Ferill 202. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


151. löggjafarþing 2020–2021.
Þingskjal 365  —  202. mál.
2. umræða.



Nefndarálit


um frumvarp til laga um breytingu á lögum um tímabundnar endurgreiðslur vegna hljóðritunar á tónlist, nr. 110/2016.

Frá 1. minni hluta atvinnuveganefndar.


    Fyrsti minni hluti styður framgöngu málsins og tekur undir álit meiri hlutans, nema hvað varðar hlutfall endurgreiðslna.
    Í umsögn STEF (samtaka tónskálda og eigenda flutningsréttar) kemur fram ábending þess efnis að hækkun endurgreiðsluhlutfalls úr 25% í 35% mundi búa til nægilegan hvata fyrir erlenda aðila til að taka upp tónlist hérlendis. 1. minni hluti telur það verðugt markmið.
    Á fundum nefndarinnar kom fram að heildarframlag ríkissjóðs til endurgreiðslu væri 54,5 millj. kr. á ári. Útgjaldaaukning ríkissjóðs sem mundi fylgja því að hækka endurgreiðsluhlutfallið úr 25% í 35% væri því úr 54,5 millj. kr. í 76,3 millj. kr. eða sem nemur 21,8 millj. kr. á ári. Einnig kom fram að heildarframlagið hefði ekki enn verið nýtt að fullu af íslenskum aðilum hingað til og ekki lítur út fyrir að svo verði. Því má búast við því að aukning ríkisútgjalda yrði jafnvel enn minni, nema ef markmiðið um að laða að erlenda aðila tækist því betur.
    Fyrsti minni hluti tekur undir sjónarmið STEF og telur ávinninginn af því að laða hingað til lands erlenda aðila til að taka upp tónlist líklega meiri en kostnaðinn sem fylgir því að auka endurgreiðsluhlutfallið. Þótt eðli málsins samkvæmt sé ávinningurinn óviss telur 1. minni hluti áhættuna þess virði með hliðsjón af þeim forsendum sem þó eru þegar fyrir hendi. Jafnvel ef engir erlendir aðilar kæmu í kjölfar slíkrar breytingar teldi 1. minni hluti jákvætt skref að aukningin styrkti alfarið innlend verkefni, sérstaklega í ljósi heimsfaraldursins sem nú geisar.
    Þá áréttar 1. minni hluti að fjármagnið hefur ekki verið nýtt að fullu hingað til sem bendir til þess að útreiknuð hækkun á útgjöldum ríkissjóðs sé ofmetin ef eitthvað er en gefur einnig vísbendingu um að hækkunin feli ekki í sér hættu á auknum ríkisútgjöldum nema með því að gefnu markmiði sé náð.
    Meiri hlutinn bendir á að hjá ráðuneytinu standi til að endurskoða endurgreiðslur í víðara samhengi, þar á meðal með tilliti til endurgreiðslna vegna kvikmyndagerðar. 1. minni hluti fagnar því en sér enga ástæðu til þess að bíða þess að þeirri vinnu ljúki til þess að taka þá afstöðu nú að hækka endurgreiðsluna úr 25% í 35%, miðað við þær forsendur sem þegar liggja fyrir.
    Að fyrrgreindum sjónarmiðum virtum leggur 1. minni hluti til að frumvarpið verði samþykkt með breytingu sem lögð er fram á sérstöku þingskjali.

Alþingi, 16. nóvember 2020.

Helgi Hrafn Gunnarsson,
frsm.
Albertína Friðbjörg Elíasdóttir.