Ferill 157. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 157 . mál.


Sþ.

168. Tillaga til þingsályktunar



um staðfestingu samkomulags um loðnuveiðar Norðmanna.

(Lögð fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988.)



    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd samkomulag milli Íslands og Noregs um loðnuveiðar norskra veiðiskipa innan íslenskrar fiskveiðilögsögu á loðnuvertíðinni 1988–1989.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


    Fyrir upphaf yfirstandandi loðnuvertíðar var heildarloðnukvótinn fyrir tímabilið frá júlí til október ákveðinn 500 þús. lestir. Þegar tekið hafði verið tillit til endanlegs afla á síðustu vertíð komu 398 þús. lestir í hlut Íslands en 102 þús. lestir í hlut Noregs. Veiðar bæði íslenskra og norskra skipa gengu illa í sumar og enda þótt norskum skipum væri 28. júlí heimilað að stunda veiðar á allt að 40 þús. lestum af loðnu í íslenskri lögsögu til 10. ágúst 1988 varð heildarafli Norðmanna í sumar aðeins rétt um 12 þús. lestir samtals og var sá afli fenginn bæði í lögsögu Íslands og Jan Mayen.
    Að loknum frekari rannsóknum á stærð loðnustofnsins nú í október var ákveðin 360 þús. lesta aukning heildaraflamagnsins og eiga Norðmenn skv. 2. mgr. 4. gr. samkomulags Íslands og Noregs um fiskveiði- og landgrunnsmál frá 28. maí 1980 rétt á 15% hlutdeild í því viðbótarmagni eða 54 þús. lestum.
    Norðmenn óskuðu eftir veiðiheimildum innan íslenskrar lögsögu og að höfðu samráði við hagsmunaaðila hér á landi var gert samkomulag um að veita norskum skipum heimild til veiða á 54 þús. lestum. Jafnframt var gert ráð fyrir því að Norðmönnum yrðu leyfðar veiðar á þeirri hlutdeild sem þeir ættu, kæmi aftur til aukningar á heildarveiðimagninu að loknum stofnstærðarmælingum í janúar 1989. Samkomulag þetta er birt sem fylgiskjal með þingsályktunartillögu þessari.
    Fyrir árin 1986, 1987 og 1988 var gert samkomulag við Norðmenn um heimildir til loðnuveiða innan lögsögu Íslands. Þær heimildir miðuðust við tímabilið 1. janúar til 15. febrúar ár hvert og voru veiðar auk þess síðasta
árið ekki leyfðar vestan 13* V sunnan 64* 30' N. Samkomulagið gerir ráð fyrir að veiðar geti hafist 5. desember en veiðiheimildir falli úr gildi 15. febrúar. Veiðar verða jafnframt bannaðar vestan 13* V sunnan 64* 30' N.
    Með þingsályktunartillögu þessari er þess farið á leit að Alþingi heimili staðfestingu samkomulagsins.



Fylgiskjal.


    Sjá þingskjal.