Ferill 465. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 465 . mál.


Ed.

826. Frumvarp til laga



um búfjárrækt.

(Lagt fyrir Alþingi á 111. löggjafarþingi 1988–89.)



I. KAFLI

Um tilgang laganna og yfirstjórn.

1. gr.

    Tilgangur laga þessara er að tryggja framfarir við ræktun búfjár í landinu til hagsbóta fyrir bændur og neytendur búfjárafurða. Ríkissjóður tekur þátt í kostnaði við ræktunarstarfið svo sem lögin tilgreina.

2. gr.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     Búfjárræktarfélag er félag bænda á ákveðnu svæði sem stofnað er um ræktun ákveðinnar búfjártegundar.
     Búfjárræktarsamband er samtök búfjárræktarfélaga á ákveðnu svæði, t.d. sýslu eða kjördæmi.
     Búgreinafélag er félag bænda á ákveðnu svæði sem allir stunda sömu búgrein.
     Búgreinasamband er samtök búgreinafélaga á ákveðnu svæði, t.d. sýslu eða kjördæmi.
     Búgreinasamtök eru landssamtök búgreinafélaga eða búgreinasambanda í ákveðinni búgrein.
     Búnaðarfélag er félag bænda á ákveðnu svæði, oftast í einum hreppi, óháð hvers konar búrekstur þeir stunda.
     Búnaðarsamband er samtök búfjárræktarfélaga/búgreinafélaga/búnaðarfélaga á ákveðnu svæði, t.d. sýslu eða kjördæmi.

3. gr.

    Landbúnaðarráðherra hefur á hendi yfirstjórn þeirra mála sem lög þessi taka til.

II. KAFLI

Um skipan búfjárræktar.

4. gr.

    Búnaðarfélag Íslands fer með framkvæmd búfjárræktarmála svo sem segir í lögum þessum. Það hefur yfirumsjón með leiðbeiningarþjónustu í búfjárrækt sem styrkt er af opinberu fé, samræmir hana og mótar heildarstefnu í ræktun hverrar búfjártegundar samkvæmt ákvæðum laganna.
    Ráðherra getur að fenginni umsögn Búnaðarfélags Íslands viðurkennt einstök búgreinasamtök til að fara að einhverju eða öllu leyti með þau verkefni sem ákveðin eru í lögum þessum og snerta viðkomandi búgrein.

5. gr.


    Sérstakar búfjárræktarnefndir skulu skipuleggja og veita forustu ræktunarstarfi vegna einstakra búfjártegunda. Landbúnaðarráðherrra skipar búfjárræktarnefndir til tveggja ára í senn. Í búfjárræktarnefnd skulu sitja fimm menn og jafnmargir til vara. Af þeim skulu tveir vera úr hópi bænda í viðkomandi búgrein, kosnir af búgreinasamtökum hennar, séu þau fyrir hendi, en ella skulu Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda tilnefna hvort sinn mann. Tveir skulu vera starfandi héraðsráðunautar, kosnir af búnaðarþingi. Fimmti fulltrúinn skal vera starfandi landsráðunautur í viðkomandi grein (héraðsráðunautur ef landsráðunautur er ekki starfandi), tilnefndur af stjórn Búnaðarfélags Íslands. Búfjárræktarnefnd kýs sér formann úr sínum hópi.
    Heimilt er að fulltrúar í búfjárræktarnefnd séu þrír eða sjö ef sérstakar ástæður mæla með, þó skulu bændur ætíð eiga þar minnst tvo fulltrúa.
    Sé starfandi fagráð, sem bæði búgreinasamtök í viðkomandi búgrein og Búnaðarfélag Íslands eru aðilar að, getur ráðherra falið því verkefni búfjárræktarnefndar í viðkomandi búgrein.

6. gr.

    Hlutverk búfjárræktarnefnda eru m.a. eftirfarandi:
a.     að móta ræktunarstarfið, þar með talið rekstur ræktunarstöðva, skýrsluhald, búfjár- og afurðadóma, val kynbótagripa og önnur viðfangsefni er stuðlað geta að framförum í viðkomandi grein,
b.     að gera tillögur um innflutning erlendra búfjárkynja,
c.     að vera þeim, sem annast leiðbeiningar, rannsóknir, kennslu og búfjárvernd, til ráðuneytis um það sem lýtur að viðkomandi búfjártegund,
d.     að vinna verk- og kostnaðaráætlanir vegna búfjárræktarstarfs búnaðarsambandanna í viðkomandi grein.

7. gr.

    Búnaðarsambönd skulu setja sér samþykkt, búfjárræktarsamþykkt, um tilhögun búfjárræktar á sambandssvæðinu. Þar skal, eftir því sem vænlegast þykir til árangurs, taka fram:
a.     að búfjárrækt á sambandssvæðinu lúti stjórn búnaðarsambandsins,
b.     að verkefni búnaðarsambands á sviði ræktunar einstakra búfjártegunda séu falin búfjárræktarsamböndum eða búfjárræktarfélögum,
c.     að framkvæmd búfjárræktarmála sé falin búgreinafélögum eða búgreinasamböndum enda hafi þau ræktun búfjár á stefnuskrá sinni.
    Nánar skal kveðið á um búfjárræktarsamþykktir í reglugerð.

8. gr.

    Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsambönd annast leiðbeiningarþjónustu í búfjárrækt.
    Leiðbeiningarþjónusta í búfjárrækt, sem styrks nýtur af opinberu fé, skal vera svo sem hér segir:
a.     Ráðunautar búnaðarsambanda (héraðsráðunautar). Stjórn Búnaðarfélags Íslands gerir tillögur til landbúnaðarráðherra um skiptingu þeirra á milli búnaðarsambanda eða samtaka þeirra á grundvelli tillagna hinna einstöku búfjárræktarnefnda.
b.     Landsráðunautar í búfjárrækt skulu vera í öllum búgreinum sem stundaðar eru af bændum í landinu. Enn fremur skal Búnaðarfélag Íslands veita leiðbeiningar í æðarrækt. Heimilt er að störf landsráðunauta séu hlutastörf ef umfang viðkomandi búgreinar krefst ekki heillar stöðu eða fjárveitingar eru takmarkaðar. Landbúnaðarráðherra ákvarðar fjölda landsráðunauta að fengum tillögum Búnaðarfélags Íslands.
    Hlutverk ráðunauta er að veita faglegar leiðbeiningar um ræktun og hirðingu búfjár og hvetja til framfara í framleiðslu búfjárafurða, m.a. með kynningu á niðurstöðum rannsókna og annarra nýjunga sem að gagni geta orðið í ræktunarstarfinu.
    Ráðunautar skulu hafa kandídatspróf í búfræði eða sambærilega menntun.
    Óheimilt er að fela landsráðunaut framkvæmdastjórn búfjárræktarsambands eða búgreinasamtaka eða önnur störf sem ekki teljast til faglegra leiðbeininga eða ráðgjafar fyrir viðkomandi bændur.
    Ríkissjóður greiðir kostnað við störf landsráðunauta en 65% af launum og ferðakostnaði héraðsráðunauta.
    Landbúnaðarráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um menntun og starfssvið ráðunauta, svo og um launakjör og ferðakostnað, sem þátttaka ríkissjóðs skal miðuð við, að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands.

