Ferill 359. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 495  —  359. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um álagningu skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga.

(Lagt fyrir Alþingi á 123. löggjafarþingi 1998–99.)

I. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt,
með síðari breytingum.

1. gr.

    Við 1. málslið 8. tölul. 31. gr. laganna bætist: þó ekki af félögum sem hafa starfsleyfi al­þjóðlegs viðskiptafélags.

2. gr.

    Við 3. mgr. 67. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Sama gildir um arð og sölu­hagnað einstaklinga utan rekstrar af hlutafé í félagi sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs við­skiptafélags.

3. gr.

    Við 1. mgr. 72. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Tekjuskattur félags sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags skal vera 5% af tekjuskattsstofni, sbr. 2. tölul. 62. gr.

4. gr.

    Á eftir 3. mgr. 84. gr. laganna kemur ný málsgrein er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skal félag sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags vera undanþegið eignarskatti.

II. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 83/1989, um Þjóðarbókhlöðu og
endurbætur menningarbygginga, með síðari breytingum.

5. gr.

    Við b-lið 3. gr. laganna bætist nýr málsliður er orðast svo: Félag sem hefur starfsleyfi al­þjóðlegs viðskiptafélags skal þó undanþegið sérstökum eignarskatti samkvæmt lögum þess­um.

III. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, með síðari breytingum.
6. gr.

    Við 3. gr. laganna bætist ný málsgrein er orðast svo:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr., ákvæði 4. gr. og ákvæði III. kafla skulu skjöl er ella væru stimpilskyld samkvæmt lögum þessum vera stimpilfrjáls ef þau varða kaup og sölu félags, sem hefur starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags, á flugvélum og skipum sem því eru heimil lögum samkvæmt, skrásetningu réttinda og stofnun takmarkaðra eignarréttinda yfir slíkum eignum alþjóðlegs viðskiptafélags eða lántökur, lánveitingar eða viðskipti slíks félags vegna lögheimillar starfsemi þess.

IV. KAFLI
Breytingar á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.
7. gr.

    Við 1. mgr. 11. gr. laganna bætast tveir nýir töluliðir, 1. og 2. tölul., svohljóðandi:
     1.      Starfsleyfi alþjóðlegs viðskiptafélags     100.000 kr.
     2.      Árlegt eftirlitsgjald alþjóðlegs viðskiptafélags     100.000 kr.

V. KAFLI
Gildistaka.
8. gr.

    Lög þessi öðlast gildi 1. janúar 1999. Ákvæði 1.–5. gr. koma til framkvæmda við álagn­ingu á árinu 2000 vegna tekna á árinu 1999 og eigna í lok þess.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um alþjóðleg viðskiptafélög. Er þeim lagabreytingum sem hér er kveðið á um ætlað að skapa félögum sem sérstaklega eru stofnuð og starfrækt samkvæmt starfsleyfi hér á landi, í því skyni að stunda viðskipti utan íslenskrar lögsögu, samkeppnishæf skattaleg skilyrði samanborið við það sem annars staðar býðst. Í frumvarpi til laga um alþjóðleg viðskiptafélög er nánar lýst þeirri starfsemi sem slík félög mega stunda og kveðið á um skilyrði fyrir því að starfsleyfi séu veitt. Rekstur alþjóð­legs viðskiptafélags skal vera fjárhagslega óháður og aðskilinn rekstri annarra aðila.
    Samkvæmt þessu frumvarpi sem kveður á um breytingar á lögum um tekjuskatt og eignar­skatt, lögum um Þjóðarbókhlöðu og endurbætur menningarbygginga og lögum um stimpil­gjald, munu alþjóðleg viðskiptafélög greiða 5% tekjuskatt, þau verða undanþegin eignar­skatti og sérstökum eignarskatti og skjöl sem tengjast lögheimilli starfsemi þeirra verða stimpilfrjáls. Það skilyrði er ávallt sett að viðkomandi félag hafi starfsleyfi alþjóðlegs við­skiptafélags lögum samkvæmt.
    Frumvarpið kveður einnig á um breytingar á lögum um aukatekjur ríkissjóðs þar sem gert verður ráð fyrir sérstöku skráningargjaldi alþjóðlegs viðskiptafélags og sérstöku árlegu gjaldi til þess að standa straum af kostnaði við eftirlit starfsleyfisnefndar.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.
Um 1. og 2. gr.

