Ferill 550. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


127. löggjafarþing 2001–2002.
Þskj. 863  —  550. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna.

(Lagt fyrir Alþingi á 127. löggjafarþingi 2001–2002.)


1. gr.

    Á eftir orðunum „þrjú ár samfellt fyrir kjördag“ í 3. mgr. 2. gr. laganna kemur: og aðrir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag.

2. gr.

    Orðin „og staðfest af sveitarstjórn“ í 7. gr. laganna falla brott.

3. gr.

    Orðin „danskt, finnskt, norskt eða sænskt“ í 3. mgr. 10. gr. laganna falla brott.

4. gr.


    Við 14. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum og þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram.

5. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 22. gr. laganna:
     a.      Á eftir 2. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Tilgreina skal nafn meðmælanda, kennitölu hans og heimili.
     b.      Við 1. mgr. bætist nýr málsliður, svohljóðandi: Ekki er gerð krafa um meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri.
     c.      Í stað orðanna „færri en 500“ í a-lið 2. mgr. kemur: 101–500.
     d.      Við greinina bætast tvær nýjar málsgreinar, svohljóðandi:
                  Frambjóðandi getur afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út.
                  Kjósandi, sem mælt hefur með framboðslista, getur ekki afturkallað stuðningsyfirlýsingu sína eftir að framboð hefur verið afhent yfirkjörstjórn.

6. gr.

    Við 27. gr. laganna bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
    Nú berast yfirkjörstjórn meðmælendalistar þar sem sami kjósandi mælir með fleiri en einu framboði og verður kjósandinn þá ekki talinn meðmælandi neins þeirra.

7. gr.

    Við 1. málsl. 36. gr. laganna bætist: a.m.k. 125 g/ m2 að þyngd.

8. gr.

    1. mgr. 46. gr. laganna orðast svo:
    Í kjörfundarstofu, svo og annars staðar á kjörstað, skal á áberandi stað festa upp tilkynningu um framboðslista í sveitarfélaginu, þegar um bundna hlutfallskosningu er að ræða, þar sem fram koma heiti stjórnmálasamtaka, listabókstafir og nöfn frambjóðenda í sömu röð og á kjörseðli. Á sama hátt skal festa þar upp kosningaleiðbeiningar er félagsmálaráðuneytið gefur út í því skyni.

9. gr.

    Við 48. gr. laganna bætist: nema varamaður sé tiltækur.

10. gr.

    50. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Nú hefur kjörstjórn borist atkvæðakassi með atkvæðum greiddum utan kjörfundar og skal þá athuga hvort innsigli kassans séu heil og ósködduð. Oddviti opnar síðan kassann og telur kjörstjórnin bréfin og ber þau saman við skrár þær sem fylgja, sbr. 66. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Skal kjörstjórnin síðan opna sendiumslagið og kanna hvort taka skuli utankjörfundaratkvæðið til greina, sbr. 68. gr. Ef taka skal atkvæðið til greina skal setja sérstakt merki til bráðabirgða við nafn kjósandans í kjörskránni, en kjörseðilsumslagið óopnað ásamt fylgibréfinu skal lagt á ný í sendiumslagið og það lagt til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Ef ekki skal taka utankjörfundaratkvæðið til greina skal ganga frá kjörseðilsumslaginu og fylgibréfinu og varðveita á sama hátt, en rita skal ástæðu þess að atkvæðið verður ekki tekið til greina á sendiumslagið.
    Atkvæðisbréf, sem kjörstjórn kunna að hafa borist eða berast meðan á atkvæðagreiðslu stendur, skal tölusetja í áframhaldandi röð og skal tölu þeirra getið í kjörbókinni. Skal fara með þau atkvæði svo sem greinir í 1. mgr.
    Ef kjósandi er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin kanna hvar kjósandi er á kjörskrá og ef unnt er koma atkvæðisbréfinu í rétta kjördeild, ella skal bréfið varðveitt þar til atkvæðagreiðslu lýkur.
    Í sveitarfélagi, þar sem kosin er sérstök yfirkjörstjórn, er kjörstjórninni heimilt að hefja flokkun atkvæða skv. 1. mgr. daginn fyrir kjördag þannig að atkvæðisbréf verði afhent í rétta kjördeild á kjördag.

