Ferill 77. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 77 . mál.


Sþ.

473. Skýrsla



forsætisráðherra um starfsemi Þróunarfélags Íslands hf., samkvæmt beiðni.

INNGANGUR
    Vegna beiðni ellefu alþingismanna á þskj. 79 sneri ráðuneytið sér til Þróunarfélagsins og óskaði eftir því að félagið tæki saman skýrslu um starfsemina með hliðsjón af þeim spurningum sem fram koma á þingskjalinu. Svör Þróunarfélagsins fylgja hér á eftir:
    Vísað er til bréfs ráðuneytisins 9. nóvember sl. þess efnis að gerð sé grein fyrir starfsemi Þróunarfélags Íslands hf. Erindið er í samræmi við beiðni sem fram hefur komið á Alþingi, með vísan til 30. gr. laga um þingsköp.
    Þróunarfélagið fagnar áhuga alþingismanna á starfi þess og er ljúft að veita eftirfarandi upplýsingar.
    Vegna þriðju spurningar fyrirspyrjenda um lántöku viðskiptavina félagsins er í upphafi rétt að leggja ríka áherslu á að Þróunarfélagið er sjálfstætt hlutafélag í eigu fjölmargra aðila og gætir fyllsta trúnaðar gagnvart viðskiptamönnum sínum. Samkvæmt venju hafa einstök viðskipti, lánveitingar eða hlutabréfakaup ekki verið rædd á aðalfundum félagsins né greint frá þeim utan stjórnar, nema að fengnu samþykki hlutaðeigandi. Stjórn Þróunarfélagsins hefur sett sér mjög stífar starfsreglur til þess að tryggja fyllsta trúnað annars vegar um þau mál sem reifuð eru við félagið og hins vegar við þá aðila sem til þess leita. Til nánari glöggvunar fylgja starfsreglur stjórnar hér með.
    Vegna þessa trúnaðar við viðskiptamenn Þróunarfélagsins verður fjallað sameiginlega um annan og þriðja lið fyrirspurnarinnar og almennt gerð grein fyrir stöðu mála án þess að nefna þau fyrirtæki og einstaklinga er í hlut eiga.
    Þess er vænst að hæstvirtir alþingismenn skilji framangreind sjónarmið og þau rök sem að baki liggja, þ.e. að ekki er hægt að opinbera með þeim hætti, sem farið er fram á, einkamál fyrirtækja og einstaklinga.

1. Síðustu ársreikningar Þróunarfélagsins.


    Eiginfjárstaða Þróunarfélags Íslands er traust. Í upphafi nam hlutafjáráskrift 345 milljónum króna er greiðast skyldu á fjórum árum. Um
síðustu áramót var enn útistandandi síðasti hluti hlutafjárloforða eða um 86 milljónir króna.
    Samkvæmt síðasta ársreikningi nam eigið fé Þróunarfélagsins 316 milljónum króna. Að meðtöldu áðurnefndu 86 milljóna króna hlutafé, sem kom til greiðslu 1. október sl., er eigið fé félagsins því 402 milljónir króna.
    Eignir félagsins námu 436 milljónum króna samkvæmt síðasta ársreikningi og skuldir 120 milljónum króna. Að meðtöldu síðasta hlutafjárloforðinu eru eignirnar nú 522 milljónir króna. Félagið var rekið með hagnaði á síðasta ári. Eignir félagsins eru lausafé, skuldabréf, hlutabréf og fasteign. Lausafé er varðveitt í þeim bönkum sem eru hluthafar í félaginu. Erlend endurlán eru varðveitt í Seðlabanka Íslands. Hluti af eign félagsins er varðveittur til skemmri tíma í öruggum verðbréfum og í hlutabréfum í nýsköpunarfyrirtækjum.
    Félagið starfar í eigin húsnæði og nemur verðmæti þeirrar fasteignar rúmum 3% af framangreindri eign.

