Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 300. máls.

Þskj. 353  —  300. mál.



Frumvarp til laga

um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (sjúkdómatryggingar).

(Lagt fyrir Alþingi á 139. löggjafarþingi 2010–2011.)




1. gr.

    Við lögin bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 2. tölul. A-liðar 7. gr. skal ekki skattleggja útgreiðslur vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Hafi skattlagning átt sér stað vegna útgreiðslu sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 er ríkisskattstjóra heimil endurupptaka, sbr. 3. mgr. 101. gr. laganna.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Í frumvarpinu er lagt til að bætur úr sjúkdómatryggingum sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 verði ekki skattlagðar. Forsaga þessarar tillögu er sú að frá því að sala sjúkdómatrygginga hófst hér á landi um miðjan síðasta áratug síðustu aldar hefur af hálfu söluaðila slíkra trygginga verið farið með slíkar bætur sem skattfrjálsar væru.
    Með úrskurði skattstjóra Reykjanesumdæmis, sem staðfestur var með úrskurði yfirskattanefndar nr. 93/2009 og dómi héraðsdóms Reykjavíkur í málinu E-10220/2009, var staðfest að bætur úr sjúkdómatryggingu væru skattskyldar. Þar sem misjafnt hefur verið hvort útgreiðslur bóta úr sjúkdómatryggingum hafa verið gefnar upp til skatts og skattyfirvöld þar af leiðandi ekki haft upplýsingar um bæturnar þykir rétt að taka af öll tvímæli þar um. Því er lagt til að útgreiðslur vátryggingabóta vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 verði ekki skattlagðar. Tilgangurinn með því er að koma í veg fyrir það misræmi sem skapast hefur vegna þessa. Útgreiðslur vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar eru eftir 1. desember 2010 verða eftir sem áður skattskyldar
    Að höfðu samráði við ríkisskattstjóra er honum veitt heimild, sbr. 3. mgr. 101. gr. laganna, til þess að fella niður skattlagningu á greiðslur þessar að eigin frumkvæði eða samkvæmt beiðni viðkomandi hafi skattlagning átt sér stað vegna sjúkdómatrygginga sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010. Ákvæðið hefur þannig í för með sér afturvirkni til ívilnunar og er ætlað að veita heimild til að fella niður þá skattlagningu sem fram hefur farið á grundvelli fyrri skattframkvæmdar, þó með þeim tímatakmörkum sem 3. mgr. 101. gr. tekjuskattslaga afmarkar.


Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:

Umsögn um frumvarp til laga um breyting á lögum nr. 90/2003, um tekjuskatt, með síðari breytingum (sjúkdómatryggingar).

    Með frumvarpi þessu er lagt til að bætur úr sjúkdómatryggingum sem keyptar hafa verið fyrir 1. desember 2010 verði undanskildar skattlagningu. Við sölu á slíkum tryggingum hafa tryggingafélögin litið svo á og haldið að sínum viðskiptavinum að um skattfrjálsar útgreiðslur bóta yrði að ræða. Nýlegur úrskurður yfirskattanefndar um ágreining í slíku máli, sem staðfestur hefur verið með dómi héraðsdóms, er á þá leið að bótagreiðslurnar eigi að vera skattskyldar.
    Útgreiðslur bóta úr sjúkdómatryggingum hafa almennt ekki verið gefnar upp til skatts og skattyfirvöld þar af leiðandi ekki haft upplýsingar um umfang bótanna. Þeir sem þó hafa talið slíkar bætur fram sem skattskyldar tekjur eru örfáir og upphæðir óverulegar. Til framtíðar er erfitt að meta áhrifin á tekjur ríkissjóðs þar sem þessar bætur hafa almennt ekki verið tilgreindar sérstaklega á skattframtali og ekki liggja fyrir upplýsingar um seldar sjúkdómatryggingar eða áætlanir um hve hátt hlutfall þeirra gert er ráð fyrir að komi til útgreiðslu. Miðað við eðli tryggingarinnar verður þó að teljast ólíklegt að bótaþegar séu mjög margir árlega og áhrifin á tekjur ríkissjóðs verði því ekki mikil.
    Verði frumvarpið óbreytt að lögum verður ekki séð að það muni hafa í för með sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð.