Ferill 138. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 138 . mál.


Sþ.

142. Fyrirspurn



til forsætisráðherra um fræðslu um Evrópumálefni.

Frá Hjörleifi Guttormssyni.



    Hvað hyggst ríkisstjórnin gera til að stuðla að fræðslu meðal almennings um Evrópumálefni, áður en til afdrifaríkra ákvarðana kann að koma af Íslands hálfu?

Greinargerð.


    Í þjóðmálakönnun um viðhorf Íslendinga til Evrópubandalagsins sem gerð var í október 1989 á vegum félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands fyrir samstarfsnefnd atvinnulífsins um evrópska samvinnu (SATES) kemur fram mikil vanþekking á málefnum Evrópubandalagsins og Fríverslunarsamtaka Evrópu (EFTA). Þetta mál varðar þær breytingar sem rætt er um að orðið geti á samstarfi og samskiptum Vestur-Evrópuþjóða á næstunni. Í ljós kemur í þessari könnun að rúmur þriðjungur aðspurðra hafði ekki hugmynd um að Ísland er aðili að EFTA og um helmingur gat ekki nefnt eitt einasta aðildarríki Evrópubandalagsins. Yfirgnæfandi meiri hluti fólks sem þátt tók í þessari könnun virtist engan greinarmun geta gert á EFTA og EB.
    Nú er um það rætt hvort Ísland eins og önnur EFTA-ríki eigi að tengjast Evrópubandalaginu með þátttöku í evrópsku efnahagssvæði. Af niðurstöðum þjóðmálakönnunarinnar er ljóst að almenning skortir forsendur til að taka þátt í umræðu og ákvörðunum um þau efni. Því er brýnt að gert verði átak til að fræða landsmenn um sem flestar hliðar þessara mála áður en nokkrar ákvarðanir eru teknar af Íslands hálfu um tengsl við Evrópubandalagið. Þar eð um þessi mál er fjallað á vettvangi ríkisstjórnar er eðlilegt að stjórnvöld leitist við að miðla hlutlægri vitneskju og upplýsingum um þessi efni með beinum og óbeinum hætti, m.a. með stuðningi við fjöldasamtök sem láta sig mál þessi varða. Hér er því spurt um fyrirætlanir stjórnvalda í þessum efnum.



Skriflegt svar óskast.