Ferill 430. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 430 . mál.


Nd.

1215. Nefndarálit



um frv. til l. um Félagsmálaskóla alþýðu.

Frá 2. minni hl. félagsmálanefndar.



    Nefndin hefur rætt frumvarpið og kallað til viðræðu fulltrúa frá ASÍ, VSÍ, menntamálaráðuneytinu, Verslunarskóla Íslands og Fjárlaga- og hagsýslustofnun. Meiri hl. leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt en undirrituð, sem skipar 2. minni hl., leggur til breytingar við frumvarpið og eru þær fluttar á sérstöku þingskjali.
    Frumvarpið felur í sér að sett verði lög um Félagsmálaskóla alþýðu sem hefur starfað á vegum Alþýðusambands Íslands frá því árið 1975. Eins og segir í athugasemdum með frumvarpinu hefur nú tekist samvinna milli ASÍ og BSRB um skólann.
    Samkvæmt frumvarpinu er miðað við að starf skólans verði tvíþætt: Annars vegar fræðsla eins og hingað til hefur verið veitt um „


    
hina íslensku og alþjóðlegu verkalýðshreyfingu og viðfangsefni hennar ...“ og hins vegar kennsla í almennum námsgreinum.
    Því virðist vera stefnt að því að stofnaður verði eins konar lýðháskóli þar sem nemendur geti jafnhliða fræðslu sem tengist starfi í verkalýðshreyfingunni notið fjölbreyttrar kennslu sem geti að hluta eða öllu leyti verið hliðstæð námi í öðrum skólum og metin til jafns við það.
    Eðlilegt er að skólinn lúti almennum reglum um skólahald eins og aðrir skólar, svo sem skóli þjóðkirkjunnar í Skálholti, Verslunarskóli Íslands og Samvinnuskólinn. Frumvarpið gerir hins vegar ráð fyrir að skólinn heyri undir félagsmálaráðuneyti. Engar viðhlítandi skýringar né haldbær rök hafa fengist fyrir slíkri tilhögun. Að mati 2. minni hl. er eðlilegt að þessi skóli heyri undir menntamálaráðuneyti eins og stefnan hefur verið um flesta skóla hér á landi. Sterk rök eru fyrir því að yfirstjórn skólamála falli undir eitt og sama ráðuneyti. Það skapar í senn betri tengsl milli skóla og gerir samvinnu milli þeirra auðveldari. Slík skipan tryggir líka mun betur en ella rétt nemenda gagnvart hinu almenna skólakerfi og að námsáfangar í
Félagsmálaskólanum falli að námi í öðrum skólum og fái viðurkenningu. Þetta kom m.a. fram hjá Sólrúnu Jensdóttur, skrifstofustjóra í menntamálaráðuneyti, sem kom á fund nefndarinnar. Hún taldi einnig að það fjármagn, sem til skólans verður varið, nýtist betur ef skólinn er tengdur hinu almenna skólakerfi og að auðveldara verði fyrir skólann að koma á námskeiðum úti um land.
    Annar minni hl. flytur því breytingartillögu á sérstöku þingskjali þar sem lagt er til að menntamálaráðuneyti taki að sér það hlutverk sem félagsmálaráðuneyti er falið samkvæmt frumvarpinu. Ekki er þó óeðlilegt að félagsmálaráðuneyti eigi aðild að skólanefndinni og því er lagt til að félagsmálaráðherra tilnefni einn í skólanefndina en MFA tilnefni þrjá í stað fjögurra eins og frumvarpið gerir ráð fyrir.
    Þar eð rekstrarkostnaður verður að fullu greiddur úr ríkissjóði telur 2. minni hl. sjálfsagt og gerir ráð fyrir að skólinn verði öllum opinn. Jafnframt verður að líta svo á að um stofnkostnað kennsluhúsnæðis gildi sömu reglur um þennan skóla og aðra skóla á framhaldsskólastigi varðandi kostnaðarskiptingu þegar lög um framhaldsskóla koma til framkvæmda.
    Annar minni hl. mælir með samþykkt frumvarpsins að samþykktum breytingartillögum á þskj. 1216.

Alþingi, 17. maí 1989.


Kristín Einarsdóttir.