18.01.1983
Neðri deild: 25. fundur, 105. löggjafarþing.

159. mál, Olíusjóður fiskiskipa

Sjútvrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til l. um Olíusjóð fiskiskipa, olíugjald o.fl., 159. mál, þskj. 248.

Ég þarf ekki að fara mörgum orðum um erfiðleika útgerðarinnar á síðasta ári, það hefur verið til umr. hér áður. Þessir erfiðleikar stafa ekki síst og reyndar fyrst og fremst af því að aflaverðmæti á árinu 1982 er um það bil 16 af hundraði minna en á árinu áður. Þetta stafar af því að engar loðnuveiðar urðu, eins og mönnum er kunnugt um. Loðnuveiðar námu um 10% af verðmæti sjávarafurða. Auk þess varð verulegur samdráttur í þorskafla. Þorskafli á síðasta ári mun, hygg ég, verða í kringum 370 þús. lestir, en var áætlaður að tillögu fiskifræðinga í upphafi ársins 450 þús. lestir og var það um það bil það sem aflaðist á árinu 1981. Af þessum ástæðum var ekki um annað að ræða en grípa til sérstakra aðgerða vegna útgerðarinnar í september s.l.

Þjóðhagsstofnun áætlaði áhrif aðgerðanna í september miðað við tvær aflaforsendur. Sú fyrri var að afli yrði á árinu 1983 svipaður og hann hafði verið á árinu 1981, þ.e. ykist að nýju, og svo var aflaforsenda 2, þar sem gert var ráð fyrir að afli á þessu ári, sem nú er hafið, yrði svipaður og hann reyndist á árinu 1982. Samkvæmt fyrri aflaforsendu var áætlað eftir aðgerðirnar í september að staða útgerðar væri –1.5 samtals, þ.e. ef teknir voru saman allir þættir útgerðar á botnfiskveiðum, en miðað við minni afla var áætlað að staðan yrði --4.5.

Ég þarf ekki að rekja að vonir um betri afla brugðust, og reyndar má segja að afli hafi orðið jafnvel heldur lakari á seinni hluta ársins en aflaforsenda 2.

Í desembermánuði var rekstrarstaða útgerðarinnar áætluð að nýju og þá m.a. endurskoðaðir grundvallarþættir miðað við reikninga útgerðar fyrir árið 1981. Sú endurskoðun leiddi til heldur lakari aðkomu útgerðar en fyrri grundvallartölur gerðu ráð fyrir. Þá kom í ljós að afkoma útgerðar á ársgrundvelli, að sjálfsögðu fram í tímann, var áætluð í desember 1982 fyrir bátana --14.1, fyrir minni togara --13.8, fyrir stærri togara --21.3 eða samtals fyrir útgerðina í heild --14.7. Þjóðhagsstofnun hefur gefið ýmsar skýringar á þessari stórum lakari afkomu heldur en gert var ráð fyrir í áætlun hennar eftir aðgerðirnar í september. Meginskýringarnar eru þær, að á tímabilinu frá september til desember urðu mjög miklar hækkanir á ýmsum kostnaðarliðum útgerðarinnar, meðal annars á dísilolíu. Kostnaðarhækkun dísilolíu varð yfir 19% og svartolíu tæplega 17% og aðrir kostnaðarþættir, eins og t.d. viðhald og veiðarfæri, hækkuðu um svipað. Þó hafði í byrjun desember verið samþykkt hækkun á fiskverði, sem nam 7.72%, í samræmi við þá almennu hækkun sem ákveðin var með brbl. á verðbótavísitölu. Í upphafi var að sjálfsögðu ljóst að sú hækkun mundi ekki duga útgerðinni því vitað var að kostnaðarliðir útgerðar mundu hækka töluvert meira en 7.72 af hundraði og þá meira í takt við framfærsluvísitölu. Hins vegar var talið rétt að betri upplýsingar lægju fyrir um aflamagn og aflaspá á árinu 1982 áður en rekstrarvandamál útgerðarinnar væru tekin fyrir sérstaklega.

