Ferill 454. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1988–89. – 1058 ár frá stofnun Alþingis.
111. löggjafarþing. – 454 . mál.


Nd.

1270. Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á l. um framhaldsskóla, nr. 57/1988, sbr. l. nr. 107/1988.

Frá 1. minni hl. menntamálanefndar.



    Á sl. vori voru sett heildarlög um framhaldsskóla. Á bak við þá lagasetningu var mjög mikil vinna ótal aðila svo árum skipti. Það hafði því verið mikið vandaverk að samræma sjónarmið og laða menn til samstarfs, svo ólíkar skoðanir sem uppi eru og hafa raunar alltaf verið uppi um stefnu í skólamálum og framkvæmd hennar, verkaskiptingu milli skólastiga og milli skóla á sama skólastigi og loks milli ríkis og sveitarfélaga. Það gat því enginn búist við því að allir yrðu að öllu leyti ánægðir með framhaldsskólalögin. Á hinn bóginn er vafalaust að sú skoðun sé yfirgnæfandi meðal skólamanna að nauðsynlegt sé að látið verði á þau reyna áður en þeim er breytt, en óráðlegt að hlaupa til nú með hvatvíslegar breytingar þó svo að nýr maður hafi sest í stól menntamálaráðherra sl. haust. Það sýnir best hvílíkt flýtisverk frumvarpið er að það var fyrst í þriðju prentun sem ráðherra hafði gert upp við sig hver endanleg gerð þess yrði. Þá er ósamræmi í texta 7. gr. frumvarpsins og greinargerðar sem ekki hefur verið skýrt.
    Lögin um framhaldsskóla byggjast á margvíslegum málamiðlunum sem mjög erfitt var að ná. Það er þess vegna í senn ótraustvekjandi og lýsandi fyrir vinnubrögðin að þess skuli hvergi getið hver samdi frumvarpið né hvernig það er undirbúið. Hitt liggur ljóst fyrir að með frumvarpinu er dregið úr sjálfstæði skólanna og horfið frá þeirri stefnu, sem hvarvetna hefur gefist vel, að láta sveitarstjórnir skipa meiri hluta skólanefnda og treysta þannig samstarf skólanna við borgarana.
    Frumvarpið kom seint fram og hefur ekki hlotið þá faglegu umfjöllun í nefnd sem nauðsynleg er. Nefndin fjallaði um málið á einum fundi sem stóð í rúman klukkutíma. Enginn fulltrúi kennara hefur fjallað um málið og sagt álit sitt á því og er þó ljóst að með frumvarpinu er verið að breyta verulega réttarstöðu kennara að því er snertir ráðningu þeirra. Stefnt er að því að að fella niður setningu í störf og gera skipun að undantekningu. Aðalreglan verði hins vegar ráðning, en samkvæmt stjórnarfarsrétti er það mun laustengdara samband milli ríkis og starfsmanna en skipun og jafnvel setning. Það er vítavert að slík grundvallarbreyting sé samþykkt án nokkurs samráðs við samtök kennara. Þá hefur komið fram að Samband íslenskra sveitarfélaga hefur lýst andstöðu við 4. gr. frumvarpsins.
    Þá er og ljóst að mjög eru skiptar skoðanir um flest aðalefnisatriði frumvarpsins og alls ekki hafa fengist skýringar á þeim atriðum.
    Með hliðsjón af framansögðu leggur 1. minni hl. til að frumvarpið verði afgreitt með svohljóðandi

RÖKSTUDDRI DAGSKRÁ:


    Þar sem ekki hefur fengist reynsla af lögum um framhaldsskóla og frumvarp það, sem hér liggur fyrir, hefur hvorki fengið nægilegan undirbúning né þá faglegu umfjöllun sem ætlast er til af þingnefndum er frumvarpinu vísað frá og næsta mál tekið á dagskrá.

Alþingi, 19. maí 1989.



Birgir Ísl. Gunnarsson,

Ragnhildur Helgadóttir.


fundaskr., frsm.