Ferill 735. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


150. löggjafarþing 2019–2020.
Þingskjal 1881  —  735. mál.
2. umræða.



Framhaldsnefndarálit


um frumvarp til laga um heimild til að stofna opinbert hlutafélag um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu.

Frá minni hluta fjárlaganefndar.


    Í framhaldsnefndaráliti meiri hluta fjárlaganefndar eru í ýmsu tilliti lagðar fram nýjar áherslur og sjónarmið sem eru fallin til að bæta að einhverju leyti úr ágöllum frumvarpsins. Settar eru fram mikilvægar athugasemdir sem munu auka möguleika á að beina málinu inn á heillavænlegri brautir í þágu íbúa höfuðborgarsvæðisins og annarra landsmanna. Sér í lagi ber að fagna að í álitinu er viðurkennt mikilvægi Sundabrautar þegar sagt er að sérstaklega verði hugað að greiðri tengingu aðliggjandi stofnbrauta, svo sem Sundabrautar, inn á stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins.
    Gagnrýnisvert er að þegar um ræðir svo stóra framkvæmd sem Borgarlína er skuli ekki liggja fyrir rekstraráætlun. Framkvæmdakostnaður er mjög óljós og vís til þess að fara verulega fram úr áætlun.
    Áform um Borgarlínu fela í sér að reka eigi á höfuðborgarsvæðinu tvöfalt og dýrt strætisvagnakerfi. Með öllu er óljóst hversu stór hluti íbúa á höfuðborgarsvæðinu muni nýta sér Borgarlínu í ljósi þess að kostnaðarsöm tilraun undanfarin níu ár til að fjölga strætófarþegum hefur ekki leitt af sér marktæka hlutfallslega fjölgun þeirra sem nýta sér þjónustuna.
    Með áformum um Borgarlínu er stefnt að því að verja gríðarlegum fjármunum til að þrengja að annarri umferð, sér í lagi að fjölskyldubílnum sem flestir íbúar kjósa að nota. Með frumvarpinu er stefnt að því að láta þá sem í auknum mæli munu sitja fastir í umferðinni greiða sérstaklega fyrir það með svonefndum flýti- og umferðargjöldum.
    Ekkert er kveðið á um hver eigi að greiða rekstrarkostnað Borgarlínu að loknum framkvæmdum sem ætla má að verði umtalsverður. Telja verður verulega hættu á að hann falli á skattgreiðendur til framtíðar.
    Í ljósi framangreindra ágalla á frumvarpinu ítrekar minni hlutinn þá afstöðu sína að betur hefði farið á því að setja málið í annan farveg og taka tillit til athugasemda sem komu fram fyrir nefndinni um að útfærsla málsins stangist á við lög um opinberar framkvæmdir.
    Minni hlutinn tekur ekki undir það álit meiri hlutans að Borgarlínan sé mikilvægt verkefni.

Alþingi, 25. júní 2020.

Birgir Þórarinsson.