki niður við það að hafin er afplánun vararefsingar, og að binda megi enda á afplánun vararefsingar með greiðslu fésektar eða eftirstöðva hennar. Taldi náðunarnefnd þessa framkvæmd fela í sér ívilnun fyrir dómþola, en á hinn bóginn væri útreikningur á tímamörkum skv. 40. gr. þannig ætíð háður óvissu um hver raunverulegur af­plánunartími yrði, þar sem ekki væri vitað hvort tímalengd dæmdrar vararefsingar styttist með greiðslu fésektar eftir að afplánun væri hafin. Því taldi náðunarnefnd lagarök er vörð­uðu tilgang og eðli vararefsingar fésektar, tengsl fésektar við vararefsingu og almenn skil­yrði reynslulausnar mæla gegn því að ákvæði 40. gr. um reynslulausn ættu við um vara­refsingu fésektar.
    Þessi mál komu til úrlausnar umboðsmanns Alþingis (mál nr. 2423/1998 og 2424/1998). Í álitum sínum rekur umboðsmaður ákvæði viðeigandi laga og kemst að þeirri niðurstöðu að réttarstaða þeirra manna sem afpláni vararefsingu fésekta sé að öllu jöfnu sú sama og ann­arra fanga sem skertir hafa verið frelsi sínu með refsivist. Af greinargerð frumvarps sem varð að lögum nr. 16/1976 og breyttu ákvæðum hegningarlaga telur umboðsmaður að ráða megi að lögfesting reynslulausnar miði að því að takmarka andfélagsleg áhrif frelsisskerð­ingar til lengri tíma og vera til aðstoðar föngum í þeim miklu aðlögunarerfiðleikum sem bíði þeirra við lok refsivistar. Þessi tilgangur reynslulausnar geti jafnt átt við um þá menn sem afpláni óskilorðsbundin fangelsis- eða varðhaldsdóm og þá sem skertir séu frelsi sínu vegna ógreiddra fésekta.
    Því næst rekur umboðsmaður þá venjuhelguðu framkvæmd að refsifangar fái nær undan­tekningalaust reynslulausn eftir helming eða tvo þriðju hluta refsitímans, svo framarlega sem skilyrðum 40. gr. hegningarlaga sé fullnægt. Þrátt fyrir heimildarform ákvæða V. kafla hegn­ingarlaga hafi þetta í reynd áunnið dómþolum réttindi, að því marki sem framkvæmdin upp­fyllir nefnd skilyrði. Að þessu virtu og því einkenni vararefsingar fésekta að hafa í för með sér frelsisskerðingu og vistun í afplánunarfangelsi um lengri eða skemmri tíma telur umboðs­maður rök hníga til þess að sérstaklega hefði þurft að takmarka réttindi þeirra fanga sem af­plána vararefsingu með skýru og ótvíræðu lagaákvæði til að heimilt væri að hafna reynslu­lausn á þeim grundvelli að ákvæði 1. og 2. mgr. 40. gr. tækju ekki til þeirra, enda sé vafasamt að orðalags- og efnisskýring ákvæðanna leiði ein og sér til þeirrar niðurstöðu.
    Þá telur umboðsmaður óeðlilegt að dómur, úrskurður eða sátt um greiðslu fésektar að við­lagðri vararefsingu reynist dómþolum þungbærari ákvörðun en óskilorðsbundin fangelsis- eða varðhaldsrefsing, enda séu fésektir vægasta tegund refsinga samkvæmt hegningarlögum. Af samanburðarskýringu á ákvæðum 52. og 53. gr. hegningarlaga megi ráða að afplánun vararefsingar fésekta með vistun á refsivistarstofnun eigi almennt ekki að eiga sér stað nema ljóst þyki að fangi hafi hvorki vilja né getu til að greiða sektina. Einnig sé til þess að líta að reynslulausn verði ekki veitt ef eftirstöðvar fésektar séu skemmri en 30 dagar, sbr. 3. mgr. 40. gr. hegningarlaga, og því sé ljóst að reynslulausn úr refsivist sem afplánuð er vegna vara­refsingar fésekta geti aðeins átt við þegar um allháar sektargreiðslur sé að ræða. Að þessu virtu telur umboðsmaður verulegan vafa leika á því að fært sé að útiloka fanga sem afplánar vararefsingu fésekta um lengri eða skemmri tíma og uppfyllir að öðru leyti skilyrði 1. og 2. mgr. 40. gr. frá þeim möguleika að verða látin laus til reynslu sökum þess að hann geti stytt afplánunartíma sinn hafi hann fjárhagslegt bolmagn til þess.
    Með vísan til alls þessa mæltist umboðsmaður til þess við dómsmálaráðuneytið að það gengist fyrir frekari athugun á skilyrðum reynslulausnar þegar í hlut ættu fangar sem afplána vararefsingu sektarrefsingar, og að mál fanganna tveggja yrðu tekin fyrir að nýju kæmi fram ósk þar að lútandi.
    Af því sem hér hefur verið rakið er öldungis ljóst að veruleg réttaróvissa ríkir um hvort heimilt er að veita fanga sem afplánar vararefsingu fésektar reynslulausn og er nauðsynlegt að úr þessari réttaróvissu verði leyst með lagasetningu. Við mat á þessu verður að líta til þess að ýmis vandkvæði eru samfara því að veita eftirgjöf á vararefsingu með reynslulausn. Þannig er óljóst hvernig fara eigi með eftirstöðvar refsingar ef skilyrði reynslulausnar hafa verið rofin með því að nýtt brot hefur verið framið á reynslutíma. Leikur vafi á því við síðari ákvörðun refsingar hvort eftirstöðvar vararefsingar beri að meta sem ógreidda sekt eða hvort þær beri að meta sem fangelsisrefsingu. Einnig leikur vafi á því hvort sekt, sem svarar til óafplánaðar vararefsingar, verði greidd þannig að hún hafi ekki áhrif við síðari ákvörðun refsingar. Þótt unnt sé með lögum að mæla fyrir um hvernig fara skuli með eftirstöðvar vara­refsingar að þessu leyti verður tæplega komist hjá því að þær lagareglur orki ekki tvímælis. Þá verður að hafa hliðsjón af því að tiltekin hluti vararefsingar svarar til ákveðins hluta sekt­arinnar. Það fæli því í sér ákveðna mismunun að veita eftirgjöf á vararefsingu gagnvart þeim sem greiðir sekt sína af skilvísi án þess að eiga kost á nokkrum afslætti hennar. Með hliðsjón af þessu þykja rök mæla með að reynslulausn verði ekki veitt þegar vararefsing fésektar er afplánuð og er lagt til að sú regla verði lögfest.
    Fésekt er vægasta tegund refsingar og því er þungbært fyrir sektarþola að þurfa að þola fullnustu sektar með vararefsingu í fangelsi. Væri takmörkuð ívilnun í því fólgin gagnvart sektarþola þótt unnt væri að veita honum reynslulausn á hluta vararefsingarinnar. Þess í stað þykir nær að sektarþola verði með öðru móti en með skerðingu á frjálsræði gert kleift að þola fullnustu refsingar þegar hann getur ekki greitt sekt. Með lögum nr. 55/1994 var lögfest heimild til að afplána óskilorðsbundna refsivist með ólaunaðri samfélagsþjónustu, en ákvæði um hana er nú að finna í IV. kafla laga um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, svo sem þeim lögum var breytt með lögum nr. 123/1997. Samkvæmt þessum lagaákvæðum hefur hvorki verið heimilt að fullnusta fésekt né vararefsingu hennar með samfélagsþjónustu. Með frum­varpi um breytingu á lögum um fangelsi og fangavist, sem flutt er samhliða þessu frumvarpi, er lögð til sú breyting að unnt verði að fullnusta hámarksvararefsingu með samfélagsþjón­ustu. Þannig gefst sektarþolum í öllum tilvikum kostur á að komast hjá því að þurfa að afplána vararefsingu í fangelsi. Þykir fullnusta á þann veg til muna sanngjarnari í garð sektar­þola í stað þess að hann þurfi að þola fangelsisrefsingu af þeim sökum einum að geta ekki greitt sekt. Þó verður áfram að búa við að vararefsing verði fullnustuð með fangelsi þegar sektarþoli fullnægir ekki skilyrðum fyrir samfélagsþjónustu eða sinnir henni ekki. Að öðrum kosti yrði verulega dregið úr varnaðaráhrifum refsinga ef ekki væri unnt að fullnusta sektar­refsingu af þeirri ástæðu einni að hún fæst ekki greidd.

4. Afplánun eftirstöðva refsingar vegna nýs afbrots á reynslutíma.
    Samkvæmt 2. mgr. 42. gr. almennra hegningarlaga er stjórnvaldi heimilt að ákveða að að­ili taki út refsingu, sem eftir stendur, ef hann rýfur skilyrði reynslulausnar með því að fremja ótvírætt brot á almennum hegningarlögum. Á þessa heimild hefur reynt í áliti umboðsmanns Alþingis (skýrsla umboðsmanns Alþingis 1995, bls. 97). Í málinu kvartaði fangi yfir þeirri ákvörðun Fangelsismálastofnunar ríkisins að fella niður reynslulausn og gera honum að afplána eftirstöðvar refsingar. Var sú ákvörðun Fangelsismálastofnunar reist á því að fang­inn hefði rofið skilyrði reynslulausnar með því að gerast brotlegur við hegningarlög. Þessi ákvörðun hafði verið staðfest með úrskurði dómsmálaráðuneytisins. Umboðsmaður taldi að það hefði ekki samrýmst 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu að Fangelsismálastofn­un og dómsmálaráðuneytið lýstu því yfir að fanginn hefði gerst sekur um ótvírætt hegningar­lagabrot, sem þá hafði ekki gengið dómur um. Hins vegar tók umboðsmaður fram að mann­réttindasáttmálinn útilokaði ekki að í þessu efni væri byggt á því að rökstuddur grunur lægi fyrir um refsivert brot. Beindi umboðsmaður þeim tilmælum til dómsmálaráðuneytisins að það beitti sér fyrir því að rökstuðningur í málum sem þessum samrýmdist 2. mgr. 6. gr. mannréttindasáttmála Evrópu, sbr. lög nr. 62/1994, og tæki til athugunar hvaða lagabreyt­ingar væru nauðsynlegar í því sambandi.
    Í kjölfar þessa álits umboðsmanns Alþingis hefur Fangelsismálastofnun ekki tekið ákvörðun um að eftirstöðvar refsingar skyldu afplánaðar vegna þess að brot hefði verið framið á reynslutíma. Þess í stað er í öllum tilvikum beðið niðurstöðu dóms vegna seinna brotsins þar sem refsing er ákveðin í einu lagi fyrir síðara brotið með hliðsjón af óafplánaðri fangelsisrefsingu, sbr. 1. mgr. 42. gr. laganna. Af þessari framkvæmd hafa ekki leitt teljandi vandkvæði og er því lagt til að umrædd heimild í hegningarlögum verði felld brott. Þetta verður ekki talið varhugavert í ljósi þess að dómsmál ganga nú til muna hraðar en áður auk þess sem önnur úrræði en afplánun eftirstöðva refsingar geta komið til álita ef brot er framið á reynslutíma, svo sem svokölluð síbrotagæsla á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.