2. Um nýsköpun í íslensku atvinnulífi.


    Tilgangur með stofnun Þróunarfélags Íslands var að renna styrkari stoðum undir nýjungar í atvinnulífi landsmanna. Í gegnum félagið gæti hið opinbera, fyrirtæki og einstaklingar lagt sitt af mörkum til hátækniiðnaðar, hugbúnaðargerðar, líftækni og rafeindaiðnaðar, svo eitthvað sé nefnt af þeim greinum sem augun beindust að. Samkvæmt samþykktum um félagið var því einnig ætlað að styðja og stuðla að þróun atvinnulífsins með aðstoð við sameiningu fyrirtækja, kaupum á skuldabréfum þeirra og almennt að efla arðsama starfsemi.
    Löggjafinn vildi leggja sitt af mörkum og var ætlunin að félagið fengi heimildir á lánsfjárlögum til endurlánastarfsemi er sinnti nýjum „heimilislausum“ atvinnugreinum. Í þessu skyni var m.a. veitt heimild í lögum til þess að ríkissjóður ábyrgðist lántöku að jafnvirði allt að 500 milljónir króna í erlendri mynt er félagið tæki að láni til starfsemi sinnar. Félagið hefur enn ekki nýtt sér þessa ábyrgð og vonast til að svo þurfi ekki að verða. Hins vegar varð félagið fyrir því að stjórnvöld skáru niður lántökuheimildir þegar á fyrsta starfsári. Í upphafi var gert ráð fyrir að félagið hefði heimild til að endurlána 200 milljónir króna á ári en árið 1987 var veitt heimild til endurlána að upphæð 100 milljónum króna og árið 1988 var heimildin lækkuð í 25 milljónir króna. Eins og vænta má hefur þessi niðurskurður takmarkað starf félagsins undanfarið. Því verður þó ekki haldið fram að nýsköpun atvinnulífs hafi liðið fyrir. Vilji einstaklinga og fyrirtækja til þess að leggja fram fé og fyrirhöfn í þróun nýrra hugmynda er mun meiri á
samdráttartímum en í góðæri, sbr. að áhugi á nýjungum var mikill og nýsköpun í kringum stofnun Þróunarfélagsins árið 1985 og á fyrri hluta árs 1986. Í góðærinu 1987 fór áhuginn dvínandi, en þegar haustaði í íslensku efnahagslífi 1988 og alvarlegs samdráttar tók að gæta kviknaði áhuginn að nýju. Íslenskt athafnalíf er að þessu leyti frábrugðið því sem gerist hjá nágrönnum okkar þar sem afrakstur góðra ára er nýttur til að stunda rannsóknir og þróunarstarf.
    Eins og áður hefur komið fram var sjónum mjög beint að vaxtarbroddum í hátækniiðnaði þegar Þróunarfélagið tók til starfa. Reynsla félagsins af slíkum verkefnum er sú að þau taka lengri tíma en áætlað er í upphafi, þau er fjárfrekari en gert er ráð fyrir og hættan á mistökum við framgang verkefna er margfalt meiri en í öðrum atvinnugreinum. Forsvarsmenn Þróunarfélagsins hafa því lagt áherslu á að vanda vel valið á verkefnum þessarar tegundar. Mörgum erindum er synjað og margir verða því frá að hverfa án þess að hafa hlotið þá afgreiðslu sem þeim þótti hæfa.
    Í Noregi er reynslan sú að áhættufjármagnsfyrirtæki reyndust ekki nógu gagnrýnin á þau verkefni sem að þeim var haldið. Afleiðing slíkra vinnubragða er í stuttu máli að tap vegna gjaldþrota norskra áhættufjármagnsfyrirtækja undanfarin tvö ár nemur um hálfum milljarði norskra króna eða hálfum fjórða milljarði íslenskra króna. Um þessar mundir er áhugi á fjármögnun í hátækniiðnaði þar í landi hverfandi. Frá Danmörku er einnig sömu sögu að segja. Að mati Þróunarfélagsins ber því að forðast lítt grundaðar aðferðir sem þessar við uppbyggingu íslensks nýiðnaðar.
    Hér á eftir verður gerð grein fyrir helstu tegundum verkefna sem Þróunarfélagið hefur fengist við þann tíma sem liðinn er frá stofnun þess og þeim fjármunum sem í þeim eru bundnir.

HUGBÚNAÐUR
    Öll verkefni tengd hugbúnaði — utan eitt — hafa hlotið jákvæðar undirtektir hjá Þróunarfélaginu. Flest tengjast verkefnin framleiðslu og sölu hugbúnaðar á erlendri grund. Enn sem komið er hefur markaðssetning gengið almennt nokkuð hægar en gert var ráð fyrir þótt á því séu undantekningar.
    Félagið hefur lánað án veða til framleiðslu hugbúnaðar er nefnist „Brain Stat“ og er ætlaður fyrir „neurophysological“ sérfræðinga. Hugbúnaðurinn er afrakstur af samstarfi læknis og kerfisfræðings og gerir hann kleift að setja heilalínurit fram á myndrænan hátt. Með þeim hætti reynist læknum auðveldara að lesa úr heilalínuriti sjúklings. Viðtökur erlendis við þessum hugbúnaði lofa góðu.
    Þróunarfélagið er stærsti hluthafi í fyrirtækinu Tölvusamskipti hf., með 39,2% hlutafjár. Á vegum Tölvusamkipta hf. hefur verið þróaður og seldur með góðum árangri sérstakur hugbúnaður til að auðvelda tengingu milli tölva og ýmiss konar tækja, t.d. telex-tækja eða telefax-tækja. Einnig hefur hugbúnaðurinn verið notaður til að tengja saman tölvu og tæki til krabbameinsleitar í brjóstum og til að tengja saman tölvu og skilvindu fyrir blóðsýni. Miklar vonir eru bundnar við sölu þessa hugbúnaðar til heilbrigðisstofnana heima og erlendis. Einnig standa yfir samningaumleitanir við stórt erlent símafyrirtæki og er niðurstöðu að vænta í byrjun árs 1989.
    Umsvifamesta verkefni Þróunarfélagsins á sviði hugbúnaðar er undirbúningur að stofnun fyrirtækis er sæi um viðhald og þróun á hugbúnaði fyrir IADS-ratsjárkerfið. Verkefnið er unnið í samvinnu við utanríkisráðherra, utanríkisráðuneytið og Félag íslenskra iðnrekenda. Þess er vænst að fyrirtækið verði öflugur stuðningur við íslenska hugbúnaðargerð í framtíðinni enda við það miðað að þróun og þjónusta við hugbúnaðinn verði keypt frá fjölmörgum smáum og stórum íslenskum hugbúnaðarfyrirtækjum. Unnið var að þessum undirbúningi allt síðastliðið ár og sér nú fyrir endann á því starfi.
    Að meðtöldum þeim fjármunum, sem Þróunarfélagið áætlar að leggja í síðasttalda fyrirtækið, eru um 20 milljónir króna í verkefnum til hugbúnaðar.