Ég vil geta þess, að í þeim tölum sem ég las áðan um afkomu útgerðar í desember 1982 er gert ráð fyrir óbreyttu olíugjaldi, þ.e. 7%, og sömuleiðis óbreyttri niðurgreiðslu á olíu 22%. Á þessum grundvelli var fiskverð síðan ákveðið í lok ársins. Ég vil geta þess, að Þjóðhagsstofnun hefur að sjálfsögðu einnig áætlað afkomu frystingar og söltunar í desembermánuði. Samkvæmt áætlun Þjóðhagsstofnunar frá 21/12 1982 var afkoma frystingar +1.2% og söltunar +3.9%. Hér var því við ákaflega stóran og mikinn vanda að eiga og nauðsynlegt að skoða allar leiðir til þess að lagfæra rekstrarstöðu útgerðar.

Í fyrsta lagi var nauðsynlegt að kanna hve mikil fiskverðshækkun gæti orðið og þá taldi ég rétt að taka mið fyrst og fremst af tekjuaukningu sjómanna í samanburði við tekjuaukningu manna í landi. Þetta var áætlað af Þjóðhagsstofnun. Taldi Þjóðhagsstofnun að miðað við kauptaxta í landi mættu tekjur sjómanna hækka um u.þ.b. 10% eða nánar tiltekið 7--10% til þess að jöfnuður næðist að nýju. Hins vegar, miðað við tekjur samkvæmt úrtökum á skattframtölum, mátti fiskverð hækka um eitthvað meira til þess að sami jöfnuður næðist. Þá kemur í ljós að hlutfall fiskverðs og kauptaxta, miðað við 100 1977, var 87 1978, 871979, 83 1980, 81 1981 og 87 í október 1982. Þarna hefur sem sagt fiskverð hækkað um töluvert minna en kauptaxtar. Speglar þetta fyrst og fremst vaxandi afla á árunum frá 1977 til og með 1981, þannig að þá var talið rétt að taka mið af vaxandi afla við ákvörðun um fiskverð og af því að tekjur sjómanna fara að sjálfsögðu vaxandi einnig með afla, en ekki eingöngu með fiskverði. Þegar dró úr aflaaukningu á árinu 1982 var þetta að nokkru leyti leiðrétt, bæði með meiri hækkun fiskverðs 1. september en verðbóta í landi og sömuleiðis með aukafiskverðshækkun með aðgerðunum í lok september upp á 4%, og kemur þetta jafnframt fram í þeim tölum sem ég las áðan, þar sem hlutfall fiskverðs og kauptaxta hækkar frá 1981 til 1982 úr 81 í 87%.

Sé hins vegar gerður samanburður á tekjum sjómanna og verkamanna annars vegar og sjómanna og iðnaðarmanna hins vegar og árið 1977 aftur lagt til grundvallar kemur í ljós að hlutfall tekna sjómanna og verkamanna hefur breyst þannig gegnum árin: 1977 100, 1978 89, 1979 hækkar það upp í 98, 1980 einnig 98, 1981 í 95, en lausleg áætlun í október 1982 er 90. Þannig, eins og ég sagði áðan, mátti verða nokkur hækkun fiskverðs til að rétta við hlut sjómanna. Séu hins vegar tekjur sjómanna og iðnaðarmanna bornar saman, þ.e. hlutfallið af tekjum sjómanna og iðnaðarmanna, kemur í ljós að sjómenn hafa samkvæmt þeim samanburði haft heldur betur. Miðað við 100 1977 og 1978 91 var hlutfallið 1979102, 1980106, 1981 103, 1982 99.

Þessar upplýsingar voru lagðar til grundvallar þegar ákveðið var að leggja til að fiskverðshækkun yrði ákveðin 14% í yfirnefnd Verðlagsráðs sjávarútvegsins. Með þeirri fiskverðshækkun hækkar hlutfall fiskverðs á móti hlutfalli kauptaxta úr 87 í okt. í 98, þ.e. það má segja að þá sé komið sama hlutfallið og var 1977, og jafnframt, miðað við tekjur sjómanna og verkamanna, hækkar það hlutfall í 101 og eru þá tekjur sjómanna þær hæstu frá 1977 samkvæmt þessari úttekt, miðað við verkamenn og miðað við iðnaðarmenn reyndar í 110, þ.e. töluvert hærri en verið hafði nokkru sinni fyrr.

Ég vil taka það fram að svona samanburður er ætíð mjög erfiður. Ýmsar spurningar vakna um ýmiss konar yfirborganir o.s.frv. og einnig vakna að sjálfsögðu spurningar um hvort borin sé saman svokölluð akkorðsvinna eða bónusvinna eða ekki. Vitanlega er það svo á sjó að segja má að þegar aflast sé ætíð um akkorðsvinnu að ræða.

Ég vil leyfa mér að fullyrða að með 14% hækkun fiskverðs hafi verið gengið eins langt og frekast er unnt til þess að leiðrétta tekjur sjómanna gagnvart tekjum verkamanna og iðnaðarmanna, eins og kom fram í þeim tölum sem ég nefndi áðan, og ég vil reyndar geta þess, að í viðtölum við fulltrúa hinna ýmsu aðila, m.a. sjómanna í yfirnefnd, kom það greinilega fram að þeir töldu að með þessari fiskverðshækkun einni út af fyrir sig væri tekið mikilvægt skref til leiðréttingar á þeirri röskun sem með aflabrestinum hefur orðið á tekjum sjómanna í samanburði við tekjur manna í landi hins vegar. Ég vil einnig taka það fram að að mínu mati er óhjákvæmilegt að sjómenn hafi viðunandi tekjur og að þær séu í samræmi við það sem gerist í landi. Vinnuaðstaða og vinnutími eru ekki metin í þessu sambandi og er allt annað en í landi.

Í þessu sambandi var síðan fjallað um olíugjaldið sem um áramótin 1981--1982 var rætt um að æskilegt væri að leggja niður. Ég sagði þá hvað eftir annað að ég vildi stuðla að því að það yrði lagt niður, enda — eins og menn geta séð í þingskjölum og víðar --- yrði afkoma útgerðar tryggð eftir öðrum leiðum. Um þetta var fyrst og fremst fjallað í svokallaðri hlutaskiptanefnd, sem hefur starfað í fjögur ár og var skipuð af síðasta fyrirrennara mínum í starfi sjútvrh. Sú nefnd skilaði eftir marga fundi og erfiða áliti til mín í desembermánuði, þar sem lagt er til að olíugjald verði fellt niður og sömuleiðis gjald í Stofnfjársjóð fiskiskipa, en hlutaskiptum hins vegar breytt þannig að hlutur sjómanna yrði eftir slíka breytingu hinn sami og fyrr að meðaltali í þremur meginflokkum skipa, getum við sagt, þ.e. á stóru togurunum yrði hluturinn óbreyttur að meðaltali, á minni togurunum sömuleiðis og í þriðja lagi á bátaflotanum. Hins vegar náðist því miður ekki samkomulag um þessa breytingu í hlutaskiptanefndinni. Fulltrúi sjómanna þar, a.m.k. einn þeirra lagðist ákveðið gegn þessari breytingu og niðurstaðan var sú að fulltrúar útgerðarmanna og formaður nefndarinnar lögðu til í nál. að ekki yrði ráðist í þessa breytingu, þ.e. að fella niður olíugjald og stofnfjársjóðsgjald og taka upp breytt hlutaskipti, nema fullkomið samkomulag næðist þar um. Ég harma það því ég tel að með því að draga olíukostnað frá óskiptu væri stuðlað að sparnaði í olíunotkun og það hljóti að koma allri áhöfn og útgerð til góða. Ég tel að þessu máli sé alls ekki lokið og þurfi að ræða það nánar við sjómenn, en ég er því sammála hins vegar, sem nefndin lagði til, að þetta yrði ekki þvingað fram í andstöðu við sjómenn. Af þessum ástæðum er gert ráð fyrir því að olíugjaldið verði óbreytt 7% við þær aðstæður sem nú eru í útgerð.

Með þessu og jafnvel með óbreyttri niðurgreiðslu á olíu, þ.e. 22%, og 14% hækkun á fiskverði hefði afkoma útgerðar engu að síður verið mjög bágborin eða um það bil --6%, sem er miklu verri afkoma en við yrði með nokkru móti búið. Því var ekki um annað að ræða en leita annarra leiða til að jafna þennan mun að verulegu leyti og má segja að viðræður í yfirnefnd milli mín og fulltrúa aðila hafi ekki síst að þessu beinst. Í því sambandi komu fyrst og fremst til greina tvær hugmyndir.

Önnur hugmyndin var sú að hækka olíugjaldið úr 7% upp í 17%, að vísu rætt um að kalla það öðru nafni, þ.e. kostnaðarhlutdeild. Þá væri um að ræða greiðstu frá fiskvinnslu til útgerðar beint sem hlutdeild í kostnaði. Þessi leið hefur verið fyrr farin. Hún var farin á erfiðleikaárum útgerðarinnar 1968 t.d., en hefur ætíð verið mjög umdeild. Sérstaklega hefur verið á það deilt að þarna væri ekki greitt í hlutfalli við eyðslu, þ.e. við notkun á olíu, veiðarfærum og fleira þess háttar, heldur í hlutfalli við afla. Ýmsir hafa talið að þannig kæmi út mjög vafasöm niðurstaða, t.d. að trillukarlinn fengi líklega allan kostnað útgerðarinnar uppiborinn með slíku gjaldi. Því hefur verið mjög á það þrýst að leggja þetta niður.

Hin leiðin, sem um var rætt, er hækkun á niðurgreiðslu á olíu úr 22% í 28%, sem ég reyndar lagði til, eða eitthvað hærra. Niðurgreiðsla á olíu hefur einnig stóra annmarka. Ég vek athygli á því, að olíusjóður sem greiddi niður olíu var til á árunum 1973--1975. Þá var um gífurlega mikla olíuniðurgreiðslu að ræða. Þá var olía greidd niður, ef ég man rétt, mest úr 24 kr. lítrinn í 6 kr., þ.e. um 3/4, og var þá af ýmsum talið að um verulega misnotkun á olíuniðurgreiðslu væri að ræða. Þess vegna og meðal annars vegna andstöðu sjómanna var þetta stokkað upp.

Olíufélögin telja ekki að hætta á misnotkun sé mikil nú, enda er olíuniðurgreiðslan miklu minni en þá var, ekki helmingur af því sem þá var mest, og auk þess orðið miklu minna almennt um notkun olíu til upphitunar en var á þeim árum.

Olíukostnaður hefur aukist mjög ört hjá flotanum. Árið 1973 var olíukostnaður um 11.5% aflaverðmætis hjá minni togurum, en er í dag talinn vera 28% til 29%. Þarna er því um ákaflega mikinn kostnaðarlið að ræða. Auk þess hefur komið fram að unnt er að fá í erlendum höfnum olíu fyrir miklu lægra verð en hér, um það bil 40% lægra verð. Hefur það orðið til þess að ýmsir hafa talið koma til greina að greiða olíu niður til samræmis við það sem er erlendis. Ég taldi að vandlega athuguðu máli að þetta væri skárri leið en að fara í kostnaðarhlutdeildina eða hækkun olíugjalds af þeim ástæðum sem ég rakti hér áðan.

Til þess að greiða niður olíu um 35%, sem var niðurstaðan hjá yfirnefnd verðlagsráðs, nokkuð hærri niðurgreiðsla en ég hafði gert ráð fyrir, en samkomulag varð um það, þá þarf um það bil 400 millj. kr. Að sjálfsögðu koma ýmsar leiðir til greina til að afla þess fjármagns. Sumir fulltrúar í nefndinni töldu að þess ætti að afla með almennum sköttum, t.d. hækkun á söluskatti um það bil 2%. Ég tel það mjög vafasama teið. Þá er verið að leggja það beint á neysluvörur almennings að greiða niður olíu til fiskiskipa. Hins vegar hafði olía áður verið greidd niður með útflutningsgjaldi og sú leið varð ofan á. Þarf þá hækkun útflutningsgjalds um 4% til að mæta þessum kostnaði.

Útflutningsgjald er nú 51/2% og yrði þá 91/2%. Útflutningsgjald hefur iðulega verið miklu hærra, allt upp í 16% eða 17%. Þetta hefur að sjálfsögðu einnig sína annmarka, sérstaklega gagnvart fiskvinnslunni. Útflutningsgjald er tortryggt af ýmsum innflytjendum erlendis og talið að verið sé að skattleggja kaupendur. Ég tel að það sé á misskilningi byggt. Ef útflutningsgjaldshækkun er mætt með breytingu á gengi er að sjálfsögðu fyrst og fremst verið að skattleggja alla íbúa þessa lands því að gengisbreytingin kemur fljótlega fram í verði.

Útflutningsgjaldsleiðin hefur einnig verið gagnrýnd af sjómönnum og talið að með því væri verið að hrófla við hlutaskiptum. Það má kannske nokkuð til sanns vegar færa. Þó sýnist mér að þau sömu rök, sem ég nefndi áðan, að útflutningsgjald er bætt með gengissigi, gangi gegn slíkri fullyrðingu. Þá er fyrst og fremst um gjaldtöku að ræða, sem þjóðin öll ber, og í raun og veru gætu menn þá velt upp þeirri spurningu hvaða munur væri á því að leggja t.d. á toll til að afla tekna til slíkra niðurgreiðslu eða á útflutning. Það kemur ákaflega svipað niður. Því miður leiðir það til verðhækkunar í landi. Um þessa leið náðist meirihlutasamþykki í yfirnefnd með oddamanni og fulltrúa útgerðar, en fulltrúar vinnslunnar sátu hjá fyrst og fremst af þeirri ástæðu sem ég hef hér nefnt um áhrif útflutningsgjalds á kaupendur sjávarafurða. Sjómenn lögðust hins vegar gegn fyrst og fremst vegna tekjuöflunar þeirrar sem ég hef nú rakið og vildu að tekna til olíuniðurgreiðslu væri aflað eftir öðrum leiðum.

Ég vil jafnframt geta þess, að í sambandi við þessa ákvörðun var bókað í verðlagsráði eftirfarandi, með leyfi forseta:

1. Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir samþykkt laga um eftirtalin atriði. --- Kemur þetta reyndar fram í frv. sjálfu eða grg. með því. Þar segir: „Fiskverðsákvörðun fól í sér 14% meðalhækkun frá því verði er áður gilti. Ákvörðun þessi var m.a. reist á þeim forsendum að ríkisstj. beitti sér fyrir eftirtöldum ráðstöfunum:

1. Olíugjald yrði framlengt óbreytt árið 1983.

2. Stofnaður yrði Olíusjóður fiskiskipa til niðurgreiðslu á olíuverði til fiskiskipa. Yrði sjóðurinn fjármagnaður með tekjum af sérstöku 4% útflutningsgjaldi af sjávarafurðaframleiðslu ársins 1983, sem lagt yrði á sama stofn og hið almenna 5.5% útflutningsgjald nú.

3. Olía til fiskiskipa yrði á árinu 1983 greidd niður sem næmi 35% af olíuverði.

4. Stimpilgjald og lántökugjöld af skuldbreytingalánum útgerðarinnar yrðu felld niður og tryggð endurgreiðsla slysatrygginga á aflahlut í slysatilvikum samkv. sjómannalögum.

5. Fiskvinnslunni yrðu að fullu bætt kostnaðaráhrif fiskverðshækkunar og þeirra ráðstafana, sem í frv. þessu felast.“

Ég hef rakið það sem hér er nefnt nema liði fjögur og fimm. Skal ég koma að þeim.