    Vegna þeirrar sérstöku skattalegu stöðu sem alþjóðlegum viðskiptafélögum verður búin, sbr. 3.–5. gr. frumvarpsins, er í 1. gr. gert ráð fyrir að arður af hlutafé í alþjóðlegum við­skiptafélögum verði ekki frádráttarbær frá tekjum lögaðila og einstaklinga í rekstri eins og gildir um arð sem þessir aðilar fá greiddan af hlutum og hlutabréfum í öðrum innlendum fé­lögum. Af sömu ástæðum er í 2. gr. gert ráð fyrir að arður af hlutafé sem einstaklingar utan rekstrar eiga í alþjóðlegu viðskiptafélagi og hagnaður einstaklinga utan rekstrar vegna sölu slíks hlutafjár verði ekki meðhöndlaður eins og fjármagnstekjur almennt heldur fari um þetta sem aðrar tekjur. Um skattlagningu arðs sem aðilar er bera takmarkaða skattskyldu hér á landi hafa af hlutafé í alþjóðlegu viðskiptafélagi mun hins vegar fara samkvæmt gildandi ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt og ákvæðum tvísköttunarsamninga eftir því sem við á.

Um 3. gr.

    Hér er lagt til að tekjuskattur alþjóðlegra viðskiptafélaga verði 5% af tekjuskattsstofni. Í þessu sambandi ber að hafa hugfast að samkvæmt frumvarpi til laga um alþjóðleg við­skiptafélög verður unnt að heimila alþjóðlegu viðskiptafélagi að færa bókhald sitt og reikn­ingsskil í erlendri mynt. Skal þá við ákvörðun skattstofna ekki beita ákvæðum laga um tekju- og eignarskatt um verðlagsbreytingar og endurmat við útreikning á söluhagnaði og fyrningum eða ákvæðum sömu laga um tekjur og gjöld vegna verðbreytinga. Mun tekjuskattur alþjóð­legs viðskiptafélags í slíku tilviki reiknast af tekjuskattsstofni svo sem hann ákvarðast án reiknaðra verð- og verðlagsbreytinga.

Um 4. gr.

    Hér er kveðið á um að alþjóðleg viðskiptafélög verði undanþegin eignarskatti.

Um 5. gr.

    Hér er tekið fram að alþjóðleg viðskiptafélög skuli undanþegin sérstökum eignarskatti samkvæmt lögum nr. 83/1989.

Um 6. gr.

    Hér er kveðið á um breytingu á lögum nr. 36/1978, um stimpilgjald, sem felur í sér að skjöl, sem ella væru stimpilskyld samkvæmt þeim lögum, skuli vera stimpilfrjáls ef þau varða kaup og sölu alþjóðlegs viðskiptafélags á flugvélum og skipum sem því eru heimil lögum samkvæmt, þ.e. vegna flutnings á vörum eða farþegum utan Íslands, ef þau varða skrásetn­ingu réttinda og stofnun takmarkaðra eignarréttinda yfir slíkum eignum alþjóðlegs viðskipta­félags eða ef þau varða lántökur, lánveitingar eða viðskipti slíks félags vegna starfsemi sem því er heimil samkvæmt lögum um alþjóðleg viðskiptafélög. Um stimpilgjald vegna fasteigna sem alþjóðlegt viðskiptafélag eignast hér á landi fer á hinn bóginn samkvæmt almennum ákvæðum laga um stimpilgjald.

Um 7. og 8. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Frumvarp til laga um breyting á lögum um álagningu
skatta og gjalda vegna alþjóðlegra viðskiptafélaga.

    Frumvarp þetta er lagt fram samhliða frumvarpi til laga um alþjóðleg viðskiptafélög sem lagt er fram af viðskiptaráðherra. Með frumvarpinu er gert ráð fyrir að skapa alþjóðlegum viðskiptafélögum samkeppnishæf skattaleg skilyrði samanborið við það sem annars staðar býðst. Með samþykkt frumvarpsins þurfa skattyfirvöld að breyta hugbúnaði og framtalseyðublöðum og má áætla kostnað við þær breytingar um 0,5 m.kr. Gera má ráð fyrir að aukning á umfangi skatteftirlitis verði ekki umtalsverð.
    Ekki verður séð að frumvarpið, verði það óbreytt að lögum, komi til með að skapa ríkis­sjóði teljandi útgjöld.