Ferill 419. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 419 . mál.


Ed.

779. Frumvarp til lagaum heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpkunarfélaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)1. gr.

    Samgönguráðherra skal heimilt að leyfa Köfunarstöðinni hf. innflutning á flotpramma, þó eldri sé en 12 ára, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 51/1987, um eftirlit með skipum.

2. gr.

    Samgönguráðherra skal heimilt að leyfa Dýpkunarfélaginu hf., innflutning á dýpkunarpramma, þó eldri sé en 12 ára, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 51/1987, um eftirlit með skipum.

3. gr.

    Samgönguráðherra skal heimilt að leyfa Slysavarnafélagi Íslands innflutning á björgunarskipi, þó eldra sé en 12 ára, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 51/1987, um eftirlit með skipum.

4. gr.

    Samgönguráðherra skal heimilt að leyfa Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á fiskiskipi/verksmiðjumóðurskipi, þó eldra sé en 12 ára, sbr. 2. mgr. 21. gr. laga nr. 51/1987, um eftirlit með skipum.
    Samgönguráðherra skal jafnframt heimilt að veita Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. undanþágu frá ákvæðum 1. gr. laga nr. 115/1985, um skráningu skipa, vegna íslenskrar skáningar á tveimur fiskiskipum/verksmiðujumóðurskipum sem félagið tekur á leigu.
    Skipum, sem skráð verða samkvæmt heimild í 1. og 2. mgr., er óheimilt að stunda fiskveiðar eða vinnslu sjávarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu.

5. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Með lagafrumvarpi þessu er lagt til að þeim aðilum, sem upp eru taldir í 1.–4. gr., verði heimilað að flytja inn skip, þó þau séu eldri en 12 ára. Samkvæmt 21. gr laga um eftirlit með skipum, nr. 51/1987, er óheimilt að flytja inn skip sem eru eldri en 12 ára. Engin undanþáguheimild er í lögunum frá ákvæðinu og þarfnast innflutningur skipa eldri en 12 ára og skráning þeirra hér á landi því sérstakrar lagaheimildar. Enda þótt gild rök séu fyrir téðu aldurshámarki og almennt ekki æskilegt að eldri skip séu flutt hingað til lands getur verið réttlætanlegt að víkja frá því í sérstökum tilvikum, t.d. vegna skipa sérstakrar gerðar eða skipa sem nota á í ákveðin afmörkuð verkefni. Fordæmi eru fyrir því að leyfa innflutning á skipi eldra en 12 ára þegar sérstaklega stendur á, t.d. lög nr. 4/1977, um heimild fyrir ríkisstjórnina til að leyfa Olíumöl hf. innflutning á olíupramma.
    Forsenda þess að heimildir samkvæmt frumvarpinu verði notaðar er sú að skipin fullnægi í einu og öllu íslenskum lögum og reglum um styrkleika, búnað og haffæri og hafi sem slík hlotið samþykki Siglingamálastofnunar ríkisins.


Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Flotpramminn Dagur var smíðaður árið 1964, en var fluttur hingað til lands árið 1979 frá Danmörku. Köfunarstöðin hf. hefur notað hann undanfarin ár vinnu hér við land, fyrst og fremst innan hafna eða við mannvirkjagerð með ströndum. Félagið hefur tekið að sér umfangsmikil verkefni og til að mynda unnið mikið fyrir Reykjavíkurhöfn. Við hafnargerð og rekstur hafna er oft þörf á sérhæfðum tækjum og vinnuvélum, t.d. við dýpkun innsiglinga og hafnarsvæða, efnisskipti á sjávarbotni, gerð hafnarmannvirkja og lyftingu og flutning þungra hluta yfir sjó. Tilvist hentugra tækja ræður því miklu við gerð mannvirkja og er æskilegt að til séu hérlendis fjölhæf vinnutæki sem nota má til margra verka.
    Í umsögn aðstoðarhafnarstjóra um prammann segir m.a. að Dagur sé mjög kraftmikill, með stóra og þunga grafskóflu, sem henti vel við gröft á botnefni á hafnarsvæði Reykjavíkurhafnar og geti minnkað áhættu við að vinna ákveðin störf við hafnargerð. Kraninn hefur enn fremur nýst til nákvæmrar dýpkunar svo
sem við efnisskipti fyrir stálþil, við viðhaldsdýpkun, viðhald legufæra og lagna fyrir olíuskip, lagningu röra fyrir holræsalagnir í sjó fram og hreinsun skipsflaka af sjávarbotni.

Um 2. gr.


