Ferill 194. máls. Aðrar útgáfur af skjalinu: Word Perfect.1989. – 1059 ár frá stofnun Alþingis.
112. löggjafarþing. – 194 . mál.


Ed.

219. Frumvarp til lagaum skuldbreytingar vegna loðdýraræktar.

(Lagt fyrir Alþingi á 112. löggjafarþingi 1989.)1. gr.

    Ríkisstjórninni er heimilt að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán sem loðdýrabændur taka í stað lausaskulda sem myndast hafa vegna loðdýrabúskapar þeirra á árunum 1986–1989, samtals allt að 280 m.kr.
    Lánin skulu veitt til fimmtán ára, verðtryggð með lánskjaravísitölu og 5% vöxtum. Endurgreiðslutími lánanna skal vera tólf ár.
    Sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs skal því aðeins veitt að með henni reynist unnt að koma rekstri viðkomandi bús í viðunandi horf eða forsendur séu fyrir hendi fyrir lántakanda að greiða af skuldum sínum með öðrum hætti. Hún má ná til allt að 60% af þeim lausaskuldum hvers bónda sem uppfylla skilyrði 1. mgr., enda breyti viðkomandi lánardrottnar því sem eftir stendur í lán til a.m.k. átta ára gegn þeim tryggingum sem þeir meta gildar.
    Framleiðnisjóður landbúnaðarins skal hafa á hendi umsjón með framangreindum skuldbreytingum.
    Ráðherra setur í reglugerð nánari ákvæði um lánsupphæðir til hvers loðdýrabónda, svo og önnur þau skilyrði fyrir lánveitingum er þurfa þykir, svo sem veðskilmála.

2. gr.

    Þrátt fyrir ákvæði um tryggingar fyrir lánum o.fl. í lögum nr. 45 16. apríl 1971, um Stofnlánadeild landbúnaðarins, er Stofnlánadeild heimilt að fella niður allt að 40% höfuðstóls veðskulda fóðurstöðva og einstakra loðdýrabænda, enda skapi það samhliða öðrum ráðstöfunum viðkomandi aðila viðunandi rekstrarstöðu og hagsmunum Stofnlánadeildar landbúnaðarins verði talið betur borgið með þeim hætti.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta er samið með hliðsjón af skýrslu vinnuhóps sem landbúnaðarráðherra skipaði 6. sept. 1989 samkvæmt samþykkt ríkisstjórnarinnar 1. ágúst 1989 til þess að gera úttekt á stöðu loðdýraræktarinnar og þeim rekstrarvanda sem búgreinin hefur búið við um nokkurt skeið. Einnig er lögð til grundvallar samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 28. nóv. 1989 sem kveður á um greiðslu jöfnunargjalds á fóður, þátttöku Framleiðnisjóðs í fjárhagslegri endurskipulagningu og skuldbreytingum og möguleika Jarðeigna ríkisins og Jarðasjóðs til aðstoðar við endurskipulagningu loðdýraræktar (sjá fylgiskjal). Frumvarp þetta miðar því að aðgerðum í þágu loðdýrarræktarinnar sem auðvelda eiga einstökum loðdýrabændum að taka ákvörðun um framtíð búrekstrar síns.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Gert er ráð fyrir heimild fyrir ríkissjóð til þess að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð allt að 60% af lánum sem bankar og aðrar lánastofnanir veita loðdýrabændum í stað lausaskulda sem þeir hafa stofnað til á árunum 1986–1989. Skilyrði fyrir slíkri sjálfskuldarábyrgð ríkissjóðs eru:
1.    Að skuldirnar séu sannanlega til komnar vegna loðdýrabúskapar viðkomandi bónda.
2.    Að með skuldbreytingunni sé rekstri viðkomandi bús komið í viðunandi horf eða forsendur séu til þess af öðrum ástæðum fyrir viðkomandi lántakanda að greiða upp lánin.
3.    Að samhliða ábyrgð ríkissjóðs á allt að 60% af ábyrgðarhæfum skuldum láni viðkomandi lánastofnanir afganginn gegn þeim tryggingum sem þær meta gildar.
    Hámark ábyrgðar ríkissjóðs er ákveðið 280 m.kr.
    Lánstími skal vera fimmtán ár á ríkistryggða hlutanum en átta ár á hinum. Jafnframt er gert ráð fyrir að slík lán verði afborganalaus fyrstu þrjú árin. Þessi leið er valin með hliðsjón af áætlaðri greiðslugetu loðdýrabúa á komandi árum.
    Gert er ráð fyrir að Framleiðnisjóður landbúnaðarins hafi á hendi umsjón með skuldbreytingunum að öðru leyti en því að Ríkisábyrgðasjóður áriti skuldabréf fyrir hönd ríkissjóðs.
    Þá er í 5. mgr. gert ráð fyrir að ráðherra setji með reglugerð nánari ákvæði um viðmiðunarupphæðir lána og skilyrði fyrir lánveitingu, svo sem veðskilmála.

Um 2. gr.


    Nauðsynlegt þykir í þessu sérstaka tilfelli að skapa Stofnlánadeild landbúnaðarins svigrúm til þess að fella niður hluta veðskulda fóðurstöðva og einstakra loðdýrabænda m.a. til þess að taka þátt í nauðasamningum án undangenginna uppboða á sama hátt og aðrir lánardrottnar. Miðar greinin að því að veita stjórn Stofnlánadeildar ótvíræðar heimildir að þessu leyti svo að deildin geti tekið þátt í endurskipulagningu búrekstrar og rekstrar fóðurstöðva þegar hagsmunum Stofnlánadeildar getur talist betur borgið með þeim hætti.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.Fylgiskjal.


        Á fundi 28. nóv. 1989 ákvað ríkisstjórn Íslands:
1.    Að fela Byggðastofnun að greiða jöfnunargjald á loðdýrafóður á árinu 1990 og fái hún til þess fyrst um sinn 25 m.kr. framlag. Haldi það mörg loðdýrabú áfram rekstri að útgjöld verði meiri en 25 m.kr. skal tekið á því sérstaklega og Byggðastofnun útvegað viðbótarfjármagn. Loðdýrabændur verða að sækja um að fá greitt jöfnunargjald og skal Byggðastofnun í samráði við landbúnaðarráðuneytið leggja mat á umsóknir og ákveða hverjir fái slíkar greiðslur. Verði við það mat tekið mið af aðstæðum á hverju fóðurstöðvarsvæði auk rekstrarmöguleika viðkomandi bús.
2.    Að leggja til að Framleiðnisjóður taki þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu og skuldbreytingum hjá þeim sem stundað hafa loðdýrarækt og verji til þess því sem óráðstafað er af þeim 60 m.kr. sem ákveðnar voru til þeirra hluta í febrúar sl. og allt að 20 m.kr. til viðbótar, ef þörf krefur.
3.    Jarðeignum ríkisins verði gert kleift að aðstoða loðdýrabændur með yfirtöku eigna ábúenda á ríkisjörðum þar sem slíkt getur komið í veg fyrir að búseta leggist af á viðkomandi jörðum.
    Einnig verði Jarðasjóði gert mögulegt að kaupa jarðir í sambærilegum tilvikum.
    Áætluð útgjöld af þessum sökum vegna yfirtöku lána verði metin sérstaklega og tekið tillit til þeirra við afgreiðslu fjárlaga.
4.    Að heimila landbúnaðarráðherra að leggja fram meðfylgjandi frumvarp til laga um skuldbreytingar vegna loðdýraræktar.