Ferill 40. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 40 . mál.


Sþ.

74. Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn frá Kristínu Einarsdóttur um undirbúning starfsleyfis fyrir nýtt álver í Straumsvík.

1.     Hvaða niðurstöður liggja nú fyrir vegna undirbúnings að starfsleyfi fyrir nýja álbræðslu í Straumsvík?
    Óformlegar viðræður hafa átt sér stað milli heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og Hollustuverndar ríkisins annars vegar og iðnaðarráðuneytisins hins vegar um starfsleyfi fyrir nýja álbræðslu í Straumsvík. Rætt hefur verið um þær kröfur, sem heilbrigðisyfirvöld telja eðlilegt að gerðar verði til nýrrar álbræðslu, svo sem um magn flúors og brennisteinstvíildis, ryk og förgun eða endurvinnslu kerbrota. Ráðuneytið hefur gert iðnaðarráðuneytinu grein fyrir þessum atriðum í samræmi við mengunarvarnareglugerð nr. 386/1989, sem öðlast gildi frá og með 1. janúar nk. Hefur verið bent á hvaða rannsóknir þurfi að gera til þess að hægt verði að ganga frá starfsleyfi berist umsókn og jafnframt hvaða fyrri rannsóknir á svæðinu sé hugsanlega hægt að nota í sambandi við mat á áhrifum nýrrar álbræðslu. Hefur þegar verið haft samband við norska fyrirtækið Nilu um gerð dreifingarspár vegna hugsanlegrar dreifingar mengunarefna frá nýju álveri. Enn fremur hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að meta áhrif á gróðurfar og hefur þegar verið haft samband við Líffræðistofnun Háskóla Íslands í þeim tilgangi.
    Það er skoðun ráðuneytisins að ákvörðun um byggingu nýs álvers í Straumsvík hljóti að verða tekin á Alþingi, þar sem ríkisstjórninni yrði veitt heimild til þess að semja um rekstur nýrrar álbræðslu á sama hátt og gert hefur verið í öðrum hliðstæðum tilvikum. Um mengunarvarnir gilda hins vegar sérstök lög, sbr. lög nr. 81/1988, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, og mengunarvarnareglugerð nr. 386/1989. Samkvæmt henni ber að sækja um sérstakt starfsleyfi til heilbrigðisráðherra og fer að sjálfsögðu um afgreiðslu þess eins og um afgreiðslu annarra starfsleyfa samkvæmt þeirri reglugerð, óháð því hvort fyrir liggur sérstök löggjöf um heimild til rekstrarins.

2.     Hvaða kröfur telur ráðherra að gera þurfi til mengunarvarna frá nýju álveri á þessum stað?
    Að mati ráðuneytisins þarf að gera þær kröfur sem almennt eru gerðar vegna rekstrar nýrra álvera í heiminum í dag. Þessar kröfur hljóta að verða í samræmi við mengunarvarnareglugerð nr. 389/1989, en þar er kveðið á um flesta þá þætti sem hér koma til álita og skal sérstaklega bent á viðauka 3 með reglugerðinni, þar sem fjallað er um viðmiðunarmörk fyrir hámarksmengun andrúmslofs, en þar er m.a. fjallað um brennisteinstvíildi, köfnunarefnistvíildi, kolsýring, svifryk og fallryk. Fylgir áðurnefnd reglugerð hér með í sérprentun.
    Að mati ráðuneytisins þarf fyrst og fremst að taka á fjórum þáttum í sambandi við ytri mengunarvarnir frá nýju álveri, en þeir eru magn flúors, brennisteinstvíildis og ryks og endurvinnsla eða förgun kerbrota, en þessir þættir eru öðrum fremur einkennandi fyrir mengun frá álverum. Gera verður ráð fyrir þurrhreinsibúnaði, þannig að magn flúors ætti að vera í lágmarki og í samræmi við það sem nútíma mengunarvarnir bjóða best. Um brennisteinstvíildið gilda eins og áður segir ákveðnar viðmiðunarreglur og vísast til þeirra og hið sama er að segja um ryk. Varðandi kerbrot hlýtur ráðuneytið að leggja áherslu á endurvinnslu eða endurnýtingu þeirra og hefur til þessa ekki verið rætt um aðrar leiðir.

3.     Hefur það einhver áhrif á starfsleyfi og þar með kröfur til mengunarvarna, hvort um verður að ræða stækkun núverandi álvers eða sjálfstæða verksmiðju?
    Nei.

4.     Hvaða umræður og athuganir hafa farið fram á mengunarvörnum í rafskautaverksmiðju í Straumsvík?
    Engar umræður eða athuganir hafa farið fram á mengunarvörnum í rafskautaverksmiðju í Straumsvík svo ráðuneytinu sé kunnugt, enda hafa engar formlegar viðræður átt sér stað um rekstur slíkrar verksmiðju og engin umsókn borist ráðuneytinu þar að lútandi. Ráðuneytinu er heldur ekki kunnugt um áform um að reisa rafskautaverksmiðju í tengslum við mögulega stækkun álversins í Straumsvík eða nýtt álver þar, en sé það ætlunin ber að senda umsókn um slíkt í samræmi við áðurnefnda mengunarvarnareglugerð og yrði tekið á þeim rekstri sem sjálfstæðum verksmiðjurekstri.