Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 924. máls.
130. löggjafarþing 2003–2004.
Þskj. 1403  —  924. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum nr. 14/2004, um erfðafjárskatt.

Frá meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar (PHB, KHG, BÁ, GunnB, DJ, ÖJ).



1. gr.

    Við lögin bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Ákvæði laga nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum, skulu gilda um skipti á dánarbúum þeirra sem önduðust fyrir 1. apríl 2004, sbr. þó ákvæði 3. málsl. 21. gr. laga þessara.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Hinn 1. apríl sl. tóku gildi ný lög um erfðafjárskatt, nr. 14/2004. Gildistökuákvæði frumvarps til laganna miðaði að því að um skipti á dánarbúum þeirra sem önduðust fyrir 1. apríl 2004 skyldi fara eftir ákvæðum eldri laga nr. 83/1984, um erfðafjárskatt. Um skipti á dánarbúum þeirra sem andast 1. apríl 2004 og síðar skyldi fara eftir hinum nýju lögum um erfðafjárskatt.
    Í meðförum þingsins var sú breyting gerð á gildistökuákvæðinu að nýjum málslið var bætt við greinina þess efnis að um skipti á dánarbúum þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi skuli fara eftir ákvæðum laga nr. 14/2004. Er þessi nýi málsliður í raun undantekning frá þeirri meginreglu sem að framan greinir þess efnis að dánardægur ráði úrslitum um hvorum lögunum skuli beita. Ætlunin með þessari viðbót var að hún afmarkaðist við þá sem hafa heimild til setu í óskiptu búi. Ekki skiptir máli í þessu sambandi hvort heimildar til setu í óskiptu búi er aflað fyrir eða eftir 1. apríl 2004.
    Eftir setningu laganna hafa vaknað spurningar um það hvort kveðið sé á um það með nægilega skýrum hætti í lögunum hvaða reglur gildi um skipti á dánarbúum þeirra sem önduðust fyrir 1. apríl 2004 í þeim tilvikum sem ekki er heimild til setu í óskiptu búi.
    Með bráðabirgðaákvæði því sem hér er lagt til að bætt verði við lögin er leitast við að taka af öll tvímæli hvað varðar lagaskil milli eldri og nýrri laga um erfðafjárskatt. Með frumvarpinu er kveðið á um að lög nr. 83/1984, um erfðafjárskatt, með síðari breytingum, gildi um skipti á dánarbúum þeirra sem önduðust fyrir 1. apríl 2004. Gildir það hvort sem þau búskipti eru hafin eða ekki. Frá þessu er þó sú undantekning, sbr. 3. málsl. 21. gr. laga nr. 14/2004, að nýju lögin taka til búskipta þeirra er hafa heimild til setu í óskiptu búi, þótt andlát hafi verið fyrir 1. apríl 2004, fari búskiptin ekki fram fyrr en eftir gildistöku laganna.