9. gr.

    Ríkissjóður tekur þátt í stofnun og rekstri ræktunarstöðva fyrir búfé svo sem hér segir:
a.     Með greiðslu allt að helmingi stofnkostnaðar einnar ræktunarstöðvar fyrir hverja búfjártegund enda þjóni hún öllum bændum í viðkomandi grein.
.      Með ræktunarstöð er átt við: sæðingarstöð, uppeldisstöð fyrir kynbótagripi eða stofnræktarbú til ræktunar verðmætra búfjárstofna vegna sameiginlegs ræktunarstarfs búgreinar.
.      Heimilt er að hafa ræktunarstöðvar fleiri en eina fyrir hverja grein, enda liggi fyrir sérstakar ástæður sem landbúnaðarráðherra metur gildar að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands. Nýta skal aðstöðu á búum ríkisins í þessum tilgangi eftir því sem hún leyfir.
b.     Með greiðslu 65% af launum forstöðumanna ræktunarstöðva, sambærileg við laun héraðsráðunauta, og 65% af launum fastráðins aðstoðarfólks, sambærileg við laun frjótækna.
c.     Með greiðslu 65% af launum frjótækna. Landbúnaðarráðherra ákveður fjölda þeirra og viðmiðun um launakjör með sama hætti og segir í 8. gr. að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands. Sama gildir varðandi greiðslur til afleysingarmanna frjótækna vegna orlofa og veikinda.
    Til stofnunar ræktunarstöðvar þarf samþykki landbúnaðarráðherra og meðmæli Búnaðarfélags Íslands. Ráðherra setur reglugerð um hverja slíka stöð að fengnum tillögum viðkomandi búfjárræktarnefndar.

10. gr.

    Ríkissjóður greiðir kostnað við stofnun og rekstur sóttvarnastöðva vegna innflutnings búfjár og erfðaefnis.
    Landbúnaðarráðherra ákveður fjölda slíkra stöðva, umfang í starfsemi þeirra og gerir áætlun um rekstur stöðvanna í samráði við búfjárræktarnefnd viðkomandi búgreinar.

11. gr.

    Vegna sæðinga mjólkurkúa er búnaðarsamböndum eða öðrum, er reka
sæðingarstöðvar heimilt að innheimta hjá mjólkurframleiðendum gjald af allri innveginni mjólk í mjólkurbú. Gjaldið má að hámarki nema 0,7% af grundvallarverði mjólkur eins og það er á hverjum tíma og ákvarðar stjórn hlutaðeigandi sambands upphæð gjaldsins hverju sinni. Mjólkurbúum er skylt að halda gjaldi þessu eftir af mjólkurverðinu og standa samböndum skil á því mánaðarlega, enda hafi stjórnir þeirra tilkynnt búunum fyrir 1. desember að hve miklu leyti þær óski að nota þessa heimild á næsta ári.
    Greiða skal úr ríkissjóði styrk vegna sæðinga mjólkurkúa er nemur 95 kr. á sædda kú á verðlagi ársins 1988. Skal styrk þessum varið til að jafna flutningskostnað sæðis og ferðakostnað frjótækna á milli sambandssvæða. Landbúnaðarráðherra ákveður nánar með reglugerð að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands hvernig styrk þessum skuli ráðstafað, svo og hvernig árleg verðlagsuppbót á hann skuli ákveðin.

12. gr.

    Ríkissjóður greiðir laun aðstoðarfólks við uppgjör og úrvinnslu ræktunarskýrslna búfjár að hámarki fimm ársverk. Búnaðarfélag Íslands ákveður skiptingu þessara ársverka milli búgreina ef þörf krefur.
    Ríkissjóður greiðir eftir því sem fjárlög ákveða hverju sinni framlög til búfjárræktarstarfs á grundvelli búfjárræktarsamþykkta, sbr. 7. gr. Búfjárræktarnefndir skulu skila verk- og kostnaðaráætlun komandi árs til landbúnaðarráðherra fyrir gerð fjárlaga hverju sinni ásamt greinargerð um starfsemi liðins árs. Landbúnaðarráðuneyti skal að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands tilkynna skiptingu framlaga milli búnaðarsambanda og búgreina í síðasta lagi sex vikum eftir samþykkt fjárlaga.

13. gr.

    Búnaðarfélagi Íslands er skylt að gefa búfjáreigendum kost á dómum á búfé og/eða sérstöku mati á búfjárafurðum eða úrvalsgripum með reglulegu millibili, þó eigi sjaldnar en fjórða hvert ár. Hlutaðeigandi búfjárræktarnefndir setja reglur um fyrirkomulag dóma og mats.
    Ráðunautar skulu gegna dóms- og matsstörfum. Kostnaður að frátöldum launa- og ferðakostnaði ráðunauta skal greiddur af þeim samböndum eða félögum sem í hlut eiga, sbr. 6. gr. Heimilt er þeim aðilum, sem standa fyrir sýningum, að innheimta gjald samkvæmt gjaldskrá samþykktri af ráðherra af eigendum þeirra gripa sem dæmdir eru.
    Sláturleyfishöfum er skylt að láta í té aðstöðu til þess að framkvæma nauðsynlegar athuganir á föllum gripa, enda sé þeim gert viðvart um þær við gerð áætlana um slátrun í viðkomandi húsi.

III. KAFLI

Um verndun séreinkenna í íslensku búfé og um útflutning búfjár.

14. gr.

    Óheimilt er að flytja úr landi tímgunarhæft búfé, sæði eða fósturvísa án leyfis landbúnaðarráðuneytis. Áður en heimilaður er útflutningur samkvæmt þessari grein skal ráðuneytið leita álits Búnaðarfélags Íslands og yfirdýralæknis á fyrirhuguðum útflutningi.
    Sambönd og félög skv. 7. gr. skulu eiga forkaupsrétt á því verði, sem tilgreint er í umsókn um útflutningsleyfi að þeim kynbótadýrum sem Búnaðarfélag Íslands telur óæskilegt að flutt verði úr landi.

15. gr.

