Ferill 121. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 121 . mál.


Sþ.

193. Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Geirs H. Haarde um varaflugvöll fyrir millilandaflug.

Hver er staða mála varðandi hugsanlega aðild Mannvirkjasjóðs


Atlantshafsbandalagsins að gerð varaflugvallar fyrir


millilandaflug hér á landi?



    Atlantshafsbandalagið hefur lýst áhuga á að fram fari forkönnun á mögulegum staðsetningum flugvallar sem þjónað geti sem varaflugvöllur fyrir Keflavíkurflugvöll. Hefur bandalagið samþykkt fjárveitingu til slíkrar forkönnunar.
    Óskir hafa komið fram um að forkönnun þessi taki til staðsetninga á Íslandi og á Grænlandi. Að lokinni forkönnun verður tekin afstaða til þess hvort og hvar flugvöllur yrði byggður. Dönsk stjórnvöld hafa samþykkt að forkönnun fari fram á Grænlandi.
    Íslensk stjórnvöld hafa ekki samþykkt að forkönnun á vegum Atlantshafsbandalagsins fari fram á Íslandi, en nokkrar viðræður fóru fram milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda í árslok 1986 og ársbyrjun 1987. Í febrúar 1987 ákvað þáverandi samgönguráðherra að íslensk forkönnun yrði gerð á hugsanlegum varaflugvallarmöguleikum hér á landi. Líklegt er að sú könnun geti komið að verulegu gagni ef forkönnun á vegum eða í samráði við Atlantshafsbandalagið yrði leyfð.
    Utanríkisráðherra hefur á undanförnum vikum átt samtöl við aðalframkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins og yfirflotaforingja bandalagsins, Saclant, um þetta mál og hefur eftirfarandi m.a. komið fram:
—     Varaflugvöllur af þeirri gerð sem um er rætt yrði fullkominn millilandaflugvöllur.
—     Ef varaflugvöllur yrði byggður hér á landi á vegum Atlantshafsbandalagsins yrði rekstur hans á friðartímum eingöngu í höndum íslenskra flugmálayfirvalda.
—     Varaflugvöllur yrði eingöngu mannaður Íslendingum og algjörlega undir íslenskri stjórn á friðartímum.
—     Engin þörf yrði á búsetu eða varðgæslu varnarliðsmanna við völlinn.
—     Varnarliðið mundi einungis nota varaflugvöll ef Keflavíkurflugvöllur lokaðist.

Hyggst utanríkisráðherra beita sér fyrir frekari undirbúningi að


gerð slíks flugvallar með þátttöku Mannvirkjasjóðsins?



    Þetta mál er nú til vandlegrar athugunar í utanríkisráðuneytinu og liggur næst fyrir að taka þarf ákvörðun um hvort heimiluð verði forkönnun í samvinnu við Atlantshafsbandalagið með svipuðum hætti og dönsk stjórnvöld hafa heimilað að því er Grænland varðar. Sú ákvörðun verður tekin þegar niðurstöður þessara athugana liggja fyrir.