LÍFTÆKNI
    Félagið er með rúmar 30 m.kr. bundnar í líftækniverkefnum. Að stærstum hluta er um að ræða verkefni sem byggist á framleiðslu hormónalyfja úr hryssublóði.
    Verkefnið gengur hægar en áætlað var þótt tekist hafi að leysa öll tæknileg vandamál. Hingað til hefur lyfið verið selt til landa utan EB og Bandaríkjanna. Hins vegar hefur reynst bæði erfitt og tímafrekt að fá nýtt lyf skráð og samþykkt í löndum Efnahagsbandalagsins. Af fenginni reynslu tekur slík lyfjaskráning tvö til þrjú ár hjá ríkjum bandalagsins og virðist lyfjaeftirlit í Bandaríkunum álíka þungt í vöfum.
    Önnur líftækniverkefni, sem Þróunarfélagið hefur komið að, eru ekki jafnlangt á veg komin og hið fyrsta. Af þeim mætti í fyrsta lagi nefna athugun á samvinnu við fyrirtæki í Ástralíu um framleiðslu lífræns áburðar úr fiskúrgangi hér á landi. Það verkefni hefur ekki skilað árangri þar sem sú vinnsluaðferð, sem beita skyldi, var ekki samkeppnisfær um hráefniskaup við fiskimjölsverksmiðjur. Í annan stað tók félagið þátt í athugun á markaðssetningu ensíma til nota við fiskvinnslu. Þá stendur yfir með aðild
Þróunarfélagsins könnun á hugsanlegri nýtingu þeirra efna er falla til hjá mjólkurbúum og er nú hent. Loks hefur Þróunarfélagið í samvinnu við sænskt fyrirtæki kannað möguleika á framleiðslu og sölu á ensímum úr ákveðnum efnum sem finnast hér á landi. Áætlað er að þróunarstarf og rannsóknir varðandi síðasttalda verkefnið taki sjö ár áður en úr því fæst skorið hvort eða hversu vænleg umrædd ensím eru til framleiðslu.
    Sé litið á íslensk líftækniverkefni í heild eru mörg þeirra áhugaverð en enn munu líða nokkur ár þar til ljóst verður hversu ábatasöm þau eru. Rannsóknasjóður Rannsóknaráðs, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, Iðntæknistofnun og Háskóli Íslands vinna að fjölmörgum verkefnum á sviði líftækni og því þykir eðlilegt að þeir aðilar sinni þeim þætti málsins er lýtur að þróunarstarfi. Þegar kemur að markaðssetningu framleiðslunnar og að færa hana í söluhæfan búning kemur til kasta Þróunarfélagsins, enda krefjast þeir þættir síst minni fjármuna en rannsókna- og tilraunavinnan.
    Af þessu tilefni er rétt að ítreka að nokkuð skortir á að löggjafinn hafi lagt nógu skýrar línur um hvorra séu réttindin — vísindamanna eða opinberra aðila — að selja uppfinningar og rannsóknir sem unnar hafa verið á vegum þess opinbera. Meðan sú réttarstaða er óljós er erfitt fyrir fjármögnunarfyrirtæki að taka þátt í verkefni þar sem ágreiningur ríkir um hvor eigi afraksturinn af árangursríku rannsóknastarfi, hið opinbera eða vísindamaðurinn. Er það vinsamleg ábending til löggjafans að sett verði skýrari fyrirmæli í lög varðandi þetta efni.