    Mynda skal sérstakan sjóð, stofnverndarsjóð, er veiti styrki og lán til þess að kaupa kynbótagripi sem ella kynnu að verða seldir úr landi. Kaupendur tímgunarhæfs búfjár, sæðis eða fósturvísa til útflutnings skulu greiða í sjóðinn allt að 20% af kaupverði þessa samkvæmt nánari ákvörðun landbúnaðarráðherra.
    Sjóðnum skal skipt í deildir eftir búfjártegundum og fer búfjárræktarnefnd með stjórn hlutaðeigandi deildar.
    Landbúnaðarráðherra setur reglugerð um upphæð stofnverndargjalda, innheimtu, vörslu og ráðstöfun fjár stofnverndarsjóðs að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands.

16. gr.

    Landbúnaðarráðherra skipar genbankanefnd Íslands fyrir búfé að fengnum tilnefningum frá Búnaðarfélagi Íslands, búvísindadeild Bændaskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Náttúrufræðistofnun og Veiðimálastofnun. Nefndin skal skipuð til þriggja ára í senn.
    Helstu verkefni genbankanefndar skulu vera:
a.     að fylgjast með og halda skrá um erfðabreytileika og þróun hans í helstu búfjárstofnum, villtum landdýrum og ferskvatnsfiskum,
b.     að gera tillögur til landbúnaðarráðherra um sérstakar ráðstafanir til verndunar þeirra tegunda, stofna og eiginleika sem eru í útrýmingarhættu að mati nefndarinnar.
    Kostnaður vegna verndunaraðgerða greiðist úr ríkissjóði.
    Nánar skal kveðið á um starfsemi genbankanefndarinnar í reglugerð að fengnum tillögum þeirra stofnana sem aðild eiga að henni.

IV. KAFLI

Almenn ákvæði.

17. gr.

    Landbúnaðarráðherra setur, að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands, reglugerð er kveður nánar á um framkvæmd þessara laga.

18. gr.

    Brot gegn lögum þessum eða reglugerðum, sem settar kunna að verða samkvæmt, þeim varða sektum nema þyngri refsing liggi við samkvæmt öðrum lögum.
    Með mál út af brotum gegn lögum þessum skal farið að hætti opinberra mála.

19. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Jafnframt falla úr gildi 1.–12. gr., 14.–18. gr., 20.–30. gr., 34.–37. gr., 39.–47. gr. og 60.–63. gr. búfjárræktarlaga, nr. 31 24. apríl 1973, með síðari breytingum, og lög nr. 50 14. júní 1929, um innflutning og ræktun sauðnauta.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Gildandi lög um búfjárrækt eru nr. 31/1973 með síðari breytingum. Frumvarp það sem hér er lagt fram er með með talsvert ólíku sniði enda samið með tvö eftirfarandi meginmarkmið í huga.
1.     Að sett verði sérstök lög um búfjárhald.
2.     Að vera almenn löggjöf um búfjárræktina.
    Því er ekki að finna í frumvarpinu sérstaka kafla um einstakar búfjártegundir. Hins vegar fjallar II. kafli þess um skipan búfjárræktar og tekur jafnt til allra búfjártegunda. Gert er ráð fyrir að ýmis ákvæði í frumvarpinu verði nánar útfærð í reglugerð.
    Ætla má að ýmis þau ákvæði sem eru í gildandi lögum verði reglugerðarákvæði ef frumvarp þetta verður lögfest í því formi sem það liggur fyrir.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


I. KAFLI

Um tilgang laganna.

Um 1. gr.

    Greinin er nýmæli. Hún kveður á um tilgang laganna sem er að tryggja framfarir við ræktun búfjár í landinu til hagsbóta fyrir bændur og neytendur búfjárafurða. Jafnframt kveður greinin á um það að ríkissjóður taki þátt í kostnaði við ræktunarstarfið eftir því sem lögin tilgreina.

Um 2. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 3. gr.

    Greinin kveður á um að landbúnaðarráðherra hafi á hendi yfirstjórn þeirra mála er lögin taka til. Þessi grein er efnislega samhljóða 1. mgr. 1. gr. gildandi laga.

II. KAFLI

Um skipan búfjárræktar.


Um 4. gr.

    Fyrri málsgrein þessarar greinar kveður á um að Búnaðarfélag Íslands skuli fara með framkvæmd búfjárræktarmála, hafa yfirumsjón með leiðbeiningaþjónustu í búfjárrækt, sem styrkt er af opinberu fé, samræmi hana og móti heildarstefnu í ræktun hverrar búfjártegundar samkvæmt ákvæðum laganna.
    Þessi málsgrein fellur efnislega að 2. mgr. 1. gr. gildandi laga nr. 31/1973 svo og fyrsta hluta 3. mgr. 1. gr. sömu laga varðandi mótun ræktunarstefnu hverrar búfjártegundar.
    Önnur ákvæði 1. gr. gildandi laga koma fram í síðari greinum þessa frumvarps.
    Síðari málsgrein þessarar greinar er nýmæli í búfjárræktarlögum. Hún kveður á um að ráðherra geti viðurkennt einstök búgreinasamtök til að fara með verkefni sem snerta viðkomandi búgrein sérstaklega. Greinin á sér hliðstæðu í 2. mgr. 4. gr. laga nr. 46/1985 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Hún veitir svigrúm til þess að framkvæmd búfjárræktarlaga geti fylgt þróun félagskerfis landbúnaðarins ef hún yrði sú að búgreinasamtök eflist á næstu árum og áhugi verði á því að þau taki aukinn þátt í búfjárræktarverkefnum.

Um 5. gr.