11. gr.

    52. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Oddviti kjörstjórnar og annar meðkjörstjóranna skulu hafa fyrir sér hvor sitt eintak kjörskrárinnar. Skulu þeir gera merki við nafn hvers kjósanda um leið og hann hefur neytt kosningarréttar síns.

12. gr.

    Í stað orðanna „Áður en fyrsti kjósandi lætur seðil í kassann“ í 53. gr. laganna kemur: Áður en atkvæðagreiðsla hefst.

13. gr.

    54. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Kjósendur skulu greiða atkvæði í þeirri röð sem þeir gefa sig fram.
    Kjörstjórn getur ákveðið að í kjörfundarstofu séu ekki, auk þeirra sem starfa við framkvæmd kosninganna, aðrir en kjósendur sem ætla að greiða atkvæði. Kjörstjórnin getur auk þess takmarkað fjölda kjósenda í kjörfundarstofu ef þörf þykir til að halda uppi reglu.
    Kjörstjórn skal að öðru leyti sjá til þess að á kjörstað og í næsta nágrenni hans fari hvorki fram óleyfilegur kosningaáróður eða kosningaspjöll né önnur starfsemi sem truflar eða hindrar framkvæmd kosninga.

14. gr.

    Á eftir orðinu „kjörklefann“ í 1. mgr. 57. gr. laganna kemur: þar sem kjósandinn má einn vera.

15. gr.

    62. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Þegar kjósandi hefur gengið frá kjörseðlinum samkvæmt framansögðu brýtur hann seðilinn í sama brot og hann var í þegar hann tók við honum, gengur út úr klefanum og að atkvæðakassanum og leggur seðilinn í kassann í viðurvist fulltrúa kjörstjórnar. Kjósandi skal gæta þess að enginn geti séð hvernig hann greiddi atkvæði.

16. gr.

    Á undan lokamálslið 63. gr. laganna kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Aðstoð skal því aðeins veita að kjósandi geti sjálfur skýrt þeim er aðstoðina veitir ótvírætt frá því hvernig hann vill verja atkvæði sínu.

17. gr.

    Orðin „vegna ráðgerðra forfalla sem síðan reynast ekki fyrir hendi á kjördegi“ í 65. gr. laganna falla brott.

18. gr.

    67. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Að atkvæðagreiðslu lokinni kannar kjörstjórn á ný, í viðurvist umboðsmanna lista, þau utankjörfundaratkvæði sem kjörstjórninni hafa borist og ekki hafa verið aftur heimt.
    Ef sá sem atkvæðið er frá stendur á kjörskrá og á rétt á að greiða atkvæði og hefur ekki greitt atkvæði á kjörfundi skal kjörstjórnin setja merki við nafn kjósandans á kjörskránni.
    Ef atkvæðisbréf verður ekki tekið til greina, sbr. 68. gr., skal það áritað eins og segir í 1. mgr. 50. gr.
    Ef kjósandi, sem sent hefur frá sér utankjörfundaratkvæði, er ekki á kjörskrá í kjördeildinni skal kjörstjórnin geta þess sérstaklega í kjörbókinni og senda slík atkvæðisbréf aðskilin til yfirkjörstjórnar.

19. gr.

    68. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Ekki skal taka til greina utankjörfundaratkvæði ef:
     a.      sendandinn er ekki á kjörskrá,
     b.      sendandinn er búinn að greiða atkvæði,
     c.      sendandinn hefur afsalað sér atkvæðisrétti í þeirri kjördeild, sbr. 51. gr.,
     d.      sendandinn hefur látist fyrir kjördag,
     e.      í sendiumslaginu er meira en eitt fylgibréf og eitt kjörseðilsumslag,
     f.      sjáanlegt er að ekki hafi verið notuð hin fyrirskipuðu kjörgögn er dómsmálaráðuneytið hefur látið gera,
     g.      ekki hefur verið farið eftir þeim reglum sem settar hafa verið um atkvæðagreiðslu utan kjörfundar eða
     h.      atkvæðið hefur ekki verið greitt á þeim tíma sem greinir í 57. gr. og 5. mgr. 58. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000.
    Nú berast fleiri en eitt atkvæði greidd utan kjörfundar frá sama kjósanda sem geta komið til greina og skal þá aðeins hið síðastgreidda atkvæði koma til greina.