RAFEINDATÆKNI
    Þróunarfélagið er með um 32 milljónir króna í verkefnum er teljast til raftækni. Það er stærsti hluthafi í rafeindafyrirtækinu Marel hf. með 38% hlutafjár eða um 20 milljónir króna. Aðrir helstu hluthafar eru Hagvirki hf. og Samvinnusjóður Íslands hf. Fyrirtækið hannar, framleiðir og selur ýmiss konar rafeindatækni fyrir sjávarútveg og útflutningur þess nemur rúmum 100 milljónum króna á árinu 1988. Marel rekur öflugt markaðsstarf í Kanada og Bandaríkjunum auk þess sinnir það sölumálum annarra íslenskra fyrirtækja samkvæmt sérstöku samkomulagi. Þá selur fyrirtækið vörur sínar til fjölmargra annarra landa, svo sem Grænlands, Færeyja, Noregs, Danmerkur, Frakklands, Spánar og Ástralíu.
    Þróunarfélagið hefur mikinn áhuga á því að vinna að sameiningu fyrirtækja er framleiða og selja sérhæfðan búnað fyrir sjávarútveg. Í samvinnu við Félag
íslenskra iðnrekenda hefur verið unnið nokkuð að samningaumleitunum til að gera slíka sameiningu mögulega.
    Í samanburði við íslenska líftækni er raftæknin burðugri, þar eru fleiri hugmyndir og þær komnar lengra á veg. Aðstæður hér á landi eru þó erfiðar, ætli fyrirtæki að framleiða til útflutnings og er skýringarinnar ekki síst að leita í óhagstæðri gengisskráningu.
    Fleiri raftækniverkefni eru í athugun hjá Þróunarfélaginu. Ekki reynist þó unnt að greina frá þeim vegna trúnaðar við þá er hugmyndirnar eiga.

UPPFINNINGAMENN
    Því hefur stundum verið haldið fram að hér á landi sé mikið af snjöllum uppfinningum og einungis vanti fé til þess að gera uppfinningar þessar að söluhæfri vöru. Því miður er það ekki reynsla félagsins.
    Að vísu hafa fjölmargir viðrað hugmyndir og uppfinningar sínar við Þróunarfélagið og óskað eftir fjármagni. Við nánari athugun hefur þó allt of oft komið í ljós að viðkomandi er að leysa sitt eigið áhugamál fremur en að lausnin miðist við að uppfylla þörf annarra, þ.e. að uppfinningin lúti þörfum markaðarins.
    Þegar um raunhæfar hugmyndir er að ræða hefur það verklag komist á að styrkir til frumvinnu koma frá Rannsóknasjóði Rannsóknaráðs, Iðntæknistofnun veitir hugmyndasmiðum aðstöðu til þess að vinna að hugmyndinni og Þróunarfélagið kemur síðan að málinu á síðari stigum, þ.e. við gerð „prototypu“ og með áhættufé þegar kemur að markaðssetningu. Með þessum aðilum hefur þegar tekist ágætt samstarf um að kosta gerð lifrarskilju sem uppfinningamaðurinn Jakob Sigurbjörnsson hefur unnið að. Lifraskiljan er vél sem ætlað er að slíta slóg frá lifur svo auðveldara verði að nýta lifur, ekki hvað síst um borð í fiskiskipum. Rannsóknasjóður veitti Jakobi styrk út á frumhugmyndina. Eftir að teikningar lágu fyrir gerðist Þróunarfélagið 40% eignaraðili og samið var við Iðntæknistofnun um að hugmyndasmiðurinn fengi þar aðstöðu til þess að vinna áfram að málinu.
    Þá hefur félagið gert tilboð í áhættulán til aðila sem hyggjast framleiða og selja sérstakar öryggislæsingar.
    Af öðrum hugmyndum sem komið hafa á borð félagsins má nefna: Daihatsu-bíl sem á að geta flogið, sérstakan þaksaum, gervibeitu, neyðarbauju, sérstakt ljósaskilti við gangbrautir, töflur til að hjálpa reykingamönnum að hætta reykingum, fjórar eða fimm mismunandi útfærslur af beitingarvél o.fl.
    Af ofantöldu má ljóst vera að ekki eru allar nýjungar hagnýtar sem berast til Þróunarfélagsins. Stefna félagsins hefur þó verið sú að dyr þess standi öllum opnar sem vilja viðra nýjar hugmyndir. En það er hins vegar ljóst að meginþorri þessara hugmynda eru ekki þess eðlis að það sé hagkvæmt fyrir félagið að verja til þeirra fé.

FISKELDI
    Þróunarfélagið kemur að fiskeldi með margvíslegum hætti. Félagið veitir ekki almenn stofnlán til fiskeldis, enda þeim lánaflokki þegar sinnt af Framkvæmdasjóði. Undantekning er þó 42 m.kr. lán til fyrirtækis sem á hagkvæman hátt gat stóraukið eldi sitt með því að bæta við sjókvíum.
    Félagið hefur veitt ábyrgðir gagnvart Fiskveiðasjóði vegna lántöku sem fiskeldisfyrirtæki á Norðausturlandi tók hjá Norræna fjárfestingarbankanum í Helsingfors með bakábyrgð Fiskveiðasjóðs.
    Félagið var stofnaðili að fyrirtækinu Silfurbergi hf., en það félag hefur fjárfest umtalsvert í fiskeldi. Má þar nefna hlut í Silfurlaxi í Ölfusi. Hlutafélagið Silfurgen var stofnað með það í huga að starfa sem kynbótastöð sem selt gæti öðrum seiðaeldisstöðvum hrogn frá laxastofni sem hentaði vel til eldis.
    Í framtíðinni er einnig vonast til þess að á vegum Silfurgens megi takast að framleiða laxahrogn sem séu þeim eiginleikum búin að fiskur, sem af þeim vex, verði „steril“ eða „kynlaus“. Slíkur fiskur hentar mjög vel til eldis því þegar fiskur verður kynþroska minnkar vaxtarhraðinn. Ekki er hætta á blöndun við aðra laxastofna þó slíkur fiskur sleppi úr eldi.
    Samkvæmt áætlunum mun fyrirtækið einnig vinna að rannsóknum og tilraunum til genaflutnings milli fiska. Markmiðið er að unnt verði að framleiða eldislax sem þolir eldi í sjó sem fer niður fyrir 0 gráður á Celsíus. Ef þau áform takast mun það hafa í för með sér að hægt verður að ala fisk í eldiskvíum í kring um landið allt.
    Að síðustu má nefna tilraunir, sem stefnt er að að hefjist í náinni framtíð, til þess að merkja fisk með líffræðilegum hætti. Hugsunin er að hafbeitarstöðvar geti fengið keypt hrogn sem verði að fiski sem hafi merki eða blett t.d. á sporði eða uggum. Með þessum aðferðum má leysa deilur sem upp kynnu að koma um eign á hafbeitarlaxi frá stöðvum sem eru í nálægð hver við aðra.

