Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 454 . mál.


Ed.

1187. Frumvarp til laga



um breyting á lögum um framhaldsskóla, nr. 57/1988, sbr. lög nr. 107/1988.

(Eftir 2. umr. í Ed., 16. maí.)



    Samhljóða þskj. 814 með þessari breytingu:

    10. gr. hljóðar svo:
    32. gr. laganna orðist svo:
    Ríkissjóður greiðir samkvæmt lögum þessum rekstrarkostnað framhaldsskóla. Hver skóli er sjálfstæð rekstrareining og hefur sérstaka fjárveitingu á fjárlögum.
    Ríkissjóður greiðir allan launakostnað við kennslu sem fram fer og skipulögð er í samræmi við áætlun sem samþykkt er af menntamálaráðuneytinu.
    Við ákvörðun fjárveitinga til kennslu í framhaldsskólum skal miða við grunntöluna 1,7 til 2,0 kennslustundir á viku á hvern nemanda í fullu bóknámi eftir stærð og gerð skóla. Þessu til viðbótar skal koma sá stundafjöldi sem nauðsynlegur er til að halda megi uppi kennslu í viðurkenndu verknámi og sérnámi er krefst skiptingar nemenda í smáa námshópa. Þurfi að taka tillit til
sérstakra aðstæðna skal veitt sérgreint framlag til að mæta þeirri þörf.
    Auk kostnaðar við kennslu greiðir ríkissjóður launakostnað við stjórnun, námsráðgjöf, störf í skólasafni, á skrifstofu, félagsstörf, eftirlit og umsjón með heimavistum og eignum skóla og annarra þeirra starfa er nauðsynleg teljast vera.
    Ríkissjóður greiðir enn fremur laun prófdómara á lokaprófi og þann launakostnað er stafar af lækkun kennsluskyldu samkvæmt ákvörðun menntamálaráðuneytisins og annan þann kostnað er leiðir af kjarasamningum.
    Auk launakostnaðar greiðir ríkissjóður annan rekstrarkostnað af starfsemi skólans, viðhaldi húsa og tækja að frátalinni kostnaðarþátttöku nemenda, sbr. 33. gr.
    Við gildistöku laganna skal gerður samningur milli menntamálaráðuneytisins og hvers skóla um tilhögun á greiðslum til skólanna af fjárlagalið þeirra í þeim tilgangi að skólarnir taki á sig aukna rekstrarábyrgð. Rekstrarframlag, annað en kennslulaun, laun fastra starfsmanna og meiri háttar viðhalds- og stofnkostnaður, skal greitt hverjum skóla fyrir fram. Heimilt er menntamálaráðherra að semja við hvern skóla um aðra tilhögun ef aðilum þykir ástæða til.
    Menntamálaráðuneytið setur nánari reglur um ákvæði þessarar greinar þar sem m.a. skal tilgreint hvaða kennslugreinar skuli teljast verknám og sérnám. Þá skulu settar viðmiðunarreglur um vinnumagn fyrir önnur störf en kennslu er lagðar verði til grundvallar árlegum fjárveitingum.
    Heimilt er að ráða sérstakan fjármálafulltrúa til þess að annast fjárreiður skóla og bókhald og starfar hann þá undir stjórn skólameistara.