Ferill 352. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.


123. löggjafarþing 1998–99.
Þskj. 1091  —  352. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, sbr. lög nr. 135/1997.

Frá minni hluta umhverfisnefndar.



    Samfylkingin leggur til að komið verði á samræmdu umhverfis- og auðlindaskipulagi á Íslandi sem nær til miðhálendisins. Umhverfis- og auðlindaskipulagið yrði á stjórnsýslustigi ríkis og unnið af stofnunum þess í samvinnu við einstök fagráðuneyti og væru sveitarfélög bundin af því. Í umhverfis- og auðlindaskipulagi yrði útfærð stefna stjórnvalda sem tæki til stærstu þátta í nýtingu lands og samþættingar áætlana um landnotkun og landnýtingu. Þar yrði fjallað um samgöngur, fjarskipti, orkumannvirki, náttúruvernd, varðveislu sögulegra minja og landnotkun í þágu atvinnuvega og byggðar í meginatriðum. Hlutverk slíks skipulags yrði m.a. endurskoðun og samhæfing landnýtingar- og landnotkunaráætlana.
    Þegar sveitarfélögum sem liggja að miðhálendinu var falið að annast gerð svæðis-, aðal- og deiliskipulagsáætlunar fyrir miðhálendið vakti það hörð mótmæli af hálfu stjórnarand­stöðunnar, fulltrúa orku- og ferðamála og fjölmargra samtaka um náttúruvernd og útivist. Mikilvægt er að tryggja samræmt skipulag miðhálendisins sem byggist á heildarsýn á alla hagnýtingu þess. Það eiga hin ólíku sveitarfélög erfitt með að tryggja. Því var lagt til að mið­hálendið yrði gert að sérstöku stjórnsýslusvæði sem færi með skipulags- og byggingarmál. Þrátt fyrir veigamikil rök fyrir sérstöku stjórnsýsluumdæmi á miðhálendinu náði hugmyndin ekki fram að ganga og hefur sveitarfélögum nú verið falið skipulagsvaldið þar með stækkun þeirra inn að miðju landsins. Samfylkingin telur að fagleg vinnubrögð hafi skort við fyrir­komulag skipulagsmála hjá ríkisstjórninni. Ríkisstjórnin hefur ekki gætt almannahagsmuna.
    Samvinnunefnd miðhálendisins, sem lagt er til að sett verði á laggirnar með frumvarpi til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, getur ekki tryggt að skipulag sveitar­félaganna endurspegli stefnumið stjórnvalda á viðkomandi sviðum eða að gætt verði sam­ræmis við skipulagningu miðhálendisins. Umboð og starfssvið nefndarinnar takmarkast við skipulagstillögur fyrri samvinnunefndar. Í þeim mörgu umsögnum sem bárust um þær tillögur komu fram alvarlegar athugasemdir um að þar væri í veigamiklum atriðum ekki tekið tillit til þeirrar stefnumörkunar sem þegar hefði verið unnin. Að mati minni hlutans getur sam­vinnunefndin ekki tryggt samfellu og samræmi í skipulagi miðhálendisins, a.m.k. ekki í and­stöðu við einstakar sveitarstjórnir sem fara með aðalskipulag í sínu sveitarfélagi.
    Samfylkingin leggur til að Alþingi afgreiði umhverfis- og auðlindaskipulag á miðhálend­inu með þingsályktun. Með því móti tekur Alþingi ábyrgð á heildarskipulagi miðhálendisins. Verði þessi stefnumörkun í skipulagsmálum miðhálendisins samþykkt telur minni hlutinn að næsta skref í þessum málum verði að þetta samræmda umhverfis- og auðlindaskipulag nái til alls landsins. Minni hlutinn telur hins vegar rétt að láta þessa stefnumótun ná til mið­hálendisins fyrst enda er mestur ágreiningur um skipulagsmál þar. Að mati Samfylkingarinn­ar er mjög mikilvægt að sátt verði um fyrirkomulag skipulagsmála í framtíðinni.
    Með sérstöku auðlinda- og umhverfisskipulagi verður mótaður skipulagsrammi um þessar sameiginlegu auðlindir þjóðarinnar. Þetta skipulag varðar markmið ríkisvaldsins um fram­tíðarnotkun landsins og nýtingu gæða þess. Sveitarfélögin halda eftir sem áður aðal-, svæðis- og deiliskipulagsrétti sínum.
    Samfylkingin telur að hefjast ætti handa við útfærslu samræmds umhverfis- og auðlinda­skipulags á miðhálendinu eins og því er lýst hér að framan. Þess vegna telur minni hlutinn ekki tímabært að afgreiða fyrirliggjandi frumvarp til laga um breytingu á skipulags- og bygg­ingarlögum og leggur til að því verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 8. mars 1999.



Magnús Árni Magnússon,


frsm.


Margrét Frímannsdóttir.