Ferill 504. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 504 . mál.


Sþ.

1179. Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Kristínar Halldórsdóttur um símahleranir.

    Spurt er:
1.     Hvaða reglur gilda um símahleranir hér á landi?
2.     Hversu oft hefur símahlerunum verið beitt hér á síðustu 10 árum, sundurliðað eftir árum? Hverjir hafa beðið leyfis til hl
erana í umgetnum tilvikum, hverjir framkvæmdu þær og í hvaða tilgangi var þeim beitt?
3.     Hver er réttur þolenda símahlerana?
4.     Telur ráðherra tryggt að alltaf sé farið að lögum og reglum varðandi símahleranir?


    1. Reglur um símahleranir er að finna í 47. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 74 21. ágúst 1974, en þar segir:
    „Dómari getur, þegar öryggi ríkisins krefst þess eða um mikilsverð sakamál er að ræða, úrskurðað hlustanir í síma sem sökunautur hefur eða ætla má hann nota.“

    2. Fjöldi úrskurða um símahleranir á undanförnum árum hefur verið þessi:

        1979    0    1984    11
        1980    2    1985    32
        1981    3    1986    26
        1982    5    1987    27
        1983    6    1988    14

    Á yfirstandandi ári hafa verið kveðnir upp sex úrskurðir.
    Í tveimur tilvikum er um að ræða beiðnir frá Rannsóknarlögreglu ríkisins, annars vegar vegna stórfellds innbrotsþjófnaðar og gruns um fíkniefnabrot og hins vegar vegna sama þjófnaðar, fjárkúgunar og heitinga um ófarnað. Í öllum öðrum tilvikum er um að ræða beiðnir frá lögreglustjóraembættinu í Reykjavík vegna rannsóknar á meiri háttar fíkniefnamisferli.
    Til skýringar á fjölda úrskurða skal tekið fram að oft er um að ræða framlengingu á heimild með nýjum úrskurði. Margir úrskurðir geta og verið vegna rannsóknar á sama máli vegna tengsla og fjölda grunaðra.
    Úrskurður heimilar hlustun tiltekins síma í ákveðinn tíma.
    Símahlerun annast lögreglan. Póst- og símamálastofnun veitir lögreglu aðgang að símakerfinu gegn framvísun dómsúrskurðar.

    3. Réttarfarslög kveða eigi á um að þolanda skuli gerð grein fyrir því að hlerun hafi farið fram.

    4. Dómstólar meta skilyrði til símahlerunar. Því verður að treysta að þeir gæti þess að símahleranir séu því aðeins leyfðar að ríkar ástæður séu fyrir hendi.