Ferill 376. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


126. löggjafarþing 2000–2001.
Þskj. 595  —  376. mál.




Frumvarp til laga



um Kristnihátíðarsjóð.

Flm.: Sigríður A. Þórðardóttir, Rannveig Guðmundsdóttir,


Kristinn H. Gunnarsson, Ögmundur Jónasson,


Guðjón A. Kristjánsson.



1. gr.

    Stofna skal sjóð, Kristnihátíðarsjóð, til að minnast þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn á Íslandi. Sjóðurinn er eign ríkisins. Varsla hans og dagleg umsýsla heyrir undir forsætisráðuneytið.
    Starfstími sjóðsins er fimm ár, til ársloka 2005.

2. gr.

    Hlutverk sjóðsins er tvíþætt:
     a.      að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn;
     b.      að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.

3. gr.

    Alþingi kýs stjórn Kristnihátíðarsjóðs, þrjá aðalmenn og þrjá til vara. Stjórnin velur formann og varaformann úr hópi aðalmanna. Kosningin gildir fyrir starfstíma sjóðsins, sbr. 2. mgr. 1. gr.
    Stjórn sjóðsins skal eiga samvinnu við menntamálaráðuneytið, kirkjumálaráðuneytið, þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, Þjóðminjasafnið og háskólana í Reykjavík og á Akureyri, svo og frjáls félagasamtök, um viðfangsefni sjóðsins.

4. gr.

    Stjórnin skiptir því fé sem er til ráðstöfunar milli verkefnasviða, sbr. 2. gr., og ákveður framlög úr sjóðnum. Hún skipar verkefnisstjórn fyrir hvort meginsvið og gera þær tillögur til stjórnar um verkefni og framlög til þeirra fyrir hvert starfsár. Stjórn sjóðsins getur sett verkefnisstjórnum nánari reglur, þar á meðal um faglegt eftirlit þeirra með verkefnum og framvindu þeirra, svo og um megináherslur í starfi þeirra og tillögum.

5. gr.

    Sjóðstjórn semur greiðsluáætlun fyrir sjóðinn ár hvert og skulu greiðslur úr honum aðeins fara fram samkvæmt skriflegri beiðni sjóðstjórnar.

Prentað upp.

    Þeir sem fá fé úr Kristnihátíðarsjóði skulu gera grein fyrir framvindu verkefna og ráðstöfun fjár samkvæmt nánari reglum sjóðstjórnar. Verði misbrestur á, eða önnur skilyrði stjórnar fyrir styrkveitingu eru ekki uppfyllt, er henni heimilt að stöðvar greiðslur eða eftir atvikum fara fram á endurgreiðslu styrksins.
    Lögð skal fyrir Alþingi skýrsla um starfsemi Kristnihátíðarsjóðs eftir hvert starfsár hans.

6. gr.

    Ríkissjóður leggur sjóðnum til 100 millj. kr. fyrir hvert starfsár samkvæmt sérstökum lið á fjárlögum.

7. gr.

    Kristnihátíðarsjóður ber allan kostnað af starfsemi sinni.

8. gr.

    Nánari ákvæði um skipulag sjóðsins og framkvæmd laga þessara má setja með reglugerð.

9. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Lögin falla úr gildi í árslok 2005.

Greinargerð.


    Á hátíðarfundi Alþingis á Þingvöllum 2. júlí sl. var samþykkt eftirfarandi þingsályktun sem flutt var af formönnum þingflokka, þeim sömu og flytja þetta frumvarp:
    „Alþingi ályktar, í tilefni þess að 1000 ár eru liðin frá því að kristinn siður var lögtekinn
á Íslandi, að stofna sjóð, Kristnihátíðarsjóð, er njóti framlaga af fjárlögum næstu fimm ár, 100 millj. kr. á ári, og hafi að markmiði:

     a.      að efla fræðslu og rannsóknir á menningar- og trúararfi þjóðarinnar og stuðla að umræðum um lífsgildi hennar, siðferði og framtíðarsýn;
     b.      að kosta fornleifarannsóknir á helstu sögustöðum þjóðarinnar, m.a. á Þingvöllum, í Skálholti og á Hólum.
    Alþingi kjósi sjóðnum stjórnarnefnd.
    Stjórnarnefndin eigi samvinnu við menntamálaráðuneytið, kirkjumálaráðuneytið, þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, Þjóðminjasafnið og háskólana í Reykjavík og á Akureyri, svo og frjáls félagasamtök, um viðfangsefni sjóðsins, skipti fé hans milli meginverkefna, skipi verkefnisstjórnir, hvora á sínu sviði, og staðfesti áætlanir þeirra.