FÓÐURKAUPALÁN Í FISKELDI
    Í stað þess að veita stofnlán til fiskeldis ákvað félagið að aðstoða fiskeldi sem nýja atvinnugrein með þeim hætti að veita eldisstöðvum lán til kaupa á fóðri fyrir fiskinn. Viðskiptabankar fiskeldisfyrirtækja veita rekstrarlán sem almennt nemur um 37,5% af tryggingarverðmæti fisksins (um 50% rekstrarkostnaðar). Fiskeldisfyrirtækin hafa almennt ekki eigið fé til þess að brúa þann mismun sem þannig skapast og ekki veð til þess að fá frekari lánafyrirgreiðslu úr bankakerfinu.
    Þessi rekstrarfjárskortur eldisfyrirtækja kom ekki síst illa við þau fyrirtæki er framleiða fóður fyrir fiskeldi.
    Þróunarfélagið hefur í góðri samvinnu við fóðurframleiðendur byggt upp lánaflokk til þess að fjármagna fóðurkaup. Lánin nema um 20% af tryggingarverðmæti. Lánað er út á fisk sem orðinn er 500 grömm eða stærri og fiskurinn alinn í 2,5 til 3 kílógrömm, en það tekur um níu mánuði. Lánin eru veitt án veða. Gerður er samningur við viðskiptabanka um að þeir haldi eftir tilteknum hundraðshluta af söluverði við útflutning til að endurgreiða lánið. Þar sem hér er um allmikla áhættu að ræða ákvað stjórn félagsins að verja í upphafi fjárhæð sem færi ekki yfir 30% af eigin fé félagsins.
    Til þess að fjármagna þennan lánaflokk tók félagið að láni 120 milljónir króna í erlendri mynt með milligöngu Landsbanka Íslands. Lán þetta er allmiklu dýrara en ef félagið hefði fengið aðgang að afurðalánakvóta bankanna. Þann mismun bera fiskeldisfyrirtæki nú.
    Félagið hefur fengið vilyrði fyrir því að aðild að afurðalánakvótanum komi til endurskoðunar síðar, enda liggur nú fyrir úrskurður fjármálaráðuneytisins frá 17. ágúst sl. þess efnis að lán þessi séu hliðstæð afurðalánum, sbr. 1. tölul. 3. mgr. 19. gr. laga nr. 10/1988.
    Félagið hefur þegar hafið afgreiðslu þessara lána og hafa flestar stærri strandeldisstöðvar auk eins fyrirtækis með sjókvíaeldi þegar gert samning við Þróunarfélagið um slík fóðurkaupalán. Rétt er þó að geta þess að enn er óleystur rekstrarfjárvandi seiðaeldisstöðva og fjármögnun þess rekstrarkostnaðar sem því fylgir að ala seiði upp í 500 gramma þyngd. Þróunarfélagið hefur nú yfir að ráða afurðalánakerfi til að annast viðbótarlán til fiskeldisins en ekki verða að sinni settir meiri fjármunir í þann málaflokk, nema til komi tryggingar fyrir a.m.k. hluta af hverju láni.

