Ferill 402. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect.


111. löggjafarþing 1988–1989.
Nr. 22/111.

Þskj. 1316  —  402. mál.


Þingsályktun

um manneldis- og neyslustefnu.


    Alþingi ályktar að leitast skuli við á árunum 1990–2000 að ná fram meginmarkmiðum í þeirri manneldis- og neyslustefnu sem heilbrigðisráðuneyti og manneldisráð hafa lagt drög að og felur m.a. í sér eftirfarandi:
          Að fæðuval sé fjölbreytt og kjarngott.
          Að neysla hvers einstaklings miði að því að viðhalda æskilegri líkamsþyngd.
          Að neysla kolvetna sé aukin, einkum úr grófu korni, kartöflum, grænmeti og ávöxtum, en sykurneysla minnki til muna.
          Að hvíta (protein) verði áfram rífleg í fæðu landsmanna.
          Að dregið verði úr neyslu á fitu, einkum mettuðum fituefnum.
          Að takmarka saltnotkun og neyslu saltmetis.
    Með eftirfarandi aðgerðum verði leitast við að ná ofangreindum markmiðum og hollustu í lífsháttum:
     a.      Að innlend matvælaframleiðsla falli að settum manneldismarkmiðum. Sérstaka áherslu skal leggja á að draga úr sykur- og fituinnihaldi matvara og viðhalda jákvæðum þáttum íslenskrar matarhefðar. Við innflutning matvæla skal gæta sömu meginmarkmiða um sykur- og fituinnihald.
     b.      Að tekið sé mið af settum manneldismarkmiðum við ákvörðun tolla og skatta og hvers konar annarra opinberra aðgerða sem hafa áhrif á verðlag matvæla, svo sem við ákvörðun niðurgreiðslna.
     c.      Að auka fræðslu í matreiðslu og almennt um manneldis- og neyslumál í grunnskólum og framhaldsskólum landsins.
     d.      Að efla nám í matvælaiðn, menntun kennara í heimilisfræðum og nám fyrir starfsmenn og stjórnendur mötuneyta og veitingastaða.
     e.      Að nemendur í grunn- og framhaldsskólum eigi kost á hollu fæði í skólunum.
     f.      Að auka almenna fræðslu og kynningu um tengsl mataræðis og heilsu og hvers konar önnur næringarfræðileg efni.
     g.      Að áhersla sé lögð á almenna fræðslu um tengsl heilsufars og líkamlegrar hreyfingar.
     h.      Að draga úr notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna.
     i.      Að haft sé strangt eftirlit með matvælum með tilliti til smithættu, aukaefna og aðskotaefna sem hættuleg geta verið heilsu manna.
     j.      Að heilbrigðisráðherra láti gera neyslukönnun sem feli í sér heildarúttekt á fæðuvenjum þjóðarinnar. Þar komi fram m.a. hlutdeild einstakra matvara í daglegri fæðu fólks og magn einstakra næringarefna. Skýrsla um niðurstöður könnunarinnar skal lögð fyrir Alþingi. Niðurstöður neyslukönnunarinnar skulu lagðar til grundvallar ofangreindum aðgerðum í manneldismálum (liðir a–h).
     k.      Að niðurstöður neyslukönnunar skv. j-lið verði hafðar til hliðsjónar við mótun áætlunar um hlutdeild innlendrar framleiðslu í fæðu landsmanna og æskileg markmið á því sviði. Við gerð áætlunarinnar verði tekið tillit til hagkvæmni, nýtingar á innlendum aðföngum og öryggis við öflun matvæla.
     l.      Að efldar verði innlendar rannsóknir á matvælum, næringu og heilsu.
     m.      Að stefna í manneldis- og neyslumálum verði endurskoðuð með hliðsjón af nýrri þekkingu á hverjum tíma.
    Alþingi felur heilbrigðisráðuneytinu að sjá um framkvæmd þessarar stefnu í samvinnu við aðra hlutaðeigandi og gera þinginu grein fyrir stöðu málsins eigi sjaldnar en á fimm ára fresti.

Samþykkt á Alþingi 19. maí 1989.