    Frumvarp þetta er flutt til að festa í lög ályktun Alþingis, svo og til að setja sjóðnum stjórn og skipulag. Gerð er tillaga um að sjóðurinn heyri stjórnskipulega undir forsætisráðuneytið og er ráðgert að stjórn sjóðsins geti ráðið starfsmann, e.t.v. í hlutastarf, til að annast daglega umsýslu, skjalavörslu og önnur störf sem stjórnin ákveður.
    Ríkissjóður leggur sjóðnum til 100 millj. kr. ár hvert samkvæmt sérstökum fjárlagalið. Stjórn sjóðsins ákveður skiptingu fjárins milli þeirra tveggja meginsviða sem tilgreind eru í 2. gr. frumvarpsins.
    Skipulag sjóðsins, stjórn hans og hvernig staðið verður að úthlutun fjár, er að mestu sniðið eftir lögum nr. 125/1994, um Lýðveldissjóð. Góð reynsla fékkst af því skipulagi á starfstíma sjóðsins, 1995–1999. Verkefnisstjórnir um hafrannsóknir og eflingu íslenskrar tungu voru faglegir ráðgjafar stjórnar Lýðveldissjóðs og undirbjuggu með tillögum úthlutun fjár eftir þeim meginlínum sem stjórn sjóðsins lagði, bæði í upphafi starfsins og fyrir hvert ár. Auk þess voru verkefnisstjórnirnar faglegur vettvangur til eftirlits með framvindu verkefna. Meginreglan var að styrkir voru veittir samkvæmt auglýsingu en stjórnin ákvað þó sjálf að verja nokkru fé til verkefna sem hún taldi mikilvæg, að höfðu samráði við ýmsa aðila á þeim sviðum sem sjóðurinn styrkti. Mikilvægt er að stjórn Kristnihátíðarsjóðs setji sér skýrar reglur um styrkveitingar.
    Eins og fram kemur í 3. gr. frumvarpsins, sbr. einnig þingsályktunina frá síðasta sumri, er stjórninni ætlað að hafa samstarf og samvinnu við menntamálaráðuneytið, kirkjumálaráðuneytið, þjóðkirkjuna og önnur trúfélög, Þjóðminjasafnið og háskólana í Reykjavík og á Akureyri, svo og frjáls félagasamtök, um viðfangsefni sjóðsins. Er eðlilegt að stjórn sjóðsins leiti álits þessara aðila, eða fulltrúa þeirra, þegar meginlínur verða lagðar í upphafi um verkefni sem sjóðurinn styrkir á starfstíma sínum. Í þessu sambandi verður jafnframt að geta þess að leyfi til fornleifagraftar eru háð samþykki þjóðminjavarðar og því er samstarf við hann sérstaklega mikilsvert.
    Þá er ástæða til að minna á að í greinargerð með þingsályktunartillögunni, sem flutt var og samþykkt á hátíðarfundinum á Þingvöllum, var tekið fram að stefnt yrði að því að a.m.k. önnur tveggja verkefnisstjórna hefði aðsetur á landsbyggðinni.
    Í greinargerðinni er rækilega gerð grein fyrir tilefni stofnunar sjóðsins og viðfangsefnum sem honum er ætlað að styrkja, og er til hennar vísað (þskj. 1421). Í tillögunni er lögð áhersla á að verkefni sjóðsins verði fjölþætt og að þar geti komið að skólar, stofnanir, söfnuðir, félagasamtök og einstaklingar og að þess verði gætt að verkefnin dreifist um allt land.
    Mikilvægt er að styrkveitingar úr Kristnihátíðarsjóði verði ekki til þess að skerða árleg framlög til verkefna á þeim sviðum sem sjóðurinn á að styðja, t.d. til fornleifarannsókna sem standa yfir hér á landi eða eru áformaðar með fé úr ríkissjóði, frá sveitarfélögum, rannsóknasjóðum eða öðrum, heldur komi fé sjóðsins sem viðbót til rannsókna þau fimm ár sem honum er ætlað að starfa.