20. gr.

    71. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Þegar atkvæðagreiðslu er slitið og gild kjörseðilsumslög hafa verið látin í atkvæðakassann skal oddviti jafnskjótt ganga frá í sérstöku umslagi öllum þeim seðlum sem ónýst hafa, sbr. 64. gr., í öðru umslagi öllum þeim utankjörfundaratkvæðum, sem ágreiningur er um, sbr. 69. gr., og í hinu þriðja öllum þeim ónotuðu seðlum sem afgangs eru. Þegar umslögunum hefur verið lokað skal ganga frá þeim öllum þremur ásamt lyklinum að atkvæðakassanum í aðalumslaginu og loka því. Til þess skal nota umslög þau sem yfirkjörstjórn hefur sent í þessu skyni.
    Því næst skal oddviti, er bókun er lokið og kjörbókin hefur verið undirrituð af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef viðstaddir eru, ganga frá öllu saman, atkvæðakassa, aðalumslagi og kjörbók eða afriti úr kjörbók sem undirritað er af kjörstjórninni og umboðsmönnum lista, ef þeir hafa verið viðstaddir, svo og utankjörfundaratkvæðum sem fara eiga í aðra kjördeild, sbr. 4. mgr. 67. gr., í umbúðum innsigluðum af kjörstjórn og er umboðsmönnum heimilt að setja innsigli sín á umbúðirnar. Gögnin skal merkja til yfirkjörstjórnar og senda henni þegar í stað á öruggan hátt. Skal yfirkjörstjórn gefa viðurkenningu fyrir móttöku.
    Eftir að kjörstjórn hefur þannig gengið frá kjörgögnum mega hin innsigluðu kjörgögn og innsigli kjörstjórnar eigi vera í vörslu sama manns.

21. gr.

    72. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Ef yfirkjörstjórn er viðstödd á kjörstað og talning atkvæða fer fram samstundis má kjörstjórn afhenda yfirkjörstjórn atkvæðakassann óinnsiglaðan að viðstöddum umboðsmönnum lista.
    Um leið og kosningu er lokið og kjörstjórn hefur unnið nauðsynlegar skýrslur úr kjörskránni sendir hún kjörskráreintök þau sem notuð voru við kosninguna í innsigluðum umbúðum til yfirkjörstjórnar.

22. gr.

    Við 78. gr. laganna bætist nýr stafliður, svohljóðandi: ef í umslagi með utankjörfundarseðli er annað eða meira en einn kjörseðill.

23. gr.

    81. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Nú kemur yfirkjörstjórn og umboðsmönnum lista saman um að einhver kjörseðill sé ógildur og skal hann þá ógildan telja. Verði ágreiningur meðal kjörstjórnar um gildi kjörseðils skal afl atkvæða ráða úrslitum. Úrskurða skal ágreiningsseðla jafnóðum og þeir koma fyrir. Bóka skal í gerðabók hve margir kjörseðlar eru ógildir og ástæður þess.
    Nú verður ágreiningur milli kjörstjórnar og einhvers umboðsmanns um það hvort kjörseðill sé gildur eða ógildur og skal þá leggja þá seðla í tvö sérstök umslög, í annað þá seðla sem kjörstjórn hefur úrskurðað gilda og í hitt þá seðla sem hún hefur úrskurðað ógilda.
    Þegar atkvæði hafa verið talin saman undir nákvæmu eftirliti umboðsmanna færir yfirkjörstjórn niðurstöðu kosninganna í gerðabókina og kunngerir hana þeim sem viðstaddir eru. Skal þess gætt að samtölu atkvæða beri saman við tölu þeirra sem atkvæði hafa greitt samtals í sveitarfélaginu samkvæmt skýrslum undirkjörstjórna og að allt komi heim við samtölu afgangsseðla.

24. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið í félagsmálaráðuneyti. Flest ákvæða frumvarpsins miða að því að tryggja að ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna verði í samræmi við ákvæði nýrra laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Lög um kosningar til sveitarstjórna byggðust að verulegu leyti á eldri lögum um kosningar til Alþingis, nr. 80/1987, og er eðlilegt að breytt verði ýmsum ákvæðum er varða framkvæmd laganna til að samræmis sé gætt. Engu að síður hafa sveitarstjórnarkosningar ákveðna sérstöðu svo að full ástæða er til að hafa í gildi sérstök lög um þær kosningar.
    Í frumvarpinu er lagt til það nýmæli að allir erlendir ríkisborgarar, aðrir en danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag njóti framvegis kosningarréttar og kjörgengis við sveitarstjórnarkosningar. Skv. 3. mgr. 2. gr. núgildandi laga njóta einungis danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar kosningarréttar í sveitarstjórnarkosningum, enda hafi þeir átt lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt. Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands uppfylltu alls 880 einstaklingar þetta skilyrði um kosningarrétt 1. desember 2001. Samkvæmt sömu upplýsingum, sem miðaðar eru við alla erlenda ríkisborgara sem átt höfðu lögheimili hér á landi samfleytt frá 1. desember 1998 til 1. desember 2001, hefði þessi breyting í för með sér fjölgun sem nemur 1.332 kosningarbærum mönnum. Yrðu það alls 2.212 erlendir ríkisborgarar sem nýtt gætu sér kosningarrétt ef þetta ákvæði frumvarpsins nær fram að ganga. Með auknum fjölda útlendinga í íslensku samfélagi hafa þær raddir orðið æ háværari sem kallað hafa á aukin réttindi fyrir þennan hóp. Verður að telja að aukin pólitísk réttindi séu til þess fallin að auðvelda aðlögun erlendra ríkisborgara og er lagt til í frumvarpinu að stigið verði stórt skref í þá átt að bjóða þennan hóp velkominn til þátttöku í íslensku samfélagi.
    Miðað er við það í frumvarpinu að sömu skilyrði verði gerð til allra erlendra ríkisborgara, annarra en danskra, finnskra, norskra og sænskra ríkisborgara, um dvalartíma, þ.e. að viðkomandi hafi átt lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt. Hins vegar er gert ráð fyrir að áfram gildi skilyrði um þriggja ára samfellda búsetu norrænna ríkisborgara. Rétt er að taka fram að í Danmörku, Finnlandi og Svíþjóð gildir sú regla að ríkisborgarar annarra Norðurlanda og ESB-landa hafa kosningarrétt og kjörgengi sem miðast við sömu búsetuskilyrði og innlendir ríkisborgarar. Sama regla gildir í Noregi varðandi norræna ríkisborgara. Kosningarréttur og kjörgengi annarra erlendra ríkisborgara í Danmörku, Noregi og Svíþjóð miðast við að þeir hafi dvalið í landinu í þrjú ár en í Finnlandi er gerð krafa um tveggja ára búsetu þessa hóps.
    Önnur nýmæli í frumvarpinu byggjast að mestu á ákvæðum nýrra laga um kosningar til Alþingis, eins og áður hefur verið nefnt. Þó skal þess getið að í b-lið 5. gr. frumvarpsins er lagt til að ekki verði gerð krafa um meðmælendur með framboðslistum í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri. Að öðru leyti vísast til athugasemda við einstakar greinar frumvarpsins.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er lagt til að allir erlendir ríkisborgarar, aðrir en danskir, finnskir, norskir og sænskir ríkisborgarar, sem átt hafa lögheimili hér á landi í fimm ár samfellt fyrir kjördag njóti hér kosningarréttar. Verði ákvæðið að lögum er jafnframt uppfyllt lágmarksskilyrði sáttmála Evrópuráðsins frá 1992 um þátttöku útlendinga í opinberu lífi á sveitarstjórnarstigi (Convention on the Participation of Foreigners in Public Life at Local Level – ETS no. 144). Átta aðildarríki hafa undirritað sáttmálann og er stefnt að því að Ísland bætist í þann hóp innan skamms tíma. Í 6. gr. sáttmálans er kveðið á um að aðildarríki veiti öllum erlendum ríkisborgurum kosningarrétt og kjörgengi í sveitarstjórnarkosningum eftir fimm ára löglega búsetu. Aðildarríkjum er þó heimilt að takmarka beitingu ákvæðisins við kosningarréttinn einvörðungu. Jafnframt er aðildarríkjum heimilt að miða við styttri búsetutíma en fimm ár, sbr. 7. gr. sáttmálans.
    Af 3. gr. laganna leiðir að þeir sem eiga kosningarrétt í sveitarfélagi teljast einnig kjörgengir í sveitarstjórn. Er gert ráð fyrir því í frumvarpinu að sama regla gildi um erlenda og innlenda ríkisborgara, þ.e. að kjörgengi miðist við að einstaklingur eigi kosningarrétt í viðkomandi sveitarfélagi. Er sú regla í samræmi við gildandi lög að því er varðar norræna ríkisborgara.
    Samkvæmt 7. mgr. 90. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 45/1998, gilda ákvæði laga um kosningar til sveitarstjórna um atkvæðagreiðslur um sameiningu sveitarfélaga, eftir því sem við getur átt. Í 6. mgr. 104. gr. sömu laga er vísað til meginreglna laga um kosningar til sveitarstjórna, eftir því sem við getur átt. Telja verður ótvírætt að allir þeir sem uppfylla skilyrði 2. gr. laga um kosningar til sveitarstjórna eigi einnig rétt til að greiða atkvæði við atkvæðagreiðslur sem haldnar eru á grundvelli tilvitnaðra ákvæða, svo og við könnun um viðhorf íbúa til breytingar á nafni sveitarfélags, sbr. 4. gr. sveitarstjórnarlaga.

Um 2. gr.

    Lagt er til í greininni að orðalag 7. gr. laganna verði fært til samræmis við 2. mgr. 24. gr. laga um kosningar til Alþingis. Eftir sem áður er það á ábyrgð sveitarstjórnar að yfirfara kjörskrárstofn, sbr. 4. gr. laganna.

Um 3. gr.

    Lagt er til að felld verði brott upptalning úr núgildandi ákvæði, til samræmis við þá breytingu sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins.

Um 4. gr.


    Ekki er kveðið á um það í lögum um kosningar til sveitarstjórna, nr. 5/1998, hvort eða með hvaða hætti yfirkjörstjórn skuli auglýsa aðsetur sitt og hvar og hvenær hún taki við framboðslistum. Um þetta er hins vegar að finna ákvæði í 2. mgr. 13. gr. laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000, sem er svohljóðandi: „Yfirkjörstjórn skal með nægum fyrirvara á undan kosningum auglýsa aðsetur sitt þar sem hún veitir viðtöku framboðslistum og þar sem hún dvelst meðan kosning fer fram, og skal aðsetur hennar liggja eins vel við samgöngum og kostur er.“
    Sambærilegt ákvæði er ekki að finna í lögum nr. 5/1998, um kosningar til sveitarstjórna. Áður giltu ákvæði III. kafla sveitarstjórnarlaga, nr. 8/1986, um sveitarstjórnarkosningar, en í 12. gr. þeirra laga var tekið fram að lög um kosningar til Alþingis giltu um kosningar til sveitarstjórna eftir því sem við átti, með þeim frávikum sem lögin ákváðu. Samkvæmt því verður að telja að venja leiði til þess að ákvæði 2. mgr. 13. gr. laga nr. 24/2000 gildi um auglýsingu frá yfirkjörstjórn í hverju sveitarfélagi, en ástæða þykir til að taka það fram með skýrum hætti í lögum nr. 5/1998. Ekki er kveðið á um hvað teljist „nægur fyrirvari“ en ætla má að nægilegt sé að auglýsing birtist u.þ.b. viku áður en framboðsfrestur rennur út og að birting sé með þeim hætti sem almennt tíðkast í viðkomandi sveitarfélagi.

Um 5. gr.

