Ferill 148. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 148 . mál.


Sþ.

656. Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar H. Garðarssonar um tryggingafræðilega athugun á stöðu Lífeyrissjóðs

1. Hvenær var síðast gerð tryggingafræðileg úttekt á fjárhag


Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins eins og lög kveða á um


að gerð skuli á fimm ára fresti?



    Guðjóni Hansen tryggingafræðingi var falið að gera athugun á stöðu sjóðsins miðað við árslok 1978. Með skýrslu dagsettri 10. febrúar 1982 gerir hann grein fyrir athugun sinni. Meginniðurstaða hans var sú að með 2% raunávöxtun framvegis mundi höfuðstóll sjóðsins ásamt væntanlegum iðgjöldum standa undir um 28% reiknaðra skuldbindinga. Með 4% ávöxtun mundi sjóðurinn sjálfur geta staðið undir um 42% af skuldbindingum sínum. Það sem á vantar greiðist af ríkissjóði og öðrum launagreiðendum sem aðilar eru að sjóðnum.
    Stjórn lífeyrissjóðsins óskaði eftir því við Guðjón Hansen á árinu 1982 að hann gerði nýja athugun. Guðjón var ekki reiðubúinn til þess verks og taldi ekki rétt að ráðast þegar aftur í nýtt tryggingafræðilegt uppgjör. Enn fremur taldi hann að frumskilyrði þess að nýtt uppgjör reyndist gagnlegt væri skynsamlegri verkaskipting milli lífeyrissjóðsins og ríkissjóðs en sú sem kveðið er á um í 25. gr. laga um sjóðinn.
    Á árinu 1983 samþykkti stjórn sjóðsins að fela Jóni Erlingi Þorlákssyni tryggingafræðingi uppgjör á fjárhag sjóðsins miðað við árslok 1983.
    Á árunum 1983 til 1986 skilaði Jón Erlingur skýrslum um ýmsa þætti í starfsemi sjóðsins sem hann hafði athugað án þess að draga saman á einum stað heildarniðurstöðu.

2. Hver var niðurstaða síðustu úttektar?



    Niðurstaða Guðjóns Hansens var eins og að framan greinir að 60–70% af skuldbindingum lífeyrissjóðsins mundi lenda á ríkissjóði og öðrum atvinnurekendum sem í sjóðinn greiða. Niðurstaða Jóns Erlings Þorlákssonar um þetta atriði var hliðstæð. Að hans mati þyrftu iðgjöld til Lífeyrissjóðs starfsmanna ríkisins að vera um 25% launa í stað 10% eins og þau eru nú.
Samkvæmt því getur sjóðurinn staðið við um 40% af skuldbindingum en um 60% verða að koma frá öðrum.

3. Hafi slík úttekt ekki farið fram, hyggst fjármálaráðherra


þá beita sér fyrir því að hún verði framkvæmd?



    Stjórn lífeyrissjóðsins hefur ákveðið að láta fara fram úttekt á stöðu sjóðsins miðað við árslok 1988.

4. Hvert er mat ráðherra á skuldbindingum ríkissjóðs


vegna greiðslu verðbóta á lífeyri opinberra starfsmanna?



    Skuldbindingar ríkissjóðs vegna greiðslu verðbóta á lífeyri opinberra starfsmanna er aðeins lítill hluti þess vandamáls sem við er að eiga. Þær tölur sem að framan eru nefndar byggjast á mati á því hversu stóran hluta skuldbindinga sjóðsins sé hægt að standa við með iðgjöldum eins og þau eru nú og er þá miðað við tiltekna raunávöxtun á eigum sjóðsins. Sá munur, sem þar kemur fram, stafar því ekki af verðlagsþróun heldur því að lífeyrisréttindin sem sjóðurinn veitir eru hærri en sem nemur því sem iðgjöldin geta staðið undir. Þessi mismunur stafar af því annars vegar að ekki er samræmi á milli þeirra réttinda sem sjóðurinn veitir og þess iðgjaldahlutfalls sem krafist er í hann. Hins vegar eru óveruleg og lítil tengsl á milli þess iðgjalds sem greitt er vegna hvers og eins sjóðsfélaga og þeirra réttinda sem hann ávinnur sér.

5. Hversu stórt hlutfall lífeyrisgreiðslna Lífeyrissjóðs starfsmanna


ríkisins hefur verið greitt af ríkissjóði eða stofnunum og fyrirtækjum


ríkisins á tímabilinu 1981–1987 að báðum árum meðtöldum?



    Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir iðgjöld til lífeyrissjóðsins, greidda verðtryggingu atvinnurekenda og greiddan lífeyri á árunum 1981–1988. (Upphæðir í millj. kr.)


TAFLA — REPRÓ Í GUTENBERG