Ferill 75. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


145. löggjafarþing 2015–2016.
Þingskjal 75  —  75. mál.




Tillaga til þingsályktunar


um greiningu á sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi
og vestnorrænu viðskiptaráði.


Frá Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins.


    Alþingi ályktar að skora á ríkisstjórnina að skipa ásamt landsstjórnum Færeyja og Grænlands vinnuhóp sérfræðinga sem fengi það verkefni að greina sameiginlegan ávinning sem yrði að vestnorrænum fríverslunarsamningi og vestnorrænu viðskiptaráði. Vinnuhópurinn greini að lágmarki eftirfarandi:
     a.      kosti og galla þess að gera vestnorrænan fríverslunarsamning eða að öðrum kosti tvíhliða samninga milli Grænlands og Íslands annars vegar, og Grænlands og Færeyja hins vegar,
     b.      á hvaða sviðum löndin hefðu gagnkvæman hag af aukinni fríverslun og á hvaða sviðum aukin fríverslun væri ekki ákjósanleg,
     c.      kosti og galla þess að mynda vestnorrænt fríverslunarsvæði sem fæli í sér frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns,
     d.      kosti og galla þess að stofna vestnorrænt viðskiptaráð, m.a. með því að kanna tækifæri og hindranir fyrir frjálsum og opnum viðskiptum á milli landanna.

Greinargerð.

    Tillaga þessi er lögð fram á grundvelli ályktunar Vestnorræna ráðsins nr. 1/2015 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Runavík í Færeyjum 12. ágúst 2015.
    Frá árinu 2007 hefur Vestnorræna ráðið fjallað reglulega um möguleika á auknum viðskiptum og samstarfi milli landanna þriggja, Færeyja, Grænlands og Íslands. Umræðan hefur snúist um vestnorrænan fríverslunarsamning, sameiginlegt efnahagssvæði og sameiginlega vestnorræna norðurslóðastefnu. Málefnið hefur verið á dagskrá á þemaráðstefnum og ársfundum og verið efni ályktana ráðsins, nú síðast ályktunar nr. 2/2012.
    Að mati ráðsins yrðu aukin viðskipti til hagsbóta fyrir löndin þrjú með auknum atvinnutækifærum og hagvexti. Þetta var niðurstaða síðustu þemaráðstefnu ráðsins í Aasiaat á Grænlandi 31. janúar–1. febrúar sl. sem bar yfirskriftina „Vestur-Norðurlönd á norðurslóðum – frá hugmynd að veruleika“.
    Markmið ráðstefnunnar var m.a. að greina þá sameiginlegu hagsmuni Vestur-Norðurlanda sem hægt væri að byggja sameiginlega vestnorræna norðurslóðastefnu á. Skoðaðir voru hugsanlegir áhrifavaldar á þróun heimsmála til ársins 2025 og hvernig Vestur-Norðurlönd gætu best nýtt sér landfræðipólitíska legu sína, sameiginlega og hvert fyrir sig. Þá var einnig rætt um sameiginlega styrkleika og áskoranir landanna og hvernig best væri að skapa samlegð þeirra á milli, m.a. með fríverslunarsvæði eða ráðherrasamstarfi á sviði viðskipta- og efnahagsmála.
    Á ráðstefnunni kom fram að Grænland hefur ekki hug á að gerast aðili að Hoyvíkursamningnum í núverandi mynd en kysi frekar að gera tvíhliða samning við Ísland annars vegar og Færeyjar hins vegar eða gerast aðili að alveg nýjum viðskiptasamningi milli vestnorrænu landanna þriggja. Ráðið komst að þeirri niðurstöðu að þörf væri á frekari greiningu á sameiginlegum hagsmunum landanna og jafnframt þyrfti að draga fram þau svið þar sem ekki er grundvöllur fyrir samstarfi. Loks taldi ráðið þörf á greiningu á mögulegum sameiginlegum ávinningi að vestnorrænum fríverslunarsamningi og viðskiptaráði.
    Vestnorræna ráðið ákvað á ársfundi sínum í Vestmannaeyjum árið 2014 að skipa sameiginlega nefnd forsætisnefndar ráðsins og eins þingmanns til viðbótar frá hverju landi. Nefndin hittist tvisvar árið 2015 til að greina þau svið þar sem löndin þrjú eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta og gætu aukið samstarf sitt. Niðurstöður nefndarinnar má lesa í skýrslu ráðsins „Strategisk vurdering af det regionale samarbejde i Arktis“ 1 sem samþykkt var á ársfundi ráðsins í Runavík í ágúst 2015. Skýrslan getur verið innlegg í vinnu aðildarlanda ráðsins að sameiginlegri vestnorrænni norðurslóðastefnu á þeim sviðum þar sem löndin eiga sameiginlegra hagsmuna að gæta. Eitt af þeim sviðum snýr að sameiginlegu vestnorrænu efnahagssvæði.
Neðanmálsgrein: 1
1     Á dönsku:
     www.vestnordisk.is/wp-content/uploads/2015/09/WNC-Strategic-Assessment-_DANSK_%C3%85rsm%C3%B8de-2015-FINAL-20082015.pdf
    Á ensku:
     www.vestnordisk.is/wp-content/uploads/2015/09/WNC-Strategic-Assesment_ENGELSK_endelig_udgave-FINAL-20082015.pdf