    Lagðar eru til nokkrar breytingar á núgildandi ákvæði 22. gr. laganna.
    Í a-lið er lögð til breyting til samræmis við 1. mgr. 32. gr. laga um kosningar til Alþingis, þess efnis að meðmælendum verði gert að tilgreina sig.
    Í b-lið er felld brott krafa um meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri. Algengast er að í svo fámennum sveitarfélögum sé viðhöfð óbundin kosning og eru þá allir kjörgengir íbúar sveitarfélagsins í kjöri nema þeir sem löglega eru undanþegnir skyldu til að taka kjöri og hafa fyrir fram skorast undan því, sbr. b-lið 19. gr. laganna. Þess eru hins vegar dæmi að sjálfkjörið hafi orðið í fámennum sveitarfélögum þegar fram hefur komið einn framboðslisti og kann raunar að vera útilokað að finna nægilega marga kosningarbæra menn til að mæla með lista, jafnvel þótt vilji sé fyrir hendi til mótframboðs. Samkvæmt núgildandi lögum þarf 10 meðmælendur hið fæsta, en að auki skulu vera að minnsta kosti jafnmörg nöfn frambjóðenda á lista og kjósa á sem aðalmenn á lista í hvert skipti. Til að unnt sé að bjóða fram tvo framboðslista í sveitarfélagi þurfa því hið fæsta fimmtán kjósendur að styðja hvorn lista. Til að koma í veg fyrir að sjálfkjörið verði í fámennustu sveitarfélögum landsins er talið réttlætanlegt að falla frá kröfu um meðmælendur í þessum sveitarfélögum.
    Sú breyting sem lögð er til í c-lið miðast við að ekki verði lengur þörf fyrir meðmælendur í sveitarfélögum með 100 íbúa eða færri.
    Í d-lið eru ákvæði samsvarandi 35. gr. laga um kosningar til Alþingis. Er þar mælt fyrir um að frambjóðandi geti afturkallað samþykki sitt til framboðs fram til þess að frestur til að skila framboðum rennur út. Gildir þessi regla enda þótt framboðslista hafi þegar verið skilað til yfirkjörstjórnar. Gagnstæða reglu er að finna í ákvæðinu varðandi meðmælendur með framboðslista.

Um 6. gr.

    Lagt er til í ákvæðinu að tekin verði upp regla samsvarandi 3. mgr. 34. gr. laga um kosningar til Alþingis. Skv. 1. mgr. 22. gr. laganna má hver kjósandi einvörðungu mæla með einum lista við hverjar kosningar.

Um 7. gr.

    Í 50. gr. laga um kosningar til Alþingis var tekin upp sú nýbreytni að kveðið er á um lágmarksþyngd pappírs sem kjörseðlar skulu gerðir úr. Þykir eðlilegt að gera sömu kröfur til kjörseðla við sveitarstjórnarkosningar.

Um 8. gr.

    Greinin samsvarar 1. mgr. 77. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Um 9. gr.

    Greinin er til samræmis við niðurlag 71. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Um 10. gr.

    Greinin samsvarar 73. gr. laga um kosningar til Alþingis og hefur að geyma ítarlegri ákvæði um meðferð utankjörfundaratkvæða en 50. gr. núgildandi laga.

Um 11. gr.

    Greinin samsvarar 75. gr. laga um kosningar til Alþingis. Með þeim lögum var horfið frá því fyrirkomulagi að allir kjörstjórnarmenn skyldu hafa eintak kjörskrár og segir í athugasemdum með frumvarpinu að svo hafi ekki tíðkast í reynd. Ekki verður talin þörf á að gera strangari kröfur hvað þetta varðar en gert er við alþingiskosningar.

Um 12. gr.

    Greinin felur ekki í sér efnislega breytingu en orðalagi er breytt til samræmis við 76. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Um 13. gr.

    Greinin er samhljóða 78. gr. laga um kosningar til Alþingis og felur meðal annars í sér að ekki verður lengur skylt að skipa sérstakan dyravörð við hverja kjördeild. Er kjörstjórn ábyrg fyrir því að kosning fari fram í samræmi við lögin en bent skal á að með þeirri breytingu sem lögð er til í 14. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að sami kjörstjórnarmaður geti sinnt dyravörslu og fylgst með því að kjósandi leggi kjörseðil í atkvæðakassa. Ef aðstæður á kjörstað eru með þeim hætti að kjörstjórn telur þörf á að skipa sérstakan dyravörð er að sjálfsögðu ekkert því til fyrirstöðu að svo verði gert.

Um 14. gr.

    Greinin felur ekki í sér efnislega breytingu en orðalagi er breytt til samræmis við 1. mgr. 81. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Um 15. gr.