Eins og mönnum er kunnugt fer nú fram skuldbreyting vegna útgerðarinnar. Talið er að skuldbreyting verði nálægt 500 millj. kr. Þar er ekki um nýtt fjármagn að ræða, heldur vanskil sem hafa safnast upp í bönkum og hjá ýmsum viðskiptaaðilum útgerðarinnar. Af þeirri ástæðu hefur verið talið verjandi að fella niður tekjur ríkissjóðs af þessari skuldbreytingu og þá jafnframt með tilliti til erfiðleika útgerðarinnar. Er í frv. gert ráð fyrir að stimpilgjald verði fellt niður.

Um lántökugjaldið gegnir hins vegar öðru máli. Lántökugjald er ákveðið af viðskiptabönkunum sjálfum samkv. reglum sem Seðlabankinn setur og er ekki löggjafaratriði. Hins vegar hefur ríkisstj. í framhaldi af þessu samþykkt málaleitun til viðskiptabanka og sparisjóða um að þeir felli niður lántökugjaldið. Ég segi fyrir mitt leyti að ég tel það eðlilegt þegar þess er gætt að viðskiptabankarnir losna við þessi skuldbreytingabréf til Seðlabankans upp í sinn yfirdrátt þar og vanskilavexti. Er ákaflega hagkvæmt í raun og veru fyrir viðskiptabankana að ráðast í þessa skuldbreytingu. Þeir fá þar opnaða leið til að lækka verulega yfirdrátt sinn við Seðlabankann og þá að sjálfsögðu útgjöld sín vegna þeirra vanskilavaxta eða yfirdráttarvaxta sem Seðlabankinn tekur af viðskiptabönkunum. Ég skal ekkert um það segja hvernig þessari málaleitun reiðir af, hún er í höndum viðskrh., en viðræður eru í gangi um þetta.

Sömuleiðis hefur heilbr.- og trmrh. verið að athuga endurgreiðslu slysatrygginga á aflahlut í slysatilvikum. Fyrir tveimur árum samþykkti Alþingi sem ákvæði í einum svonefndum félagsmálapakka að áhöfn skuli halda fullum hlut í slysatilfellum. Hér er ekki um stórar upphæðir að ræða, áætlað lauslega að geti verið samtals í kringum 5--6 millj. Af því fellur helmingurinn yfirleitt á fyrstu viku fjarveru áhafnarmeðlims í slysatilfellum og það er greitt af Tryggingastofnun. Hér er því um það að ræða að lengja þennan tíma. Gæti þá orðið um aðrar 2-- 3 millj. í útgjöldum að ræða. Þetta, eins og ég sagði áðan, er heilbrrh. með í athugun og er mér tjáð af honum að ekki muni þurfa lagabreytingu til að mæta þessari ósk. Ég vil jafnframt geta þess, að útgerðin greiðir verulegt fjármagn til tryggingasjóðs og ætti það að standa undir slíkum greiðslum sem hér um ræðir, þannig að ég geri fastlega ráð fyrir því að unnt verði að framkvæma einnig þetta.

Um fimmta liðinn, að fiskvinnslunni yrði að fullu bætt kostnaðaráhrif fiskverðshækkunarinnar og þeirra ráðstafana sem í frv. þessu felast, vil ég segja að að mati Verðlagsstofnunar felst í þessum ráðstöfunum u.þ.b. 11--12% kostnaðarhækkun fyrir fiskvinnsluna. Sumt af því kemur hins vegar ekki fram nú, þ.e. fiskvinnslan greiðir ekki umrætt útflutningsgjald fyrr en orðið er að lögum í fyrsta lagi og í öðru lagi ekki fyrr en slíkur útflutningur fer úr landi. Því var að athuguðu máli talið nægjanlegt að mæta þessum útgjöldum fiskvinnslunnar með 9% gengisfellingu, sem var ákveðin í beinu framhaldi af þessari fiskverðsákvörðun.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa miklu fleiri orð um þetta. Ég hef lýst þeim atriðum öllum, tel ég, sem eru í frv. Þó hef ég ekki farið í það grein fyrir grein og eitt atriði er í 2. gr. sem mér þykir rétt að vekja athygli á, í 3. málsgr. Þar segir:

„Útflutningsgjald af sölu fiskiskipa í erlendri höfn skal reiknast af brúttósöluverðmæti með sama hætti og samkv. ákvæðum laga um útflutningsgjald nr. 5/1976, þó þannig að útflutningsgjald sé dregið frá söluverði áður en kemur til hlutaskipta eða aflaverðlauna.“

Um þetta mál var töluvert fjallað og sýnist nokkuð sitt hverjum. Það er samningur á milli sjómanna og útgerðarmanna um það, að útflutningsgjald skuli dregið frá aflaverðmæti áður en kemur til hlutaskipta, en hins vegar er ekki samstaða um hvort þetta sérstaka útflutningsgjald eigi að teljast í þeim flokki. Ég taldi hins vegar rétt að láta þetta fylgja með, eins og samkomulag varð um á milli útgerðar og fiskvinnslu. Ég tel sjálfsagt að sjútvn., sem fær málið til meðferðar, athugi mjög vandlega hvort hér gæti verið um brot á samningum milli sjómanna og útgerðarmanna að ræða.

Í þessu sambandi er vert að geta þess, að fiskvinnslan telur varhugavert að taka ekki slíkt gjald af ísfiski. Verð á ísfiski er mjög hátt á erlendum mörkuðum og fiskvinnslan óttast að samkeppni við siglingar geti orðið erfið ef ekki er tekið gjald af slíkri sölu.

Jafnframt vil ég geta þess, að að sjálfsögðu yrði, ef lögin verða samþykkt, sett reglugerð um.þessa framkvæmd, sem yrði þá eins og var með olíuniðurgreiðslu fyrir áramótin, þ.e. olíufélögin halda eftir 35% úttektarreiknings sem yrði greitt úr olíusjóði sem yrði í vörslu Seðlabanka.

Ég vil jafnframt geta þess, að í umræðum um þessi mál á milli flokka fyrir þingfrestun fyrir jólin tilkynnti ég að ég mundi ekki leggja til að brbl. yrðu sett nema óhjákvæmilegt teldist, og þá yfirlýsingu gaf forsrh. hér. Jafnframt óskaði ég þá eftir því að þingflokkar tilnefndu menn til þess að fylgjast með þessum málum. Það var gert og þeir menn hafa komið saman og fengið allar upplýsingar. Ég vil láta koma fram að það er misskilningur, sem kom fram í fjölmiðlum, að þeir hafi skuldbundið sig á einn máta eða annan, fulltrúar þessara flokka, til að fylgja einu eða öðru í þessu máli. Ég sendi þeim þetta frv. nokkru fyrir helgi og reyndar einnig væntanlegu, sem þá var, Bandalagi jafnaðarmanna. Ég vona því að menn hafi getað fylgst sæmilega með þessu máli, og það er von mín að það fái sem skjótasta afgreiðslu hér á þingi. Ef menn vilja fallast á málið er nauðsynlegt að það geti komið til framkvæmda sem fyrst. Það er ekki gott að þetta sé um of afturvirkt. Ef menn vilja ekki fallast á það verður það jafnframt að liggja fyrir sem allra fyrst, þannig að ekki verði róið á óvissan í því sambandi.

Ég vil segja það fyrir mitt leyti að mér er það út af fyrir sig ekkert ánægjuefni að leggja til þá olíuniðurgreiðslu sem hér um ræðir. Ég tel að slíkt sé alltaf vandmeðfarið. En miðað við ýmsar aðstæður í okkar þjóðlífi, miðað við minni afla, miðað við erfiðleika í efnahagsmálum, þá tel ég þetta þó verjandi tímabundið á meðan við erum að komast á réttan kjöl með þjóðarskútuna.

Ég vil svo að þessum orðum sögðum leggja til, herra forseti, að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.