VERKEFNAÚTFLUTNINGUR
    Stærsta verkefni félagsins til þessa er fjármögnun tveggja tilboða íslenskra aðila í smíði og uppsetningu frystihúsa ásamt búnaði í Grænlandi.
    Verkefnaútflutningsfyrirtækið Icecon hf., sem er samstarfsverkefni SH, SÍS og SÍF, hefur náð stórum samningum um sölu á búnaði í frysti- og fiskverkunarhús. Icecon hf. semur í eigin nafni við hina erlendu aðila en gerir síðan verksamninga um smíði og uppsetningu tækja og búnaðar við íslensk iðnfyrirtæki. Til þess að vera samkeppnisfær við erlenda mótbjóðendur þurfa íslensku fyrirtækin að fjármagna verkið að stærstum hluta meðan á smíðinni stendur. Þróunarfélagið og Icecon hf. gerðu samning um að félagið lánaði fé til þess að fjármagna verkið á smíðatímanum þannig að unnt væri að greiða til íslensku iðnfyrirtækjanna eftir því sem verkinu miðaði.
    Á árinu 1987 voru lánaðar 40 m.kr. til slíks útflutnings. Var það lán að fullu endurgreitt fyrri hluta þessa árs. Á miðju þessu ári lánaði félagið 220 milljónir króna til þess að fjármagna stór verkefni sem lokið verður við á árinu 1989. Lán þessi eru án veða en útflutningsábyrgðadeild Iðnlánasjóðs ábyrgist hluta lánsins gagnvart félaginu.
    Eftir því sem tækifæri gefast mun félagið halda áfram að lána til útflutnings á tækjum og búnaði fyrir sjávarútveg. Sá útflutningur lofar góðu og hefur hann vaxið úr 6 milljónum dollara í 18 milljónir á tímabilinu 1985 til 1987. Virðist ljóst að Þróunarfélagið hafi þar stóru hlutverki að gegna þar sem hefðbundnar íslenskar banka- og lánastofnanir geta ekki, eðli máls samkvæmt, lánað fé til slíks útflutnings án tilskilinna veða.

MARKAÐSSETNING ÍSLENSKRAR VÖRU ERLENDIS
    Félagið beitti sér fyrir stofnun verslunarhúss í Hamborg sem tók til starfa í september sl. Verslunarhúsið, sem rekið er á hreinum viðskiptalegum grundvelli, á að selja íslenskar vörur á meginlandi Evrópu og stunda önnur milliríkjaviðskipti. Verslunarhúsið mun m.a. kaupa vörur af íslenskum framleiðendum fyrir eigin reikning og endurselja.
    Eiginleg hugmynd að stofnun verslunarhúss er ekki ný af nálinni. Nær allur útflutningur Japans fer í gegnum verslunarhús í fjarlægum löndum. Með rekstri slíks verslunarhúss erlendis er ætlunin að greina betur þarfir á viðkomandi mörkuðum og flytja þær upplýsingar til framleiðenda hér á landi.
    Þróunarfélagið á jafnan hluta, 3,8 milljónir króna, í verslunarhúsinu á móti vöruþróunar- og markaðsdeild Iðnlánasjóðs.
    Af öðrum verkefnum tengdum markaðssetningu erlendis má nefna að félagið hefur lánað fé, um 2,5 milljónir króna, til þess að markaðssetja nýjar sjávarafurðir erlendis, svo sem ígulker. Þá hefur fyrirtækið gengist í ábyrgð fyrir íslenska aðila sem eru að kaupa þýska framleiðslu og dreifingarfyrirtæki fyrir fisk. Upphæð ábyrgðarinnar nemur um 8 milljónum króna.

TÆKNIGARÐUR HF.
    Félagið er stærsti einstakur hluthafi í Tæknigörðum hf., með 30% eignarhlut. Aðrir hluthafar eru Reykjavíkurborg, Háskóli Íslands, Tækniþróun, Iðntæknistofnun og Félag íslenskra iðnrekenda. Fyrirtækinu er ætlað að leigja húsnæði og þjónustu til einstaklinga og fyrirtækja sem vilja þróa nýjar hugmyndir.
    Nú er lokið við að fullgera 2600 fermetra húsnæði Tæknigarða á lóð Háskólans. Kostnaður við bygginguna nemur um 125 milljónum króna. Reykjavíkurborg og Iðnlánasjóður hafa lánað fé til byggingarinnar. Vonast er til að sambúðin við Háskólann verði til styrktar bæði atvinnulífi og skóla.

FERÐAMÁL
    Árið 1987 gerðist Þróunarfélagið hluthafi í hótel Bæ hf. á Kirkjubæjarklaustri, með 41% hlutafjár eða 5 milljónum króna. Markmiðið var að aðstoða við uppbyggingu aukins gistirýmis á Klaustri en skortur á því hamlaði ferðum stærri hópa milli Austur- og Vesturlands. Enn fremur var tilgangurinn sá að sýna fram á að reisa mætti hótel og koma upp gistiaðstöðu með ódýrari hætti en tíðkast hefði til þessa.
    Smíðuð var gistiálma úr timbri með fjórtán góðum tveggja manna herbergjum á 90 dögum. Jafnframt lánaði Þróunarfélagið fé til byggingarinnar þegar ljóst varð að hótelið fengi ekki lán frá tilteknum sjóði sem gert hafði verið ráð fyrir þegar ráðist var í framkvæmdir.
    Félagið hefur nú selt helming af hlutafjáreign sinni í Bæ hf.
    Í samvinnu við Ferðaskrifstofu ríkisins og Ferðamálaráð kannaði Þróunarfélagið hvar væri sérstök þörf fyrir aukið gistirými á háferðamannatímanum og hvort slíkt mætti bæta með sama hætti og gert var á Klaustri. Sjónum var sérstakalega beint að Höfn í Hornafirði, Hallormsstað, Mývatnssvæði til og með Stórutjörnum og loks Breiðafjarðareyjum. Félagið lýsti sig þegar reiðubúið til að taka þátt í viðbyggingu við starfandi hótel en af því hefur enn ekki orðið.

