Ferill 78. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 78 . mál.


Sþ.

162. Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Unnars Þórs Böðvarssonar um ráðningu kennara (farkennara) í list- og verkmenntagreinum, heimilisfræðum og íþróttum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
1.     Hversu oft hafa fræðslustjórar eða menntamálaráðherra heimilað fámennum grunnskólum að ráða sameiginlega kennara í fasta stöðu (farkennara) til að annast kennslu í:
        a.    list- og verkmenntagreinum,
        b.    heimilisfræðum,
        c.    íþróttum?
2.    Í hvaða fræðsluumdæmum hafa slíkir kennarar verið ráðnir?
3.    Í hve mörg ár hefur ráðning slíkra kennara verið notuð til að leysa kennaravanda fámennra skóla í fyrrnefndum námsgreinum?


    Það er fátítt að kennaraskortur í mynd- og handmennt, tónmennt, íþróttum og heimilisfræðum í fámennum skólum sé leystur með því að ráða sameiginlega kennara í fasta stöðu til að annast kennslu í þessum greinum. Þá sjaldan að farið hefur verið fram á slíkt hefur það verið heimilað af ráðuneytinu og fræðslustjórum. Helstu annmarkar á því að leysa kennaravanda fámennra skóla með eins konar farkennslu í umræddum námsgreinum eru þeir að sérhæfðir kennarar gefa ekki kost á sér í slík störf. Enn fremur krefst kennslan gjarnan sérstakrar aðstöðu og samgöngur, færð og vegalengdir milli fámennra skóla kunna að valda erfiðleikum.
    Nánari upplýsingar úr fræðsluumdæmunum fara hér á eftir:

     Austurland.
    Hugmyndir að „farkennara-skipulagi“ til kennslu í list- og verkgreinum í fámennum skólum hefur áður komið fram og eru áhugaverðar. Fræðslustjóri Austurlands hefur reynt að koma svipaðri skipan á en það hefur ekki gengið vegna þess að engir list- og verkgreinakennarar hafa gefið kost á sér í slíkt starfsfyrirkomulag.
    Eitt dæmi er um „farkennara-skipulag“ á Austurlandi. Skólaárið 1983–1984 fór kennari í íþróttum milli skóla og hjálpaði kennurum við íþróttakennslu. Hann var nokkurs konar kennsluráðgjafi. Menntamálaráðuneytið greiddi fyrir akstur og kennarinn fékk einnig dagpeninga frá ríkinu.
    Fræðslustjórinn telur að ekki standi á menntamálaráðuneytinu eða á fræðslustjórum að ráða list- og verkgreinakennara til kennslu með „farkennara-skipulaginu“. Gallinn er bara sá að það fást engir list- og verkgreinakennarar til kennslu í fámennustu skólunum. Það er afar sjaldgæft að sami list- og verkgreinakennari kenni við tvo skóla og ef það er þá er aðeins um stundakennslu að ræða í öðrum skólanum.

     Suðurland.
    Á Suðurlandi er „farkennara-skipulagið“ nær óþekkt. Þó má finna eina undantekningu. Í nokkur ár var hálf staða tónmenntarkennara skipulögð þannig að kennarinn kenndi við þrjá skóla.
    Menntamálaráðuneytið samþykkti þetta ráðningafyrirkomulag (við Skeiða-, Flúða- og Ásaskóla). Kennarinn, sem tók þetta að sér, kennir nú við tónlistarskóla Selfoss og enginn tónmenntarkennari annar hefur fengist til að vinna með þessu fyrirkomulagi.
    Kennarar í heimilisfræðum hafa kennt grunnskólanemendum á námskeiðum sem haldin hafa verið við ýmsa fámenna skóla. Þessi kennsla hefur þá verið greidd sem stundakennsla. Smíðakennarar hafa líka kennt stundakennslu við fleiri en einn skóla.

     Reykjanes.
    Umrætt kennslufyrirkomulag í list- og verkgreinum er óþekkt í Reykjanesumdæmi. Talkennsla hefur aftur á móti tíðkast með þessu fyrirkomulagi. Kennarinn ferðast þá á milli allra skóla í umdæminu. Annar þessara kennara hefur haft þetta starf í átta ár, hinn byrjaði nú í haust.

     Norðurland eystra.
    Á Norðurlandi eystra er „farkennslu-fyrirkomulagið“ óþekkt í sambandi við list- og verkgreinar.
    Dæmi eru um að kennarar kenni list- og verkgreinar við fleiri en einn skóla en þá sem stundakennarar. Ekkert er því til fyrirstöðu að taka upp þetta fyrirkomulag ef kennarar fást.

     Vestfirðir.
    Á fræðsluskrifstofu Vestfjarða fengust þau svör að það væri nánast óframkvæmanlegt að samnýta kennslukrafta milli skóla vegna ótryggra samgangna á vetrum. Farkennsla hafi tíðkast á árum áður en langt um liðið síðan hún lagðist af.

     Vesturland.
    Fræðslustjóri á Vesturlandi man ekki eftir nema einu dæmi. Árið 1988 var tónlistarkennari ráðinn við grunnskólann í Borgarnesi og annaðist hann jafnframt tónlistarkennslu í grunnskólunum að Varmalandi og í Andakílsskóla. Eflaust má með réttu kalla þetta „farkennslu“.

     Reykjavík.
    Fræðslustjórinn í Reykjavík telur að „farkennsla“ hafi ekki tíðkast þar í list- og verkgreinum. Aftur á móti hafa nemendur stundum sótt kennslu í aðra skóla, t.d. í heimilisfræðum og íþróttum.