Ferill 596. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


152. löggjafarþing 2021–2022.
Þingskjal 1321  —  596. mál.
2. umræða.



Nefndarálit með frávísunartillögu


um frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum, nr. 75/1998 (sala á framleiðslustað).

Frá minni hluta allsherjar- og menntamálanefndar.


    Með frumvarpi þessu er lagt til að heimilt verði að selja áfengi á framleiðslustað með nánar tilgreindum skilyrðum. Verði frumvarpið að lögum mun það fela í sér frávik frá þeirri meginreglu að smásala áfengis sé einungis heimil Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins sem hefur einkaleyfi til smásölu áfengis, sbr. 10. gr. áfengislaga, nr. 75/1998. Hér er um grundvallaratriði að ræða í áfengissölu sem á sér sterk rök í lýðheilsusjónarmiðum.
    Einkaleyfi ríkisins á sölu áfengis er hundrað ára gamalt. Árið 1922 var veitt undanþága frá bannlögum vegna hótana Spánverja um að setja toll á íslenskan saltfisk, en þeir töldu bannið vera brot á fríverslunarsamningi milli danska ríkisins og þess spænska. Undanþágan fól í sér að ríkið tók að sér einkasölu á spænsku víni sem innihélt ekki meira en 21% af vínanda. Sama ár var Áfengisverslun ríkisins stofnsett í þeim tilgangi að sjá um sölu á spænsku víni og var það gert með lögum nr. 62/1921, um einkasölu á áfengi.
    Við umfjöllun nefndarinnar um málið vöknuðu ýmsar spurningar, einkum um lýðheilsuáhrif frumvarpsins og samspil þess við EES-reglur um frjálst flæði vara.

Lýðheilsusjónarmið.
    Hvað lýðheilsu varðar telur minni hlutinn að ekki sé hægt að ráðast í þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu án þess að lýðheilsumat liggi fyrir um áhrif þess. Það hefur ekki farið fram og því ríkir óvissa um hvort það hafi í för með sér skaðleg áhrif á lýðheilsu þjóðarinnar þar sem um er að ræða aukið aðgengi að áfengi. Rannsóknir sýna að aukið aðgengi að áfengi hefur áhrif á lýðheilsu, nær undantekningarlaust til hins verra. Einnig ber að líta til hins gríðarlega góða árangurs sem hefur náðst að því er snertir áfengisneyslu ungmenna. Þar er Ísland orðið fyrirmynd annarra ríkja. Það sýnir að núverandi áfengislöggjöf skilar góðum og mikilvægum árangri sem mikilvægt er að raska ekki. Benda má á að í gögnum frá Krabbameinsfélagi Íslands var bent á sænska rannsókn þar sem fram kom að með því að leyfa smásölu áfengis í sérvöruverslunum myndi neysla aukast um 20% og áfengistengd dauðsföll vegna krabbameins kynnu að aukast um 18%.
    Árið 2018 var talið að áfengisneysla í Finnlandi væri völd að 4.000 dauðsföllum, 46.000 innlögnum á spítala, 2.800 tilvikum langtímaörorku og 235.000 glæpaverkum. Þetta kostaði finnskt samfélag 1,6 milljarða evra. Það samsvarar rúmlega 220 milljörðum kr. Færri takmarkanir á áfengissölu leiða til víðtækari dreifingar á áfengi til almennings og meiri skaða.
    Í umsögn embættis landlæknis kom fram að mikilvægt væri að meta áhrif frumvarpsins með tilliti til lýðheilsusjónarmiða og að mikilvægt væri að skoða það í samhengi við alþjóðlega stefnumörkun á sviði lýðheilsumála. Um þessar mundir deyr maður á tíu sekúndna fresti af völdum áfengis. Ný áætlun var samþykkt einróma á 75. heimsþingi Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar í lok maí í ár til að hrinda í framkvæmd alþjóðlegri stefnu til að draga úr skaðlegri neyslu áfengis og yrði stefnan forgangsverkefni í lýðheilsumálum. Áætlunina á að framkvæma árin 2022–2030. Meðal markmiða hennar er 20% samdráttur í neyslu áfengis. Ísland stóð að samþykkt áætlunarinnar. Ef frumvarp þetta verður að lögum yrði aðgengi að áfengi auðveldara og gengi það í berhögg við þetta markmið.