FJÁRFESTINGAR- OG ÞRÓUNARFÉLÖG LANDSHLUTA
    Félagið varpaði fram þeirri hugmynd á síðastliðnu ári að stofnað yrði eitt fjárfestingar- og þróunarfélag í sérhverju kjördæmi utan Reykjavíkur. Jafnframt lýsti félagið því yfir að það mundi kaupa allt að 20% hlutafjár í hverju félagi og veita félögum þessum þjónustu og lán er næmi allt að fjórföldu nafnverði enda gæfi Alþingi heimild til slíkrar lántöku erlendis.
    Félagið réð Lárus Jónsson, fyrrverandi alþingismann, til þess að kynna hugmynd þessa um land allt. Henni var alls staðar mjög vel tekið og virtist það samdóma álit landsbyggðarmanna að hagur væri að því að færa ákvarðanatöku um lánveitingar í heimabyggð, en jafnframt að frekara frumkvæði yrði að koma frá heimamönnum ef félögin ættu að verða að veruleika.
    Iðnráðgjafar tóku málið upp og um tíma leit út fyrir að stofnuð yrðu félög í fimm kjördæmum landsins. Af ástæðum sem Þróunarfélaginu eru ekki ljósar hefur komið bakslag í málið þannig að ekkert félag hefur verið stofnað. Þróunarfélagið sendi í desember viðmælendum sínum í þessu máli bréf þar sem sú ákvörðun er kynnt að Þróunarfélagið hafi lagt mál þetta til hliðar að sinni, enda virðist tilraunin hafa mistekist.

SÉRSTAKUR LÁNAFLOKKUR FYRIR KONUR ER VILJA STOFNA FYRIRTÆKI
    Þróunarfélagið hefur kannað möguleika á því að setja upp lánaflokk sérstaklega ætlaðan til að aðstoða konur er vilja hefja sjálfstæðan atvinnurekstur. Ekki yrðu gerðar sömu kröfur um nýsköpun og í öðrum málum sem Þróunarfélagið tæki þátt í. Arðsemiskröfurnar yrðu hins vegar þær sömu. Félagið fékk aðstoð frá Small Business Administration í Washington DC til að skipuleggja þennan lánaflokk því að sú stofnun hefur einmitt slíkan lánaflokk á sinni verkefnaskrá.
    Rökin fyrir sérstökum lánum til kvenna er hefja vilja atvinnurekstur eru á þá lund að meðal kvenna séu margir frumkvöðlar sem enn eru ekki komnir fram í dagsljósið. Margar konur veigri sér við að hrinda í framkvæmd hugmyndum um eigin atvinnurekstur ef setja þarf eignir heimilisins að veði. Félag, eins og Þróunarfélag Íslands, sem má og ber að taka vissa áhættu, gæti gegnt ákveðnu áhættuhlutverki í þessu sambandi. Reyndar er reynslan sú í Bandaríkjunum síðustu ár að á móti hverju fyrirtæki sem karlmaður stofnar eru fimm fyrirtæki sett á laggirnar af konum.
    Áður en lánaflokknum var hleypt af stokkunum var hugmyndin borin undir hóp kvenna í atvinnulífinu. Það urðu félaginu mikil vonbrigði að hugmyndinni var algjörlega hafnað af þeim á þeirri forsendu að ekki væri æskilegt að greina
milli kynja með slíkum hætti. Í þessu ljósi var ákveðið að hrinda þessu lánakerfi ekki í framkvæmd að sinni.

ÖNNUR MÁL
    Sem fyrr segir er ekki unnt að telja upp einstakar lánveitingar. Eftirfarandi eru þó sýnishorn af málum er afgreidd eða samþykkt hafa verið og ekki verða flokkuð undir neinn framangreindra þátta:
–     Veiðar og vinnsla á kúfiski í Stykkishólmi.
–     Markaðssetning erlendis á íslensku vatni. Fyrirtækið er á Akureyri.
–     Veiðar og vinnsla á ígulkerum á Suðurnesjum.
–     Framleiðsla á blautfóðri fyrir fiskeldi úr íslensku hráefni í Hafnarfirði.
–     Pökkun og útflutningur á heilum humri í neytendapakkningar, unnið í Reykjavík.
–     Vinnsla úr laxfiski, ábyrgð á lánum nýstofnaðs fyrirtækis í Borgarnesi.
–     Söfnun og vinnsla á rekaviði á Langanesi.
–     Leirflísagerð í Bárðardal.
–     Lán til fyrirtækis á Norðurlandi er framleiðir vöru til útflutnings fyrir sjávarútveg.
–     Lán til innlendrar ölgerðar á Akureyri.
    Samtals nema þau lán, er hér eru upp talin, um 70 milljónum króna.

LOKAORÐ
    Stjórnendur félagsins hafa lagt á það ríka áherslu að fara vel með það fé sem þeim hefur verið trúað fyrir. Tíminn frá stofnun félagsins hefur, auk þess að sinna þeim verkefnum er að framan greinir, verið nýttur til þess að byggja upp innviði félagsins og móta starfsvenjur.
    Telja má fullvíst að þörf sé fyrir félag eins og Þróunarfélag Íslands hf. bæði til að vinsa úr á faglegan hátt þau mál sem ekki er grundvöllur til að ráðast í og til að vera afl er sé til staðar þegar góðar hugmyndir skjóta upp kollinum.
    Það er von stjórnenda félagsins að þær upplýsingar, er hér eru fram lagðar, veiti þingmönnum nokkra innsýn í það starf er fram fer á vegum Þróunarfélags Íslands hf.



Fylgiskjal.


Starfsreglur stjórnar Þróunarfélags Íslands hf.


1.     Stjórnarfundi skal boða með að minnsta kosti viku fyrirvara nema brýna nauðsyn beri til.
.    Stjórnarfund skal boða bréflega og fylgi dagskrá með. Geti stjórnarmaður ekki sótt fund ber honum að boða forföll strax.
2.     Stjórnarfundi skal halda svo oft sem þörf er, þó eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Skylt er að boða til stjórnarfundar ef einn stjórnarmanna eða fleiri krefjast þess.
3.     Varamenn skulu ekki boðaðir á stjórnarfund nema aðalmaður hafi boðað forföll.
4.     Stjórnarfundur telst löglegur ef rétt er til hans boðað og a.m.k. þrír stjórnarmenn sækja fundinn. Leggja skal fyrir stjórnarfund erindi sem berast félaginu og meiri háttar mál er varða innri starfsemi þess.
5.     Óski stjórnarmaður eftir frestun á afgreiðslu máls skal sú almenna regla gilda að frestað sé afgreiðslu til næsta fundar, enda sé a.m.k. vika milli funda.
6.     Fundargerðir skal rita í fundargerðabók á fundum og lesa þær upphátt í fundarlok. Þá skulu stjórnarmenn þeir sem fund sitja, sem og framkvæmdastjóri, undirrita fundargerð.
7.     Fundargerðabók skal varðveitt í húsakynnum félagsins og skal hún vera aðgengileg fyrir stjórnarmenn, varamenn í stjórn, framkvæmdastjóra og endurskoðanda félagsins. Afrit fundargerða skal sent stjórnarmönnum.
8.     Stjórnarmenn bindast þagnarskyldu um allt það er varðar framleiðslu- eða viðskiptahugmyndir og áform eða aðra hagi þeirra sem skipta við félagið, sem og um önnur atriði sem stjórnarmenn fá vitneskju um í störfum sínum fyrir félagið og leynt á að fara samkvæmt eðli máls. Þagnarskyldan helst þótt látið sé af stjórnarstarfi.
9.     Stjórnarmenn skuldbinda sig til að hagnýta sér hvorki í eigin þágu né í þágu annarra aðila utan félagsins vitneskju eða hugmyndir sem þeir fá aðgang að í störfum sínum fyrir Þróunarfélag Íslands hf. Gildir það bæði um upplýsingar sem utanaðkomandi aðilar hafa látið Þróunarfélaginu í té í trúnaði og um það sem unnið hefur verið af hálfu félagsins sjálfs.
10.     Stjórnarmaður skal ekki taka þátt í afgreiðslu máls ef hann telst vanhæfur samkvæmt almennum reglum, svo sem ef stjórnarmaður er eignaraðili að eða situr í stjórn fyrirtækis sem í hlut á, eða fyrir hendi eru önnur sambærileg viðskipta- og hagmunatengsl.
.    Stjórnarmaður getur með samþykki annarra stjórnarmanna tekið þátt í umfjöllun um mál þar sem hann telst annars vanhæfur skv. 1. mgr., en greina skal hann frá vanhæfni sinni til að taka þátt í afgreiðslu málsins þegar við upphaf umræðu.
11.     Í þeim tilvikum að um sérstaklega viðkvæm mál sé að ræða eða mál tengd miklum hagmunum einstaklinga eða félaga, sem telja ber að séu ekki á vitund nema mjög fárra manna, geta formaður og framkvæmdastjóri ákveðið að slík mál séu merkt sem „trúnaðarmál“ eða „algjört trúnaðarmál“, áður en þau eru lögð fyrir stjórnarfund. Mál sem merkt eru „trúnaðarmál“ skulu ekki rædd við aðra en stjórnarmenn og málsaðila. Sé mál merkt „algjört trúnaðarmál“ taka stjórnarmenn ekki með sér af stjórnarfundum eða úr húsakynnum félagsins þau gögn, sem lögð eru fram í málinu, né ræða málið við aðra en málsaðila. Einfaldur meiri hluti stjórnar getur ætíð ákveðið að mál, sem merkt eru með þessum hætti, skuli engu að síður sæta almennri málsmeðferð.
12.     Starfsreglum þessum verður einungis breytt með samþykki meiri hluta stjórnarmanna.