Ferill 130. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 130 . mál.


Sþ.

470. Svarsamgönguráðherra við fyrirspurn Hjörleifs Guttormssonar um mengun við fiskeldi.

Fyrirspurnin er svohljóðandi:

1. Hver eru afskipti Siglingamálastofnunar og samgönguráðuneytis


af veitingu starfsleyfa fyrir fiskeldi, eftirliti varðandi


mengun frá fiskeldisstöðvum og rannsóknum á mengunarhættu


við fiskeldi?


2. Hvaða reglur hefur ráðuneytið sett um mengunarvarnir vegna


fiskeldis, þar með taldar reglur um förgun úrgangs?


3. Hvaða áform eru uppi á vegum samgönguráðuneytisins vegna ofangreindra


þátta eða annarra sem snerta fiskeldi og mengunarhættu því tengda?    Í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 390/1985 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun falla fiskeldisstöðvar undir þá reglugerð og er rekstur þeirra háður starfsleyfum. Eftir þessari reglugerð annast Hollustuvernd ríkisins samningu starfsleyfistillagna, en heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið veitir endanlega starfsleyfi.
    Samkvæmt sömu reglugerð skal Hollustuvernd ríkisins ávallt leita umsagnar Siglingamálastofnunar ríkisins þegar hætta er á mengun sjávar áður en endanlegar starfsleyfistillögur eru gerðar. Þetta fyrirkomulag var ákveðið til að einfalda umsækjendum umsóknir um starfsleyfi þannig að þeir þyrftu ekki að sækja um til margra stofnana.
    Hollustuvernd ríkisins annast eftirlit með fiskeldisstöðvum samkvæmt ákvæðum reglugerðarinnar og innheimtir árleg eftirlitsgjöld samkvæmt gjaldskrá. Í þessu felst m.a. eftirlit með því að lögum, reglugerðum og skilyrðum starfsleyfa sé framfylgt, þar með talið kröfum Siglingamálastofnunar.
    Siglingamálastofnun ríkisins hefur í umsögnum sínum til Hollustuverndar ríkisins varðandi starfsleyfi fyrir fiskeldisstöðvar gert kröfur um að frá starfsemi slíkra stöðva berist sem minnst mengun í sjó. Í umsögnum sínum hefur
Siglingamálastofnun ríkisins enn fremur gætt þess að staðsetning og rekstur fiskeldisstöðva í sjó valdi ekki siglingahættu og gert kröfu um að flotkvíar séu tryggilega festar við botn eða land.
    Sem lagalegur grundvöllur undir umsögnum Siglingamálastofnunar eru:
a.     lög um varnir gegn mengun sjávar,
b.     hafnareglugerðir,
c.     siglingalög,
d.     alþjóðasamningar um varnir gegn mengun sjávar.
    Fiskeldi er til þess að gera ný starfsgrein hér á landi og er enn í mótun. Þekkt er erlendis frá að slík starfsemi getur valdið mengun í sjó, einkum staðbundinni mengun.
    Hérlendis hefur fiskeldi enn ekki svo vitað sé valdið víðáttumikilli mengun í sjó, en gæta þarf varúðar í þessu efni, einkum með tilliti til langtímaáhrifa. Hins vegar er vitað að til nokkurs tjóns hefur komið vegna þörungamyndunar sem rekja má til úrgangs frá fiskeldinu.
    Siglingamálastofnun ríkisins hefur ekki starfslið né aðstöðu til þess að framkvæma líffræðilegar athuganir í sjó, svo sem um áhrif mengunar frá fiskeldi, en styðst við upplýsingar í því efni sem fengist hafa frá Hafrannsóknastofnun og öðrum innlendum og erlendum aðilum, enda eðlilegt að nota þá starfsemi sem fyrir hendi er í landinu til slíkra rannsókna.
    Hjá Siglingamálastofnun er fylgst með uppbyggingu og þróun þessarar atvinnugreinar hér á landi og hliðsjón höfð af þróun erlendis í þessum málum.
    Samgönguráðherra hefur nýlega skipað starfshóp á grundvelli laga nr. 32/1986, um varnir gegn mengun sjávar, til að gera tillögur um mælingar á mengunarefnum í sjó í þeim tilgangi að meta og fylgjast með hugsanlegum breytingum. Í samræmi við ákvæði þessara laga er samgönguráðherra heimilt að setja sérstakar reglur um fiskeldisstöðvar, ef og þegar þess gerist þörf.