    Í þessari grein kemur fram hvernig staðið skuli að því að skipuleggja ræktunarstarfið og veita því forystu. Í því sambandi eru eftirfarandi ákvæði sett:
    Skipaðar verði búfjárræktarnefndir sem hafi það hlutverk að skipuleggja og veita forustu ræktunarstarfi vegna einstakra búfjártegunda. Gert er ráð fyrir að þessar nefndir séu skipaðar fimm mönnum hver. Þó er heimilt að þeir verði þrír eða sjö ef sérstakar ástæður mæla með. Þar gæti t.d. verið um að ræða þriggja manna nefndir vegna búgreina sem fáir bændur stunda eða sjö manna nefndir þar sem mikið starf væri lagt á herðar nefndanna og nefndarmenn teldu sig þurfa að skipta með sér verkefnum.
    Gert er ráð fyrir að tveir nefndarmanna séu bændur í viðkomandi grein og kosnir af sínum búgreinasamtökum, séu þau starfandi, en ella af búnaðarþingi og Stéttarsambandi bænda, einn maður af hvorum aðila. Tveir skulu vera starfandi héraðsráðunautar kosnir af búnaðarþingi, en einn starfandi landsráðunautur tilnefndur af stjórn búnaðarfélags Íslands. Þar sem áhersla er lögð á að ráðunautarnir séu starfandi í viðkomandi búgrein má búast við að öðru hverju geti þurft að skipta um þá fulltrúa „á miðju kjörtímabili“. Ef landsráðunautur lætur af störfum við þær aðstæður er eðlilegt að arftaki hans í starfi komi í hans stað sé aðeins einn staða landsráðunautar fyrir hendi. Sömuleiðis má búast við að varamaður landsráðunautar verði oft á tíðum að vera héraðsráðunautur. Búfjárræktarnefndum er ætlað að kjósa sér formenn úr eigin röðum.
    Þá er ákvæði sem gerir ráð fyrir að mynduð verði fagráð vegna einstakra búfjártegunda og að ráðherra geti falið þeim að taka við verkefnum sem búfjárræktarnefndum eru falin í þessu frumvarpi. Einu skilyrðin sem frumvarpið setur um aðila að fagráðum svo mögulegt sé að fela þeim verkefni búfjárræktarnefndanna er að bæði búgreinasamtök í viðkomandi grein og Búnaðarfélag Íslands séu aðilar að þeim.
    Um þessar mundir er verið að vinna að myndun fagráða vegna tveggja eða þriggja búgreina og hugmyndir um þau hafa verið uppi meðal bænda og starfsmanna landbúnaðarins í nokkurn tíma. Þar sem aðstæður eru mjög mismunandi eftir búgreinum og málin í örri þróun er ekki talið kleift né eðlilegt að skilgreina þau nákvæmlega í lögum nú. Engu að síður er mikilvægt að möguleiki sé fyrir hendi að ætla þeim stað í búfjárræktarstarfinu ef þau ná að eflast og verða aðalvettvangur faglegs starfs innan hverrar búgreinar.
    Fagráð eru mynduð með samkomulagi milli viðkomandi búgreinasamtaka, leiðbeininga-, kennslu- og rannsóknastofnana o.fl. aðila ef henta þykir. Við
myndun þessara fagráða er gerður samstarfssamningur milli hlutaðeigandi stofnana og viðkomandi búgreinafélags. Þær stofnanir sem hér um ræðir eru Búnaðarfélag Íslands, bændaskólarnir, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Tilraunastöðin á Keldum o.fl. stofnanir eftir því sem við á gagnvart hverri búfjártegund.
    Tilgangurinn með myndun fagráða er sá að ná saman fulltrúum frá viðkomandi búgrein og þeim stofnunum sem fara með fagmál greinarinnar til þess að fjalla sæmeiginlega um fagsvið hennar og taka sameiginlegar ákvarðanir um stefnumótun og framkvæmd þeirra faglegu málaflokka sem tilheyra viðkomandi grein. Á þann hátt má ætla að best samstaða náist um skipan rannsókna, leiðbeininga og kennslu varðandi hverja búgrein og mannafli og fjármagn nýtist sem best til þess að ná auknum árangri í hverri búgrein.
    Gert er ráð fyrir að störf í fagráði verði ólaunuð, en hver aðili beri kostnað af störfum síns/sinna fulltrúa í ráðinu. Gert er ráð fyrir að fagráð haldi fáa fundi á ári, en milli funda starfi fámennari framkvæmdanefndir sem ráðin kjósi eða kveðið verði á um í samstarfssamningum. Fjöldi fulltrúa í fagráðum getur orðið mjög mismunandi allt eftir því hvaða búgreinar eiga í hlut.
    Ákvæðin um skipun búfjárræktarnefnda og heimild til myndunar fagráða eru nýmæli frá gildandi lögum nr. 31/1973. Með þessum nýmælum eru bein áhrif starfandi bænda í viðkomandi búgrein á mótun og framkvæmd ræktunarstarfsins verulega aukin frá því sem verið hefur.
    Þessi nýmæli 4. gr. koma í reynd efnislega í stað þess ákvæðis í 1. gr. gildandi laga um búfjárrækt nr. 31/1973 þar sem kveðið er á um að Búnaðarfélag Íslands móti heildarstefnu í ræktun hverrar búfjártegundar. Stefnumörkunin færist því yfir á breiðari grunn og nánara samstarf verður á milli þeirra félaga og stofnana sem annast framkvæmd hinna ýmsu þátta þessara mála.

Um 6. gr.

    Greinin fjallar um hlutverk búfjárræktarnefnda. Hlutverkin eru tilgreind í fjórum liðum, þ.e. a–d-liðum.
a.     Þessi liður kveður á um framkvæmd ræktunarstarfsins sem m.a. felst í mótun á rekstri ræktunarstöðva, sem nánar eru skilgreindar í 9. gr., skýrsluhaldi, mati á búfé og búfjárafurðum, vali á kynbótagripum og öðrum þeim viðfangsefnun sem stuðlað geta að ræktunarframförum.
    Val kynbótagripa hefur verið í verkahring kynbótanefnda í nautgripa- og sauðfjárrækt og kynbótanefndar Stóðhestastöðvarinnar í Gunnarsholti varðandi hrossaræktina, svo langt sem valið á hestum inn á Stóðhestastöðina nær í heildarvali og notkun á kynbótahestum.
    Ákvæði 5. gr. um búfjárræktarnefndir felur það í sér að störf kynbótanefnda, í því formi sem þau hafa verið, falla undir verksvið búfjárræktarnefndanna. Val á kynbótagripum er einn þáttur af mörgum sem ræktunarstarfið í hverri búgrein byggist á. Tilgreind ákvæði 5. gr. koma ekki í veg fyrir það að búfjárræktarnefndir (eða fagráð) geti falið kynbótanefndum að starfa áfram með líku sniði og þær hafa gert, og annast framkvæmd á þessum afmarkaða þætti í ræktunarstarfinu, sem er val á kynbótagripum, og þá fyrst og fremst á gripum til notkunar á ræktunarstöð sbr. 9. gr. Ákvörðun um störf kynbótanefnda yrði því tekin af búfjárræktarnefndum.
b.     Þessi liður kveður á um að búfjárræktarnefndir geri tillögur um innflutning búfjár. Hann kemur að hluta til efnislega í stað IX. kafla laga nr. 31/1973, 48.–52. gr., að báðum meðtöldum. Hins vegar verður að gera ráð fyrir að IX. kafli laganna verði í gildi áfram þar til fyrir liggur að innflutningi á gripum af Galloway-stofni sé lokið.
    Þá má í þessu sambandi benda á að frumvarp til laga um innflutning dýra, sem áætlað er að leggja fyrir Alþingi næsta haust, og m.a. hefur fengið umfjöllun búnaðarþings, kveður á um mörg atriði sem innflutning kynbótagripa varða og marka þeim málum ákveðinn farveg.
c.     Þessi liður segir að búfjárræktarnefndir skuli vera þeim til ráðuneytis sem annast leiðbeiningar, rannsóknir, kennslu og búfjárvernd um það sem lýtur að viðkomandi búfjártegund. Þar er m.a. átt við Búnaðarfélag Íslands, búgreinasamtök, búnaðarsambönd, búfjárræktarsambönd og búgreinasambönd, Rannsóknastofnun landbúnaðarins, bændaskólana og genbankanefnd um búfé, sbr. 16. gr. þessa frumvarps. Ráðgjöfin getur náð til skipulags, starfshátta, verkefnavals, kennsluefnis o.fl. allt eftir því sem þiggjendurnir óska eftir eða gefendurnir vilja leggja til.
    Þessi liður tekur efnislega yfir þau ákvæði í lögum nr. 31/1973 sem fjalla um leiðbeiningaþjónustu almennt og í köflum um einstakar búgreinar.

Um 7. gr.

    Greinin kveður á um að hvert búnaðarsamband skuli setja sér búfjárræktarsamþykktir og fara með framkvæmd búfjárræktarmála á sínu svæði ellegar fela þau verkefni einstökum búfjárræktarfélögum, búfjárræktarsamböndum, búgreinafélögum eða búgreinasamböndum.
    Með hliðsjón af þeirri þróun, sem verið hefur undanfarið varðandi félagskerfi bænda, þykir ástæða til að halda opnum sem flestum möguleikum varðandi fyrirkomulag eða félagsform þannig að hægt sé að mæta breytilegum aðstæðum og skoðunum varðandi félagsformið.
    Þessi grein kemur efnislega í stað ákvæða í lögum nr. 31/1973, um tilhögun búfjárræktarmála hjá búnaðarsamböndum, hreppabúnaðarfélögum eða öðrum þeim sem þar eru tilgreindir.

Um 8. gr.

    Í fyrstu málsgrein segir að Búnaðarfélag Íslands og búnaðarsambönd annist leiðbeiningaþjónustu í búfjárrækt. Út frá því er gengið sem aðalreglu en 4. gr. og 7. gr. gefa heimildir til annars fyrirkomulags.
    Að öðru leyti fjallar greinin um hvernig greiða skuli kostnað við leiðbeiningaþjónustuna og hvert umfang hennar skuli vera. Gert er ráð fyrir að starfandi séu héraðsráðunautar annars vegar og landsráðunautar hins vegar.
a.     Héraðsráðunautar starfa hjá búnaðarsamböndum eða öðrum þeim aðilum sem fara með leiðbeiningaþjónustu í einstökum héruðum eða landssvæðum. Auk þeirra möguleika sem 7. gr. gerir ráð fyrir kemur hér fram að búnaðarsambönd geti myndað samtök og sameinast um ráðunauta. Dæmi um slík samtök búnaðarsambanda eru Ræktunarfélag Norðurlands og Búnaðarsamtök Vesturlands. Búnaðarfélag Íslands gerir tillögur til landbúnaðarráðherra um fjölda ráðunauta, starfssvið og starfssvæði á grundvelli tillagna einstakra búfjárræktarnefnda.
    Vakin skal athygli á því að gera má ráð fyrir hlutfallslega meiri þörf fyrir leiðbeiningaþjónustu í búfjárrækt, og landbúnaði almennt séð, en verið hefur undanfarið. Það kemur einkum til af tveimur meginástæðum:
    Í fyrsta lagi vegna nýgreina í búfjárrækt (loðdýraræktar, fiskeldis o.fl.) þar sem hlutaðeigandi bændur hafa ekki getað aflað sér viðunandi þekkingar á þeim skamma tíma sem ýmsar nýgreinar hafa orðið að þróast á. Ætla má að þessi aukna þörf fyrir leiðbeiningar geti verið tímabundin fyrir einstakar nýgreinar.
    Í öðru lagi er ekki unnt að draga hlutfallslega úr leiðbeiningaþörf í hefðbundnum búgreinum, miðað við minnkandi framleiðslu eða umfang í þeim greinum. Sá vandi sem felst í því að þurfa að takmarka framleiðslu mjólkur og kindakjöts o.fl. afurða hefur oft skapað aukna þörf fyrir faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf.
b.     Lagt er til að landsráðunautaþjónusta sé fyrir hendi vegna allra búfjártegunda af bændum í landinu. Mikilvægt er að í öllum búgreinum sé einhver aðili sem hefur forustu um faglegar leiðbeiningar, ekki síst í nýjum greinum sem bændur eru að taka upp því þá er oft í fá hús að venda að afla sér þekkingar, t.d. vegna fátæklegs lesefnis á íslensku. Heimild er til að störfin séu hlutastörf allt eftir umfangi greina og fjárveitingum. Landbúnaðarráðherra ákvarðar fjölda landsráðunauta.
.    Sérstaklega er tekið fram að Búnaðarfélag Íslands skuli veita leiðbeiningar í æðarrækt þar sem umdeilanlegt getur verið hvort æðarrækt teljist búfjárrækt þótt ákvæði um hana séu í 46.–47. gr. gildandi laga.
    Kveðið er á um hlutverk ráðunauta og menntun. Um hlutverk þeirra segir að þeir skuli veita faglegar leiðbeiningar um ræktun og hirðingu búfjár, hvetja til framfara í framleiðslu búvara m.a. með kynningu á nýjustu niðurstöðum rannsókna og annarra nýjunga sem að gagni mega koma. Um menntun segir að þeir skuli hafa lokið kandídatsprófi í búfræði.
    Þá er ákvæði um að óheimilt sé að fela landsráðunaut önnur störf en teljast til faglegra leiðbeininga eða ráðgjafar. Tilgreind eru störf svo sem framkvæmdastjórn fyrir búfjárræktarsamband eða búgreinasamtök. Þetta ákvæði á að tryggja að þeir fjármunir sem ríkissjóður greiðir vegna starfa landsráðunauta verði í reynd til að greiða fyrir faglegar leiðbeiningar og ráðgjöf, en ekki ýmiss konar stjórnunarstörf.
    Ákvæði er um að ríkissjóður greiði kostnað við störf landsráðunauta, þ.e. laun, ferðakostnað, skrifstofukostnað, nauðsynleg áhöld og annað það sem starfið krefst til þess að ná tilgangi sínum.
    Þá er ákvæði um að ríkissjóður greiði 65% af launum héraðsráðunauta og sama hlutfall af ferðakostnaði þeirra.
    Loks er ákvæði um að landbúnaðarrráðherra setji nánari reglur um menntun og starfssvið ráðunauta, launakjör og ferðakostnað, sem þátttaka ríkisins skal miðuð við, að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands.
    Þessi grein kemur í stað hliðstæðra ákvæða í gildandi lögum nr. 31/1973.

Um 9. gr.

    Greinin fjallar um stofnun og rekstur ræktunarstöðva og þátttöku ríkissjóðs í stofnkostnaði og rekstri þeirra.
    Kveðið er á um:
a.     Greiðslu á allt að helmingi stofnkostnaðar einnar ræktunarstöðvar fyrir hverja búfjártegund, þó með þeim fyrirvara að hún þjóni öllum bændum í viðkomandi grein.
.    Heimilað er að hafa þessar stöðvar fleiri fyrir hverja grein ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi sem landbúnaðarráðherra metur gildar, að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands. Þar gæti t.d. verið um heilbrigðisástæður að ræða eða samninga sem þegar liggja fyrir.
.    Upp á lagt er að nýta aðstöðu á ríkisbúum í þessum tilgangi, eftir því sem tök eru á.
.    Ræktunarstöð er skilgreind með þrennu móti:
.1.     Sæðingastöð. Undir þessa skilgreiningu falla nautastöðin á Hvanneyri og dreifistöðvar tengdar henni. Einnig sauðfjársæðingastöðvarnar í Laugardælum, Borgarnesi og Möðruvöllum og refasæðingastöðvar sem starfræktar hafa verið við bændaskólana á Hólum og Hvanneyri og víðar á undanförnum árum. Refasæðingar hafa dregist verulega saman vegna fækkunar á refastofninum sem leitt hefur af verðfalli á afurðum o.fl.
. .    Ekki eru miklar líkur fyrir þörf á fleiri sæðingastöðvum í þeim búgreinum þar sem þessi starfsemi hefur verið á undanförnum árum, nema ef breyting yrði á varðandi refaræktina.
. .    Hins vegar má ætla að sæðingar verði teknar upp í öðrum búgreinum, t.d. svínarækt og hrossarækt. Sú starfsemi gæti hugsanlega tengst einhverjum þeirra stöðva eða ríkisbúum sem þegar eru fyrir hendi.
.2.     Uppeldisstöð fyrir kynbótagripi. Undir það hugtak fellur nautauppeldisstöðin í Þorleifskoti og stóðhestastöðin í Gunnarsholti. Ekki er ástæða til að ætla að fleiri slíkar stöðvar þurfi á næstu árum.
.3.     Stofnræktarbú. Undir stofnræktarbú fellur hrossakynbótabúið á Hólum. Ekki eru líkur fyrir fleiri slíkum búum í þeirri grein. Gera má ráð fyrir að stofnræktarbú og stofnræktarfélög í sauðfjárrækt verði ekki starfandi til frambúðar. Sama gildir varðandi mjólkurframleiðsluna.
. .    Til greina gæti hins vegar komið að slík bú þyrfti vegna kjötframleiðslu af nautgripum, alifuglaræktar eða svínaræktar svo og fiskeldis.
. .    Stofnræktarbú gætu eflaust verið í nánum tengslum við þau ríkisbú sem þegar eru starfrækt a.m.k. hvað varðar nautakjötsframleiðslu, alifuglarækt og svínarækt.
    Til stofnunar ræktunarstöðva þarf samþykki landbúnaðarráðherra og reiknað er með sérstakri reglugerð fyrir hverja slíka stöð.
b.     Greiðslu á 65% af launum forstöðumanna ræktunarstöðva, reiknað á sama hátt og héraðsráðunauta og 65% af launum fastráðins aðstoðarfólks, reiknað á sama hátt og laun frjótækna. Þessi ákvæði eru hliðstæð þeim sem eru í 8. gr. laga nr. 31/1973. Hins vegar fellur þar út 2. tölul. sem kveður á um að ríkissjóður greiði allan aukakostnað sem leiðir á einangrun utan djúpfrystistöðvar er ákveðið kann að verða hverju sinni vegna sjúkdómahættu.
.    Með þeirri skilgreiningu, sem gerð er hér að framan varðandi sæðingastöð og það sem henni tengist,er gert ráð fyrir að ríkissjóður greiði helming stofnkostnaðar stöðvar, sem kynni að þurfa að stofna til af öryggisástæðum, umfram það sem þegar hefur verið byggt upp, svo og því sem kemur fram í upphafi þessa stafliðar varðandi launagreiðslu.
c.     Greiðslu á 65% af launum frjótækna og afleysingamanna í orlofum og veikindaforföllum.
.    Þetta er hliðstætt ákvæði og er 7. gr. 1. tölul. a-lið, laga nr. 31/1973.

Um 10. gr.

    Greinin kveður á um að ríkissjóður greiði kostnað við stofnun sóttvarnastöðva vegna innflutnings búfjár og/eða erfðaefnis (sæðis eða fósturvísa). Ákvæði er um að landbúnaðarráðherra ákveði fjölda slíkra stöðva, umfang í starfsemi þeirra og geri áætlun um rekstur stöðvanna í samráði við búfjárræktarnefnd viðkomandi búgreinar.
    Nú eru starfræktar tvær sóttvarnastöðvar, þ.e. sóttvarnastöðin í Hrísey og sóttvarnabúið á Möðruvöllum sem byggt var og rekið er vegna innflutnings á loðdýrum. Reynslan af stofnun og rekstri þessara sóttvarnabúa sýnir að ríkssjóður verður að standa að þessari uppbyggingu og aðstoða við rekstur. Það þýðir hins vegar ekki að rekstur þessara stöðva geti ekki skilað rekstrartekjum, sem gætu staðið undir rekstri og jafnvel stofnkostnaði, a.m.k. að hluta. Það byggist á því hvers eðlis þessar sóttvarnastöðvar eru og hvert umfang þeirra er í stofnkostnaði og rekstri miðað við hugsanlegar rekstrartekjur. Ákvæði greinarinnar útiloka heldur ekki að eitthvert fjármagn komi frá viðkomandi búgrein vegna stofnkostnaðar og reksturs sóttvarnastöðvar, t.d. gegnum kjarnfóðurgjald. Því er eðlilegt og nauðsyn að landbúnaðarráðherra ákveði framgang þessara mála hverju sinni í samráði við
hlutaðeigandi búfjárræktarnefnd og í samræmi við þau lagaákvæði sem gilda hverju sinni, varðandi þann innfluting sem hér um ræðir.

Um 11. gr.