5. Eftirlit á skilorðstíma.
    Samkvæmt 1. mgr. 58. gr. almennra hegningarlaga ákveður ákærandi hver hafi á hendi umsjón með aðila á skilorðstíma. Með lögum um fangelsi og fangavist, nr. 48/1988, var þessu ákvæði ekki breytt þótt þau lög kveði á um að Fangelsismálastofnun hafi meðal annars það hlutverk að annast eftirlit með þeim sem dæmdir eru skilorðsbundið. Á túlkun þessara ákvæða reyndi í dómi Hæstaréttar frá 1. mars 1995 (Hrd. 1995, bls. 562), en þar segir svo: „Ríkissaksóknara ber lagaskylda til að tilnefnda þann, sem hafa skal á hendi hina sérstöku umsjón með ákærða, sbr. 1. tl. 3. mgr. 57. gr. almennara hegningarlaga nr. 19/1940, enda var 58. gr. laganna ekki felld úr gildi með lögum nr. 48/1988. Rétt er hins vegar og í sam­ræmi við réttarþróun, að Fangelsismálastofnun ríkisins, verði sérfræðingur á hennar veg­um ekki tilnefndur, hafi eftirlit með framkvæmd umsjónarinnar og veiti ákærða þá félagslegu þjónustu, sem stofnunin hefur tök á og að gagni megi koma, sbr. 3. og 4. tl. 2. gr. laga nr. 48/1998.“ Með frumvarpi þessu er lagt til að hegningarlögum verði breytt til samræmis við lögin um fangelsi og fangavist, þannig að umsjón á skilorðstíma sé á vegum Fangelsis­málastofnunar eða þess sem stofnunin felur umsjónina.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. gr.

    Lagt er til að 1. mgr. 40. gr. verði breytt þannig að Fangelsismálastofnun ríkisins veiti fanga reynslulausn, en nú segir að þessi mál séu á hendi dómsmálaráðherra eða annars stjórnvalds sem hann felur úrlausn þeirra. Þetta felur ekki í sér breytingu frá gildandi fyrir­komulagi þar sem ráðherra hefur falið Fangelsismálastofnun að veita reynslulausnir, sbr. 1. mgr. 4. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma, nr. 29/1993.
    Einnig er lagt til að reynslulausn verði veitt þótt eftirstöðvar refsitímans séu skemmri en 30 dagar. Á hinn bóginn er lagt til að reynslulausn verði ekki veitt ef hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn. Sama gildir þegar vararefsing fésektar er afplánuð. Nánar hefur verið fjallað um þessi atriði í almennum athugasemdum með frumvarpinu.
    Að öðru leyti en hér hefur verið rakið eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á 40. gr. laganna.

Um 2. gr.

    Lagt er til að Fangelsismálastofnun taki ákvarðanir skv. 1. mgr. 41. gr., en það er í sam­ræmi við 8. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma. Ekki eru lagðar til frekari breytingar á inntaki ákvæðisins.

Um 3. gr.

    Með lögum um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, voru eiginlegar dómsrannsóknir lagðar niður. Því er lagt til að 1. mgr. 42. gr. verði breytt til samræmis við það þannig að rannsókn þurfi að hefjast hjá lögreglu gegn manni sem sakborningi fyrir lok reynslutíma svo að hann teljist hafa rofið skilyrði reynslulausnar. Þetta orðalag er í samræmi við 4. mgr. 82. gr. laganna um rof á fyrningarfresti sakar, svo sem því ákvæði var breytt með 2. gr. laga nr. 63/1998.
    Lagt er til að Fangelsismálastofnun taki ákvörðun skv. 2. mgr. 42. gr., svo sem nú gildir skv. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóma. Einnig er lagt til að felld verði niður heimild stjórnvalds til að taka ákvörðun um að aðili taki út refsingu sem eftir stendur ef hann hefur rofið skilyrði reynslulausnar með því að fremja brot á almennum hegningarlögum á reynslutíma, en um þá breytingu vísast til almennra athugasemda frumvarpsins. Til samræmis við þetta eru lagðar til breytingar á 4. mgr. 42. gr.
    Að öðru leyti en hér hefur verið rakið eru ekki lagðar til efnislegar breytingar á þessu ákvæði laganna.

Um 4. gr.

    Þegar hefur verið fjallað um þær breytingar sem lagðar eru til á þessu ákvæði í almennum athugasemdum með frumvarpinu.

Um 5. og 6. gr.

    Lagt er til að ákvæði 1. mgr. 59. gr. og 1. málsl. 1. mgr. 60. gr. um rof á skilorði miðist við að rannsókn hefjist gegn manni hjá lögreglu. Þegar hefur verið rætt um tilefni þessara breytinga í athugasemdum við 3. gr. frumvarpsins.

Um 7. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breyting á almennum hegningarlögum,
nr. 19 12. febrúar 1940 (reynslulausn o.fl.).

    Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á nokkrum ákvæðum í V. og VI. kafla almennra hegningarlaga, nr. 19/1940.
    Helstu tillögur frumvarpsins eru:
     1.      Reynslulausn verði veitt þótt eftirstöðvar fangelsis séu skemmri en 30 dagar og fellt úr lögum skilyrði um lágmarkseftirstöðvar refsitíma svo að reynslulausn verði veitt.
     2.      Reynslulausn verði ekki veitt ef hluti fangelsisrefsingar er skilorðsbundinn. Með þessu yrði lögfest órofa venjubundin framkvæmd sem á sér stoð í 2. mgr. 5. gr. reglugerðar um fullnustu refsidóms, nr. 29/1993, en rétt þykir að kveða afdráttarlaust á um þettta í lögum.
     3.      Reynslulausn þegar vararefsing fésekta er afplánuð verði ekki veitt. Með frumvarpi um breytingu á lögum um fangelsi og fangavist, sem flutt er samhliða þessu frumvarpi, er hins vegar lögð til sú breyting að unnt verði að fullnusta hámarksvararefsingu með sam­félagsþjónustu.
     4.      Afplánun eftirstöðva refsingar vegna nýs afbrots á reynslutíma verði lögð af og beðið niðurstöðu dóms vegna seinna brotsins, þar sem refsing er ákveðin í einu lagi fyrir síð­ara brotið með hliðsjón af óafplánaðri fangelsisrefsingu.
     5.      Eftirlit á skilorðstíma verði á vegum Fangelsismálastofnunar eða þess sem stofnunin felur umsjónina.
    Ætla má að lögfesting frumvarpsins hafi óveruleg áhrif á afkomu ríkissjóðs, verði það óbreytt að lögum. Að nokkru leyti fela breytingar frumvarpsins í sér lögfestingu á gildandi fyrirkomulagi. Aðrar breytingar er erfitt að meta nákvæmlega til kostnaðar en flestar þeirra munu fremur leiða til lækkunar en hækkunar útgjalda.