    Starfsemi Dýpkunarfélagsins hf. á Siglufirði hófst er dýpkunarskipið Grettir kom til landsins í ágústmánuði 1987. Grettir vann við dýpkunarframkvæmdir í eftirtöldum höfnum landsins: Raufarhöfn, Þórshöfn, Siglufirði, Skagaströnd, Blönduósi, Bíldudal, Stöðvarfirði, Eskifirði og Ísafirði. Grettir sökk hins vegar fyrirvaralaust út af Dritvíkurtöngum í septembermánuði 1988. Var hann þá á leið til Sandgerðis þar sem dýpka átti innsiglinguna og samið hafði verið um stórt verkefni í Hafnarfjarðarhöfn og samningar hafnir um stór verkefni víða um land.
    Félagið hófst strax handa um að útvega nýjan pramma og bauðst til kaups hentugur prammi í eigu finnska verktakafyrirtækisins Haka. Hann er eingöngu ætlaður til dýpkunarframkvæmda í höfnum, en ekki knúinn áfram með eigin vélarafli og getur unnið mest á 17 metra dýpi. Pramminn var smíðaður árið 1975, en útgáfudagur fyrsta þjóðernisskírteinis hans var 18. nóvember 1976. Umrætt skip hefur verið endurbyggt nýlega. Allur gröfubúnaður er sams konar og á Gretti, en hann er nokkuð stærri og betur útbúinn og fullnægir því betur þeim öryggiskröfum sem gerðar eru, auk þess sem í honum eru íbúðir fyrir áhöfnina.

Um 3. gr.


    Slysavarnafélag Íslands hefur um langa hríð leitað að hentugu björgunarskipi sem unnt verði að nota til björgunarstarfa við ólíkar aðstæður hér við land. Í desembermánuði síðastliðnum bauðst félaginu skipið til kaups á mjög góðum kjörum og telja fulltrúar félagsins skipið afar ákjósanlegt til að geta fullnægt þeirra þörfum.
    Björgunarskipið Grace Paterson Ritchie var smíðað árið 1965 sem björgunarskip fyrir björgunarþjónustuna Royal National Lifeboat Institution. Skipið er 21,34 metrar, mesta lengd, og 5,18 metrar, mesta breidd, og ganghraði 12 hnútar. Hefur það ávallt verið notað sem björgunarskip í eigu og umsjón RNLI, en í júnímánuði síðastliðnum var því komið fyrir í skipasmíðastöð í Buckie í N-Skotlandi þar sem nýtt björgunarskip kom í stað þess í Kirkwall.

Um 4. gr.


    Árið 1984 var gerður samningur milli ríkisstjórna Íslands og Bandaríkjanna
um nýtingu fiskveiði- og fiskvinnsluheimilda í bandarískri fiskveiðislögsögu. Skilyrði þessarar heimildar er að notuð séu skip sem sigla undir íslenskum fána, þ.e. eru skrásett á Íslandi. Enda þótt sjávarútvegsráðuneytið hafi lagt á það mikla áherslu að heimildin yrði nýtt og leitast við að greiða fyrir framgangi þess, m.a. í samvinnu við sendiráð Íslands í Washington, hafa íslensk skip ekki nýtt sér þá möguleika sem samningurinn opnaði.
    Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. hefur nú, á grundvelli framangreinds samnings, verið úthlutað 30 þúsund tonna þorskkvóta og 6 þúsund tonnum af öðrum fisktegundum við strendur Alaska í Bandaríkjunum. Í framkvæmd er þessi starfsemi þannig að Íslenska úthafsútgerðarfélagið hf. samdi við Associated Vessel Services Inc. (hlutafélag bandarískra veiðimanna) um nýtingu á kvótanum (svokallað Joint Venture). Bátar á vegum félagsins veiða ákveðið magn af fiski fyrir verksmiðjuskip það sem Íslenska úthafsútgerðarfélagið hf. rekur og kaupir aflann á umsömdu verði. Fiskurinn verður síðan unninn um borð og frystur og seldur á evrópskum, bandarískum eða japönskum mörkuðum. Til að fullnýta þann kvóta sem úthlutað var mun þurfa a.m.k. tvö vinnsluskip.
    Félagið hefur leitað víða að hentugum skipum til þessa verkefnis annað til kaups en hitt til leigu. Ekki hefur verið gengið frá samningum um kaup/leigu á skipum, en skip sem félagið hefur haft hug á að kaupa eru eldri en 12 ára.
    Hugsanlegt er að leiguskipin verði tvö. Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga um skráningu skipa er einungis heimilt að skrá hér á landi erlend kaupskip sem íslensk útgerð rekur. Ef heimila á skrásetningu framangreindra leiguskipa þarf því sérstaka lagaheimild. Með tilliti til sérstöðu þessa máls og vilja íslenskra stjórnvalda til að nýta fiskvinnsluheimildir í bandarískri fiskveiðilögsögu er hér lagt til að skráningin verði heimiluð.
    Heimildir samkvæmt þessari grein eru bundnar því skilyrði að skipin muni ekki undir neinum kringumstæðum fá leyfi til veiða eða til vinnslu sjávarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu.

Um 5. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringar.