Ferill 360. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 360 . mál.


Nd.

667. Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um umboðsmann Alþingis, nr. 13/1987.

Flm.: Auður Eiríksdóttir.



1. gr.

    Við 11. gr. laganna bætist ný málsgrein svohljóðandi:
    Umboðsmanni ber að fylgjast með framkvæmd dómstóla á lögum og rétti í landinu. Skal hann veita viðtöku kvörtunum um meinta galla á rekstri og framkvæmd dómsmála, afla endurrita af þegar gerðum skjölum þar um, athuga þau og semja greinargerðir að því leyti sem hann telur ástæðu til.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Veigamesti þáttur í störfum Alþingis er löggjafarstarfið sjálft sem er ákaflega margþætt og umfangsmikið. En hver er reynslan af löggjafarstarfinu? Því er vandsvarað þar sem ekki hafa verið gerðar sérstakar kannanir á því, nema ef til vill í einstökum tilvikum. Það er eftirtektarvert nú á dögum víðtækra og tíðra kannana á flestum sviðum. Mætti af þessu ráða að áhrif lagasetningar væru lítil, en svo er ekki. Löggjafarstarfið er vafalaust einn af veigamestu þáttum í þróun þjóðlífsins. Það er því ákaflega brýnt að fylgjast vel með framkvæmd laga og réttar í landinu og að Alþingi eigi greiðan aðgang að áreiðanlegum og vel unnum gögnum þar um.
    Með lögunum um umboðsmann Alþingis, nr. 13/1987, sem samþykkt voru 9. mars 1987, er kveðið á um að umboðsmaðurinn skuli hafa eftirlit með stjórnsýslu ríkis og sveitarfélaga og leitast við að tryggja rétt borgaranna gagnvart stjórnvöldum landsins. Stutt reynsla af starfi umboðsmanns Alþingis sýnir að hér var um þarfa stofnun að ræða og er ástæða til að vænta mikils af störfum hennar á þessum vettvangi. En hinu má ekki gleyma að höfuðvörn borgaranna, gagnvart óréttmætum kröfum og aðgerðum stjórnvalda sem annarra, eru dómstólar landsins. Hljóta störf þeirra að skipta mestu um öryggi og velferð borgaranna
auk þess sem þeir hafa í höndum mótun og beitingu hins eiginlega löggjafarvalds ef álitaefni koma upp eða menn vilja láta reyna á gildi laga.
    Frumvarp þetta miðar að því að umboðsmaður Alþingis fylgist með almennri framkvæmd laga og réttar í landinu, m.a. með því að taka við kvörtunum um meinta galla á rekstri mála fyrir dómstólum landsins. Skal hann safna endurritum af þegar gerðum skjölum, sem varða meintar gallaðar aðgerðir, kanna það sem stofnunin telur ástæðu til og semja greinargerðir þar um. Áhersla skal lögð á sjálfstæði dómstólanna við afgreiðslu mála og að starfsmenn þeirra sæti ekki nokkrum afskiptum eða athugasemdum umboðsmanns Alþingis öðrum en þeim sem fylgja því að fá endurrit skjala afhent og greinargerð um mál sem beint er til Alþingis sjálfs. Hitt er einnig ljóst að Alþingi, sem er svo ráðandi um lög og rétt í landinu, ber að setja lög um störf dómstóla í landinu, fylgjast með því hvernig til tekst um framkvæmd þeirra laga og breyta lögum ef ástæða þykir til. Eins og áður segir miðar frumvarpið að því að Alþingi afli traustra og vandaðra gagna þar um með lágmarkstilkostnaði. En vafalaust er ástæða til að gera fleiri ráðstafanir til að kanna árangur af löggjafarstarfinu.



Prentað upp.