    Greinin kveður á um heimild til handa búnaðarsamböndum og öðrum samtökum, sbr. 6. gr., að innheimta 0,7% gjald af grundvallarverði innveginnar mjólkur vegna kostnaðar við sæðingar mjólkurkúa.
    Þetta ákvæði er óbreytt frá ákvæðum 7. gr. laga nr. 31/1973, a-lið 2. tölul. d-liðar greinarinnar.
    Þá er ákvæði um að greiða skuli úr ríkissjóði styrk vegna sæðinga mjólkurkúa er nemur 95 kr. á sædda kú á verðlagi ársins 1988. Verðuppbót á þennan styrk skal ákveðin af landbúnaðarráðherra. Þetta er hliðstætt ákvæði og í 7. gr. laga nr. 31/1973 b-lið 1. tölul. d-liðar greinarinnar en er lækkun á styrk um 88.07 kr. á sædda kú.
    Efnisbreyting er þó sú að lög nr. 31/1973 kveða á um að hliðstætt gjald greiðist til rekstraraðila, þ.e. dreifistöðva, í beinu hlutfalli vð fjölda sæddra kúa, en frumvarpið gerir ráð fyrir að þessum styrk verði varið til að jafna flutningskostnað á sæði, þ.e. ferðakostnað frjótækna á milli sambandssvæða.
    Þar sem þetta er eina greinin í frumvarpinu sem tekur sérstaklega til einnar búfjártegundar skal vakin athygli á því að þetta er eina búfjártegundin þar sem tímgunin byggist nær algjörlega á sæðingum.

Um 12. gr.

    Fyrri mgr. 12. gr. kveður á um að ríkissjóður greiði laun aðstoðarfólks við uppgjör og úrvinnslu ræktunarsskýrslna búfjár, þó að hámarki fimm ársverk.
    Þetta ákvæði er nýmæli frá lögum nr. 31/1973 þótt ríkissjóður hafi greitt þessa vinnu að hluta gegnum fjárveitingar til Búnaðarfélags Íslands. Hinn hlutinn hefur verið greiddur af framlögum samkvæmt búfjárræktarlögum 3. tölul. 10 gr. og 2. tölul. 15. gr.
    Með þessu ákvæði frumvarpsins eru tekin af öll tvímæli varðandi þessa greiðslu. Gert er ráð fyrir svipuðu formi og verið hefur undanfarið varðandi þetta uppgjör og úrvinnslu. Einnig er ákvæði um að Búnaðarfélag Íslands ákveði skiptingu þessara fimm ársverka milli búgreina ef þörf krefur.
    Síðari mgr. 12. gr. er ákvæði þess efnis að ríkssjóður greiði, eftir því sem fé er veitt til á fjárlögum hverju sinni, framlög til búfjárræktstarfs á grundvelli búfjárræktarsamþykkta, sbr. 6. gr.
    Gert er ráð fyrir að búfjárræktarnefndir geri verk- og kostnaðaráætlanir á grundvelli upplýsinga frá búnaðarsamböndunum. Þessar áætlanir verði lagðar fyrir landbúnaðarráðherra áður en að gerð fjárlaga kemur hverju sinni ásamt greinargerð um starfsemi liðins árs. Fjárveitingar verði ákvarðaðar með hliðsjón af tillögum búfjárræktarnefndanna og þar með tekin afstaða til hvaða verkefni á sviði búfjárræktar verði unnin fyrir fé úr ríkissjóði á komandi ári. Þegar fjárlög liggja fyrir skal landbúnaðarráðuneytið greina frá hvernig búfjárræktarframlög komandi árs skiptast milli búnaðarsambanda og til hvaða starfsemi þau skulu renna. Þetta skal gert eigi síðar en sex vikum eftir samþykkt fjárlaga svo tími vinnist til að endurskoða áætlanir nýs árs ef þörf krefur.
    Hér er um viðamikla efnisbreytingu að ræða frá lögum nr. 31/1973. Í þeim eru skýr ákvæði um greiðslur úr ríkissjóði til einstakra þátta búfjárræktarinnar. Þau ákvæði er að finna í flestum köflum laganna.
    Þrátt fyrir þau ákvæði sem eru í lögum nr. 31/1973 um þessi framlög hafa þau ekki skilað sér sem skyldi vegna síðasta árs og á fjárlögum fyrir árið 1989 er einungis gert ráð fyrir greiðslu á launahluta ríkissjóðs til frjótækna af þeim greiðslum sem lögin kveða á um. Greiðsluskyldan er í sumum tilfellum tekin af, eða talin vera það, með öðrum lögum, auk þess sem þessi ákvæði laganna þykja ekki lengur falla að ríkjandi aðstæðum, og stundum vitnað til þess að verið sé að greiða framlög til einstaklinga vegna búfjárræktar þeirra. Þetta má til sanns vegar færa hvað varðar greiðslu verðlauna á búfjársýningum.
    Tilgangurinn með búfjársýningum er m.a. sá að vekja athygli á bestu kynbótagripunum, sem völ er á hverju sinni, og veita eigendum þeirra viðurkenningu fyrir þeirra framlag til aukins árangurs í ræktunarstarfinu, sem oftast nýtist heildinni, miðað við það fyrirkomulag sem unnið er eftir.
    Önnur framlög sem greidd hafa verið skv. lögum nr. 31/1973 hafa verið greidd til ýmissa félaga og sambanda þeirra sem staðið hafa fyrir og unnið að ræktunarstarfinu sem byggir fyrst og fremst á skýrsluhaldinu yfir ætterni og afurðir einstakra gripa innan hverrar búfjártegundar.
    Í sambandi við skýrsluhaldið er ástæða til að taka fram og leggja sérstaka áherslu á að búfjáreigendur hér á landi leggja sjálfir af mörkum langt um meiri vinnu við skráningu á upplýsingum, en bændur í nálægum löndum. Greiðsla fyrir vinnu við skýrsluhald yfir búfé er því tiltölulega lág hér miðað við það sem annars staðar þekkist og einstaklingar fá ekki greiðslu í sinn hlut fyrir þá vinnu sem þeir leggja af mörkum.
    Framlög þau sem greidd hafa verið samkvæmt búfjárræktarlögum eru því fyrst og fremst félagslegs eðlis og hafa runnið til þeirra félaga sem vinna að búfjárræktinni.
    Þá skal sérstaklega bent á það að búnaðarsamböndin í landinu hafa haft verulegar tekjur af þeim framlögum sem greidd hafa verið samkvæmt búfjárræktar- lögum þar sem ákveðið hlutfall af þessum framlögum hefur gengið til sambandanna, m.a. til þess að standa að hluta undir þeim kostnaði sem búnaðarsamböndin hafa af vinnu við framkvæmd á þessum tilgreindu lögum.
    Falli þessi framlög niður, og þar með sá hluti þeirra sem runnið hefur til búnaðarsambandanna, er vandséð hvernig þau geta mætt því tekjutapi og haldið uppi þeirri starfsemi sem þeim er ætluð.
    Því er ástæða til að vekja sérstaka athygli á þessu vandamáli og leggja áherslu á að það verði jafnan tekið til sérstakrar athugunar við framkvæmd á síðari mgr. 12. gr. þessa frumvarps og setningu reglugerðarákvæða varðandi hana.

Um 13. gr.

    Greinin fjallar um mat á búfé og búfjárafurðum. Þar er kveðið á um að skylt sé að gefa búfjáreigendum kost á mati á búfé og búfjárafurðum með reglulegu millibili og eigi sjaldnar en fjórða hvert ár.
    Gert er ráð fyrir að hlutaðeigandi búfjárræktarnefndir setji reglur um þetta mat sem nær til bæði búfjárins og afurða af því. Undir þetta mat falla afkvæmadómar, kjötsýningar, sýningar á loðskinnum o.fl.
    Fram kemur að ráðunautar skuli annast matsstörf og kostnaður, annar en launa- og ferðakostnaður, greiðist af þeim búnaðarsamböndum (eða staðgenglum þeirra) sem í hlut eiga.
    Ákvæði þessarar greinar koma í stað ákvæða í lögum nr. 31/1973 sem fjalla um búfjársýningar og afkvæmasýningar á búfé.
    Þeim aðilum, sem fyrir sýningum standa, er nú heimilað að innheimta gjald af eigendum þeirra gripa sem dæmdir eru. Upphæð slíkra gjalda verður að vera samþykkt af ráðherra. Þessi grein er nýmæli en getur ráðið úrslitum um það hvort félítil samtök geta staðið fyrir myndarlegum búfjársýningum með tilheyrandi kostnaði, svo sem af tölvuskráningu og útgáfu sýningarskráa.
    Loks eru ákvæði sem skylda sláturleyfishafa til að láta í té aðstöðu til þess að framkvæma nauðsynlegar athuganir á föllum gripa, enda sé þeim gert viðvart um þær við gerð áætlana um slátrun í viðkomandi húsi. Þetta ákvæði á sér hliðstæðu í 25. gr. gildandi laga.

III. KAFLI

Um verndun séreinkenna í íslensku búfé og um útflutning búfjár.

Um 14. gr.

    Greinin kveður á um að óheimilt sé að flytja úr landi tímgunarhæft búfé, sæði eða fósturvísa án leyfis landbúnaðarráðuneytisins. Leita skal álits Búnaðarfélags Íslands og yfirdýralæknis áður en útflutningsleyfi eru veitt.
    Þá er einnig þeim félögum og samböndum sem fara með búfjárræktarmál, sbr. 7. gr., ákveðin forkaupsréttur á kynbótagripum sem verðmætir þykja og fyrirhugað er að flytja úr landi af hvaða búfjártegund sem er. Slíkt ákvæði er nú aðeins í lögum um útflutning hrossa. Verði forkaupsréttar neytt er skilyrt að verð skuli það sama og tilgreint var þegar sótt var um útflutningsleyfi.
    Þetta er nýtt ákvæði frá gildandi lögum.

Um 15. gr.

    Greinin kveður á um sérstakan sjóð, „stofnverndarsjóð“ er veiti lán og styrki til kaupa á kynbótagripum sem annars kynnu að verða seldir úr landi. Ákvæði er um að kaupendur tímgunarhæfs búfjár eða erfðaefnis til útflutnings skulu greiða sjóðunum allt að 20% gjald af kaupverði þessa samkvæmt ákvörðun landbúnaðarráðherra. Lagt er til að sjóðnum sé skipt í deildir eftir búfjártegundum og búfjárræktarnefnd fari með stjórn hlutaðeigandi deildar. Efnislega kemur þessi grein í stað 37. gr. í gildandi búfjárræktarlögum.
    Kveðið er á um að landbúnaðarráðherra setji reglugerð um upphæð stofnverndargjalda, innheimtu, vörslu og ráðstöfun fjár stofnverndarsjóðs að fengnum tillögum Búnaðarfélags Íslands.

Um 16. gr.

    Greinin fjallar um skipun og hlutverk genbankanefndar Íslands fyrir búfé en hliðstæð nefnd hefur verið starfandi án sérstakrar stoðar í lögum. Ráðherra skipar nefndina til þriggja ára í senn eftir tilnefningum Búnaðarfélags Íslands, búvísindadeildar Bændaskólans á Hvanneyri, Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Náttúrufræðistofnunar og Veiðimálastofnunar.
    Helstu hlutverk nefndarinnar eru skilgreind svo: a) Að fylgjast með og halda skrá um erfðabreytileika og þróun hans í helstu búfjárstofnum, villtum landdýrum og ferskvatnsfiskum og b) að gera tillögur til landbúnaðarráðherra um séstakar ráðstafanir til verndunar þeirra tegunda, stofna og eiginleika sem eru í útrýmingarhættu að mati nefndarinnar.
    Gert er ráð fyrir kostnaður vegna verndunaraðgerða greiðist úr ríkissjóði.
    Starfsemi genbankanefndarinnar skal nánar ákveðin í reglugerð.

IV KAFLI

Almenn ákvæði.

Um 17. gr.

    Uppbygging frumvarpsins gerir ráð fyrir að við þau verði sett ítarleg reglugerð auk sérstakra reglugerða í ákveðnum tilfellum, sbr. 9. gr.

Um 18. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 19. gr.

    Fram kemur í upphafi þessarar greinargerðar að frumvarp þetta er samið með það í huga að sett verði sérstök lög um búfjárhald. Því eru ekki tekin inn í frumvarpið þau ákvæði sem eru í lögunum nr. 31/1973 og kveða á um búfjárhald. Einnig halda gildi sínu ákvæði sem ræktun Galloway-nautgripa í Hrísey byggja á.
    Ofangreind ákvæði eru:
1.     Ákvæði í 13. gr. um vörslu nauta.
2.     Ákvæði í 19. gr. um vörslu hrúta.
3.     Ákvæði í 31. gr. um vörslu stóðhesta.
4.     Ákvæði í 32. gr. um heimild til undanþágu frá vörslu stóðhesta.
5.     Ákvæði í 33. gr. um skaðabótaskyldur vegna lausagöngu stóðhesta.
6.     Ákvæði í 38. gr. um bann við lausagöngu hrossa.
7.     Ákvæði IX kafla um ræktun erlendra búfjárkynja og blöndun þeirra við innlent búfé, 48.–52. gr., báðar meðtaldar.
8.     Ákvæði X kafla um forðagæslu, 53.–59. gr., báðar meðtaldar.


    Sjá fylgiskjal í prentuðu þingskjali.