Ferill 38. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.



1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 38 . mál.


Sþ.

172. Svar



iðnaðarráðherra við fyrirspurn Kristínar Einarsdóttur um raforkuöflun og raforkukostnað vegna nýrrar álbræðslu í Straumsvík.

1.      Hvaða hugmyndir eða tillögur liggja fyrir hjá Landsvirkjun um raforkuverð til nýrrar álbræðslu?
    Viðræður við álframleiðendur — Atlantal-hópinn — um aukna álbræðslu í Straumsvík standa yfir og ekki hefur verið samið um verð á raforku. Á þessu stigi málsins er hvorki hægt að greina frá hugmyndum né tillögum um raforkuverð til nýrrar álbræðslu. Rétt þykir að benda á að raforkuverðið ræðst m.a. af því hvort ráðist verður í stækkun álversins í Straumsvík eða reist nýtt álver og hvenær aukin álbræðsla verður að veruleika. Landsvirkjun hefur að sjálfsögðu gert ráð fyrir því að samningur um orkusölu til nýrrar stóriðju tryggi að lágmarki endurgreiðslu á því fjármagni sem varið yrði til framkvæmda í raforkukerfinu til þess að sjá stóriðju fyrir orku. Þannig verður þess gætt að almenningur þurfi ekki að greiða hærra raforkuverð en sem svarar því að eingöngu væri virkjað til að mæta auknum orkuþörfum hins almenna markaðar. Útreikningar Landsvirkjunar benda til þess að hægt sé að bjóða Atlantal-fyrirtækjunum orkusölusamning sem er samkeppnishæfur alþjóðlega og skilar Landsvirkjun jafnframt nokkrum hagnaði.

2.      Hvaða virkjanir er gert ráð fyrir að reistar verði vegna álbræðslu og í hvaða röð?
    Gert er ráð fyrir að hagkvæmni og öryggi í raforkukerfinu ráði því hvar og í hvaða röð verður virkjað hvort heldur virkjað er til að mæta aukinni raforkuþörf almennings eða stóriðju. Viðræður við Atlantal-fyrirtækin hafa ekki enn leitt til niðurstöðu um hvort af álbræðslu þeirra verði né hversu mikil hún verði. Á þessu stigi er því ekki hægt að gefa einhlítt svar við spurningunni. Tveir möguleikar hafa verið í athugun annars vegar að auka framleiðslugetu álversins í Straumsvík um 120 þúsund tonn á ári og hins vegar að byggt verði nýtt álver sem geti framleitt 185 þúsund tonn af áli á ári. Á myndum 1 og 2 eru taldar upp þær virkjanir sem Landsvirkjun telur hagkvæmastar til að mæta orkuþörfinni miðað við þessa tvo kosti.

3.      Hver er afl og orkuvinnslugeta hverrar virkjunar?
    Afl og orkugeta einstakra virkjana eru sýnd á myndum 1 og 2.

4.      Hver er áætlaður stofnkostnaður hverrar virkjunar um sig og hver er áætlaður orkukostnaður frá hverri þeirra miðað við eftirfarandi:
        a.     núverandi horfur á aukningu almenna raforkumarkaðarins,
        b.     viðbótarraforkuframleiðslu sé eingöngu ráðstafað til stóriðju (full nýting strax)?
    Áætlaður stofnkostnaður einstakra virkjana á verðlagi í október 1989 er sýndur á myndum 1 og 2. Orkukostnaður frá einstökum virkjunum ræðst m.a. af þeim vöxtum sem greiða þarf af lánum sem tekin verða vegna framkvæmdanna, rekstrarkostnaði virkjana auk stofnkostnaðar og væntanlegs markaðar fyrir orkuna. Ekki þykir fært að gefa beint svar við spurningum um orkukostnað þar sem það kynni að veikja samningsstöðu Landsvirkjunar í samningum við Atlantal-hópinn og aðra aðila sem hugsanlega vilja ræða um kaup á raforku af Landsvirkjun á næstunni. Hins vegar er ljóst að orkukostnaður í virkjunum er allt að tvöfalt hærri miðað við að þær verði eingöngu nýttar til að mæta aukningu almenns raforkumarkaðar en séu þær eingöngu nýttar fyrir stóriðju. Þetta stafar annars vegar af því að almennur orkumarkaður fullnýtir ekki orkugetu virkjana strax og hins vegar af því að nýtingartími afls fyrir almennan markað er minni en fyrir stóriðju. Rétt er að benda á að auk kostnaðar við virkjanir þarf að sjálfsögðu að gera ráð fyrir kostnaði vegna flutnings orkunnar til væntanlegra notenda.




(Myndir ekki til tölvutækar.)