EES-samningurinn – jafnræði og frjálst flæði vöru á innri markaði EES.
    Í umfjöllun nefndarinnar kom fram að svipaðar breytingar í nágrannalöndum okkar hafa gert erlendum framleiðendum kleift að krefjast sams konar aðgangs, þ.e. undanþágu frá einkasölu og aðgengis að smásölu, og innlendir framleiðendur hljóta á grundvelli meginreglna EES-samningsins um jafnræði og frjálst flæði vöru.
    Kallað var eftir minnisblaði frá dómsmálaráðuneyti um þessi atriði og svörin þaðan valda áhyggjum. Í minnisblaðinu segir eftirfarandi: „Þá er vakin sérstök athygli á því að í ljósi þess skamma tíma sem ráðuneytið hefur til að bregðast við beiðni allsherjar- og menntamálanefndar er ekki unnt að leggja fullnægjandi mat á hvort þær breytingar sem til stendur að gera á frumvarpinu standist kröfur EES-regluverksins.“ Framangreind orð segja mikið og gefa til kynna að frumvarpið hefur ekki verið skoðað nægilega með tilliti til áhrifa EES-reglna.
    Við samningu frumvarpsins var litið til löggjafar í Finnlandi um sama efni. Var þá tekið til skoðunar hvort sú tilhögun að veita tilteknum hópi innlendra áfengisframleiðenda, þ.e. smærri brugghúsum, heimild til smásölu á áfengu öli á framleiðslustað kynni að fela í sér mismunun sem bryti í bága við 11. og 16. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið (EES-samninginn). Samkvæmt 11. gr. hans eru magntakmarkanir á innflutningi bannaðar svo og allar ráðstafanir sem hafa samsvarandi áhrif. Í 16. gr. samningsins kemur fram að samningsaðilar skuli tryggja að breytingar á ríkiseinkasölu feli ekki í sér að gerður sé greinarmunur á ríkisborgurum Evrópusambandsins og EFTA-ríkja hvað varðar skilyrði til aðdrátta og markaðssetningar vara.
    Félag atvinnurekenda vísaði til þess í umsögn sinni að lagasetning í Finnlandi um sölu áfengs öls á framleiðslustað væri ekki gott fordæmi fyrir gerð þessa frumvarps, en þar hefði samhliða verið heimiluð sala áfengs öls í verslunum. Þannig hefði erlendum aðilum verið heimilað að koma vörum sínum á framfæri með sömu skilyrðum og finnskum brugghúsum en slíkt væri ekki gert í frumvarpi þessu og kynni það því að brjóta gegn jafnræðisreglu Evrópuréttar. Minni hlutinn tekur undir þessi sjónarmið. Ekki verður séð að leyfi til smásölu á áfengi á framleiðslustað standist grundvallarreglu EES-samningsins um jafnræði og ekki heldur meginregluna um frjálst flæði vöru.
    Frávik frá meginreglunni um einkasölu ríkisins á áfengi, sem heimilar sölu einkaaðila á áfengi en bindur hana við framleiðslustað, gengur gegn meginreglunni um jafnræði og frjálst flæði vöru innan EES. Aðrar takmarkanir á sölu á framleiðslustað ættu að ná til allra söluaðila innan EES, eins og t.d. takmarkanir á magni við slíka smásölu. Ekki er gert ráð fyrir þessum áhrifum í frumvarpinu. Ekki verður séð að hægt sé að banna erlendum aðilum að selja áfengi í smásölu með sömu takmörkunum og þeim sem binda smásölu við framleiðslustað.
    Þetta álitaefni er vanreifað í nefndaráliti meiri hlutans. Ef frumvarp þetta nær fram að ganga hefðu slík lög mjög líklega ýmsar afleiðingar vegna skuldbindinga okkar samkvæmt EES-samningnum sem ekki er fjallað um með fullnægjandi hætti. Líklegt er að erlendir aðilar eða sölufulltrúar þeirra hér á landi leituðu réttar síns með vísan til EES-samningsins. Hafa ber í huga að hér er verið að afnema einkasölu ríkisins á áfengi sem hefur verið við lýði í hundrað ár, skilað góðum árangri og bætt lýðheilsu.
    Að framangreindu virtu leggur minni hlutinn til að frumvarpinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.

Alþingi, 15. júní 2022.

Eyjólfur Ármannsson.