    Greinin er samhljóða 85. gr. laga um kosningar til Alþingis. Má gera ráð fyrir að kosning geti gengið nokkru greiðar vegna þeirrar breytingar að þess er ekki lengur krafist að atkvæðakassi standi á borði kjörstjórnar og að nægilegt er að kjörstjórnarmaður fylgist með þegar atkvæði er lagt í kassann, sbr. athugasemd með 12. gr. frumvarpsins.

Um 16. gr.

    Það nýmæli er að finna í 86. gr. laga um kosningar til Alþingis að kjörstjórnarmönnum er því aðeins heimilt að veita kjósanda aðstoð sína að kjósandi geti sjálfur skýrt ótvírætt frá því hvernig hann vill greiða atkvæði. Í athugasemdum við greinina kemur fram að ákvæðið er samhljóða texta sem gilt hafði um aðstoð við atkvæðagreiðslu utan kjörfundar. Þykir rétt að sama regla gildi um aðstoð sem veitt er á kjörstað við kosningar til sveitarstjórnar.

Um 17. gr.

    Sú breyting sem lögð er til í greininni er til samræmis við 88. gr. laga um kosningar til Alþingis. Kemur fram í skýringum við ákvæðið að ástæða þess að felld var brott tilvísun um ráðgerð forföll hafi verið sú að sérstök forföll eru ekki lengur skilyrði þess að greiða megi atkvæði utan kjörfundar.

Um 18. gr.

    Greinin er nær samhljóða 90. gr. laga um kosningar til Alþingis. Með þeirri breytingu sem lögð er til í 10. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir að flokkun og könnun utankjörfundaratkvæða hafi þegar farið fram en atkvæðin lögð til hliðar og varðveitt meðan atkvæðagreiðslan fer fram. Endanleg afstaða til utankjörfundaratkvæða verður hins vegar ekki tekin fyrr en eftir lok kjörfundar.

Um 19. gr.

    Greinin er efnislega samhljóða 91. gr. laga um kosningar til Alþingis. Breytingin hefur það í för með sér að tvær nýjar ógildingarástæður bætast við varðandi utankjörfundaratkvæði. Er þar um að ræða skilyrði e-liðar, um að ekki má vera meira en eitt fylgibréf og eitt kjörseðilsumslag í sendiumslagi, og h-liðar, um að atkvæði má ekki hafa verið greitt utan þess tíma sem heimilt er að greiða atkvæði utan kjörfundar, sbr. 57. gr. og 5. mgr. 58. gr. laga um kosningar til Alþingis.

Um 20. gr.

    Greinin er nær samhljóða 95. gr. laga um kosningar til Alþingis. Hefur hún að geyma mun ítarlegri fyrirmæli til kjörstjórnar en núgildandi 71. gr.

Um 21. gr.

    Greinin er samhljóða 96. gr. laga um kosningar til Alþingis en felur ekki í sér efnislega breytingu frá ákvæðum núgildandi 72. gr.

Um 22. gr.

    Greinin er til samræmis við e-lið 100. gr. laga um kosningar til Alþingis. Er um að ræða tilvik sem eru sambærileg við d-lið 78. gr. og verður að telja þau til þess fallin að vekja athygli á kjörseðli.

Um 23. gr.

    Greinin er að mestu samhljóða 103. gr. laga um kosningar til Alþingis. Í athugasemdum við það ákvæði kemur fram að í samræmi við breytt vinnulag við talningu atkvæða sé fellt brott ákvæði þess efnis að talningu skuli stöðva meðan úrskurðað er um ágreiningsseðla. Hins vegar er bætt við ákvæði um að bóka skuli fjölda ógildra atkvæða, svo og um ástæður þess. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 24. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.

Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 5/1998,
um kosningar til sveitarstjórna.

    Með frumvarpinu er lögð til breyting á ákvæðum laga um kosningar til sveitarstjórna til samræmis við ákvæði nýrra laga um kosningar til Alþingis, nr. 24/2000. Þá er lagt til það nýmæli að allir erlendir ríkisborgarar sem átt hafa lögheimili hér á landi í þrjú ár samfellt fyrir kjördag muni framvegis njóta kosningarréttar og kjörgengis við sveitarstjórnarkosningar. Önnur nýmæli í frumvarpinu byggjast að mestu á ákvæðum nýrra laga um kosningar til Alþingis eins og áður hefur verið nefnt.
    Ekki verður séð að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.