Samantekt um þingmál

Staða, stjórn og starfshættir þjóðkirkjunnar o.fl.

449. mál á 150. löggjafarþingi.
Dómsmálaráðherra.

Markmið

Að einfalda framkvæmd fjárhagslegs stuðnings ríkisins við þjóðkirkjuna á grundvelli eldri samninga milli íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar. Að stefna að auknu sjálfstæði þjóðkirkjunnar í fjármálum og starfsmannamálum. 

Helstu breytingar og nýjungar

Hinn 6. september 2019 undirrituðu fulltrúar íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar viðbótarsamning um endurskoðun á samkomulagi milli sömu aðila um kirkjujarðir og launagreiðslur presta og starfsmanna þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 (kirkjujarðasamkomulagið) og samningi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar um rekstrarkostnað vegna prestsembætta og prófasta, rekstrarkostnað Biskupsstofu, framlag til Kristnisjóðs og sérframlög til þjóðkirkjunnar frá 4. september 1998. Meginbreyting viðbótarsamningsins er að kirkjan tekur sjálf við öllum starfsmönnum sínum og starfsmannamálum, auk launagreiðslna til þeirra, frá 1. janúar 2020. Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar til að uppfylla viðbótarsamninginn. Gert er ráð fyrir að biskup Íslands, vígslubiskupar, prófastar og prestar þjóðkirkjunnar teljist ekki lengur embættismenn heldur starfsmenn þjóðkirkjunnar. Þá er gert ráð fyrir að ríkið hætti að greiða árleg laun tiltekins fjölda starfsfólks og tiltekið framlag í sjóði kirkjunnar og greiði þess í stað eina fjárhæð árlega til þjóðkirkjunnar vegna skuldbindinga á grundvelli kirkjujarðasamkomulagsins, sbr. viðbótarsamninginn.

Breytingar á lögum og tengd mál

Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar, nr.  78/1997.
Lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins, nr.  70/1996.
Lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins, nr.  1/1997.

Við gildistöku laganna falla úr gildi lög um laun sóknarpresta, nr.  46/1907, og lög um embættiskostnað sóknarpresta og aukaverk þeirra, nr.  36/1931.

Kostnaður og tekjur

Ekki er gert ráð fyrir fjárhagslegum áhrifum á ríkissjóð sem nokkru nemur.

Afgreiðsla

Samþykkt með smávægilegum breytingum sem voru tæknilegs eðlis.

Aðrar upplýsingar

Viðbótarsamningur íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar og viljayfirlýsing frá 6. sept. 2019.


Síðast breytt 11.03.2021. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Unnið af starfsfólki upplýsinga- og rannsóknaþjónustu Alþingis.

Um samantektir

Samantektir um þingmál hafa verið birtar á vef Alþingis síðan á 141. þingi (2012-2013). Markmiðið er að setja fram í stuttu máli greinargóðar upplýsingar um þingmál og að tengja í efni sem gæti skýrt það frekar.

Samantektir eru einkum unnar um stjórnarfrumvörp en upplýsingum um önnur mál er bætt við eftir þörfum. Fylgst er með máli frá því að það kemur fram á þinginu og upplýsingum bætt við eftir því sem fram vindur. Þær eru að mestu fengnar úr texta frumvarps og umsagna, en tengt er í efni á öðrum vefjum eftir því sem tilefni er til. Tenglar í efni sem ekki er á vef Alþingis geta breyst og eru birtir án ábyrgðar. Umfjöllunin á að vera óhlutdræg en ekki er hægt að gera ráð fyrir að hún sé tæmandi. Samantektin er ekki hluti af þinglegri meðferð né formlegum skjölum þingmálsins.

Allar ábendingar og athugasemdir eru vel þegnar og má senda þær á netfangið rannsoknathjonusta@althingi.is.