Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 402. máls.
128. löggjafarþing 2002–2003.
Þskj. 509  —  402. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. nr. 96/1995, um gjald af áfengi og tóbaki, með síðari breytingum.

Frá 1. minni hluta efnahags- og viðskiptanefndar.



    Fyrsti minni hluti telur gagnrýnivert hvernig ríkisstjórnin stendur að framlagningu þessa frumvarps. Litlar upplýsingar fylgja með málinu og það hefur verið undirbúið og lagt fram án nokkurs samráðs við samtök launafólks, aðila í heilbrigðiskerfinu eða aðra. Á hinn bóginn er ljóst að æskilegt er að hraða afgreiðslu mála af þessu tagi eftir að á annað borð er búið að ákveða slíka aðgerð sem hækkun áfengis- og tóbaksgjalds er.
    Tilgangur frumvarpsins er fyrst og fremst tekjuöflun í ríkissjóð og þar sem ekki fylgja neinar beinar mótvægisaðgerðir til að koma í veg fyrir verðlagshækkanir er um íþyngjandi aðgerð að ræða. Áfengis- og tóbaksgjöld hafa hins vegar lítið hækkað síðan 1995 þegar núgildandi lög voru sett og vantar því nokkuð á að þau hafi haldið raungildi sínu, jafnvel eftir þá hækkun sem í frumvarpinu felst. Frá hollustu- og heilbrigðissjónarmiðum séð er því aðgerðin ekki óeðlileg miðað við að gjöldin haldi verðgildi sínu. Hins vegar er óæskilegt og gagnrýnivert að þessi gjaldtaka sé ekki látin fylgja verðlagi nokkurn veginn jafnóðum í stað þess að hækka í stórum stökkum eins og nú. Slíkt er enn óheppilegra en ella þegar aðstæður í verðlagsmálum eru viðkvæmar eins og verið hefur að undanförnu.
    Frumvarpið er hluti aðgerða ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum og nátengt afgreiðslu fjárlagafrumvarpsins sem 1. minni hluti gerir margvíslegar athugasemdir við. Rétt er því að ríkisstjórnin beri ábyrgð á afgreiðslu málsins.

Alþingi, 28. nóv. 2002.



Steingrímur J. Sigfússon.